Ferill 293. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


151. löggjafarþing 2020–2021.
Þingskjal 496  —  293. mál.




Svar


heilbrigðisráðherra við fyrirspurn frá Önnu Kolbrúnu Árnadóttur um störf læknanema.


     1.      Hvaða lög og reglur gilda um læknastörf læknanema? Telur ráðherra að læknastörf læknanema, eins og þeim er hagað nú, standist þau lög og þær reglur?
    Lög um heilbrigðisstarfsmenn, nr. 34/2012, gilda um heilbrigðisstarfsmenn og aðra starfsmenn í heilbrigðisþjónustu, sbr. 2. mgr. 1. gr. laganna. Samkvæmt ákvæðinu gilda einnig um þessa aðila lög um réttindi sjúklinga, lög um landlækni og lýðheilsu, lög um sjúkraskrár og önnur lög eftir því sem við á. Þá gilda ákveðin ákvæði reglugerðar nr. 467/2015 um lækna einnig um læknanema þegar þeir fá útgefin tímabundin lækningaleyfi, t.d. ákvæði um réttindi og skyldur lækna. Þá eru þeir sem eru í starfsnámi til almenns lækningaleyfis, þ.e. á kandídatsári, samkvæmt marklýsingu frá árinu 2019, sbr. 4. gr. reglugerðar nr. 467/2015, einnig skilgreindir sem læknanemar og starfa sem læknakandídatar á grundvelli tímabundins lækningaleyfis skv. 1. mgr. 11. gr. laga nr. 34/2012, um heilbrigðisstarfsmenn.
    Ráðherra hefur ekki upplýsingar um annað en að farið sé að fyrrgreindum ákvæðum laga og reglugerða.

     2.      Hefur ráðherra markað stefnu um læknismenntun þeirra sem sinna störfum og afleysingum fyrir lækna? Ef svo er, hver er sú stefna?
    Í lögum um heilbrigðisstarfsmenn, nr. 34/2012, er grundvallarstefnumarkmið ráðherra að finna hvað varðar öll störf innan heilbrigðisþjónustu, þ.e. að tryggja gæði heilbrigðisþjónustu og öryggi sjúklinga með því að skilgreina kröfur um menntun, kunnáttu og færni heilbrigðisstarfsmanna og starfshætti þeirra. Þá segir í 5. mgr. 13. gr. að heilbrigðisstarfsmönnum beri að virða faglegar takmarkanir sínar og leita eftir aðstoð eða vísa sjúklingi til annars heilbrigðisstarfsmanns ef nauðsyn krefur og eftir því sem mögulegt er, svo sem ef hann telur sig ekki geta veitt honum viðeigandi heilbrigðisþjónustu.
    Þeir sem sinna störfum og afleysingum lækna hafa samkvæmt lögunum heimild til slíkra starfa annars vegar ef þeir hafa starfsleyfi sem læknar, skv. 9. gr. laganna, eða hafa tímabundið starfsleyfi skv. 1. mgr. 11. gr. Læknanemar sem lokið hafa fjórða árs námi í læknisfræði við læknadeild Háskóla Íslands eða sambærilegu námi erlendis og læknakandídatar geta hlotið tímabundin starfsleyfi samkvæmt ákvæðinu til að sinna tilgreindum læknisstörfum, ef nauðsyn krefur. Í slíkum tilvikum skal læknanemi starfa með lækni með ótakmarkað lækningaleyfi.

     3.      Hefur ráðherra komið á fót sérstökum námsstöðum læknanema innan sjúkrahúsa, heilbrigðisstofnana og heilsugæslu sem þeir gegna undir eftirliti og ábyrgð lækna á seinni stigum náms?
    Ráðherra setur ekki á fót námsstöður læknanema heldur eru þær hluti af námi læknanema. Námsstöður læknanema eru klínískar þjálfunarstöður samkvæmt samningi milli Háskóla Íslands og framkvæmdastjóra lækninga á heilbrigðisstofnunum. Námsstöðurnar fara ýmist fram á sjúkrahúsum eða heilsugæslustöðvum. Læknanemar gegna þessum námsstöðum á seinni hluta náms, undir eftirliti læknis.