Ferill 1. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


151. löggjafarþing 2020–2021.
Þingskjal 530  —  1. mál.
2. umræða.Nefndarálit


um frumvarp til fjárlaga fyrir árið 2021.

Frá meiri hluta fjárlaganefndar.


Umsagnaraðilar um frumvarpið.
    Nefndin hefur fjallað um frumvarpið á fjölmörgum fundum og fengið til sín gesti frá umsagnaraðilum auk fulltrúa úr öllum ráðuneytum. Í 14. gr. laga nr. 123/2015, um opinber fjármál, kemur fram að ráðherra skuli leggja fram á Alþingi frumvarp til fjárlaga fyrir næsta almanaksár á fyrsta fundi haustþings þar sem leitað er heimilda til útgjalda eftir málefnasviðum og málaflokkum og til hvers konar skuldbindinga A-hluta ríkissjóðs.
    Á fund nefndarinnar komu fjölmargir fulltrúar fjármála- og efnahagsráðuneytisins og gerðu frumvarpinu, einstökum greinum þess og köflum í greinargerð með því ítarleg skil. Auk þess komu fulltrúar allra annarra ráðuneyta á fund nefndarinnar og gerðu grein fyrir þeim málefnasviðum og málaflokkum sem undir þau heyra.
    Nefndinni bárust samtals 44 umsagnir auk fjölmargra annarra erinda og minnisblaða. Á fund nefndarinnar komu samtals 30 aðilar sem voru fulltrúar frá fjármálaráði, ASÍ, Bandalagi íslenskra listamanna, BSRB, BHM, Byggðastofnun, félaginu Femínísk fjármál, Fjórðungssambandi Vestfirðinga og Vestfjarðastofu, Geimvísinda- og tækniskrifstofu Íslands, Geðhjálp, Landssambandi eldri borgara, Landssamtökunum Þroskahjálp, NPA-miðstöðinni, Öryrkjabandalagi Íslands, Reykjavíkurborg, Ríkisendurskoðun, Sambandi íslenskra sveitarfélaga og frá öllum landshlutasamtökum sveitarfélaga. Einnig komu fulltrúar frá Samtökum atvinnulífsins, Samtökum ferðaþjónustunnar, Samtökum fyrirtækja í sjávarútvegi, Samtökum fyrirtækja í velferðarþjónustu, Samtökum iðnaðarins, Samtökunum ’78, Samtökum verslunar og þjónustu og frá Viðskiptaráði Íslands. Einnig komu gestir frá Hagstofu Íslands, SÁÁ, Landspítalanum og frá Sjúkratryggingum Íslands. Kristrún Frostadóttir hagfræðingur kom einnig á fund nefndarinnar.

Heildaráhrif breytingartillagna – afkoma ríkissjóðs.
    Á sérstökum þingskjölum gerir meiri hlutinn breytingartillögur við sundurliðun 1, þ.e. tekjuáætlun frumvarpsins, sem nema nettó 162 millj. kr. til lækkunar, og breytingartillögur við sundurliðun 2, þ.e. fjárheimildir málefnasviða og málaflokka, sem samtals nema 55.566 millj. kr. til hækkunar gjalda.
    Heildarafkoman verður þá neikvæð um 319.918 millj. kr. en það rúmast innan þess óvissusvigrúms sem fjármálastefnan leyfir. Hallinn samkvæmt þessu verður um 10,4% af vergri landsframleiðslu (VLF). Í töflunni að aftan koma fram breytingar á 1. gr. frumvarpsins þar sem gjöld og tekjur eru sundurliðaðar samkvæmt alþjóðlegum hagskýrslustaðli.


Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.


Umfjöllun og verklag nefndarinnar.
    Í byrjun september afgreiddi Alþingi þingsályktun um endurskoðaða fjármálastefnu fyrir árin 2018–2022. Sökum heimsfaraldurs kórónuveiru voru allar meginforsendur stefnunnar brostnar. Því var samþykkt á Alþingi að fresta skyldi framlagningu fjármálaáætlunar fyrir árin 2021–2025 fram á fyrsta samkomudag reglulegs Alþingis að hausti. Því var fjárlagafrumvarp fyrir árið 2021 lagt fram samhliða þingsályktunartillögu um fjármálaáætlun fyrir árin 2021–2025.
    Í stefnunni var miðað við að halli á rekstri A-hluta ríkissjóðs gæti numið 9% af VLF árið 2021 og halli sveitarfélaga um 1% auk þess sem samþykkt var sérstakt óvissusvigrúm sem nemur 3% af VLF. Óvissusvigrúmið gefur þá um 90 milljarða kr. sem hugsanlegt frávik frá grunnáætlun opinberra fjármála.
    Með þeim tillögum til aukningar útgjalda sem gerðar eru í breytingartillögum með áliti þessu er ljóst að hallinn verður meiri og gengur inn á u.þ.b. þriðjung óvissusvigrúms.
    Nefndin hefur því fjallað um fjárlagafrumvarpið og fjármálaáætlun samhliða. Þetta fyrirkomulag er ekki í samræmi við upplegg í lögunum en var óhjákvæmilegt að þessu sinni sökum þess að efnahagsleg óvissa vegna heimsfaraldursins kom í raun í veg fyrir að leggja mætti raunhæfar áætlanir fyrir þingið að vori. Í júní samþykkti Alþingi þess vegna frumvarp sem heimilaði þetta tímafrávik frá lögum um opinber fjármál.
    Auk umsagna um frumvarpið sjálft bárust nefndinni erindi og óskir sem fólu í sér beiðni um stuðning, hreinar fjárbeiðnir eða viðbótarframlög. Nefndin fylgdi því verklagi að áframsenda slíkar beiðnir til ráðherra málaflokksins. Það er í samræmi við ábyrgð ráðherra, sem fram kemur helst í 20. og 21. gr. laga um opinber fjármál, á þeim málefnasviðum og málaflokkum sem undir hann heyra. Þá hefur nefndin í ríkari mæli en áður kallað eftir skýringum og rökstuðningi ráðuneyta vegna einstakra mála sem fram komu í umsögnum og á fundum með umsagnaraðilum. Tíðkast hefur að senda skriflegar fyrirspurnir og beiðnir um minnisblöð og hefur sá háttur verið hafður á eins og áður.
    Nefndin sendi spurningalista til allra ráðuneyta þar sem kallað var eftir frekari upplýsingum, gögnum og rökstuðningi. Sameiginlegar spurningar til allra ráðuneyta sneru að því hvernig markmið og mælikvarðar nýtast til að forgangsraða verkefnum viðkomandi ráðuneytis, að sundurliðun á aðhaldskröfu fjárlaga, að þróun verkefnis um endurmat útgjalda, að fjölda starfa sem tengjast fjárfestingarátaki stjórnvalda og að tengslum velsældarmarkmiða við stefnumörkun málefnasviða.
    Svör ráðuneyta benda til þess að töluvert hafi áunnist við að tengja saman markmiðin, árangur og fjárveitingar á undanförnum árum. Stöðugt er unnið að því að tengja betur saman markmið og útgjöld einstakra málefnasviða í þeim tilgangi að hafa gleggri sýn á tilurð útgjalda og útgjaldaþróunina og til að hafa mælistiku á þann árangur sem stefnt er að.
    Verkefnum er forgangsraðað fyrir hvern málaflokk sem tekur mið af framtíðarsýn og meginmarkmiðum. Einnig kemur fram að verkefni eru fjölmörg og sum þess eðlis að setja þarf þau í forgang án þess að þau falli beint að fyrirliggjandi markmiðum. Öll ráðuneyti stefna að því að þróa áfram gerð og gæði mælikvarða sem endurspegla árangur og nýtingu útgjalda.
    Nokkuð misjafnt er milli ráðuneyta hvernig aðhaldskrafa er útfærð. Bent er á að í of ríkum mæli er útgjaldasvigrúm nýtt á móti aðhaldi í stað þess að grípa til sérstakra aðgerða.
    Verkefnið um endurmat útgjalda er í mótun en fjármála- og efnahagsráðuneytið áformar að ljúka á næsta ári a.m.k. fjórum verkefnum í ólíkum málaflokkum í samstarfi við önnur ráðuneyti. Jafnframt er stefnt að því að ljúka við að kostnaðarmeta áætlaðan árangur tíu málaflokka og að árið 2025 verði málaflokkarnir sem hafa verið kostnaðarmetnir með þessum hætti orðnir 50 talsins. Aðferðafræðin að baki endurmati útgjalda snýst um kerfisbundna greiningu fjárveitinga með það að markmiði að gera kleift að forgangsraða takmörkuðum fjármunum, en jafnframt að vinna skipulega að hagræðingu og bættri þjónustu. Meiri hlutinn telur að skoða eigi hvort endurmat útgjalda eigi ekki að ná yfir allt sviðið og hætta skuli alfarið að gera almennar aðhaldskröfur. Þess í stað verði jöfnum höndum, miðað við mælikvarða, lagt mat á útgjöld málefnasviða og náð fram hagræðingu með þeim hætti. Það sem gæti fallið undir aðhald í rekstri beindist að einstökum stofnunum, og markmið um slíkt aðhald kæmi frá stofnununum sjálfum í samráði við ráðherra.
    Markmið fjárfestingarátaksins er að vinna gegn samdrætti í efnahagslífinu með framleiðniaukandi starfsemi sem er í eðli sínu tímabundin, þar sem hvert verkefni hefur skilgreint upphaf og endi.
    Velsældaráherslurnar sex, sem lagðar eru til grundvallar við gerð fjármálaáætlunar og fjárlagafrumvarps, endurspegla áherslur í stefnu ríkisstjórnarinnar og með þeim er horft til framtíðar á mikilvægum sviðum. Þær eiga ekki allar við á öllum sviðum. Áherslur um andlegt heilbrigði, öryggi í húsnæðismálum og virkni í námi og starfi varða mörg málefnasvið, en þær sem fjalla um kolefnishlutlausa framtíð, grósku í nýsköpun og betri samskipti við almenning varða öll málefnasviðin. Fjallað er um velsældaráherslur á meira en 30 málefnasviðum af 35 í fjármálaáætlun. Velsældaráherslurnar taka mið af 39 velsældarmælikvörðum sem samþykktir voru af ríkisstjórn í vor sem leið. Nokkur atriði í þessu sambandi sem meiri hlutinn vekur athygli á eru eftirfarandi:
     1.      Tengsl fjárveitinga og umfangs mættu vera skýrari. Sem dæmi um spurningar má nefna þessar: Hver er fjöldi samninga um NPA-þjónustu sem ríkissjóður stendur undir? Hvernig hafa breytingar á fjölda þeirra sem óska eftir alþjóðlegri vernd hérlendis áhrif á útgjöld? Hvernig sundurliðast framlög til hjúkrunarheimila? Spurningum af þessu tagi þarf að svara í meira mæli en gert er í núverandi greinargerð.
     2.      Heildstætt kerfi um stjórnendaupplýsingar. Þrátt fyrir að upplýsingakerfi ríkisins um fjárlög, fjármálaáætlun og reikningsskil séu viðamikil finnur nefndin þó að ekki er nógu handhægt að draga saman lykilupplýsingar bæði úr ríkisreikningi og fjárlögum. Nauðsynlegt er að bæta úr því á næstu árum. Áfram þarf að vinna með markmið og mælikvarða þannig að í auknum mæli verði hægt að mæla skilvirkni og árangur. Efla þarf gæði þeirra og bæta markmiðasetningu sem miði að þjóðhagslegum ávinningi samhliða því að skoða möguleika á samsettum mælikvörðum um árangur á ólíkum sviðum.
Helstu markmið ríkisfjármálastefnu.
    Í greinargerðinni koma fram skýr markmið varðandi stefnu stjórnvalda á yfirstandandi ári og því næsta og markast þau verulega af þeim efnahagslegu aðstæðum, snögga skelli og djúpu kreppu sem við stöndum frammi fyrir af völdum heimsfaraldursins.
    Við upphaf kjörtímabilsins var sterk staða ríkissjóðs nýtt til þess að halda áfram að lækka skuldir hans auk þess sem svigrúm var nýtt til þess að setja aukna fjármuni í uppbyggingu heilbrigðis- og velferðarmála, menntamála og samgöngumála. Þá var fylgt eftir metnaðarfullum markmiðum í umhverfis- og loftslagsmálum og framlag lagt fram til að lenda kjarasamningum með endurskoðun skattkerfa og lækkun skatta. Má þannig segja að hagvaxtarskeið undanfarinna ára hafi verið nýtt til þess að styrkja þjónustu og efla meginkerfin og framlög þannig aukin til flestra málefnasviða allt kjörtímabilið.
    Allar meginforsendur fjármálastefnu brustu á vormánuðum og í nýrri stefnu er lögð ofuráhersla á að mæta þeirri niðursveiflu og djúpu kreppu sem fylgdi. Fjárlagafrumvarpið 2021 markast mjög af viðbrögðum stjórnvalda við áhrifum kreppunnar og þeim áskorunum sem við stöndum frammi fyrir. Markmið stjórnvalda er að beita ríkisfjármálunum af fullum þunga til þess að vinna bug á þeim erfiðu aðstæðum sem þjóðin stendur andspænis. Áhrifin koma skýrt fram á bæði tekju- og gjaldahlið.
    Markmið ríkisfjármálastefnunnar eins og þau birtast í fjárlagafrumvarpi fyrir árið 2021 eru af þrennum toga. Í fyrsta lagi að grípa til kröftugra mótvægisaðgerða til að vega upp á móti efnahagslegum áhrifum sóttvarnaaðgerða. Í öðru lagi að leyfa svokölluðum sjálfvirkum sveiflujöfnurum að virka til fulls til mótvægis við niðursveiflu í hagkerfinu. Það gerist m.a. með auknum útgjöldum vegna atvinnuleysis og í formi minni skatttekna. Í þriðja lagi hefur ekki verið dregið úr opinberri þjónustu þrátt fyrir tekjutap ríkissjóðs. Þvert á móti hefur stuðningur við ýmis úrræði verið aukinn. Leiðarljósið við stefnumörkunina er að stuðla að efnahagslegum stöðugleika sem er meðal grunngilda um opinber fjármál.
    Frumvarpið endurspeglar þessar áherslur. Það felur m.a. í sér að allar sértækar afkomubætandi aðgerðir verða látnar bíða. Þannig eru ekki gerðar neinar viðbótaraðhaldskröfur til málefnasviða ráðuneyta í frumvarpinu umfram það sem verið hefur undanfarin ár. Auk þess er staðinn vörður um öll kerfi almannatrygginga í núverandi mynd.
    Í frumvarpinu gætir áhrifa ýmissa ráðstafana stjórnvalda sem miða að því að lágmarka áhrif faraldursins á efnahag fyrirtækja og heimila. Það birtist m.a. í stórauknum framlögum til fjárfestinga og annarra uppbyggingarverkefna.

Breytingar á útgjaldaramma milli ára í frumvarpinu.
    Rammafjárlagagerð byggist á því að áhersla er lögð á breytingar milli ára. Á heildina litið hækka gjöld málefnasviða um samtals 124 milljarða kr. milli ára. Aukningin skýrist af nokkrum meginþáttum eins og nánar er skýrt í töflu á bls. 111 í greinargerð.
    Í fyrsta lagi aukast útgjöld um 31 milljarð kr. vegna ákvarðana um ráðstafanir og verkefni í tengslum við faraldurinn. Þar af eru 22,8 milljarðar kr. aukin framlög vegna aukins atvinnuleysis og 8,2 milljarðar kr. vegna ýmissa mótvægisaðgerða. Þá eru 27,2 milljarðar kr. vegna aukningar til fjárfestingarátaks sem hófst á þessu ári.
    Í öðru lagi er 46,1 milljarðs kr. aukning vegna annarra útgjaldamála en þeirra sem leiðir af faraldrinum. Undir þetta falla bæði ákvarðanir um ný útgjöld eins og fram kemur í töflunni og einnig aukning sem skýrist af kerfislægum eða hagrænum þáttum, svo sem vegna fjölgunar aldraðra og öryrkja.
    Í þriðja lagi eru áhrif launa-, verðlags- og gengisbreytinga sem nema 31,2 milljörðum kr. til hækkunar milli ára. Hér munar mestu um áhrif launahækkana samkvæmt fyrirliggjandi kjarasamningum, um lækkun á gengi krónunnar og um hækkun á bótum almannatrygginga og atvinnuleysisbóta.
    Á móti útgjaldaaukningunni vegur lækkun vegna niðurfellingar framlaga til tímabundinna verkefna og almennra aðhaldsmarkmiða eins og skýrt er nánar hér að aftan.
    Í eftirfarandi umfjöllun er sundurliðun í átta flokkum á þessum 124 milljörðum kr. Flokkunin byggist á ýmsum breyttum forsendum, launa-, verðlags- og gengisbótum, fjárfestingarsvigrúmi, útgjöldum vegna nýrra ákvarðana, lög- eða samningsbundnum útgjöldum, almennu útgjaldasvigrúmi, aðhaldi og niðurfellingu á tímabundnum fjárheimildum.

Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.Breyttar forsendur.
    Samtals skýra tilefni sem falla undir breyttar forsendur ríflega 50 milljarða kr. hækkun milli ára. Þar vegur þyngst tæplega 23 milljarða kr. hækkun til Atvinnuleysistryggingasjóðs. Vöxtur lífeyrisskuldbindinga nemur tæpum 6 milljörðum kr. og einnig er almennur varasjóður hækkaður til að geta mætt ákvæðum í kjarasamningum sem á eftir að útfæra fyrir einstakar stofnanir. Auk þess hækka stofnkostnaðarframlög um 8,4 milljarða kr. þar sem nýr Landspítali vegur þyngst, tæpa 7 milljarða kr., en einnig eru auknar samgönguframkvæmdir til að nýta fjárhagsramma til fulls í ljósi þess að framlög til Dýrafjarðarganga falla niður sökum þess að framkvæmdinni er að ljúka. Á móti vegur 2,2 milljarða kr. niðurfelling vegna þess að því hefur verið frestað að kaupa þyrlur fyrir Landhelgisgæsluna. Þess í stað verður haldið áfram að leigja þyrlur.

Launa-, verðlags- og gengisbætur.
    Launa- og verðlagsuppfærsla fjárlaga nemur samtals tæpum 30 milljörðum kr. og skiptist á nær alla rekstrar- og tilfærsluliði fjárlaga. Verðlagsbreytingar miðast við þjóðhagsspá Hagstofu Íslands en launabætur taka mið af kjarasamningum sem tókust í vor sem leið. Ekki er spáð fyrir um gengi gjaldmiðla heldur er það uppfært miðað við meðalgengi ágústmánaðar 2020. Samkvæmt mati á samningum er áætlað að almennar launahækkanir á næsta ári verði um 3,6% að jafnaði og taki almennt gildi í ársbyrjun. Beinn launakostnaður ríkisins ásamt launalið í aðkeyptri þjónustu nemur ríflega 340 milljörðum kr., eða um 1/ 3 hluta af fjárheimildum málefnasviða ef vaxtagjöld eru undanskilin. Af 30 milljarða kr. hækkun eru um 13 milljarðar kr. vegna launa en 7,8 milljarðar kr. eru hækkun atvinnuleysisbóta og bóta almannatrygginga. Gengisbreytingar vega um 6 milljarða kr. og hafa áhrif á framlög utanríkisráðuneytisins auk nokkurra annarra gengisbundinna liða. Almenn verðlagsbreyting nemur loks tæpum 4 milljörðum kr.

Fjárfestingarsvigrúm.
    Í samræmi við stefnu stjórnvalda eru fyrirhugaðar auknar opinberar fjárfestingar til að vega á móti almennum samdrætti í efnahagslífinu. Aukning fjárfestingarsvigrúms nemur 26,7 milljörðum kr. milli ára. Viðbót í vegagerð og viðhald flugvalla nemur 11,5 milljörðum kr. og er það í samræmi við sérstakt fjárfestingarátak sem nánar er lýst í greinargerð með frumvarpinu. Viðbótarfjárfesting á málefnasviði nýsköpunar, rannsókna og þekkingargreina sem einkum rennur til fjárfestingarsjóða nemur 3,2 milljörðum kr.
    Að auki eru mörg önnur fjárfestingarverkefni fyrirhuguð á næsta ári, t.d. fyrir 2 milljarða kr. hjá sjúkrahúsum og heilsugæslustöðvum og þar er nýr Landspítali ekki meðtalinn. Fjárfestingar menningarmála hækka samtals um 1,6 milljarða kr., m.a. vegna Náttúruminjasafns Íslands. Viðhald og endurbætur ýmissa ríkiseigna hækka einnig um 1,6 milljarða kr. og 1 milljarður kr. verður veittur til að stórefla alla stafræna þjónustu.

Nýjar ákvarðanir og breyttur forgangur í útgjaldaramma.
    Nýjar ákvarðanir og forgangsröðun stjórnvalda um samtals 13,5 milljarða kr. hækkun endurspeglar stefnumörkun stjórnvalda. Mestu munar um aukningu á sviði nýsköpunar, rannsókna og þekkingargreina, eða 3,2 milljörðum kr., og um ákvarðanir um vinnumarkaðsúrræði, svo sem um lengingu tímabils tekjutengdra bóta, um átak í náms- og starfsúrræðum og um aukinn rekstrarkostnað Vinnumálastofnunar, samtals 2,9 milljörðum kr. Aukning til ofanflóðasjóðs nemur 1,6 milljörðum kr. Aukning framlaga til framhaldsskóla og háskóla nemur samtals 1 milljarði kr. Hækkun til Skattsins, sem er m.a. til að vega upp á móti því að sértekjur falla niður og til að efla skatteftirlit og varnir gegn peningaþvætti, nemur 750 millj. kr.

Bundin útgjöld.
    Bundin útgjöld hækka um 6,8 milljarða kr. milli ára. Hér flokkast allar breytingar milli ára sem eru tilkomnar vegna lagabreytinga, samninga eða flokkast sem hagrænn og kerfislægur vöxtur. Þyngst vegur kerfislægur vöxtur elli- og örorkulífeyris, samtals um 3,6 milljarða kr. Endurmat vaxtagjalda leiðir til 2,8 milljarða kr. hækkunar og 1,9 milljarðar kr. eru aukið framlag til Ábyrgðasjóðs launa. Eins og áður segir fellur niður bundið 3 milljarða kr. framlag til Dýrafjarðarganga en hækkun á framlagi vegna rammaáætlana ESB í menntamálum nemur 1,8 milljörðum kr.

Almennt útgjaldasvigrúm.
    Svigrúmið nemur samtals 5,7 milljörðum kr. Varið verður 2,3 milljörðum kr. til að smíða nýtt hafrannsóknarskip. Málefnasvið heilsugæslunnar fær 1,5 milljarða kr. af því til að styrkja heilsugæsluna, sérstaklega í geðheilbrigðismálum, og til að bæta það upp að dregið verður úr greiðsluþátttöku sjúklinga. Annað útgjaldasvigrúm vegur mun minna og dreifist á mörg málefnasvið.

Aðhald í rekstri.
    Í fjárlagagerð er tilgangur aðhaldskröfu að vera ákveðið stýritæki til að forgangsraða verkefnum. Aðhaldskröfur í frumvarpinu eru af tvennum toga. Annars vegar almennt aðhald, samtals að fjárhæð 4,8 milljarðar kr., og er útfært þannig að gert er ráð fyrir 2% aðhaldi í almennum rekstri flestra málefnasviða. Hjá framhaldsskólum og háskólum er aðhaldið lægra, eða sem nemur 0,5% af fjárlögum, og sama á við um sjúkrahús og heilsugæslustöðvar. Engin aðhaldskrafa er á dómstóla, tilfærslukerfi eða stofnkostnaðarframkvæmdir.
    Hins vegar eru sértækari ráðstafanir að fjárhæð 2,5 milljarðar kr., þar sem mest munar um 500 millj. kr. hjá nokkrum verkefnum sjúkratrygginga, um aðrar 500 millj. kr. vegna lífeyristrygginga og um 450 millj. kr. hjá Vegagerðinni.
    Tilgangur almennrar aðhaldskröfu er m.a. að knýja á um skýra forgangsröðun verkefna en í reynd hefur það tekist misjafnlega. Algengt er að útgjaldasvigrúm komi á móti aðhaldskröfu og leiði ekki til breyttrar forgangsröðunar. Bent er á þann möguleika að verkefni sem snúa að endurmati útgjalda komi til framkvæmda í stað almennrar aðhaldskröfu.

Fjárveitingar sem falla niður.
    Tímabundnar fjárveitingar sem falla niður þar eð viðkomandi verkefnum er lokið nema samtals 1,2 milljörðum kr. Mest vegur að framlag til stofnstyrkja hitaveitna að fjárhæð 308 millj. kr. fellur niður, sömuleiðis 150 millj. kr. vegna Evrópsku kvikmyndahátíðarinnar og loks 80 millj. kr. vegna upplýsingatæknikerfis innan réttarvörslukerfisins.

Forgangsmál og útgjaldaþróun.
    Við upphaf kjörtímabilsins var mörkuð sú stefna að efla velferðarkerfið verulega, bæta mjög í innviðafjárfestingar og endurskoða skattkerfið auk þess sem sett voru metnaðarfull markmið í umhverfismálum. Í samræmi við þetta hafa framlög til langflestra málefnasviða aukist jafnt og þétt í takt við aukið svigrúm til útgjaldavaxtar. Þannig má segja að ávöxtun langs hagvaxtarskeiðs hafi markvisst verið varið til að lækka skuldir, styrkja opinbera þjónustu, þétta félagslegt stuðningsnet og lækka skatta.
    Í því skyni að glöggva sig betur á útgjaldaþróun og framfylgd stefnu ríkisstjórnarinnar á kjörtímabilinu hefur meiri hlutinn tekið saman þróun útgjalda rammasettra málefnasviða að raungildi allt frá árinu 2017. Þá eru lífeyrisskuldbindingar, vaxtagjöld og framlög vegna atvinnuleysis undanskilin. Svokölluð markaðsleiga sem stofnanir greiða í leigu til ríkisins er líka undanskilin í gögnunum til þess að samanburður yfir allt tímabilið sé sem raunhæfastur. Loks er tillögum meiri hlutans fyrir 2. umræðu um frumvarp til fjárlaga fyrir árið 2021 bætt við frumvarpið til þess að útgjaldaþróunin gefi sem besta mynd.
    Það sem helst vekur athygli varðandi gjaldaþróun frá 2017 til 2021 er mjög mikil hækkun í heild sem nemur 198 milljörðum kr. að raungildi eða 26,5%.

Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.


    Stefna og forgangsröðun ríkisstjórnarinnar endurspeglast skýrt í þeirri útgjaldaþróun sem fram kemur í töflunni. Í fjárhæðum talið kemur mesta hækkunin fram á veigamiklum sviðum heilbrigðis- og félagsmála. Mest eru það 24,7 milljarðar kr. í sjúkrahúsþjónustu, því næst 23 milljarðar kr. í samgöngu- og fjarskiptamálum, 19,5 milljarðar kr. vegna örorku og málefna fatlaðra, 15,5 milljarðar kr. vegna fjölskyldumála, 13,9 milljarðar kr. vegna málefna aldraðra og 10,2 milljarðar kr. vegna heilbrigðisþjónustu utan sjúkrahúsa. Þá varð 11 milljarða kr. raunhækkun á málefnasviði nýsköpunar, rannsókna og þekkingargreina, sem er 74% aukning frá 2017.
    Hækkunin dreifist eðli málsins samkvæmt misjafnlega á málefnasvið í samræmi við stefnumörkun stjórnvalda og vægi sviða við upphaf tímabilsins. Hlutfallslega varð mest hækkun á málefnasviði nýsköpunar, rannsókna og þekkingargreina eða 74%, því næst 71% vegna vinnumarkaðar, 63% vegna samgöngumála, 49% vegna fjölskyldumála, 48% vegna umhverfismála og 45% vegna ferðaþjónustu. Hækkun málefnasviða sjávarútvegs, æðstu stjórnsýslu og lyfjakostnaðar hækka einnig hlutfallslega mikið.
    Í ítarlegri greinargerð með frumvarpinu eru skýrðar breytingar milli ára á einstökum málefnasviðum og í einstökum málaflokkum.

Efnahagsforsendur.
    Þjóðhagsspá Hagstofu Íslands liggur til grundvallar frumvarpinu. Þar er gert ráð fyrir 7,6% samdrætti í vergri landsframleiðslu (VLF) á árinu en 3,9% hagvexti á næsta ári. Spáin byggist m.a. á því að ekki þurfi að grípa til harðra sóttvarnaaðgerða á næsta ári og að ferðamönnum fjölgi um helming milli ára, þ.e. að hingað til lands komi 900 þúsund ferðamenn á næsta ári.
    Gert er ráð fyrir að verðbólgan verði rétt yfir markmiði Seðlabankans á næsta ári sem skýrist af veikingu krónunnar það sem af er ári. Gert er ráð fyrir að atvinnuleysi nái hámarki í árslok 2020 en lækki síðan lítillega á næsta ári. Ef það gengur eftir verður atvinnuleysi svipað og var árið 2011.
    Þessar forsendur eru háðar mikilli óvissu vegna þeirrar stöðu sem uppi er af völdum heimsfaraldurs kórónuveiru. Framvinda faraldurs og sóttvarnaaðgerða eru ráðandi þættir um efnahagsþróun. Gangi þjóðhagsspá eftir verður fjöldi ferðamanna innan við helmingur þess sem hann var árið 2019.
    Viðsnúningur í VLF jafngildir allt að 300 milljarða kr. minni framleiðslu í hagkerfinu. Útflutningur hefur dregist mikið saman, sérstaklega vegna minni þjónustuútflutnings til ferðamanna. Þó kemur fram aukning í samneyslu vegna sjálfvirkra sveiflujafnara og sértækra útgjaldaaðgerða. Í október í haust var almennt atvinnuleysi samkvæmt tölum Vinnumálastofnunar 9,9% sem samsvarar 20.252 einstaklingum. Þar að auki voru 4.759 einstaklingar með minnkað starfshlutfall. Til samanburðar var skráð atvinnuleysi 5,0% í febrúar í vetur sem samsvarar 5.314 einstaklingum.
    Á næsta ári er gert ráð fyrir að hagkerfið taki vel við sér og Hagstofa Íslands spáir þá 3,9% hagvexti. Hagvöxtur á næsta ári verður knúinn af auknum fjárfestingum og aukningu í útflutningi. Þó er áætlað að atvinnuleysi verði enn hátt eða um 6,8%.
    Hertar sóttvarnir hafa valdið því að dregið hefur úr þeirri viðspyrnu efnahagslífsins sem hófst á þriðja ársfjórðungi árið 2020 eftir mikinn samdrátt á öðrum ársfjórðungi. Efnahagshorfur hafa því versnað töluvert, sem kemur glögglega fram í nóvemberspá Seðlabanka Íslands. Í ágúst spáði bankinn því að samdráttur í hagkerfinu á þessu ári yrði um 7,1% en nú gerir hann ráð fyrir 8,5% samdrætti. Þá reiknar Seðlabankinn með því að batinn verði hægari og lækkar hagvaxtarspá fyrir næsta ár úr 3,4% í 2,3%. Helstu liðir sem valda verri horfum eru fjárfestingar og útflutningur. Ljóst er að eitt af meginverkefnum stjórnvalda næstu ár verður að örva atvinnuvegafjárfestingu og efla fjölbreyttan útflutning.
    Í greinargerð með fjármálaáætlun 2021–2025 er farið ítarlega yfir óvissuþætti hagþróunar og birtar frávikssviðsmyndir sem ráðuneytið hefur unnið.

Efnahagsaðgerðir stjórnvalda vegna heimsfaraldurs kórónuveiru.
    Lagt hefur verið fjárhagslegt mat á bein áhrif á afkomu ríkissjóðs vegna fjölmargra aðgerða stjórnvalda sem eru tilkomnar sem mótvægi við heimsfaraldrinum, eins og fram kemur í eftirfarandi töflu. Sjá má að áhrif á A-hluta ríkissjóðs eru veruleg eða um 200 milljarðar kr. samtals í ár og á næsta ári. Aðgerðir sem kynntar voru í nóvember koma fram í töflunni sem breytingartillögur við frumvarpið.

Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.


    Hér er þó einungis um að ræða bein áhrif. Heildaráhrif á hið opinbera og hagkerfið allt eru margfalt meiri þar sem samdrátturinn í efnahagslífinu hefur bein áhrif til lækkunar á tekjum bæði opinberra aðila og einkaaðila.

Staða sveitarfélaga.
    Ríki og sveitarfélög hafa nýverið undirritað samkomulag í tengslum við gerð fjármálaáætlunar fyrir árin 2021–2025 eins og lög um opinber fjármál kveða á um. Þar hafa aðilar komið sér saman um sameiginlega sýn á hagstjórn og stjórn opinberra fjármála á því tímabili sem um ræðir. Þar eru sett markmið um afkomu- og skuldaþróun, þ.m.t. að aukning skulda hins opinbera sem hlutfall af VLF verði stöðvuð fyrir árslok 2025.
    Í almennri umræðu hefur sú krafa komið fram af hálfu fulltrúa sveitarfélaga að ríkissjóður eigi að styðja enn frekar við sveitarfélög landsins umfram það sem þegar hefur verið gert. Þar hefur verið vísað til þess að stuðningur annarra ríkja, t.d. á Norðurlöndum, sé langtum meiri en hér á landi. Í þessari umræðu þarf að hafa í huga að uppbygging og fjármögnun sveitarstjórnarstigsins er afar frábrugðin því sem tíðkast annars staðar á Norðurlöndum og víða um Evrópu. Þar af leiðandi gefur það villandi mynd að bera saman stuðning ríkissjóðs hér á landi við stuðning annarra landa sem búa við gjörólík kerfi. Sveitarfélögin eru fjárhagslega sjálfstæð og samanborið við önnur lönd er stærri hluti tekna þeirra hér á landi í formi lögbundinna tekjustofna en í formi beinna framlaga úr ríkissjóði. Slíkt fyrirkomulag, þar sem sveitarfélögin eru meira og minna háð lögbundnum framlögum, þurfa að stunda sjálfstæða fjármálastjórn og búa í haginn þegar efnahagslífið er í uppgangi til að geta staðið af sér niðursveiflu í hagkerfinu.
    Ljóst er að heimsfaraldurinn og áhrif hans á íslenskt atvinnulíf valda því að tiltekin sveitarfélög sem hafa reitt sig mikið á ferðaþjónustu hafa orðið fyrir miklum tekjusamdrætti og þolað atvinnuleysi. Þannig er fjárhagsleg staða sveitarfélaga misjöfn. Þegar hefur verið veittur stuðningur til þeirra sveitarfélaga sem metið var að færu verst út úr niðursveiflu í ferðaþjónustu og í ráði er að auka enn frekar stuðning til sveitarfélaga sem standa höllum fæti vegna kórónuveirufaraldursins.
    Ríkisvaldið fær hlutfallslega minna út úr tekjuskattinum en það stendur full skil á því sem svarar til útsvars til sveitarfélaga. Frestun á skattskilum í ár lendir hjá ríkisvaldinu en ekki sveitarfélögum og reyndar vanskil líka. Síðan eru ýmsar ráðstafanir sem gerðar eru sérstaklega í þágu sveitarfélaga. Þetta á líka við þegar litið er til framtíðar þar sem ríkið mun beita sér fyrir fjárfestingum og ívilnunum til að efla landsframleiðslu og þar með auka launaveltu og hækka fasteignaverð. Ríkið mun sitja eftir með skuldabagga sem þyngist um 20% af VLF á milli áranna 2019 og 2021, en á hinn bóginn er gert ráð fyrir að skuldir sveitarfélaga hækki um tæplega 3% af VLF á sama tíma.

Breytingar á frumvarpinu.
Forsendur og viðbrögð stjórnvalda.
    Hagstofa Íslands hefur ekki gefið út nýja þjóðhagsspá eftir að frumvarpið kom fram og eru tillögur um breytingar á tekjuhliðinni því óverulegar. Frá því að frumvarpið var lagt fram hefur fjármála- og efnahagsráðuneytið metið þróun tekna og ríkisstjórnin á þeim tíma lagt til mótvægisaðgerðir eins og tekjufallsstyrki, viðspyrnustyrki, félagslega tengd úrræði og stuðning og framlengt aðrar aðgerðir. Megnið af þeim breytingartillögum meiri hlutans sem lagðar verða fram við 2. umræðu fjárlaga tengist auknum fjárheimildum vegna margvíslegra úrræða og aðgerða af völdum heimsfaraldursins.
    Frá þeim tíma er fjárlagafrumvarpið var lagt fram fyrir rúmum tveimur mánuðum hafa tekjur ríkissjóðs breyst. Aðallega er þó um að ræða breytingar á tekjuflokkum innbyrðis, ýmist til hækkunar eða lækkunar, en nettóáhrifin eru einungis 162 millj. kr. til lækkunar. Án þess að ráða of mikið í þá tekjuþróun má álykta að það séu jákvæðar fréttir í ljósi harðari sóttvarnaaðgerða í þriðju bylgju faraldursins og í ljósi áhrifa þeirra á íslenskt atvinnulíf. Einnig er erfitt að ráða í seinkuð áhrif af þeim, sem reikna má með að verði við slíkar aðstæður.
    Frá þeim tíma þegar forsendur frumvarpsins voru ljósar hefur efnahagsframvindan reynst heldur lakari en gert var ráð fyrir. Sú efnahagsþróun er nær því sem fjármála- og efnahagsráðuneytið birti sem dökka sviðsmynd í greinargerð með fjármálaáætlun en grunnsviðsmyndinni sem byggðist á þjóðhagsspá Hagstofu Íslands. Í þessu ljósi var ákveðið að bæta við áður ákveðnar mótvægisaðgerðir stjórnvalda og þær kynntar hinn 20. nóvember. Í þeim fólst m.a. ákvörðun um svokallaða viðspyrnustyrki fyrir rekstraraðila, aukinn stuðningur við atvinnuleitendur og framlenging hlutabótaleiðarinnar. Þá voru grunnbætur og greiðslur vegna framfærslu barna hækkaðar. Auk þessa var bætt verulega við ýmis félagsleg úrræði fyrir viðkvæma hópa samfélagsins.

Tillögur á gjaldahlið.
    Lagt hefur verið mat á þann kostnað sem óhjákvæmilega fylgir ofangreindum aðgerðum og stærstur hluti þeirra tillagna sem meiri hlutinn leggur fram fyrir 2. umræðu um frumvarpið tengist þeim. Samtals er gerð tillaga um 55,3 milljarða kr. hækkun á gjaldahlið. Þyngst vega 19,8 milljarðar kr. vegna viðspyrnustyrkja og 6 milljarðar kr. vegna framlengingar á hlutabótaleið.
    Þessar og allar aðrar tillögur eru skýrðar sérstaklega í kafla álitsins um breytingartillögur meiri hluta nefndarinnar.

Breytingar milli ára.
    Eins og fram hefur komið er í frumvarpinu miðað við 124 milljarða kr. hækkun frá fjárlögum 2020. Með þeim breytingartillögum sem gerðar eru verður hækkunin samtals 180 milljarðar kr. og heildarafkoma skv. 1. gr. fjárlaga sýnir þá 320 milljarða kr. halla, sem eru 10,4% af VLF.
    Í samþykktri fjármálastefnu var miðað við að afkoma A-hluta ríkissjóðs yrði neikvæð um 9% árið 2021 en jafnframt var sett inn óvissusvigrúm fyrir hið opinbera í heild sem nam 3% af VLF til viðbótar. Ef þessar áætlanir verða að veruleika gengur ríkissjóður á helming af 3% óvissusvigrúmi. Þannig er áætlaður halli innan marka stefnunnar en mikil óvissa uppi um endanlega útkomu í ljósi lengdar sóttvarnaaðgerða. Í stefnunni var miðað við að afkoma A-hluta sveitarfélaga gæti orðið neikvæð um 1% af VLF en þar er einnig mikil óvissa uppi um endanlega afkomu.
    Ljóst er að ef halli af þessari stærðargráðu yrði viðvarandi mundi gengið nærri sjálfbærniviðmiðum ríkisfjármála og ríkissjóðs.

Umfjöllun um einstök málefnasvið.
    Í kjölfar greiningarvinnu nefndarinnar við yfirferð á umsögnum og svörum ráðuneyta við spurningum nefndarinnar voru gerðar allnokkrar breytingartillögur við frumvarpið. Hér fylgir umfjöllun um þau málefnasvið og málaflokka þar sem umtalsverðar breytingartillögur koma fram.
    Allar breytingartillögur á gjaldahlið eru skýrðar í sérstökum kafla aftast í álitinu.

Málefnasvið 04 Utanríkismál.
    Í frumvarpinu eru gjaldaheimildir samtals 13,6 milljarðar kr. og skiptast á fjóra málaflokka. Hækkun að raungildi er 460 millj. kr. að teknu tilliti til breytingartillagna eða 3%. Gerðar eru breytingartillögur af þrenns konar tilefni. Í fyrsta lagi 197 millj. kr. hækkun til öryggis- og varnarmála vegna netöryggismála. Brýnt er að grípa til ráðstafana til að auka netvarnir og varnir gegn fjölþáttaógnum á Íslandi. Yfirstandandi heimsfaraldur hefur leitt til margvíslegra breytinga á starfsháttum og samskiptum stjórnvalda, fyrirtækja og einstaklinga um allan heim. Hraði í þróun stafrænna lausna hefur aukist og mikilvægi öruggra fjarskipta og þess að vernda mikilvæga innviði er meira en nokkru sinni.
    Í öðru lagi er gerð tillaga um 64 millj. kr. til viðskiptamála. Framlaginu er ætlað að mæta útgjöldum vegna áframhaldandi samningaviðræðna við Breta og að sinna hagsmunagæslu Íslands eftir útgöngu þeirra úr ESB. Tímabundin fjárframlög falla niður í lok þessa árs. Mikilvægt er að ekki verði dregið úr getu ráðuneytisins til að sinna hagsmunagæslu vegna samninga við Breta í kjölfar úrsagnar þeirra úr ESB.
    Í þriðja lagi er gerð tillaga um 22 millj. kr. vegna norðurslóðasamstarfs. Utanríkisráðuneytið hefur undanfarin ár fengið tímabundið framlag til þess að styðja við framkvæmd alþjóðaþingsins Hringborðs norðurslóða – Arctic Circle. Lagt er til að utanríkisráðuneytinu verði gert kleift að gera samning um slíkan stuðning til lengri tíma til að fjármagna störf fyrrverandi forseta Íslands í þágu verkefnisins.

Málefnasvið 08 Sveitarfélög og byggðamál.
    Framlög til Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga eru yfirgnæfandi hluti af framlögum til málaflokksins. Á undanförnum árum hafa framlög til jöfnunarsjóðs aukist um allt að 3,5 milljarða kr. á ári.
    Við þann efnahagssamdrátt sem nú hefur orðið er óhjákvæmilegt að framlög til sjóðsins dragist saman. Við það minnka nokkuð tekjur einstaka sveitarfélaga af framlögum jöfnunarsjóðs. Fyrir fjárlaganefnd hafa m.a. komið landshlutasamtök og fulltrúar fyrir hönd einstakra sveitarfélaga sem lýst hafa mun meiri samdrætti framlaga jöfnunarsjóðs en sem nemur hlutfallslegum samdrætti á jöfnunarsjóði í heild. Fjölmargar breytur geta haft áhrif á úthlutun jöfnunarsjóðs til sveitarfélaga og legið að baki einstökum breytingum. Erfitt er þó að staðfæra verulegan samdrátt framlaga, ekki síst í ljósi þeirra mótvægisaðgerða sem boðaðar eru í fjárlagafrumvarpinu. Þar eru færi fyrir jöfnunarsjóð að milda nokkuð það högg sem sum sveitarfélög hafa lýst í erindum til nefndarinnar.
    Fjárlaganefnd hefur kallað eftir upplýsingum um þróun framlaga til jöfnunarsjóðs og eftir þeim áherslum sem lagðar verða til með mótvægisaðgerðum. Það er álit meiri hluta fjárlaganefndar að bæta verði minni sveitarfélögum upp þann mikla samdrátt sem ætla má að þau verði fyrir að óbreyttu. Það verði gert þannig að hlutfallsleg lækkun framlaga verði nær almennri lækkun framlaga til jöfnunarsjóðs.
    Gerð er tillaga um 100 millj. kr. tímabundið framlag til að styrkja framlög til sóknaráætlana, sem nýtt verði annars vegar til viðspyrnu á svæðum þar sem ferðaþjónusta hefur verið fyrirferðarmikil og hins vegar á svæðum sem hafa glímt við einhæft atvinnulíf og fækkun starfa.

Málefnasvið 09 Almanna- og réttaröryggi.
    Í frumvarpinu eru gjaldaheimildir sviðsins samtals 30,5 milljarðar kr. Ef breytingar vegna frestunar á kaupum á björgunarþyrlum eru undanskildar hækka framlög að raungildi um tæpar 800 millj. kr. milli ára. Innan sviðsins eru fimm málefnaflokkar: löggæsla; landhelgi; ákæruvald og réttarvarsla; réttaraðstoð og bætur; og fullnustumál. Í breytingartillögum vegur langþyngst að lagt er til að bæta 466 millj. kr. við réttaraðstoð og bætur sem alfarið er ætlað til uppgjörs sanngirnisbóta vegna þeirra stofnana þar sem fötluð börn voru vistuð á árum áður.

Málefnasvið 10 Réttindi einstaklinga, trúmál og stjórnsýsla dómstóla.
    Í frumvarpinu eru gjaldaheimildir sviðsins 17,1 milljarður kr. og skiptast á fimm ólíka málaflokka: persónuvernd, trúmál, sýslumenn, stjórnsýslu dómsmálaráðuneytisins og útlendingamál. Gerðar eru breytingartillögur við tvo liði. Lögð er til 25 millj. kr. hækkun vegna samstarfsverkefnis sýslumannsembættisins á Húsavík og Persónuverndar sem felst í þjónustuveri fyrir Persónuvernd sem starfrækt yrði þar í bæ. Einnig er lögð til hækkun sóknargjalda til samræmis við breytingartillögu meiri hluta efnahags- og viðskiptanefndar við frumvarp til laga um breytingar á ýmsum gjöldum (þskj. 431, 5. mál) og samþykkt Alþingis. Í forsendum frumvarpsins var miðað við að sóknargjöld yrðu 980 kr. á mánuði, en nú er gert ráð fyrir 100 kr. hækkun gjaldsins. Það leiðir til um 280 millj. kr. hækkunar útgjalda en á móti kemur lítils háttar fækkun fólks í trúfélögum sem vegur 46 millj. kr. til lækkunar.

Málefnasvið 11 Samgöngu- og fjarskiptamál.
    Í frumvarpinu eru gjaldaheimildir 58,8 milljarðar kr. og skiptast á þrjá málaflokka: samgöngur, fjarskipti og stjórnsýslu samgönguráðuneytisins. Að raungildi stóraukast gjöldin milli ára, um 11,3 milljarða kr., sem er 23% aukning. Skýrist það nær alfarið af fjárfestingarátaki sem ætlað er að vinna gegn samdrættinum í hagkerfinu. Aukningin er mest til vegaframkvæmda eða tæpir 9 milljarðar kr. auk þess sem framlög bæði til framkvæmda á flugvöllum og hafna aukast.
    Gerðar eru tvær breytingartillögur. Annars vegar 450 millj. kr. til flugvalla til að uppfylla samkomulag um að Isavia yfirtaki rekstur og viðhald Egilsstaðaflugvallar, en tekjufall félagsins vegna heimsfaraldursins hefði gert því ókleift að efna samkomulagið nema með sérstakri fjárveitingu. Hins vegar 350 millj. kr. til Hafnabótasjóðs sem ætlað er að fjármagna umfangsmiklar framkvæmdir í Njarðvíkurhöfn sem hafa verið í undirbúningi.

Málefnasvið 12 Landbúnaður.
    Í frumvarpinu nema gjaldaheimildir samtals 17,7 milljörðum kr. og skiptast á tvo málaflokka: stjórnun landbúnaðarmála annars vegar og rannsóknir, þróun og nýsköpun í landbúnaðarmálum hins vegar. Að meðtöldum breytingartillögum hækka heimildir um 1,3 milljarða kr. eða 7% milli ára.
    Í breytingartillögum vegur þyngst að lagt er til að bæta kúabændum og sauðfjárbændum að hluta upp samdrátt í eftirspurn vegna verulegrar fækkunar ferðamanna. Samtals eru þetta 242,5 millj. kr. vegna kúabænda og 727,5 millj. kr. vegna sauðfjárbænda.

Málefnasvið 15 Orkumál.
    Í frumvarpinu nema gjaldaheimildir samtals rúmum 5 milljörðum kr. og eru allar í sama málaflokki, stjórnun og þróun orkumála.
    Í frumvarpinu er gert ráð fyrir að framlag til jöfnunar á dreifikostnaði hækki um 730 millj. kr. á næsta ári og dugar það til að jafna um 85% af heildarþörfinni. Gerð er breytingartillaga þar sem þetta framlag er hækkað um 90 millj. kr. og dugar það til að ná fram fullri jöfnun frá og með 1. september á næsta ári án þess að til komi frekari hækkun jöfnunargjalds.

Málefnasvið 17 Umhverfismál.
    Í frumvarpinu nema gjaldaheimildir samtals 24,3 milljörðum kr. og hækkun að raungildi er 3,5 milljarðar kr. eða 17% að meðtöldum breytingartillögum. Heimildir skiptast á fimm málefnaflokka: náttúruvernd, skógrækt og landgræðslu; rannsóknir og vöktun á náttúru Íslands; meðhöndlun úrgangs; varnir gegn náttúruvá; og stjórnsýslu umhverfismála.
    Gerðar eru nokkrar breytingartillögur þar sem þyngst vegur að lagt er til að veita 80 millj. kr. vegna fyrirhugaðs umhverfissamnings við framleiðendur í minkarækt. Gert er ráð fyrir að heildarstuðningur við verkefnið geti numið 160 millj. kr. Markmiðið er að nýta kosti minkaræktar til eyðingar á lífrænum úrgangi frá matvælaframleiðendum. Einnig er gerð tillaga um að styrkja rekstrargrundvöll náttúrustofa um 48 millj. kr.

Málefnasvið 18 Menning, listir, íþrótta- og æskulýðsmál.
    Í frumvarpinu nema gjaldaheimildir samtals 17,6 milljörðum kr. og hækkun að raungildi er 1,7 milljarðar kr. eða 10% að meðtöldum breytingartillögum. Sviðið skiptist í fjóra málefnaflokka: safnamál, menningarstofnanir, menningarsjóði og íþrótta- og æskulýðsmál.
Gerðar eru nokkrar breytingartillögur þar sem þyngst vega 470 millj. kr. til stuðnings íþróttafélögum vegna rekstrarútgjalda á því tímabili sem samkomutakmarkanir koma í veg fyrir eðlilega starfsemi félaganna.
    Einnig eru gerðar nokkrar tillögur um minni styrkveitingar til safna og menningarstofnana sem eru skýrðar nánar í kafla í lok álitsins.

Málefnasvið 19 Fjölmiðlun.
    Í frumvarpinu nema gjaldaheimildir samtals 5 milljörðum kr. og dragast saman að raungildi um 165 millj. kr. eða 3% að teknu tilliti til breytingartillögu. Einn málefnaflokkur tilheyrir sviðinu og yfirgnæfandi fjárveiting rennur til Ríkisútvarpsins.
    Gerð er ein breytingartillaga þar sem tekjuáætlun af útvarpsgjaldi hefur verið uppfærð frá því sem miðað var við í frumvarpinu og leiðir það til 140 millj. kr. viðbótarframlags til Ríkisútvarpsins.

Málefnasvið 20 Framhaldsskólastig.
    Í frumvarpinu nema gjaldaheimildir samtals 37,5 milljörðum kr. og hækkun að raungildi er 3,4 milljarðar kr. eða 10% að teknu tilliti til breytingartillagna. Sviðið skiptist í fjóra málefnaflokka: framhaldsskóla, tónlistarfræðslu, vinnustaðanám og styrki og jöfnun námskostnaðar.
    Gerðar eru nokkrar breytingartillögur sem samtals vega 3.036 millj. kr. Þyngst vega 1.728 millj. kr. vegna verkefnisins Nám er tækifæri sem ætlað er að gefa atvinnuleitendum tækifæri til þátttöku í námsúrræðum bæði á framhalds- og háskólastigi auk framhaldsfræðslu. Gerð er tillaga um 1.211 millj. kr. framlag vegna fjölgunar nemenda á framhaldsskólastigi sakir aðstæðna sem skapast hafa í kjölfar heimsfaraldursins. Einnig er gerð tillaga um 77 millj. kr. vegna fjölgunar nemenda á starfsbraut fyrir fatlað fólk. Aðrar tillögur eru skýrðar í kafla um breytingartillögur.

Málefnasvið 21 Háskólastig.
    Í frumvarpinu nema gjaldaheimildir 51,2 milljörðum kr. og hækkun að raungildi er 7 milljarðar kr. eða 15% að teknu tilliti til breytingartillagna. Sviðið skiptist í tvo málaflokka: háskóla og rannsóknarstarfsemi og stuðning við námsmenn.
    Gerðar eru nokkrar breytingartillögur sem samtals nema 2.367 millj. kr. Fjölgun háskólanema vegna atvinnuástands í kjölfar kórónuveirufaraldurs er meginskýringin á tillögunni. Áætlað er að nemendum fjölgi um 10% og af 1.400 millj. kr. viðbótarfjárveitingu renni 928 millj. kr. til Háskóla Íslands, 152 millj. kr. til Landbúnaðarháskóla Íslands, 115 millj. kr. til Háskólans á Akureyri, 88 millj. kr. til Háskólans í Reykjavík, 58 millj. kr. til Háskólans á Bifröst og 52 millj. kr. til Hólaskóla.
    Einnig er gerð tillaga um 971 millj. kr. framlag til verkefnisins Nám er tækifæri sem sambærilegt er við framhaldsskólastigið. Af framlaginu er gert ráð fyrir að 100 millj. kr. fari til aðfararnáms.

22 Önnur skólastig og stjórnsýsla mennta- og menningarmála.
    Í frumvarpinu nema gjaldaheimildir samtals 5,6 milljörðum kr. og haldast óbreyttar að raungildi milli ára. Sviðið skiptist í þrjá málefnaflokka: leikskóla- og grunnskólastig; framhaldsfræðslu og menntun óflokkaða á skólastig; og stjórnsýslu mennta- og menningarmála.
    Gerðar eru nokkrar minni háttar breytingartillögur, samtals að fjárhæð 55,4 millj. kr., sem eru skýrðar nánar í lokakafla álitsins.

23 Sjúkrahúsþjónusta.
    Í frumvarpinu nema gjaldaheimildir samtals 120 milljörðum kr. og hækka að raungildi um 11,7 milljarða kr. eða 11% milli ára að teknu tilliti til breytingartillagna. Sviðið skiptist í þrjá málefnaflokka: sérhæfða sjúkrahúsþjónustu, almenna sjúkrahúsþjónustu og erlenda sjúkrahúsþjónustu.
    Gerðar eru nokkrar breytingartillögur sem felast í millifærslum milli málefnasviða í tengslum við nýtt fjármögnunarlíkan fyrir heilsugæsluna á landsbyggðinni og er með millifærslunum breytt fjárheimildum heilbrigðisstofnana á landsbyggðinni í því skyni að þær endurspegli rétta útgjaldaskiptingu milli sjúkrasviðs og heilsugæslusviðs innan stofnananna.
    Einnig er gerð tillaga um nokkrar aðrar millifærslur innan málefnasviðsins.

24 Heilbrigðisþjónusta utan sjúkrahúsa.
    Í frumvarpinu nema gjaldaheimildir samtals 60,7 milljörðum kr. og hækka að raungildi um 1,3 milljarða kr. eða 2% milli ára. Sviðið skiptist í fjóra málefnaflokka: heilsugæslu; sérfræðiþjónustu og hjúkrun; sjúkraþjálfun, iðjuþjálfun og talþjálfun; og sjúkraflutninga.
    Þess má geta að nefndinni er kunnugt um að heilbrigðisráðherra hyggst verja 100 millj. kr. af fjármunum samkvæmt fjárlögum ársins 2021 í samning um þjónustu sjálfstætt starfandi sálfræðinga. Sjúkratryggingum Íslands verður falið að semja við sálfræðinga um þjónustuna og fyrirhugað er að hægt verði að kaupa um 7.000 viðtöl fyrir það fjármagn sem varið verður til samningsins ef gert er ráð fyrir að greiðsluþátttaka ríkisins verði um 80% af kostnaði hvers viðtals. Skilyrði fyrir greiðsluþátttöku verður að sjúklingur hafi fengið tilvísun frá heilsugæslustöð. Er þessu ætlað að koma til móts við vaxandi þörf fyrir þjónustu sálfræðinga.
Gerðar eru nokkrar breytingartillögur sem felast í millifærslum milli málefnasviða í tengslum við nýtt fjármögnunarlíkan fyrir heilsugæsluna á landsbyggðinni og er með millifærslunum breytt fjárheimildum heilbrigðisstofnana á landsbyggðinni í því skyni að þær endurspegli rétta útgjaldaskiptingu milli sjúkrasviðs og heilsugæslusviðs innan stofnananna.

Málefnasvið 25 Hjúkrunar- og endurhæfingarþjónusta.
    Í frumvarpinu nema gjaldaheimildir samtals 62,2 milljörðum kr. og hækka að raungildi um 4,3 milljarða kr. eða 7% milli ára að teknu tilliti til breytingartillagna. Sviðið skiptist í tvo málefnaflokka: hjúkrunar- og dvalarrými og endurhæfingarþjónustu.
    Samtök fyrirtækja í velferðarþjónustu hafa bent á skort á gegnsæi fjárveitinga á málefnasviðinu þar sem hvorki kemur fram áætlaður rýmafjöldi né fjárhæð daggjalds í greinargerð með frumvarpinu.
    Nefndin hefur aflað sér upplýsinga um það að hjúkrunarrýmum hafi fjölgað um 185 frá árinu 2017 þrátt fyrir að á sama tíma hafi 119 rými verið aflögð til þess að bæta húsnæðisaðstöðu. Aukningin nemur 7% á tímabilinu og á næstu árum er ætlunin að bæta við öðrum 482 rýmum. Að þeim meðtöldum nemur fjölgun rýma 25% frá árinu 2017 og heildarfjöldi þeirra verður þá kominn í um 3.340 rými.
    Nefndin hefur kannað forsendur fjárveitinga og greiðslur til heimilanna, sem eru grundvölluð á nokkrum kostnaðarþáttum þar sem hjúkrunarþyngdin vegur mest. Heildargreiðslur til heimilanna byggjast á þessum kostnaðarþáttum auk nýtingar á rýmafjölda viðkomandi heimilis.
    Í rammasamningi Sjúkratrygginga Íslands við heimilin er miðað við að greiðslur taki breytingum, m.a. í samræmi við breytingar á svokölluðum RUG-hjúkrunarþyngdarstuðli sem grundvallast á skráningu í gagnagrunn sem geymir upplýsingar um umönnunarþörf þeirra einstaklinga sem dvelja á heimilunum. Þrátt fyrir meðaltalshækkun stuðulsins er ekki gert ráð fyrir hækkun vegna hennar í forsendum frumvarpsins.
    Meiri hlutinn leggur áherslu á að greinargerð málefnasviðsins verði framvegis endurbætt þannig að fram komi áætlað daggjald og nýting rýma hjá hverju hjúkrunarheimili um sig í töflu með greinargerðinni.
    Gerð er tillaga um 1.350 millj. kr. framlag til fjölgunar hjúkrunarrýma. Framlagið getur nýst í allt að 100 ný rými. Nefnd um endurskoðun á fjármögnun hjúkrunarheimila er að störfum og skilar tillögum árið 2021. Mikilvægt er að beita framlaginu m.a. til að nýta betur laus pláss á hjúkrunarheimilum, fjölga virkum rýmum og bregðast að hluta við tillögum sem gætu komið fram um umhverfi fjármögnunar hjúkrunarheimila eftir niðurstöðu nefndarinnar. Einnig er gerð tillaga um 300,8 millj. kr. framlag til þess að fullt tillit verði tekið til breytinga á hjúkrunarþyngd íbúa hjúkrunarheimila milli ára. Sjúkratryggingum Íslands verði falið að annast útreikninga og ráðstöfun fjárins til rekstraraðila í samræmi við RUG-stuðul.

Málefnasvið 27 Örorka og málefni fatlaðs fólks.
    Í frumvarpinu nema gjaldaheimildir samtals 79,5 milljörðum kr. og hækka að raungildi um 6,3 milljarða kr. milli ára eða 8%. Málefnasviðið skiptist í fimm málefnaflokka: bætur samkvæmt lögum um almannatryggingar, örorkulífeyri; bætur samkvæmt lögum um félagslega aðstoð, örorku; málefni fatlaðs fólks; aðrar örorkugreiðslur; og jöfnun á örorkubyrði almennra lífeyrissjóða.
    Nefndin hefur fjallað mikið um málefni öryrkja á undanförnum árum og í þetta sinn kallað eftir margvíslegum gögnum vegna þróunar örorkubóta frá félagsmálaráðuneytinu og Tryggingastofnun ríkisins. Í frumvarpinu er gert ráð fyrir 2,5% árlegum kerfislægum vexti. Heildarhækkun milli ára nemur 4,8 milljörðum kr. eða 6,5%. Bent er á að greiðslukerfið er mjög flókið þar sem er að finna margvíslegar tekjutengingar sem eru mismunandi eftir því um hvers konar tekjur er að ræða.
    Heildartekjur örorkulífeyrisþega eru mjög mismunandi sökum þess að tekjur aðrar en frá Tryggingastofnun vega mjög mismikið. Þær hafa ekki hækkað hlutfallslega jafnmikið og hámarksbætur. Meðalheildartekjur nema um 410.000 kr. á mánuði og hafa hækkað um rúmlega 62.000 kr. frá árinu 2017 eða 15,2% en vísitala neysluverðs hefur hækkað um 10,6% á sama tímabili.
    Fjöldi þeirra sem fá greiddan örorkulífeyri hefur aukist ár frá ári en á því varð breyting milli áranna 2018 og 2019 þegar fram kom lítils háttar fækkun. Hlutfall fólks með a.m.k. 75% örorkumat af mannfjölda á aldrinum 18–66 ára var 8,8% árið 2018 en lækkaði í 8,5% árið 2019.
    Gerðar eru nokkrar breytingartillögur. Þyngst vegur 2,6 milljarða kr. hækkun vegna endurhæfingarlífeyris, en hlutfallsleg fjölgun endurhæfingarlífeyrisþega hefur reynst vera umfram forsendur fjárlaga sem miðuðust við 2,5% fjölgun en hún er í reynd nær 25%. Áhersla hefur verið að beina þeim sem kostur er, sérstaklega ungu fólki, fyrst í endurhæfingu til að freista þess að draga úr nýgengi örorku.
    Nokkrir aðrir liðir örorkubóta hafa verið endurmetnir og munar mest um 600 millj. kr. hækkun vegna heimilisuppbótar. Fjöldi þeirra sem fá greidda heimilisuppbót hefur aukist um 3,8% en í frumvarpinu var miðað við 2% fjölgun.
    Gerð er tillaga um sömu fjárhæð vegna barnalífeyris þar sem viðtakendum fjölgar umfram forsendur fjárlaga. Gerð er tillaga um 250 millj. kr. hækkun vegna endurmats á framlagi ríkisins til jöfnunar á örorkubyrði lífeyrissjóða og um 150 millj. kr. vegna fjölgunar þeirra sem fá sérstaka uppbót örorkulífeyrisþega.
    Nefndin hefur kannað sérstaklega þá starfsemi í málaflokknum sem snýr að almennri og sértækri þjónustu við fatlað fólk samkvæmt lögum nr. 38/2018, um þjónustu við fatlað fólk með langvarandi stuðningsþarfir. Almenn þjónusta er veitt af sveitarfélögunum sem bera ábyrgð á framkvæmd og skipulagi þjónustunnar. Framlög ríkisins í þessum málefnaflokki snúa að yfirgnæfandi hluta að fjármögnun á 25% af samningum um notendastýrða persónulega aðstoð (NPA), sem nú eru tæplega 90 talsins. Er hlutdeild ríkisins fjármögnuð úr Jöfnunarsjóði sveitarfélaga.
    Þegar sveitarfélögin tóku við málaflokknum var samið um hækkun útsvars á kostnað tekjuskatts til að standa undir kostnaðaraukanum. Hækkunin skiptist milli sveitarfélaga og jöfnunarsjóðs vegna jöfnunar þjónustu sveitarfélaga við fatlað fólk.
    Við flutning málaflokksins til sveitarfélaganna var gert ráð fyrir að fjármagna fleiri samninga þegar komið yrði fram á árið 2020 og tekur meiri hlutinn undir það sjónarmið. Í fyrra námu heildarframlög sveitarfélaga vegna NPA-samninga rúmum 1,7 milljörðum kr. en stefna í um 2 milljarða kr. á yfirstandandi ári. Á málefnasviðinu voru gjaldfærðar 440 millj. kr. í fyrra vegna 25% hlutdeildar ríkissjóðs í NPA-samningum. Að meðaltali kostaði hver NPA-samningur 22,9 millj. kr. árið 2019.
    Gerð er tillaga um 300 millj. kr. hækkun á framlagi til þess að fjölga NPA-samningum í samræmi við fyrirætlanir þar um í tengslum við undirbúning laganna um þjónustu við fatlað fólk. Framlagið stendur undir 25% kostnaðarhlutdeild af upp undir 30 til 40 samningum til viðbótar við þá sem eru nú þegar fullfjármagnaðir. Í kjölfarið er brýnt að ráðuneytið forgangsraði framlaginu með þeim hætti að það verði gert varanlegt.
    Gerð er tillaga um 12,2 millj. kr. tímabundna hækkun málaflokksins sem vegur að fullu á móti almennri aðhaldskröfu vegna réttindagæslu fatlaðra. Meiri hlutinn beinir því til ráðherra að framvegis verði forgangsraðað með þeim hætti að ekki komi til almenn aðhaldskrafa á málefni fatlaðs fólks.

Málefnasvið 28 Málefni aldraðra.
    Í frumvarpinu nema gjaldaheimildir samtals 91 milljarði kr. og hækka að raungildi um 5 milljarða kr. eða 6% að teknu tilliti til breytingartillagna. Málefnasviðið skiptist í þrjá málefnaflokka: bætur samkvæmt lögum um almannatryggingar, lífeyri aldraðra; bætur samkvæmt lögum um félagslega aðstoð, öldrun; og þjónustu við aldraða og aðrar greiðslur. Í frumvarpinu er gert ráð fyrir 3% kerfislægum vexti og er þannig komið til móts við fjölgun aldraðra.
    Nefndin hefur kallað eftir ýmsum upplýsingum um gjaldaþróun málefnasviðsins undanfarin ár. Fullur ellilífeyrir til þeirra sem búa einir nemur 321.700 kr. á mánuði og með kerfisbreytingu sem tók gildi árið 2017 var bótakerfi ellilífeyris einfaldað. Ekki hafa náðst viðlíka breytingar á örorkulífeyri. Meiri hlutinn telur miður að ekki hafi enn tekist að einfalda það kerfi og leggur áherslu á að það verði gert.
    Nefndin hefur rætt um túlkun á 69. gr. laga um almannatryggingar, þar sem er að finna ákvæði um hvernig hækkun lífeyris almannatrygginga skuli framkvæmd. Ákvörðun um árlega hækkun skal taka mið af launaþróun en þó þannig að hún hækki aldrei minna en verðlag samkvæmt vísitölu neysluverðs.
    Á undanförnum árum hefur útfærslan oftast verið með þeim hætti að taka mið af spá Hagstofu Íslands um þróun launavísitölu að frádregnu launaskriði, þ.e. hækkun á meðaltöxtum. Undanfarin ár hafa laun hækkað langt umfram verðlag og því ljóst að kaupmáttur bóta almannatrygginga hefur aukist þrátt fyrir að launavísitala hafi hækkað enn meira.
    Á tímabilinu frá því í janúar 2017 þar til í júlí 2020 hækkaði neysluverðsvísitalan um 10,6% en bætur almannatrygginga samkvæmt fjárlögum hverju sinni um 20,5%.
    Gerðar eru tvær breytingartillögur vegna endurmats á útgjaldahorfum næsta árs. Annars vegar er það hækkun um 2,1 milljarð kr. vegna þess að atvinnutekjur ellilífeyrisþega fara lækkandi og því hækkar ellilífeyrir á móti. Auk þess hefja nú heldur fleiri töku ellilífeyris en gert var ráð fyrir í forsendum fjárlaga.
    Hins vegar er gert ráð fyrir 300 millj. kr. viðbót við félagslegan stuðning við aldraða. Á síðasta löggjafarþingi voru samþykkt lög um stuðning við tekjulægstu ellilífeyrisþegana. Lögin tóku ekki gildi fyrr en í nóvember og því er ekki komin reynsla á þau enn sem komið er. Upphaflegt kostnaðarmat nam 400 millj. kr. á ársgrundvelli og í fjárlögum ársins var 100 millj. kr. framlag ráðgert vegna þessa. Með tillögunni verða fjárveitingar í samræmi við kostnaðarmat.

Málefnasvið 29 Fjölskyldumál.
    Í frumvarpinu nema gjaldaheimildir samtals 45,8 milljörðum kr. og hækka að raungildi um 4,5 milljarða kr. eða 11% milli ára að teknu tilliti til breytingartillagna. Málefnasviðið skiptist í sjö málefnaflokka.
    Gerðar eru sex breytingartillögur, samtals að fjárhæð 1.365 millj. kr. Mestu munar um 865 millj. kr. vegna breyttrar útfærslu barnabóta. Lagt er til að skerðingarmörk tekna vegna almennra barnabóta hækki í takt við lágmarkstekjutryggingu. Gerð er tillaga um 240 millj. kr. aukningu vegna mæðra- og feðralauna sem tengist breyttu verklagi hjá Tryggingastofnun ríkisins. Einnig er gerð tillaga um 100 millj. kr. framlag vegna umönnunargreiðslna. Viðtakendum umönnunarbóta hefur fjölgað um 3,2% en í forsendum fjárlagafrumvarpsins var miðað við 2% aukningu. Aðrar breytingartillögur eru skýrðar í lokakafla álitsins.

Málefnasvið 30 Vinnumarkaður og atvinnuleysi.
    Í frumvarpinu nema gjaldaheimildir samtals 64,2 milljörðum kr. en með breytingartillögum hækkar hún um 30,8 milljarða kr. og verður 95 milljarðar kr. sem er raunaukning um 56,5 milljarða kr. eða 147% að raungildi. Málefnasviðið skiptist í tvo málefnaflokka: vinnumál og atvinnuleysi; og vinnumarkað.
    Undir þetta málefnasvið falla langumfangsmestu mótvægisaðgerðirnar sem óskað er eftir í breytingartillögum við frumvarpið. Í fyrsta lagi er lagt til 19,8 milljarða kr. framlag vegna viðspyrnustyrkja. Um er að ræða styrki til rekstraraðila sem hafa orðið fyrir tekjufalli vegna heimsfaraldursins og vegna aðgerða stjórnvalda til að verjast útbreiðslu hans. Í öðru lagi er lagt til 6 milljarða kr. framlag til að standa undir framlengingu á hlutabótaleið, þ.e. úrræði um atvinnuleysisbætur samhliða minnkuðu starfshlutfalli. Ákveðið hefur verið að framlengja úrræðið til loka maímánaðar eða í fimm mánuði.
    Einnig er lagt til að veita sérstakt viðbótarálag á grunnbætur atvinnuleysistrygginga sem metið er á 2 milljarða kr. Gert er ráð fyrir að það nemi 2,5% sem kæmi til móts við þann hóp sem á næstu mánuðum fellur út af tekjutengdum atvinnuleysisbótum.
    Aðrar breytingartillögur eru skýrðar í kafla í lok álitsins.

Málefnasvið 32 Lýðheilsa og stjórnsýsla velferðarmála.
    Í frumvarpinu nema gjaldaheimildir 11,2 milljörðum kr. og hækkun að raungildi er 1,3 milljarðar kr. eða 12% að teknu tilliti til breytingartillagna. Málefnasviðið skiptist í fjóra málefnaflokka: lýðheilsu, forvarnir og eftirlit; jafnréttismál; stjórnsýslu heilbrigðismála; og stjórnsýslu félagsmála.
    Gerðar eru margar breytingartillögur í flestum málefnaflokkum. Mest vegur 1.350 millj. kr. framlag til kaupa á bóluefni gegn COVID-19-sjúkdóminum. Einnig er gerð tillaga um að styrkja sóttvarnasvið embættis landlæknis. Gerðar eru fjölmargar tillögur af ýmsum toga í málefnaflokknum stjórnsýslu félagsmála. Sameiginlegt markmið með þeim er að styðja við atvinnuleitendur, lífeyrisþega, barnafjölskyldur og félagslega viðkvæma hópa. Meðal tillagna er 125 millj. kr. framlag til að efla og styrkja félagslegar aðgerðir fyrir aldraða til eflingar á félagsstarfi í samvinnu við sveitarfélög. Einnig er gerð tillaga um annað 125 millj. kr. framlag til að efla úrræði í formi tómstunda og samveru við börn á aldrinum 12–16 ára. Þá er sömuleiðis gerð tillaga um 125 millj. kr. framlag til að efla félagslegan stuðning við fötluð börn og 100 millj. kr. framlag til að styrkja félagsstarf fyrir fullorðið fatlað fólk.
    Einnig eru gerðar tillögur m.a. til að styrkja svokallað Art-verkefni, sem hefur einkum verið í boði í leik- og grunnskólum á Suðurlandi, og um 40 millj. kr. framlag til að styrkja rekstur Tryggingastofnunar ríkisins. Þá eru gerðar tillögur til að styrkja frjáls félagasamtök á þessu sviði og í lokakafla álitsins koma fram allar tillögur sem eru gerðar á þessu sviði.

Málefnasvið 34 Almennur varasjóður og sértækar fjárráðstafanir.
    Í frumvarpinu nema gjaldaheimildir 32,6 milljörðum kr. og hækka um 6,9 milljarða kr. eða 23% að raungildi að teknu tilliti til breytingartillagna.
    Gerðar eru fjórar breytingartillögur. Í fyrsta lagi er gerð tillaga um 5 milljarða kr. framlag til að mæta óvæntum útgjöldum vegna heimsfaraldurs kórónuveiru á næsta ári.
    Í öðru lagi um 571,7 millj. kr. hækkun vegna kjarasamninga sem ekki var búið að taka tillit til í frumvarpinu. Þar munar mestu um kjarasamninga lögreglumanna. Fjárhæðin er sundurliðuð í sérstökum yfirlitum I með breytingartillögu meiri hlutans.
    Í þriðja lagi er gerð tillaga um lækkun fjárheimilda um samtals 2 milljarða kr. vegna ferðakostnaðar ráðuneyta og stofnana. Ferðakostnaður ríkisins lækkaði um 1,8 milljarða kr. á fyrstu níu mánuðum ársins og má rekja til heimsfaraldursins. Lækkunin nemur um 60%. Ljóst er að áhrifa faraldursins mun gæta áfram á næsta ári og lagt er til að fjárheimildir málefnasviða og málaflokka verði lækkaðar um samtals 2 milljarða kr. á næsta ári. Fjárhæðin er sundurliðuð í sérstökum yfirlitum II með breytingartillögu meiri hlutans.
    Í fjórða lagi er gerð tillaga um hækkun heimilda um 159,8 millj. kr. tímabundið framlag vegna verðlagsbóta. Í tillögunni felst að fallið er frá því að draga úr verðbótaþætti vegna almenns rekstrar heilsugæslu og heilbrigðisstofnana. Þess í stað er nú miðað við verðbætur með sambærilegum hætti og gert er í tilfelli sérhæfðrar sjúkrahúsþjónustu. Sundurliðun fjárhæðarinnar er að finna í sérstökum yfirlitum III með breytingartillögu meiri hlutans.

Skýringar við breytingartillögur á gjaldahlið.


01 Alþingi og eftirlitsstofnanir þess.
01.10 Alþingi.
    Gerð er tillaga um 16 millj. kr. tímabundið framlag vegna kostnaðar við svonefnda framtíðarnefnd. Hún hefur verið verkefni Stjórnarráðsins frá því hún var fyrst skipuð árið 2018 en beiðni um tilfærslu hefur verið tekin fyrir í forsætisnefnd og fengið jákvæðar undirtektir að því tilskildu að Alþingi hafi fjárheimild til að standa myndarlega að verkefninu. Kostnaður Alþingis felst í launakostnaði sérfræðings sem starfar með nefndinni og einhverjum útlögðum kostnaði fyrir utan húsnæði og fundaraðstöðu sem Alþingi getur lagt til.

01.20 Eftirlitsstofnanir Alþingis.
    Gerð er tillaga um 10 millj. kr. tímabundið framlag til umboðsmanns Alþingis þar sem aðstæður hafa breyst frá því að frumvarpið var unnið. Umboðsmaður Alþingis verður í launuðu leyfi í sex mánuði, frá 1. nóvember 2020, og því er þörf á fjárveitingu vegna aukins launakostnaðar sem af því hlýst.
    Þá er gerð tillaga um 7 millj. kr. tímabundið framlag til umboðsmanns Alþingis árið 2021 fyrir hálfa stöðu lögfræðings vegna frumkvæðisathugana embættisins. Takmarkaður mannafli og fjöldi kvartana kemur í veg fyrir að unnt sé að sinna þeim sem skyldi.

02 Dómstólar.
02.10 Hæstiréttur.
    Gerð er tillaga um 8 millj. kr. lækkun framlags til ritunar og útgáfu sögu Hæstaréttar og verður það þá 4 millj. kr. í samræmi við áætlanir.

02.20 Héraðsdómstólar.
    Gerð er tillaga um 8 millj. kr. hækkun framlags sem nýtt verði til að styrkja upplýsingatækniinnviði.

03 Æðsta stjórnsýsla.
03.10 Embætti forseta Íslands.
    Lögð er til tímabundin breyting til eins árs á hagrænni skiptingu hjá embætti forseta Íslands, að fjárhæð 12 millj. kr., vegna endurnýjunar á viðhafnarbifreið. Eldri bifreiðin er 13 ára, óhagkvæm í rekstri og uppfyllir ekki þær öryggiskröfur sem nú eru gerðar til slíkra bifreiða. Nýja bifreiðin verður vistvæn og umtalsvert sparneytnari en sú eldri auk þess að uppfylla nauðsynlegar öryggiskröfur. Fjárhæðin færist af almennum rekstri á tæki og búnað.

04 Utanríkismál.
04.10 Utanríkisþjónusta og stjórnsýsla utanríkismála.
    Gerð er tillaga um 15 millj. kr. tímabundið framlag vegna árlegs þings Hringborðs Norðurslóða (Arctic Circle). Utanríkisráðuneytið hefur undanfarin ár fengið tímabundið framlag til þess að styðja við framkvæmd Hringborðs norðurslóða. Við 2. umræðu um frumvarp til fjárlaga fyrir árið 2020 var ákveðið að veita slíkan stuðning á yfirstandandi ári. Lagt er til að utanríkisráðuneytinu verði gert kleift að gera samning um slíkan stuðning til lengri tíma.
    Þá er gerð tillaga um 7 millj. kr. tímabundið framlag vegna starfa fyrrverandi forseta Íslands í þágu Hringborðs norðurslóða. Á yfirstandandi ári er gert ráð fyrir að kostnaði vegna starfa hans verð mætt af ráðstöfunarfé ríkisstjórnarinnar en tímabundin fjármögnun til þessa verkefnis féll niður um síðustu áramót. Hér er gert ráð fyrir að framlögin verði fest í sessi enda hefur ráðstefnan Hringborð norðurslóða fest sig í sessi á alþjóðavettvangi.
    Gerð er tillaga um 64 millj. kr. tímabundið framlag til viðskiptamála. Framlaginu er ætlað að mæta útgjöldum vegna áframhaldandi samningaviðræðna við Bretland og styrkingar hagsmunagæslu Íslands eftir útgöngu Breta úr ESB. Tímabundin fjárframlög falla niður í lok þessa árs. Mikilvægt er að ekki verði dregið úr getu ráðuneytisins til þess að sinna hagsmunagæslu vegna samninga við Bretland í kjölfar úrsagnar þess. Mikið verk er enn fyrir höndum við samninga við Bretland í kjölfar úrsagnar þess úr ESB og er því lagt til að ráðuneytið fái fjárframlög til að sinna þessu brýna verkefni.

04.20 Utanríkisviðskipti.
    Gerð er tillaga um 27 millj. kr. hækkun fjárveitingar til Íslandsstofu í samræmi við tekjur af markaðsgjaldi eins og þær eru áætlaðar í desember 2020 fyrir árið 2021. Fyrri áætlun gerði ráð fyrir 782 millj. kr. en nú eru þær áætlaðar 809 millj. kr.

04.30 Samstarf um öryggis- og varnarmál.
    Gerð er tillaga um 197 millj. kr. tímabundna hækkun til öryggis- og varnarmála. Brýnt er að grípa til ráðstafana til þess að auka netvarnir og varnir gegn fjölþáttaógnum á Íslandi. Yfirstandandi heimsfaraldur hefur leitt til margvíslegra breytinga á starfsháttum og samskiptum stjórnvalda, fyrirtækja og einstaklinga um allan heim. Hraði þróunar stafrænna lausna hefur aukist og mikilvægi öruggra fjarskipta og verndunar mikilvægra innviða er meira en nokkru sinni.
     Í þessu samhengi er lagt til að Ísland gerist aðili að öndvegissetri Atlantshafsbandalagsins um netvarnir í Tallinn í Eistlandi og evrópska öndvegissetrinu sem staðsett er í Helsinki í Finnlandi. Ísland er nú eina ríki Atlantshafsbandalagsins sem ekki tekur þátt í starfsemi öndvegissetursins, en virk þátttaka í starfsemi þess er skilyrði fyrir aðild. Öll hin norrænu ríkin eru aðilar, auk 26 annarra ríkja. Aðild felur í sér ótvíræðan ávinning fyrir Ísland enda eykst aðgengi að ráðgjöf, fræðslu og þjálfun í netöryggi og netvörnum auk aðgengis að sterku tengslaneti bandalagsríkjanna um málefnið. Þátttaka í starfi öndvegissetursins myndi efla þekkingu hér á landi á málaflokknum en þjálfun og fræðslu á þessu sviði hér á landi hefur til þessa verið ábótavant. Kostnaður vegna þátttöku hefur verið áætlaður 97 millj. kr. á ári.

04.50 Samningsbundin framlög vegna fjölþjóðasamstarfs.
    Gerð er tillaga um að samningsbundið framlag til norrænu ráðherranefndarinnar (NMR) fyrir árið 2021 verði um 270 millj. kr. í stað um 170 millj. kr. eins og gert er ráð fyrir í frumvarpinu, sé tekið mið af endurskoðaðri greiðsluáætlun NMR fyrir Ísland. Áætlað er að greiðslur Íslands nemi um 270 millj. kr. á yfirstandandi ári byggt á reiknireglu og í ljósi óvissu um þróun vergrar landsframleiðslu á Íslandi og í öðrum norrænum ríkjum er lagt til að miðað verði við að greiðslur verði sambærilegar fyrir árið 2021. Hingað til hafa greiðslur einungis verið greiddar í íslenskum krónum inn á reikning NMR hérlendis. Það hefur komið til þar sem framlag Íslands til NMR hefur verið lægra en greiðslur NMR til Norræna hússins í Reykjavík. Undanfarin ár hefur hlutfallslegt framlag Íslands farið hækkandi, enda reiknað samkvæmt skiptireglu sem byggist á hlutdeild Íslands í vergri þjóðarframleiðslu Norðurlanda. Árið 2019 greiddi Ísland 1,3% af heildarkostnaði við NMR, Danir 12,4%, Finnar 16,5%, Noregur 28,4% og Svíþjóð 32,4%. Í ár er hlutdeild Íslands 1,5% og því er hlutdeild Íslands í fyrsta skipti hærri en framlagið til Norræna hússins.

05 Skatta-, eigna- og fjármálaumsýsla.
05.10 Skattar og innheimta.
    Gerð er tillaga um aukin framlög til Skattsins sem nema 75 millj. kr. vegna aukinna verkefna sem tengjast ýmsum úrræðum vegna heimsfaraldurs kórónuveiru. Þau verkefni sem stofnunin sinnir eru umsýsla með fjárstuðningi til minni rekstraraðila, stuðningur í uppsagnarfresti, hlutabótaleið og viðspyrnustyrkir. Þá liggur fyrir að átakið ,,Allir vinna“ verði framlengt fram til ársins 2021 sem einnig kallar á aukin útgjöld fyrir stofnunina. Nú liggur fyrir að mörg þessara úrræða sem talin voru bundin við árið 2020 verða framlengd til ársins 2021. Að auki voru lög um breytingu á ýmsum lögum er varða eignarráð og nýtingu samþykkt á vorþingi en þau hafa í för með sér aukin útgjöld fyrir Skattinn. Lög þessi eru hluti af viðbrögðum stjórnvalda til að auka traust á íslensku atvinnulífi. Mikið álag og aukinn kostnaður hefur verið á starfsemi Skattsins vegna aukinna verkefna. Lagt er til að stofnunin fái tímabundið fjármagn vegna þessara nýju verkefna.

05.30 Fjármálaumsýsla ríkisins.
    Gerð er tillaga um breytta hagræna skiptingu, 9 millj. kr. færast af tilfærslum á laun.
    Gerð er tillaga um að 5 millj. kr. flytjist frá Nýsköpunarmiðstöð Íslands til Ríkiskaupa tímabundið í eitt ár vegna flutnings starfsmanns sem ætlað er að sinna uppbyggingu og innkaupaverkefnum þvert á stofnanir og sveitarfélög.

05.40 Stjórnsýsla ríkisfjármála.
    Greiðslur vegna höfundarréttar voru flokkaðar sem önnur gjöld en eiga samkvæmt Ríkisendurskoðun að flokkast sem tilfærslur. Hér er gerð tillaga um að breyta þessu í rétt horf. Þannig færast 10,4 millj. kr. af öðrum gjöldum á tilfærslur.

07 Nýsköpun, rannsóknir og þekkingargreinar.
07.10 Vísindi og samkeppnissjóðir í rannsóknum.
    Gerð er tillaga um að 100 millj. kr. framlag verði flutt tímabundið í eitt ár af 04-511-661 Tækniþróunarsjóður á 04-528-197 Nýsköpun og atvinnuþróun, í málaflokki 7.20, vegna framlags í samkeppnissjóð um bygginga- og mannvirkjarannsóknir sem Húsnæðis- og mannvirkjastofnun heldur utan um og atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið fjármagnar með þjónustusamningi, sbr. frumvarp um að Nýsköpunarmiðstöð Íslands verði lögð niður.

07.20 Nýsköpun, samkeppni og þekkingargreinar.
    Gert er ráð fyrir að 100 millj. kr. framlag verði flutt tímabundið í eitt ár af 04-511-661 í málaflokki 7.10 yfir á 04-528-197 vegna framlags í samkeppnissjóð um bygginga- og mannvirkjarannsóknir sem Húsnæðis- og mannvirkjastofnun heldur utan um og atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið fjármagnar með þjónustusamningi, sbr. frumvarp um að Nýsköpunarmiðstöð Íslands verði lögð niður.
    Gerð er tillaga um að 5 millj. kr flytjist frá Nýsköpunarmiðstöð Íslands til Ríkiskaupa tímabundið í eitt ár vegna flutnings starfsmanns sem ætlað er að sinna uppbyggingu í nýsköpunar- og innkaupaverkefnum þvert á stofnanir og sveitarfélög.
    Gerð er tillaga um 20 millj. kr. tímabundið framlag til Hraðsins, nýsköpunarmiðstöðvar.
    Gerð er tillaga um 5 millj. kr. tímabundið framlag til Samtaka frumkvöðla og hugvitsmanna og KVENN vegna frumkvöðlafræðslu og kynninga á íslensku hugviti erlendis.

08 Sveitarfélög og byggðamál.
08.10 Framlög til sveitarfélaga.
    Framlög til Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga eru uppfærð miðað við nýja tekjuspá og lækka um 16 millj. kr.

08.20 Byggðamál.
    Gerð er tillaga um 100 millj. kr. tímabundið framlag til að styrkja framlög til sóknaráætlana, sem nýtt verði annars vegar til viðspyrnu á svæðum þar sem ferðaþjónusta hefur verið fyrirferðarmikil og hins vegar á svæðum sem hafa glímt við einhæft atvinnulíf og fækkun starfa. Framlag fjárlaga yrði þá 582,4 millj. kr. eða hækkun um 20% frá frumvarpinu. Sóknaráætlanir landshluta hafa sýnt sig að vera öflugt fyrirkomulag til að vinna að nýsköpun og atvinnuþróun vítt og breitt um landið. Landshlutasamtök sveitarfélaga hafa staðið vel undir þeirri ábyrgð sem fylgir umsýslu fjármuna og framkvæmd sóknaráætlanasamninga og fylgja þar skýru og skilvirku verklagi við ráðstöfun fjármuna. Á yfirstandandi ári hafa verið veittar aukalega í fjáraukalögum 200 millj. kr. til verkefnisins og hafa þeir fjármunir nýst vel til viðspyrnu á tímum heimsfaraldurs kórónuveiru.
    Gerð er tillaga um breytingu tegundaskiptingar milli launa og annarra gjalda og rekstrartilfærslna. Þannig færast 115 millj. kr. af launum og öðrum gjöldum á rekstrartilfærslur.

09 Almanna- og réttaröryggi.
09.40 Réttaraðstoð og bætur.
    Gerð er tillaga um 466 millj. kr. aukið framlag til uppgjörs sanngirnisbóta vegna stofnana þar sem fötluð börn voru vistuð á árum áður. Ætlunin er að uppgjörið fari fram með aðgengilegri og einfaldari hætti en gert hefur verið áður jafnframt því að gætt verði jafnræðis milli fatlaðra einstaklinga sem voru vistaðir sem börn á Kópavogshæli annars vegar og hins vegar á öðrum sambærilegum stofnunum fyrir fötluð börn. Skipta má kostnaðinum í fernt. Í fyrsta lagi eru sanngirnisbætur sem áætlað er að taki til 80–90 einstaklinga. Það mat er byggt á reynslu af uppgjöri sanngirnisbóta vegna Kópavogshælis. Ef miðað er við að meðalbótafjárhæð verði áfram 4,87 millj. kr. er áætlaður heildarkostnaður bótanna um 390–440 millj. kr. og gert ráð fyrir að þær komi að mestu leyti til greiðslu árið 2021. Í öðru lagi er kostnaður vegna starfs tengiliðar vistheimila skv. 10. gr. laga nr. 47/2010 og er gert ráð fyrir að tengiliður starfi að hámarki í 12 mánuði í fullu starfi. Áætlaður kostnaður vegna hans er um 15–20 millj. kr. Í þriðja lagi er áætlaður kostnaður vegna starfa úrskurðarnefndar um 4 millj. kr. sem dreifist á tímabilið 2021–2023. Loks er gert ráð fyrir 5 millj. kr. kostnaði við aðkeypta sérfræðiráðgjöf. Heildarkostnaður er þannig áætlaður 414–469 millj. kr. Áætlað er að 411–466 millj. kr. falli til árið 2021, 2 millj. kr. árið 2022 og 1 millj. kr. árið 2023. Miðað er við að verkefninu verði að fullu lokið í árslok 2023.

10 Réttindi einstaklinga, trúmál og stjórnsýsla dómsmála.
10.10 Persónuvernd.
    Gerð er tillaga um 25 millj. kr. tímabundið framlag til samstarfsverkefnis Persónuverndar og Sýslumannsins á Norðurlandi eystra um þjónustuver á Húsavík. Gert er ráð fyrir tveimur starfsmönnum, lögfræðingi og skrifstofumanni.

10.20 Trúmál.
    Við fjárlagagerð árið 2020 var áætlaður fjöldi greiðenda sóknargjalda ofmetinn. Greiðendur sóknargjalda voru 1,67% færri en ráð var fyrir gert. Því er gerð tillaga um samsvarandi lækkun, 1,67%, eða 45,6 millj. kr., á þá heildarfjárhæð sem lagt var til að færi til greiðslu sóknargjalda í fjárlagafrumvarpi ársins 2021.
    Gerð er tillaga um 280 millj. kr. tímabundna hækkun sóknargjalda til samræmis við breytingartillögur efnahags- og viðskiptanefndar við frumvarp til laga um breytingu á ýmsum lögum vegna fjárlaga 2021, 5. mál, og samþykkt Alþingis. Forsendur fjárlagafrumvarpsins miðuðu við að það yrði 980 kr. á mánuði, en nú er gert ráð fyrir 100 kr. hækkun gjaldsins. Það leiðir til um 280 millj. kr. hækkunar útgjalda.

11 Samgöngu- og fjarskiptamál.
11.10 Samgöngur.
    Gerð er tillaga um 350 millj. kr. framlag sem ætlað er Njarðvíkurhöfn en þar hafa umfangsmiklar framkvæmdir til atvinnuþróunar verið í undirbúningi.
    Gerð er tillaga að tegundabreytingu með færslu milli annarra gjalda og rekstrartilfærslna. Þannig færast 5 millj. kr. af öðrum gjöldum á rekstrartilfærslur.
    Tekjufall Isavia vegna innanlandsflugs meðan á kórónuveirufaraldri hefur staðið hefur leitt til þess að brostnar forsendur eru fyrir samkomulagi ríkis og Isavia um að Isavia taki yfir rekstur og viðhald Egilsstaðaflugvallar. Gerð er tillaga um 450 millj. kr. framlag vegna þessa.

11.30 Stjórnsýsla samgönguráðuneytis.
    Gerð er tillaga um leiðréttingu á tegundaskiptingu milli annarra gjalda og rekstrartilfærslna. Þannig færast 5 millj. kr. af öðrum gjöldum á rekstrartilfærslur.
    Gerð er tillaga um 15 millj. kr. tímabundið framlag til Svæðisgarðsins Snæfellsness, sem er byggðaþróunarverkefni á Snæfellsnesi, í því skyni að styrkja sameiginlega framtíðarsýn sveitarfélaga og fleiri aðila á svæðinu í tengslum við svæðisskipulag Snæfellsness.

12 Landbúnaður.
12.10 Stjórnun landbúnaðarmála.
    Bændur hafa þurft að eiga við fjölbreytt áhrif heimsfaraldurs kórónuveiru. Dregið hefur úr eftirspurn á markaði vegna verulegrar fækkunar ferðamanna en áætlað er að sá samdráttur jafngildi rúmlega 30 þúsund færri neytendum í landinu á árinu. Söluþróun kindakjöts hefur verið verulega óhagstæð og er uppsöfnuð sala fyrstu tíu mánuði ársins 17,9% minni en árið 2019. Sala síðustu þriggja mánaða er rúmlega 30% minni en á sama tíma í fyrra. Útflutningur kindakjöts hefur einnig dregist verulega saman eða um þriðjung undanfarna tíu mánuði vegna erfiðra aðstæðna á erlendum mörkuðum. Ullarafurðir eru einnig stór liður í afkomu sauðfjárbænda og hefur ullarverð lækkað um 13,5% að meðaltali á árinu. Þá hefur afurðaverð til nautgripabænda vegna kýrkjöts lækkað um 10% á árinu en framleiðsla þeirra afurða er um 40% af heildarframleiðslu. Sala fyrstu tíu mánuði ársins hefur einnig dregist saman um 5%. Þá hefur meðalafurðaverð til nautgripabænda ekki náð sér á strik eftir 10% verðlækkun frá árinu 2018. Þessi þróun hefur komið greininni afar illa þar sem uppbygging hefur átt sér stað á undanförnum misserum með nýju erfðaefni og áherslu á að auka gæði til muna. Þá eru vísbendingar um talsverða birgðasöfnun í nautakjöti. Í flokknum geldneyti eru nú um 20% fleiri lifandi gripir en á sama tíma árið 2019. Áætlað er að lifandi birgðir í landinu séu um 2.200 tonn en til samanburðar var heildarframleiðsla í flokknum árið 2019 um 3.000 tonn. Þá liggja fyrir vísbendingar um offramboð á erlendum kjötmörkuðum vegna heimsfaraldursins og hefur heimsmarkaðsverð á kjöti lækkað um 14% frá því í janúar 2020 samkvæmt upplýsingum frá FAO. Sú þróun er líkleg til að hafa enn neikvæðari áhrif á afurðaverð til bænda. Báðar greinar hafa átt í erfiðleikum undanfarin ár og þá sérstaklega sauðfjárrækt sem hefur farið í gegnum hrun afurðaverðs á síðustu árum og hafa ýmsir velt því fyrir sér hvort greinin sé komin að þolmörkum. Áður en áhrifa heimsfaraldurs fór að gæta var því staða greinanna erfið.
    Úrræði stjórnvalda hafa ekki gagnast bændum nema að takmörkuðu leyti og er því talin þörf á að grípa til sértækra aðgerða til að mæta erfiðri stöðu stéttarinnar í kjölfar heimsfaraldursins. Stuðningur ríkisins við bændur fer í gegnum svokallaða búvörusamninga. Þar eru styrkjaflokkar sem tengjast vanda bænda sem lýst er að framan. Með því að auka fjármagn til samninganna verður unnt að mæta áhrifum faraldursins á bændur og beina stuðningi til þeirra sem hafa átt við mestan vanda að glíma. Með hliðsjón af sölusamdrætti fyrstu tíu mánuði ársins á kinda- og nautakjöti auk lækkunar afurðaverðs á ull og kýrkjöti frá áramótum er áætlað að framleiðsluvirði beggja greina dragist saman um 14% á milli ára, sem nemur um 983 millj. kr. lækkun framleiðsluvirðis án opinberra styrkja árið 2019. Á verðlagi ársins 2020 nemur þessi fjárhæð 1.010 millj. kr. Með hliðsjón af þessu má ætla að stuðningur við greinarnar eigi að nema allt að milljarði króna.
    Í ljósi framangreinds er gerð tillaga um 242,5 millj. kr. framlag til kúabænda og 727,5 millj. kr. til sauðfjárbænda.
    Gerð er tillaga um að 42 millj. kr. framlag flytjist frá málaflokknum Rannsóknir, þróun og nýsköpun í sjávarútvegi til Matvælastofnunar sem heyrir undir málaflokkinn Stjórnun landbúnaðarmála. Flytja á þrjú stöðugildi til eflingar starfsstöðva Matvælastofnunar á landsbyggðinni á sviði fiskeldis. Um er að ræða nánari útfærslu á 280 millj. kr. framlagi til eflingar haf- og matvælarannsókna sem var samþykkt í fjárlögum fyrir árið 2020.
    Gerð er tillaga um breytta hagræna skiptingu 42 millj. kr. framlags vegna flutnings á þremur stöðugildum til eflingar starfsstöðva Matvælastofnunar á landsbyggðinni á sviði fiskeldis. 40 millj. kr. fara í laun og 2 millj. kr. í önnur gjöld sem voru áður undir rekstrartilfærslum. Um er að ræða nánari útfærslu á 280 millj. kr. framlagi til eflingar haf- og matvælarannsókna sem var samþykkt í fjárlögum fyrir árið 2020.

12.20 Rannsóknir, þróun og nýsköpun í landbúnaðarmálum.
    Gerð er tillaga um að 40 millj. kr. framlag verði flutt yfir á 04-432-110 Matvælarannsóknir vegna tveggja ára samnings við Matís um starfsemi á landsbyggðinni. Um er að ræða nánari útfærslu á 280 millj. kr. framlagi til eflingar grunnrannsókna á sviði hafrannsókna og matvælarannsókna sem kom inn við fjárlagafrumvarp fyrir árið 2020 og sett var á 04-982.
    Gerð er tillaga um að 34,5 millj. kr. flytjist af fjárlagalið 04-432-110 Matvælarannsóknir yfir á 04-982-110 Ýmis framlög í sjávarútvegi. Um er að ræða leiðréttingu vegna stofnunar nýs fjárlagaliðar 04-432 Matvælaöryggi í frumvarpinu og millifærslu fjárveitinga sem gerð var þá í tengslum við það.
    Gerð er tillaga um 15 millj. kr. hækkun gjaldaheimildar að því er snertir málefni sýklalyfjaónæmis. Um er að ræða tekjur sem koma frá heilbrigðisráðuneytinu vegna helmingshlutdeildar þess í fjármögnun sýklalyfjaónæmis- og súnusjóðs en atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið fer með forræði verkefnisins. Hinn 8. febrúar 2019 undirrituðu sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra og heilbrigðisráðherra yfirlýsingu um sameiginlegt átak til að draga úr útbreiðslu sýklalyfjaónæmra baktería á Íslandi. Í yfirlýsingunni felast aðgerðir sem miða að því að hefta útbreiðslu sýklalyfjaónæmis og marka þær opinbera stefnu stjórnvalda í þessum málaflokki og er tillaga þessi liður í þeirri stefnumörkun. Í framhaldinu var tekin ákvörðun um að skipa stýrihóp um reglur og viðbrögð vegna sýklalyfjaónæmra baktería. Áætlað var að á árinu 2019 mundi sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra leggja 30 millj. kr. til verkefnisins og heilbrigðisráðherra 15 millj. kr. til þess. Litið er á fyrirkomulagið sem framtíðarfjármögnun verkefnisins.

13 Sjávarútvegur og fiskeldi.
13.20 Rannsóknir, þróun og nýsköpun í sjávarútvegi.
    Gerð er tillaga um að 40 millj. kr. framlag verði flutt frá málaflokknum Rannsóknir, þróun og nýsköpun í sjávarútvegi yfir á fjárlagalið 04-432-110 Matvælarannsóknir vegna tveggja ára samnings við Matís um starfsemi á landsbyggðinni. Um er að ræða nánari útfærslu á 280 millj. kr. framlagi til eflingar grunnrannsókna á sviði hafrannsókna og matvælarannsókna í fjárlagafrumvarpi fyrir árið 2020 og sett var á fjárlagalið 04-982.
    Jafnframt er gerð tillaga um að 42 millj. kr. framlag flytjist frá málaflokknum til Matvælastofnunar sem heyrir undir málaflokkinn Stjórnun landbúnaðarmála. Flytja á þrjú stöðugildi til eflingar starfsstöðva Matvælastofnunar á landsbyggðinni á sviði fiskeldis. Um er að ræða nánari útfærslu á 280 millj. kr. framlagi til eflingar haf- og matvælarannsókna sem var samþykkt í fjárlögum fyrir árið 2020.
    Gerð er tillaga um að 34,2 millj. kr. flytjist á fjárlagalið 04-982-110 Ýmis framlög í sjávarútvegi af fjárlagalið 04-432-110 Matvælarannsóknir. Um er að ræða leiðréttingu vegna stofnunar nýs fjárlagaliðar 04-432 Matvælaöryggi í frumvarpinu og millifærslu fjárveitinga sem gerð var þá í tengslum við það.
    Gerð er tillaga um 10 millj. kr. tímabundið framlag til Þekkingarseturs Vestmannaeyja. Framlaginu er ætlað að auðvelda setrinu að endurnýja rannsóknarbát sem staðsettur verður í Vestmannaeyjum.

15 Orkumál.
15.10 Stjórnun og þróun orkumála.
    Gerð er tillaga um 90 millj. kr. varanlegt framlag. Í frumvarpinu er gert ráð fyrir að framlag til jöfnunar á dreifikostnaði hækki um 730 millj. kr. á næsta ári og það dugar til að jafna um 85% af heildarþörfinni. Gerð er breytingartillaga þar sem þetta framlag er hækkað um 90 millj. kr. og þá dugar það til að ná fullri jöfnun frá og með 1. september á næsta ári án þess að til komi frekari hækkun jöfnunargjalds.

17 Umhverfismál.
17.20 Rannsóknir og vöktun á náttúru Íslands.
    Gerð er tillaga um 48 millj. kr. tímabundið framlag til náttúrustofa.

17.50 Stjórnsýsla umhverfismála.
    Gerð er tillaga um að veittar verði 80 millj. kr. vegna fyrirhugaðs umhverfissamnings við framleiðendur í minkarækt. Umhverfis- og auðlindaráðuneytið, samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytið og atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið lögðu 10 millj. kr. hvert í verkefnið á árinu 2020. Einnig liggur fyrir tillaga í frumvarpi til fjáraukalaga þar sem lagt er til að 50 millj. kr. verði veittar í verkefnið. Heildarstuðningur við verkefnið nemur því alls 160 millj. kr. á tveimur árum ef báðar tillögurnar ná fram að ganga. Markmiðið með verkefninu er að kanna kosti minkaræktar til eyðingar á lífrænum úrgangi frá matvælaframleiðendum en verkefnið styður markmið stjórnvalda um aukaafurðir við vinnslu kjöts og fisks, sbr. almenna stefnu um úrgangsforvarnir, Saman gegn sóun 2016–2027.

18 Menning, listir, íþrótta- og æskulýðsmál.
18.10 Safnamál.
    Gerð er tillaga um 7 millj. kr. tímabundið framlag til varðskipsins Óðins.

18.30 Menningarsjóðir.
    Gerð er tillaga um 5 millj. kr. tímabundið framlag til Þjóðlagaseturs sr. Bjarna Þorsteinssonar.
    Gerð er tillaga um 6 millj. kr. tímabundið framlag til Flugsafns Íslands.
    Gerð er tillaga um 3 millj. kr. tímabundið framlag til Steinshúss ses.
    Gerð er tillaga um 8 millj. kr. tímabundið framlag til Pálshúss.
    Gerð er tillaga um 5 millj. kr. tímabundið framlag til Minjafélags Þykkvabæjarkapellu.
    Gerð er tillaga um 3 millj. kr. tímabundið framlag til Oddafélagsins vegna Sæmundarstofu.
    Gerð er tillaga um 10 millj. kr. tímabundið framlag til Prentsöguseturs í Skálholti.
    Gerð er tillaga um 12 millj. kr. tímabundið framlag til RIFF, Alþjóðlegu kvikmyndahátíðarinnar í Reykjavík.
    Gerð er tillaga um 15 millj. kr. tímabundið framlag til Skaftfells.
    Gerð er tillaga um 5 millj. kr. tímabundið framlag til Tækniminjasafns Austurlands.
    Gerð er tillaga um 2 millj. kr. tímabundið framlag til Barnamenningarsjóðs í því skyni að heildarframlag í fjárlögum verði 100 millj. kr. í samræmi við þingsályktun Alþingis frá 18. júlí 2018 um stofnun sjóðsins.

18.40 Íþrótta- og æskulýðsmál.
    Gerð er tillaga um 470 millj. kr. fjárheimild á árinu 2021 til stuðnings íþróttafélögum vegna fastra rekstrarútgjalda á því tímabili sem samkomutakmarkanir koma í veg fyrir eðlilega starfsemi félaganna. Markmið stuðnings er að tryggja áframhaldandi faglegt íþróttastarf og rekstrargrundvöll íþróttafélaga.
    Gert er ráð fyrir að stuðningur verði veittur fyrir tvö tímabil, annars vegar 1. október til 31. desember 2020 og hins vegar 1. janúar til 30. júní 2021. Þar sem óvissa er um hvernig faraldurinn þróast á næstu mánuðum er úthlutun skipt í tvö tímabil. Ef öll starfsemi getur hafist án takmarkana fljótlega á nýju ári er mögulegt að ekki þurfi að veita stuðning fyrir seinna tímabilið.
    Tillagan er hluti af áformum um 820 millj. kr. stuðning til íþrótta- og æskulýðsfélaga en gerð verður tillaga um 350 millj. kr. við 2. umræðu um frumvarp til fjáraukalaga fyrir árið 2020.

19 Fjölmiðlun.
19.10 Fjölmiðlun.
    Gerð er tillaga um breytingu á framlagi til RÚV í samræmi við tekjuáætlun af útvarpsgjaldi. Samkvæmt uppfærðri tekjuáætlun er gert ráð fyrir að innheimta af útvarpsgjaldi aukist um 140 millj. kr. frá tekjuáætlun sem höfð var til hliðsjónar í frumvarpi til fjárlaga fyrir árið 2021.

20 Framhaldsskólastig.
20.10 Framhaldsskólar.
    Gerð er tillaga um að framlag sem nemur 5,4 millj. kr. vegna dönskukennslu í grunnskólum, sem hefur verið geymt í málaflokki 20.10 Framhaldsskólar, á safnlið framhaldsskóla 02-314, verði fært yfir í málaflokk 22 Önnur skólastig og stjórnsýsla mennta- og menningarmála, lið 22.10 Leikskóla- og grunnskólastig, þar sem haldið er utan um verkefnið.
    Gerð er tillaga um að 1.211 milljónir kr. verði veittir vegna fjölgunar nemenda á framhaldsskólastigi vegna aðstæðna sem rekja má til heimsfaraldurs kórónuveiru. Gera má ráð fyrir að reiknuðum nemendum fjölgi um 1.340 á milli ára, úr 17.480 í 18.820, sem er fjölgun um 7,7%. Heildarfjárþörf nemur 1,7 milljörðum kr. og bætist framlagið við 500 millj. kr. sem veittar voru í frumvarpinu til nemendafjölgunar í framhaldsskóla.
    Gerð er tillaga um að veitt verði 1.728 millj. kr. framlag til framhaldsskólastigs í tengslum við verkefnið Nám er tækifæri sem er ætlað að veita atvinnuleitendum tækifæri til þátttöku í námsúrræðum á framhalds- og háskólastigi, auk framhaldsfræðslu. Framlagið byggist á mati framkvæmdanefndar um Nám er tækifæri, þar sem gert er ráð fyrir því að nemendum í framhaldsskólum fjölgi um 1.200 á árinu 2021 á grundvelli verkefnisins. Gert er ráð fyrir að árið 2022 verði sótt um 1.152 millj. kr. framlag til framhaldsskólastigsins vegna verkefnisins.
    Gerð er tillaga um að veitt verði 30 millj. kr. framlag til að efla atvinnu- og menntaúrræði á Suðurnesjum. Ríkisstjórnin samþykkti að efla menntun á Suðurnesjum með því að setja á laggirnar menntanet í samstarfi við menntastofnanir á svæðinu. Skipuð verði stjórn yfir menntanetinu með fulltrúum þeirra menntastofnana sem taka þátt en jafnframt tilnefnir ríkið formann stjórnarinnar. Fyrirhugað er að ráðstafað verði allt að 300 millj. kr. til kaupa á þjónustu hjá menntaneti á Suðurnesjum til að efla náms- og starfsúrræði fyrir atvinnuleitendur á svæðinu samkvæmt mati framkvæmdanefndar. Stofnframlag og kostnaður við rekstur netsins gæti orðið í kringum 70 millj. kr. á næstu þremur árum.
    Gerð er tillaga um að veitt verði 77 millj. kr. framlag vegna fjölgunar nemenda á starfsbraut fyrir fatlað fólk. Gert er ráð fyrir að nemendum á starfsbraut fjölgi um 39 á milli ára, eða úr 524 í 563, sem er aukning um 7,4%.
    Gerð er tillaga um að 5 millj. kr. verði fluttar af liðnum Orlof og endurmenntun kennara yfir á lið 02-723-101 fyrir Kennararáð.

21 Háskólastig.
21.10 Háskólar og rannsóknastarfsemi.
    Gerð er tillaga um 927,8 millj. kr. framlag til að bregðast við fjölgun nemenda við Háskóla Íslands í kjölfar kórónuveirufaraldurs. Skráðum nemendum hefur fjölgað við skólann og gert er ráð fyrir að ársnemum fjölgi um 1.028 frá fyrra ári. Framlagið kemur til viðbótar 330,3 millj. kr. framlagi sem ráðstafað var til skólans af 500 millj. kr. svigrúmi sem veitt var í frumvarpinu. Í háskólakerfinu er gert ráð fyrir að ársnemum fjölgi alls um 1.464, sem er um 10% af heildarfjölda ársnema á árinu 2020.
    Gerð er tillaga um 114,6 millj. kr. framlag til að bregðast við fjölgun nemenda við Háskólann á Akureyri í kjölfar kórónuveirufaraldurs. Skráðum nemendum hefur fjölgað við skólann og gert er ráð fyrir að ársnemum fjölgi um 92 frá fyrra ári. Framlagið kemur til viðbótar 43,4 millj. kr. framlagi sem ráðstafað var til skólans af 500 millj. kr. svigrúmi sem veitt var í frumvarpinu.
    Gerð er tillaga um 151,7 millj. kr. framlag til að bregðast við fjölgun nemenda við Landbúnaðarháskóla Íslands í kjölfar kórónuveirufaraldurs. Skráðum nemendum hefur fjölgað við skólann og gert er ráð fyrir að ársnemum fjölgi um 96 frá fyrra ári. Framlagið kemur til viðbótar 53,4 millj. kr. framlagi sem ráðstafað var til skólans af 500 millj. kr. svigrúmi sem veitt var í frumvarpinu.
    Jafnframt er gerð tillaga um að lækka rekstrarfjárveitingu til Landbúnaðarháskóla Íslands og hækka fjárfestingarframlag um 22,8 millj. kr. þannig að fjárfestingarframlag ársins 2021 verði 40 millj. kr.
    Gerð er tillaga um 52,2 millj. kr. framlag til að bregðast við fjölgun nemenda við Háskólann á Hólum í kjölfar kórónuveirufaraldurs. Skráðum nemendum hefur fjölgað við skólann og gert er ráð fyrir að ársnemum fjölgi um 48 frá fyrra ári. Framlagið kemur til viðbótar 19,2 millj. kr. framlagi sem ráðstafað var til skólans af 500 millj. kr. svigrúmi sem veitt var í frumvarpinu.
    Gerð er tillaga um 58 millj. kr. framlag til að bregðast við fjölgun nemenda við Háskólann á Bifröst í kjölfar kórónuveirufaraldurs. Skráðum nemendum hefur fjölgað við skólann og gert er ráð fyrir að ársnemum fjölgi um 91 frá fyrra ári. Framlagið kemur til viðbótar 20,8 millj. kr. framlagi sem ráðstafað var til skólans af 500 millj. kr. svigrúmi sem veitt var í frumvarpinu.
    Gerð er tillaga um 87,7 millj. kr. framlag til að bregðast við fjölgun nemenda við Háskólann í Reykjavík í kjölfar kórónuveirufaraldurs. Skráðum nemendum hefur fjölgað við skólann og gert er ráð fyrir að ársnemum fjölgi um 106 frá fyrra ári. Framlagið kemur til viðbótar 31,7 millj. kr. framlagi sem ráðstafað var til skólans af 500 millj. kr. svigrúmi sem veitt var í frumvarpinu.
    Gerð er tillaga um 3,7 millj. kr. framlag til að bregðast við fjölgun nemenda við Listaháskóla Íslands í kjölfar kórónuveirufaraldurs. Skráðum nemendum hefur fjölgað við skólann og gert er ráð fyrir að ársnemum fjölgi um fjóra frá fyrra ári. Framlagið kemur til viðbótar 1,2 millj. kr. framlagi sem ráðstafað var til skólans af 500 millj. kr. svigrúmi sem veitt var í frumvarpinu.
    Gerð er tillaga um að veitt verði tímabundið 971,2 millj. kr. framlag til háskólastigs í tengslum við verkefnið Nám er tækifæri sem er ætlað að veita atvinnuleitendum tækifæri til þátttöku í námsúrræðum á framhalds- og háskólastigi, auk framhaldsfræðslu. Af framlaginu er gert ráð fyrir að 100 millj. kr. fari til aðfararnáms. Framlagið byggist á mati framkvæmdanefndar um Nám er tækifæri, þar sem gert er ráð fyrir að nemendum í háskólum fjölgi um 600 á árinu 2021 á grundvelli verkefnisins. Gert er ráð fyrir að árið 2022 verði sótt um 630,8 millj. kr. framlag til háskólastigsins vegna verkefnisins.
    Gerð er tillaga um 35 millj. kr. tímabundið framlag vegna endurbóta á húsnæði Landbúnaðarháskóla Íslands á Reykjum í Ölfusi og gerð þarfagreiningar fyrir aðstöðu fyrir jarðræktarrannsóknir á Hvanneyri. Kennsluhúsnæði fyrir garðyrkjunám hefur verið ónothæft undanfarið. Með framlaginu lýkur nauðsynlegum endurbótum á hluta af húsnæði skólans. Jafnframt þarf að ráðast í þarfagreiningu og hönnun á framtíðarhúsnæði og byggingu á aðstöðu fyrir jarðræktarrannsóknir á Hvanneyri sem fluttar voru frá Korpu að Hvanneyri, en líða fyrir aðstöðuleysi.

22 Önnur skólastig og stjórnsýsla mennta- og menningarmála.
22.10 Leikskóla- og grunnskólastig.
    Gerð er tillaga um að framlag sem nemur 5,4 millj. kr. vegna dönskukennslu í grunnskólum, sem hefur verið geymt í málaflokki 20.10 Framhaldsskólar, safnlið framhaldsskóla 02-314, verði fært yfir í málaflokk 22 Önnur skólastig og stjórnsýsla mennta- og menningarmála, lið 22.10 Leikskóla- og grunnskólastig, þar sem haldið er utan um verkefnið.

22.20 Framhaldsfræðsla og menntun óflokkuð á skólastig.
    Gerð er tillaga um 15 millj. kr. tímabundið framlag til Fjölmenntar, símenntunar- og þekkingarmiðstöðvar.
    Gerð er tillaga um 30 millj. kr. tímabundið framlag til Austurbrúar.

22.30 Stjórnsýsla mennta- og menningarmála.
    Lagt er til að 5 millj. kr. verði fluttar af lið 02-315-110 Orlof og endurmenntun framhaldsskólakennara til kennararáðs sem fellur undir Menntamálastofnun.
    Gerð er tillaga um 5 millj. kr. tímabundið framlag sem er ætlað að styrkja þær aðgerðir sem snúa að því að vinna nýtt námsefni fyrir framhaldsskóla sem á að vera tilbúið til notkunar og aðgengilegt á vefsvæði Menntamálastofnunar.
    Gerð er tillaga um 4,1 millj. kr. tímabundið framlag til Menntamálastofnunar til að fylgja eftir aðgerðum í þingsályktun um forvarnir gegn kynferðislegu og kynbundnu ofbeldi og áreitni ásamt áætlun fyrir árin 2021– 2025. Framlagið er til viðbótar við þær 6,4 millj. kr. sem þegar er gert ráð fyrir í fjármálaáætlun 2021–2025 og frumvarpi til fjárlaga fyrir árið 2021.

23 Sjúkrahúsþjónusta.
23.10 Sérhæfð sjúkrahúsþjónusta.
    Gerð er tillaga um þrjár millifærslur til Landspítala:
    Lyfjagreiðslunefnd er lögð niður frá ársbyrjun 2021 og verkefni hennar færð til Lyfjastofnunar annars vegar og Landspítala hins vegar. Í frumvarpinu eru 54,4 millj. kr. í fjárlagaramma lyfjagreiðslunefndar. Gerð er tillaga um millifærslu á 39,4 millj. kr. í fjárlagaramma Lyfjastofnunar og 15 millj. kr. í ramma Landspítala.
    Gerð er tillaga um millifærslu á 207 millj. kr. af fjárlagalið 08-212-110 Lyf með S-merkingu. Er millifærslan gerð vegna kostnaðarhækkana sem breytingar á flokkun lyfja sem áður tilheyrðu lyfjum með S-merkingu yfir á almenn lyf hafa í för með sér.
    Verkefni Krabbameinsfélags Íslands færast í ársbyrjun til embættis landlæknis, Landspítala og heilsugæslunnar. Í fjárlagaramma Krabbameinsfélagsins í frumvarpinu eru 336,8 millj. kr. Brjóstaskimanir og leghálsspeglanir færast til Landspítala og er gerð tillaga um millifærslu á 141,7 millj. kr. í fjárlagaramma hans vegna þeirra.

23.20 Almenn sjúkrahúsþjónusta.
    Gerð er tillaga um millifærslu á 28 millj. kr. af fjárlagalið 08-212-110 Lyf með S-merkingu yfir á lið 08-700 101. Er millifærslan gerð vegna kostnaðarhækkana sem breytingar á flokkun lyfja sem áður tilheyrðu lyfjum með S-merkingu yfir á almenn lyf hafa í för með sér.
    Í upphafi árs 2021 tekur nýtt fjármögnunarlíkan fyrir heilsugæslu á landsbyggðinni gildi. Við það er mikilvægt að gjöld heilbrigðisstofnana séu rétt bókuð á málefnasvið stofnana. Með hliðsjón af því eru gerðar eftirfarandi sex tillögur:
          Að færa 92,6 millj. kr. (gjöld alls) vegna kostnaðar af rekstri rannsóknarstofa og myndgreiningum á sjúkrasvið Heilbrigðisstofnunar Vestfjarða og af nýja viðfanginu vegna heilsugæsluþjónustu samkvæmt reiknilíkani (08-507-220). Framlag Heilbrigðisstofnunar Vestfjarða til dreifingar innan reiknilíkansins lækkar því sem þessu nemur.
          Að færa 124,2 millj. kr. (gjöld alls) vegna kostnaðar á rannsóknum á blóðsýnum og myndgreiningum á sjúkrasvið Heilbrigðisstofnunar Norðurlands og af nýja viðfanginu vegna heilsugæsluþjónustu samkvæmt reiknilíkani (08-507-230). Í annarri tillögu er fært framlag á nýja viðfangið. Framlag Heilbrigðisstofnunar Norðurlands til dreifingar innan reiknilíkansins lækkar því sem þessu nemur.
          Að færa 35 millj. kr. (gjöld alls) vegna kostnaðar á rannsóknum á blóðsýnum og myndgreiningum á sjúkrasvið Heilbrigðisstofnunar Austurlands og af nýja viðfanginu vegna heilsugæsluþjónustu samkvæmt reiknilíkani (08-507-240). Í annarri tillögu er fært framlag á nýja viðfangið. Framlag Heilbrigðisstofnunar Austurlands til dreifingar innan reiknilíkansins lækkar því sem þessu nemur.
          Að færa 139,6 millj. kr. (gjöld alls) vegna launa og kostnaðar sérgreinalækna á sjúkrasvið Heilbrigðisstofnunar Austurlands og af nýja viðfanginu vegna heilsugæsluþjónustu samkvæmt reiknilíkani (08-507-240). Í annarri tillögu er fært framlag á nýja viðfangið. Framlag Heilbrigðisstofnunar Austurlands til dreifingar innan reiknilíkansins lækkar því sem þessu nemur.
          Að færa 142,3 millj. kr. (gjöld alls) vegna reksturs á slysa- og bráðamóttöku á sjúkrasvið Heilbrigðisstofnunar Suðurnesja og af nýja viðfanginu vegna heilsugæsluþjónustu samkvæmt reiknilíkani (08-507-260). Í annarri tillögu er fært framlag á nýja viðfangið. Framlag Heilbrigðisstofnunar Suðurnesja til dreifingar innan reiknilíkansins lækkar því sem þessu nemur.
          Að færa 102,4 millj. kr. (gjöld alls) vegna reksturs fæðingardeildar á sjúkrasvið Heilbrigðisstofnunar Suðurnesja og af nýja viðfanginu vegna heilsugæsluþjónustu samkvæmt reiknilíkani (08-507-240). Í annarri tillögu er fært framlag á nýja viðfangið. Framlag Heilbrigðisstofnunar Suðurnesja til dreifingar innan reiknilíkansins lækkar því sem þessu nemur.
    Gerð er tillaga um 250 millj. kr. millifærslu fjárveitingar milli málefnasviða hjá Heilbrigðisstofnun Suðurlands, á 23 Sjúkrahúsþjónusta af 24 Heilbrigðisþjónusta utan sjúkrahúsa. Tillagan er gerð til samræmis við rekstraráætlun stofnunarinnar.
    Gerð er til tillaga um 29,8 millj. kr. millifærslu frá heilsugæslusviði Heilbrigðisstofnunar Norðurlands yfir á sjúkrasvið vegna húsaleigu Ríkiseigna.

24 Heilbrigðisþjónusta utan sjúkrahúsa.
24.10 Heilsugæsla.
    Í ársbyrjun færast verkefni Krabbameinsfélags Íslands til embættis landlæknis, Landspítala og heilsugæslunnar. Skimanir fyrir leghálskrabbameini færast til heilsugæslunnar og fer fjárveiting annars vegar til samhæfingarmiðstöðvar heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins (08-506) og fjármögnunarlíkans heilsugæslu (08-507). Hér er annars vegar gerð tillaga um millifærslu á 70 millj. kr. fjárveitingu til samhæfingarmiðstöðvarinnar og hins vegar millifærslu á 84,9 millj. kr. fjárveitingu til fjármögnunarlíkans heilsugæslulíkans á höfuðborgarsvæðinu.
    Í upphafi árs 2021 tekur nýtt fjármögnunarlíkan fyrir heilsugæslu á landsbyggðinni gildi. Við það er mikilvægt að gjöld heilbrigðisstofnana séu rétt bókuð á málefnasvið stofnana. Með hliðsjón af því eru gerðar eftirfarandi sex tillögur:
          Að færa 92,6 millj. kr. (gjöld alls) vegna kostnaðar á rannsóknum á blóðsýnum og myndgreiningum á sjúkrasvið Heilbrigðisstofnunar Vestfjarða og af nýja viðfanginu vegna heilsugæsluþjónustu samkvæmt reiknilíkani (08-507-220). Framlag Heilbrigðisstofnunar Vestfjarða til dreifingar innan reiknilíkansins lækkar því sem þessu nemur.
          Að færa 124,2 millj. kr. (gjöld alls) vegna kostnaðar á rannsóknum á blóðsýnum og myndgreiningum á sjúkrasvið Heilbrigðisstofnunar Norðurlands og af nýja viðfanginu vegna heilsugæsluþjónustu samkvæmt reiknilíkani (08-507-230). Í annarri tillögu er fært framlag á nýja viðfangið. Framlag Heilbrigðisstofnunar Norðurlands til dreifingar innan reiknilíkansins lækkar því sem þessu nemur.
          Að færa 35 millj. kr. (gjöld alls) vegna kostnaðar á rannsóknum á blóðsýnum og myndgreiningum á sjúkrasvið Heilbrigðisstofnunar Austurlands og af nýja viðfanginu vegna heilsugæsluþjónustu samkvæmt reiknilíkani (08-507-240). Í annarri tillögu er fært framlag á nýja viðfangið. Framlag Heilbrigðisstofnunar Austurlands til dreifingar innan reiknilíkansins lækkar því sem þessu nemur.
          Að færa 139,6 millj. kr. (gjöld alls) vegna launa og kostnaðar sérgreinalækna á sjúkrasvið Heilbrigðisstofnunar Austurlands og af nýja viðfanginu vegna heilsugæsluþjónustu samkvæmt reiknilíkani (08-507-240). Í annarri tillögu er fært framlag á nýja viðfangið. Framlag Heilbrigðisstofnunar Austurlands til dreifingar innan reiknilíkansins lækkar því sem þessu nemur.
          Að færa 142,3 millj. kr. (gjöld alls) vegna reksturs á slysa- og bráðamóttöku á sjúkrasvið Heilbrigðisstofnunar Suðurnesja og af nýja viðfanginu vegna heilsugæsluþjónustu samkvæmt reiknilíkani (08-507-260). Í annarri tillögu er fært framlag á nýja viðfangið. Framlag Heilbrigðisstofnunar Suðurnesja til dreifingar innan reiknilíkansins lækkar því sem þessu nemur.
          Að færa 102,4 millj. kr. (gjöld alls) vegna reksturs fæðingardeildar á sjúkrasvið Heilbrigðisstofnunar Suðurnesja og af nýja viðfanginu vegna heilsugæsluþjónustu samkvæmt reiknilíkani (08-507-240). Í annarri tillögu er fært framlag á nýja viðfangið. Framlag Heilbrigðisstofnunar Suðurnesja til dreifingar innan reiknilíkansins lækkar því sem þessu nemur.
    Gerð er tillaga um 250 millj. kr. millifærslu fjárveitingar milli málefnasviða hjá Heilbrigðisstofnun Suðurlands, á 23 Sjúkrahúsþjónusta af 24 Heilbrigðisþjónusta utan sjúkrahúsa. Tillagan er gerð til samræmis við rekstraráætlun stofnunarinnar.
    Gerð til tillaga um 64,3 millj. kr. millifærslu frá heilsugæslusviði yfir á hjúkrunarsvið vegna húsaleigu hjá Heilbrigðisstofnun Norðurlands til Ríkiseigna.
    Gerð til tillaga um 29,8 millj. kr. millifærslu frá heilsugæslusviði yfir á sjúkrasvið vegna húsaleigu hjá Heilbrigðisstofnun Norðurlands til Ríkiseigna.
    Gerð er tillaga um millifærslu 16,4 millj. kr. fjárveitingar af lið hjúkrunar í heimahúsum á lið Heilbrigðisstofnunar Norðurlands. Samningur um heimahjúkrun á Akureyri færist til Heilbrigðisstofnunar Norðurlands.
    Gerð er tillaga um breytta hagræna skiptingu fjárveitingar í fjárlögum, 16,4 millj. kr. færast af tilfærslum á önnur gjöld.
    Gerð er tillaga um millifærslu 45,5 millj. kr. fjárveitingar af lið Heilbrigðisstofnunar Suðurnesja. Verkefni sjúkraflutninga í Grindavík færast til Brunavarna Suðurnesja.
    Gerð er tillaga um 2 millj. kr. tímabundið framlag til að fylgja eftir aðgerðum í þingsályktun um forvarnir gegn kynferðislegu og kynbundnu ofbeldi og áreitni ásamt áætlun fyrir árin 2021–2025. Framlaginu er ætlað að styrkja þróun fræðsluefnis heilsugæslunnar.

24.20 Sérfræðiþjónusta og hjúkrun.
    Gerð er tillaga um millifærslu 16,4 millj. kr. fjárveitingar af lið hjúkrunar í heimahúsum á lið Heilbrigðisstofnunar Norðurlands. Samningur um heimahjúkrun á Akureyri færist til Heilbrigðisstofnunar Norðurlands.

24.30 Sjúkraþjálfun, iðjuþjálfun og talþjálfun.
    Gerð er tillaga um 15 millj. kr. millifærslu vegna viðbótarsamnings við Þraut og breytta hagræna skiptingu af öðrum gjöldum á tilfærslur.

24.40 Sjúkraflutningar.
    Gerð er tillaga um millifærslu 45,5 millj. kr. fjárveitingar af lið Heilbrigðisstofnunar Suðurnesja. Verkefni sjúkraflutninga í Grindavík færast til Brunavarna Suðurnesja.

25 Hjúkrunar- og endurhæfingarþjónusta.
25.10 Hjúkrunar- og dvalarrými.
    Ríkisstjórnin hefur samþykkt að auka fjárveitingar til reksturs hjúkrunarrýma um 1.350 millj. kr. til að fjölga um allt að 100 rými.
    Gerð til tillaga um 64,3 millj. kr. millifærslu frá heilsugæslusviði á hjúkrunarsvið vegna húsaleigu hjá Heilbrigðisstofnun Norðurlands til Ríkiseigna.
    Gerð er tillaga um 300,8 millj. kr. tímabundið framlag til þess að fullt tillit sé tekið til breytinga á hjúkrunarþyngd íbúa hjúkrunarheimila á milli ára.

25.20 Endurhæfingarþjónusta.
    Gerð er tillaga um 15 millj. kr. millifærslu af lið endurhæfingarþjónustu vegna viðbótarsamnings við Þraut.
    Gerð er tillaga um 30 millj. kr. tímabundið framlag til SÁÁ.
    Gerð er tillaga um 40 millj. kr. tímabundið framlag til Samhjálpar.

26 Lyf og lækningavörur.
26.10 Lyf.
    Gerð er tillaga um 207 millj. kr. millifærslu af fjárlagalið 08-212-110 Lyf með S-merkingu á lið 08-373-101 og 28 millj. kr. millifærslu á lið 08-700-101 vegna kostnaðarhækkana sem breytingar á flokkun lyfja sem áður tilheyrðu lyfjum með S-merkingu yfir á almenn lyf hafa í för með sér.

26.30 Hjálpartæki.
    Í ársbyrjun 2021 tekur gildi nýtt skipurit Sjúkratrygginga Íslands. Þá verður verkefnum hjálpartækjamiðstöðvar skipt niður á þrjár deildir. Fram til þessa hefur kostnaður við rekstur hjálpartækjamiðstöðvar verið færður yfir á hjálpartækjaliðinn og sértekjur á móti á Sjúkratryggingar Íslands. Nú er talið rétt að færa kostnaðinn til frambúðar á Sjúkratryggingar og hætta þar með færslum á milli liða. Hér eru gjöld lækkuð á hjálpartækjalið til samræmis við þann kostnað sem færður hefur verið á liðinn vegna rekstrar, 630 millj. kr. Sambærileg tillaga er gerð um hækkun gjalda hjá Sjúkratryggingum Íslands.

27 Örorka og málefni fatlaðs fólks.
27.10 Bætur skv. lögum um almannatryggingar, örorkulífeyrir.
    Gert er ráð fyrir að liðurinn Vasapeningar örorkulífeyrisþega verði 21 millj. kr. undir fjárheimildum samkvæmt spá Tryggingastofnunar sem byggir á útkomuspá 2020 og þróun bótaliðarins.
    Gert er ráð fyrir að liðurinn Örorkustyrkur verði 61 millj. kr. undir fjárheimildum samkvæmt spá Tryggingastofnunar sem byggir á útkomuspá 2020 og þróun bótaliðarins.

27.20 Bætur skv. lögum um félagslega aðstoð, örorka.
    Gert er ráð fyrir 2,6 milljarða kr. aukningu á fjárheimildum ársins vegna endurhæfingarlífeyris. Þrátt fyrir 1,5 milljarða kr. viðbót í frumvarpinu gerir spá Tryggingastofnun ráð fyrir þessari vöntun. Hlutfallsleg fjölgun endurhæfingarlífeyrisþega frá september 2018 til september 2019 var 24% og fjölgun á milli september 2019 og september 2020 var 26% þannig að Tryggingastofnun spáir núna um 25% fjölgun á milli áranna 2020 og 2021. Gert hefur verið ráð fyrir 2,5% fjölgun milli ára og 1,5 milljarða kr. viðbót til að vinna upp fjölgun fyrri ára. Áhersla hefur verið á að beina þeim sem kostur er, sérstaklega ungu fólki, fyrst í endurhæfingu til að freista þess að draga úr nýgengi örorku. Auk þess hefur verið vilji heilbrigðisstétta til að halda yngri fólki í endurhæfingu sé þess nokkur kostur og eins eru endurhæfingarlífeyrisþegar lengur í endurhæfingu. Þar af leiðandi fjölgar í þessum hópi. Vísbendingar eru um að dragi úr aukningu á nýgengi örorku, en nokkur ár tekur að sjá árangur af því.
    Gert er ráð fyrir 600 millj. kr. aukningu á fjárheimildum ársins vegna heimilisuppbótar örorkulífeyrisþega. Meðalfjöldi á mánuði fer úr 6.346 á mánuði árið 2019 í 6.589 á mánuði árið 2020, sem er um 3,8% fjölgun (í fjárlögum er gert ráð fyrir 2,5%). Tryggingastofnun gerir eigi að síður bara ráð fyrir 2% fjölgun bótaþega sem er varlega áætlað. Áætlaður fjöldi á mánuði að meðaltali fyrir árið 2021 væri því um 6.721, en spá Tryggingastofnunar fyrir árið 2021 er um 4.017 millj. kr. þannig að það gerir 597.618 kr. að meðaltali í greiðslur á mann fyrir árið 2021. Þá gerir Tryggingastofnun ráð fyrir lækkun tekna örorkulífeyrisþega á árinu 2021, m.a. vegna atvinnumissis.
    Gert er ráð fyrir 150 millj. kr. aukningu á fjárheimildum ársins vegna sérstakrar uppbótar örorkulífeyrisþega. Breyting var á þessum bótaflokki í ágúst 2019 og miðast fjöldatölurnar við þann tíma. Meðalfjöldi á mánuði fer úr 12.902 á mánuði árið 2019 í 13.246 á mánuði árið 2020, sem er um 2,7% fjölgun. Spá Tryggingastofnunar gerir ráð fyrir 2% fjölgun bótaþega sem er varlega áætluð fjölgun. Áætlaður fjöldi á mánuði að meðaltali fyrir árið 2021 væri því 13.511, spá Tryggingastofnunar fyrir árið 2021 er um 5.805 millj. kr. þannig að það gerir 429.618 kr. að meðaltali í greiðslur á mann fyrir árið 2021. Einnig gerir TR ráð fyrir lækkun tekna örorkulífeyrisþega á árinu 2021, m.a. vegna atvinnumissis.
    Gert er ráð fyrir að liðurinn Frekari uppbætur verði 23 millj. kr. undir fjárheimildum samkvæmt spá Tryggingastofnunar sem byggir á útkomuspá 2020 og þróun bótaliðarins.
    Gert er ráð fyrir að liðurinn Bifreiðakostnaður örorkulífeyrisþega verði 295 millj. kr. undir fjárheimildum samkvæmt spá Tryggingastofnunar sem byggist á útkomuspá 2020 og þróun bótaliðarins. Um óreglulegan lið er að ræða.
    Gert er ráð fyrir 600 millj. kr. aukningu á fjárheimildum ársins vegna barnalífeyris. Ekki er reiknaður kerfislægur vöxtur á barnalífeyri í fjárlögum, en viðtakendum fjölgar. Meðalfjöldi á mánuði fer úr um 6.773 á mánuði árið 2019 í um 7.024 á mánuði árið 2020, sem er um 3,7% fjölgun. Tryggingastofnun gerir ráð fyrir 5% fjölgun bótaþega sem er hugsanlega ofáætluð fjölgun, en gera má ráð fyrir að barneignum fjölgi á næsta ári. Árgangurinn 2009 er t.d. fjölmennasti árgangurinn sem fæðst hefur á Íslandi og hægt að búast við einhverju svipuðu 2021.

27.30 Málefni fatlaðs fólks.
    Gerð er tillaga um 12,2 millj. kr. tímabundna hækkun málaflokksins sem vegur að fullu á móti almennri aðhaldskröfu liðarins réttindagæsla fatlaðra.
    Gerð er tillaga um 300 millj. kr. tímabundna hækkun á framlagi til þess að fjölga NPA-samningum í samræmi við fyrirætlanir þar um samkvæmt frumvarpi sem varð að lögum um þjónustu við fatlað fólk með langvarandi stuðningsþarfir, nr. 38/2018.

27.40 Aðrar örorkugreiðslur (Önnur velferðarmál, lífeyristrygg.)
    Gert er ráð fyrir að liðurinn Lífeyristryggingar, annað verði 26 millj. kr. undir fjárheimildum samkvæmt spá Tryggingastofnunar sem byggist á útkomuspá 2020 og þróun bótaliðarins.

27.50 Jöfnun á örorkubyrði almennra lífeyrissjóða.
    Lagt er til að hækka fjárveitingu liðarins Jöfnun örorkubyrði almennra lífeyrissjóða um 250 millj. kr. Hækkunin er í samræmi við útgjaldaferil sem ræðst af fyrirliggjandi tekjuáætlun. Við endurmat tekjuáætlunarinnar hækkaði tryggingagjaldsstofninn, en framlagið fylgir vexti hans. Við þessa breytingu verður framlagið af almenna tryggingagjaldinu til jöfnunar á örorkubyrði 5.044 millj. kr. á árinu 2021.

28 Málefni aldraðra.
28.10 Bætur skv. lögum um almannatryggingar, lífeyrir aldraðra.
    Gert er ráð fyrir 2,1 milljarða kr. aukningu á fjárheimildum ársins til ellilífeyris sem er um 2,5% viðbót við fjárheimild liðarins. Atvinnutekjur og fjármagnstekjur ellilífeyrisþega lækka en á móti hækka lífeyrissjóðstekjur. Nánast engir ellilífeyrisþegar hafa engar tekjur. Þeir sem koma nýir inn á ellilífeyrir hafa hærri meðaltekjur en þeir sem falla frá eða fara yfir á ráðstöfunarfé. Ellilífeyrisþegum fjölgar frá ágúst 2019 til ágúst 2020, úr 34.235 í 35.841, sem er um 4,7% aukning á ári, en frumvarpið gerir ráð fyrir 3% aukningu. Spá Tryggingastofnunar gerir ráð fyrir lægri prósentuaukningu á greiðslum til ellilífeyris á næsta ári þar sem meðaltal lífeyrissjóðstekna hækka og gert er ráð fyrir að prósentuaukningin verði um 3,9% á næsta ári (fyrir utan launabætur). Tölur frá Hagstofunni um fjölgun eldri borgara staðfesta að einhverju leyti spá Tryggingastofnunar ríkisins.

28.30 Þjónusta við aldraða og aðrar greiðslur, óta.
    Gert er ráð fyrir 300 millj. kr. aukningu á fjárheimildum ársins til félagslegs viðbótarstuðnings við aldraða. Lög um félagslegan viðbótarstuðning við aldraða voru samþykkt á Alþingi sumarið 2020 og komu til framkvæmda 1. nóvember 2020. Það er því ekki komin reynsla á framkvæmdina og miða áætlanir við þær forsendur sem fram koma í kostnaðarmati við frumvarpið. Þar var gert ráð fyrir 300 millj. kr. millifærslu innan málefnasviðsins þar sem þróun síðustu ára hefur verið sú að tekjur aldraðra hafa aukist og svigrúm því verið á málefnasviðinu og varanlega 200 millj. kr. til viðbótar árið 2021. Nú þegar eru 100 millj. kr. inn í ramma málefnasviðsins. Nú hefur hins vegar komið í ljós að þessi þróun hefur snúist við. Fjölgun þeirra sem taka ellilífeyri er umfram forsendur fjárlaga fyrir árið 2020 og tekjur ellilífeyrisþega hafa lækkað sem er viðsnúningur frá fyrri þróun og því þörf á viðbót í greiðslur til ellilífeyrisþega.

29 Fjölskyldumál.
29.10 Barnabætur.
    Lagt er til að skerðingarmörk tekna vegna almennra barnabóta hækki í takt við lágmarkstekjutryggingu á komandi ári sem er 351 þús. kr. á mánuði. Skerðingarmörk tekna hækka því úr 3,9 millj. kr. á ári í 4,2 millj. kr. hjá einstæðu foreldri og úr 7,8 millj. kr. á ári í 8,4 fyrir samanlagðan tekjuskattsstofn hjóna og sambúðarfólks. Gert er ráð fyrir að útgjöld til barnabóta aukist við þetta um 865 millj. kr.

29.30 Bætur skv. lögum um félagslega aðstoð, fjölskyldur.
    Gert er ráð fyrir 240 millj. kr. aukningu á fjárheimildum ársins vegna mæðra- og feðralauna. Breytt verklag Tryggingastofnunar vegna meiri áherslu á frumkvæði og upplýsingaskyldu stjórnvalda þar sem foreldrum verður sent bréf og tilkynnt um þessi réttindi eru talin munu fjölga þeim sem sækja um mæðra- og feðralaun, auk þess sem sumir þeirra gætu átt rétt á greiðslum allt að tvö ár aftur í tímann. Þetta er talið auka útgjöld liðarins. Matið er gróf nálgun miðað við fjölda en ómögulegt er að segja nákvæmlega fyrir um áhrif breytts verklags.

29.40 Annar stuðningur við fjölskyldur og börn.
    Gerð er tillaga um að millifæra 75 millj. kr. fjárheimild af viðfangi almenns rekstrar 07-400-101 yfir á stofnkostnaðarlið 07-400-621. Í fjárlögum fyrir árið 2020 var fjárhæðin millifærð af stofnkostnaðarlið yfir á almennan rekstur til að standa straum af breytingum á Stuðlum. Nú er þess óskað að fjárheimildin verði flutt aftur á stofnkostnaðarlið svo að hægt sé að hækka árlegt framlag til fyrirhugaðrar byggingar meðferðarheimilis í Garðabæ.
    Gerð er tillaga um 80 millj. kr. framlag til Greiningar- og ráðgjafarstöðvar ríkisins. Tillagan er hluti af félagslegum aðgerðum vegna COVID-19 til að styðja við atvinnuleitendur, lífeyrisþega, barnafjölskyldur og félagslega viðkvæma hópa. Fjárveitingin kemur til með að styrkja starfsemi Greiningar- og ráðgjafarstöðvar ríkisins svo hægt verði að fækka á biðlista stofnunarinnar eftir þjónustu en nú eru 340 börn þar á biðlista. Framlagið gerir það að verkum að biðlistinn styttist í 200 börn fyrir árslok 2021. Markhópurinn er fyrst og fremst börn á aldrinum 2–6 ára. Biðlistinn í þeim aldurshópi færi úr 214 börnum niður í 70. Hér er þó rétt að taka fram að sé um alvarlegar raskanir að ræða er og verður biðtími styttri. Staðan er nú þannig hjá Greiningar- og ráðgjafarstöð ríkisins að börn á aldrinum 0–2 ára þurfa öllu jöfnu ekki að bíða eftir þjónustu. Markmiðið er að meðalbiðtími í lok árs 2021 verði aldrei lengri en 10 mánuðir og unnið er að aðgerðum til að tryggja að í framhaldinu styttist sá tími enn frekar. Munu þær aðgerðir m.a. byggjast á sameiginlegri greiningu félagsmálaráðuneytis og heilbrigðisráðuneytis á biðlistum barna eftir greiningu og meðferð hjá BUGL, Þroska- og hegðunarstöð og svo Greiningar- og ráðgjafarstöð ríkisins. Stofnunin hefur ekki fengið algjöra undanþágu fyrir starfsemi sína vegna faraldursins. Biðlistinn hefur ekki lengst á undanförnum mánuðum en stofnunin hefur ekki náð að vinna hann niður. Með 80 millj. kr. fjárveitingu er hægt að bæta við teymi sérfræðinga, sem í eru barnalæknir, tveir sálfræðingar, félagsráðgjafi, verkefnastjóri og ritari, auk stofnkostnaðar. Gert er ráð fyrir að þjálfunartími teymis sé 4–8 vikur í upphafi áður en fullum afköstum er náð.
    Gerð er tillaga um 100 millj. kr. aukningu á fjárheimildum ársins vegna umönnunargreiðslna. Fjölgun þeirra sem fá greiddar umönnunarbætur var 3,2% frá september 2019 til september 2020 og gerir spá Tryggingastofnun því ráð fyrir um 3% aukningu milli áranna 2020 og 2021, en í frumvarpinu er gert ráð fyrir 2,5% aukningu á alla sem er undir þeirri fjölgun sem verið hefur.
    Gerð er tillaga um 40 millj. kr. millifærslu af liðnum 07-999-196 Velferðarstyrkir á sviði félagsmála á liðinn 07-999-121 Fjölskyldumál, ýmis verkefni. Félagsmálaráðuneytið hefur hafið ný verkefni sem krefjast eftirfylgni og frekari þróunar á komandi árum undir hatti verkefnisins Barnvænt Ísland og er mikilvægt að fjármagn til þeirra verkefna verði betur skilgreint á viðeigandi fjárlagalið. Meðal annars er um er að ræða þróun mælaborðs fyrir ríki og sveitarfélög þar sem helstu tölfræðigögn og vísar um líðan og velferð barna og ungmenna á Íslandi eru vöktuð. Mælaborðið er mikilvægur liður í að nýta gagnreyndar rannsóknir og aðferðir til að bregðast við aðstæðum barna og beina sjónum stjórnvalda að verkefnum sem brýnt er að takast á við og forgangsraða. Verkefnið Barnvænt Ísland miðar einnig að því að styðja við heildstæða innleiðingu barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna í víðtæku samstarfi við félagsþjónustu sveitarfélaga og þvert á ráðuneyti. Snýr það m.a. að því að fylgja eftir stefnu um innleiðingu sáttmálans, koma á verklagi við að meta áhrif/hagsmuni barna í tengslum við stjórnarfrumvörp og stefnumótun (sambærilegt og við framkvæmd jafnréttismats) og auka þátttöku barna og ungmenna. Verkefnið Barnvænt Ísland veitir einnig sveitarfélögum stuðning við að auka þátttöku barna og ungmenna í skipulagningu þjónustu, nýtingu gagnreyndra aðferða og raunprófaðra upplýsinga í stefnumótun. Fer sú vinna fram í samstarfi við UNICEF í tengslum við verkefnið Barnvæn sveitarfélög. Mikill áhugi hefur verið meðal sveitarfélaga á að taka þátt í verkefninu, en fyrirhugað er að 10 sveitarfélög bætist í hópinn 2021. Fyrir höfðu 11 sveitarfélög þegar hafið innleiðingu verkefnisins.
    Gerð er tillaga um 6 millj. kr. tímabundið framlag til að fylgja eftir aðgerðum í þingsályktun um forvarnir gegn kynferðislegu og kynbundnu ofbeldi og áreitni ásamt áætlun fyrir árin 2021–2025. Framlaginu er ætlað að styrkja aðgerðir sem snúa að því að búa til netnámskeið fyrir fólk sem starfar með börnum og ungmennum annars vegar og þróunar á námsefni fyrir leikskóla hins vegar.
    Gerð er tillaga um 18 millj. kr. tímabundið framlag til Aflsins.

29.70 Málefni innflytjenda og flóttamanna.
    Gerð er tillaga um 20 millj. kr. framlag til Fjölmenningarseturs. Tillagan er hluti af félagslegum aðgerðum vegna COVID-19 til að styðja við atvinnuleitendur, lífeyrisþega, barnafjölskyldur og félagslega viðkvæma hópa. Fjárveitingin er til að auka starfsemi Fjölmenningarseturs og efla heimasíðu þeirra svo að hægt verið að bæta upplýsingagjöf stjórnvalda til innflytjenda en sá hópur er fjölmennur á atvinnuleysisskrá. Gert er ráð fyrir stöðugildi vefumsjónarmanns í hálft ár til að gera endurbætur á heimasíðunni. Einnig er gert ráð fyrir að setja á stofn ráðgjafarstofu fyrir innflytjendur og opna hana í janúar 2021. Þar verður viðbótarstöðugildi. Í ljósi aðstæðna í samfélaginu þarf að efla upplýsingaflæði til innflytjenda sérstaklega. Um 8.200 erlendir ríkisborgarar voru án atvinnu í október og hlutfall erlendra ríkisborgara á atvinnuleysisskrá er yfir 40%. Hlutfall innflytjenda af þeim sem fengu fjárhagsaðstoð í Reykjanesbæ var 57% á fyrstu sex mánuðum ársins. Þar á eftir komu Reykjavík með 36% og Kópavogur með 32%. Innflytjendur leita einnig mikið til félagasamtaka eftir aðstoð og í sumum tilvikum eru innflytjendur hátt í helmingur skjólstæðinga þeirra. Vinnumálastofnun hefur sett á laggirnar alþjóðadeild sem hefur það hlutverk að huga sérstaklega að úrræðum fyrir innflytjendur á atvinnuleysisskrá. Mikið álag er á deildinni og fer gjarnan meiri tími í að leiðbeina innflytjendum um aðra þætti innan stjórnkerfisins en því sem snýr að vinnumarkaði vegna takmarkaðrar þekkingar sem margir innflytjendur hafa á stjórnkerfinu og hlutverki stofnana. Sambærilegar ábendingar hafa einnig komið frá félagsþjónustum sveitarfélaga og öðrum stofnunum.
    Gerð er tillaga um 20 millj. kr. framlag í Þróunarsjóð innflytjendamála. Tillagan er hluti af félagslegum aðgerðum vegna COVID-19 til að styðja við atvinnuleitendur, lífeyrisþega, barnafjölskyldur og félagslega viðkvæma hópa. Fjárveitingunni er ætlað að kosta virkniúrræði fyrir ungmenni 16–19 ára en samkvæmt tölum Hagstofunnar eru vísbendingar um að staða ungmenna af erlendum uppruna sem hvorki eru í skóla né á vinnumarkaði (NEET) sé mikið áhyggjuefni. Nýlega voru tölur vinnumarkaðsrannsóknar fyrir þennan hóp greindar eftir uppruna og kom þá í ljós að 39% af 19 ára gömlum stúlkum af erlendum uppruna voru hvorki í vinnu né námi árið 2018 og 31% drengja. Hluti af skýringunni kann að vera að einhver hluti af hópnum hafi flust til útlanda og teljist enn með í tölfræðigögnunum en óháð því þá er um mjög hátt hlutfall að ræða. Sé litið yfir aldurshópinn í heild eru 24,1% einstaklinga af erlendum uppruna hvorki í námi né vinnu. Gera má ráð fyrir að staða þessa hóps sé sérlega viðkvæm núna í ljósi COVID-19 þar sem framboð á atvinnutækifærum er mjög takmarkað og aukin hætta er á brotthvarfi úr framhaldsskólum vegna áhrifa samkomutakmarkana, skerts skólastarfs og félagslegrar einangrunar. Nauðsynlegt er að grípa til aðgerða vegna þessa hóps núna þar sem hætta er á langvarandi afleiðingum fyrir þessi ungmenni sem þurfa sérstaka aðstoð til að verða virk, hvort sem það er í námi eða á vinnumarkaði. Gert er ráð fyrir að fjárheimildin fari sem tímabundin heimild í Þróunarsjóð innflytjendamála.

30 Vinnumarkaður og atvinnuleysi.
30.10 Vinnumál og atvinnuleysi.
    Eftirfarandi fjórar tillögur eru hluti af félagslegum aðgerðum vegna COVID-19 til að styðja við atvinnuleitendur, lífeyrisþega, barnafjölskyldur og félagslega viðkvæma hópa:
          Gerð er tillaga um 6 milljarða kr. tímabundna fjárveitingu vegna framlengingar úrræðis um atvinnuleysisbætur samhliða minnkuðu starfshlutfalli. Ákveðið hefur verið að framlengja úrræðið til loka maímánaðar 2021 eða í samtals fimm mánuði. Í októbermánuði 2020 nýttu 4.760 einstaklingar sér hlutabótaleiðina. Samkvæmt upplýsingum Vinnumálastofnunar má gera ráð fyrir að 5.000 einstaklingar muni nýta sér úrræðið um atvinnuleysisbætur samhliða minnkuðu starfshlutfalli. Áætlaður kostnaður er um 1,2 milljarðar kr. á mánuði eða 6 milljarðar kr. yfir tímabilið janúar til maí. Rúmlega 70% umsækjenda fá greidda hámarksgreiðslu sem nemur 50% af hámarksgreiðslu tekjutengdra bóta, og eru greiddar tæplega 202.000 kr. að meðaltali til hvers umsækjanda ásamt mótframlagi í lífeyrissjóð. Ljóst er að útgjöld sveiflast eftir fjölda umsækjenda, en jafnframt að hækkun atvinnuleysistrygginga um áramótin hafa áhrif til hækkunar í hlutabótaleiðinni einnig.
          Gerð er tillaga um 700 millj. kr. tímabundna hækkun framlags á árinu 2021. Greiðslur vegna framfærslu barna atvinnuleitenda voru hækkaðar tímabundið úr 4% af grunnbótum í 6% frá 1. júní til 31. desember 2020. Lagt er til að ákvæðið verði framlengt út árið 2021. Kostnaður vegna þessa nemur 700 millj. kr. á ársgrundvelli. Atvinnuleitendur fá greitt 4% af fullum atvinnuleysisbótum með hverju barni á framfæri. Hlutfall þeirra greiðslna hefur verið tímabundið hækkað í 6% og gildir um það tímabil þegar réttur til tekjutengdra atvinnuleysisbóta er fullnýttur. Um þriðjungur atvinnuleitenda að meðaltali fær greidda barnadagpeninga. Áætlar Vinnumálastofnun að greiðslur barnadagpeninga nemi alls um 2.300 millj. kr. á árinu 2021 og miðar sú áætlun við að atvinnuleysi verði að jafnaði 10,55% á árinu og greiði að meðaltali barnadagpeninga til 7.500 atvinnuleitenda.
          Lagt er til að greitt verði sérstakt 2,5% viðbótarálag á grunnbætur atvinnuleysistrygginga á árinu 2021 sem kemur til móts við þann stóra hóp sem á næstu mánuðum fellur út af tekjutengdum atvinnuleysisbótum. Álagið komi til viðbótar þeirri 3,6% hækkun sem gert er ráð fyrir í frumvarpinu. Heildarkostnaður þessa viðbótarálags nemur um 2 milljörðum kr. á árinu 2021.
          Lögð er til 1.200 millj. kr. tímabundin hækkun framlags á árinu 2021 til átaks í náms- og starfsúrræðum fyrir atvinnuleitendur í kjölfar kórónuveirufaraldursins. Í öðrum fjáraukalögum fyrir árið 2020 voru veittir 2 milljarðar kr. til átaksins. Nú liggur fyrir að framlagið verður ekki nýtt á árinu 2020 þar sem átakið Nám er tækifæri hefur kallað á töluverðan undirbúning og kemst ekki í framkvæmd fyrr en í byrjun árs 2021. Þegar hafa 800 millj. kr. verið færðar yfir á árin 2021 og 2022. Í frumvarpinu eru 550 millj. kr. og í fjármálaáætlun 2021–2025 er gert ráð fyrir 250 millj. kr. á árinu 2022. Á móti kemur að gert er ráð fyrir að 2 milljarða kr. fjárheimild sem veitt var í öðrum fjáraukalögum ársins 2020 falli niður. Verkefnið gerir ráð fyrir námsplássum fyrir 3.000 atvinnuleitendur í framhaldsskólum og háskólum. Jafnframt er gert ráð fyrir að unnt verði að mæta óskum atvinnuleitenda um að fara á ýmiss konar námskeið, auk þess sem ráðgjöf Vinnumálastofnunar við þennan hóp verði stórefld með tímabundinni ráðningu 15 ráðgjafa.
    Gerð er tillaga um 500 millj. kr tímabundna fjárveitingu til að mæta launagreiðslum íþróttafélaga sem gert er að láta af starfsemi á tímabilinu 1. október 2020 til 30. júní 2021, að hluta eða öllu leyti, vegna opinberra sóttvarnaráðstafana í tengslum við heimsfaraldur kórónuveirunnar. Áætlað er að tímabil í samkomubanni frá 8. október til 15. desember 2020 nái yfir 68 daga. Áfram ríkir nokkur óvissa um þróun faraldursins og ómögulegt er að segja til um hversu lengi grípa þarf til sérstakra aðgerða vegna hans. Samkomubannið tekur til 33 sérsambanda, 25 héraðssambanda/íþróttabandalaga og um 408 íþrótta- og ungmennafélaga. Fjárveitingunni er ætlað að stuðla að því að sem minnstar raskanir verði á íþróttastarfi á Íslandi til lengri tíma litið.
    Gerð er tillaga um 40 millj. kr. hækkun á framlagi til VIRK starfsendurhæfingarsjóðs vegna uppfærðrar tekjuáætlunar fyrir árið 2020 en sjóðurinn fær framlög samkvæmt útkomu næstliðins árs.
    Gerð er tillaga um 600 millj. kr. fjárveitingu vegna lokunarstyrkja til fyrirtækja. Í lögum um breytingu á lögum um lokunarstyrki sem samþykkt voru 5. nóvember sl. var sú breyting gerð að réttur til lokunarstyrks getur í síðasta lagi stofnast 30. júní 2021. Þar sem ekki er vitað hvort beita þurfi lokunum á næsta ári er hér lagt til að gert verði ráð fyrir að þess þurfi í einn mánuð og miðast 600 millj. kr. fjárveiting við fyrri kostnað á árinu 2020 vegna lokunarstyrkja.
    Lagt er til að rekstraraðilar sem hafa orðið fyrir tekjufalli vegna heimsfaraldurs kórónuveiru og aðgerða stjórnvalda til að verjast útbreiðslu hennar geti sótt um viðspyrnustyrki sem stuðli að því að þeir geti viðhaldið nauðsynlegri lágmarksstarfsemi á meðan áhrifa faraldursins gætir. Gert er ráð fyrir að kostnaður vegna styrkjanna verði líklega ekki hærri en 19,8 milljarðar kr.

32 Lýðheilsa og stjórnsýsla velferðarmála.
32.10 Lýðheilsa, forvarnir og eftirlit.
    Gerð er tillaga um þrjár millifærslur fjárveitinga til embættis landlæknis:
              Gerð er tillaga um millifærslu 3 millj. kr. fjárveitingar vegna verkefnis um sýklalyfjaónæmi.
              Gerð er tillaga um millifærslu 6,1 millj. kr. fjárveitingar af lið 08-399-198 til að mæta kostnaði við árgjald leyfis hjá Prodacapo.
              Verkefni Krabbameinsfélags Íslands færast í ársbyrjun til embættis landlæknis, Landspítala og heilsugæslunnar. Í fjárlagaramma Krabbameinsfélagsins í frumvarpinu eru 336,8 millj. kr. Gerð er tillaga um millifærslu á 40,2 millj. kr. frá félaginu til embættis landlæknis. Tillagan miðar við:
               fjárveitingu á einu stöðugildi sérfræðings á svið gæða og eftirlits (12 millj. kr.),
               fjárveitingu á einu stöðugildi sérfræðings á svið heilbrigðisupplýsinga vegna skimunarskrár (12 millj. kr.),
               fjárveitingu á einu stöðugildi sérfræðings í samning embættis landlæknis við Krabbameinsfélagið vegna krabbameinsskrár (12 millj. kr.),
               hýsingu skimunarskrár og viðhaldskostnað (4,2 millj. kr.).
    Reynslan af kórónuveirufaraldrinum sýnir að brýn þörf er á að styrkja starfsemi sóttvarnalæknis. Því er gerð er tillaga um að styrkja grunn sóttvarnasviðs landlæknis með tveimur stöðugildum sérfræðinga sem nemur 28,6 millj. kr. Gerð er tillaga um að bæta einum starfsmanni í greiningarteymi og öðrum í teymi rafrænna upplýsingakerfa á heilbrigðisupplýsingasviði sem sérstaklega sinnir þróun upplýsingakerfa sóttvarnalæknis, öflun gagna um smitsjúkdóma og vöktun smitsjúkdóma með greiningu og miðlun þessara gagna. Starf þessara tveggja viðbótarstarfsmanna styður verulega við starf sérfræðinga á sóttvarnasviði, eflir vöktun og nýtist við að taka ákvarðanir um viðbrögð og aðgerðir.
    Lagt er til að veitt verði 1.350 millj. kr. fjárveiting á vábirgðalið hjá sóttvarnalækni til að unnt verði að kaupa bóluefni gegn COVID-19 á næsta ári. Svíar taka þátt í samningum um kaup á bóluefni sem ESB-ríki og er heimilt að framselja hluta bóluefnisins til EES-ríkjanna Noregs og Íslands. Talið er að einstaklingar þurfi tvo skammta af bóluefninu og ef miðað er við að bólusetja þurfi 75% þjóðarinnar með tveimur skömmtum þurfi um 550 þúsund skammta af bóluefni.
    Verkefni Krabbameinsfélags Íslands færast í ársbyrjun til embættis landlæknis, Landspítala og heilsugæslunnar. Í fjárlagaramma Krabbameinsfélagsins í frumvarpinu eru 336,8 millj. kr. og flyst sú fjárhæð með verkefnunum:
               Brjóstaskimanir og leghálsspeglanir færast til Landspítala og er gerð tillaga um millifærslu á 141,7 millj. kr. í fjárlagaramma spítalans vegna þeirra.
               Skimanir fyrir leghálskrabbameini færast til heilsugæslunnar og fer 70 millj. kr. fjárveiting til samhæfingarmiðstöðvar heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins (08-506) og 84,9 millj. kr. til fjármögnunarlíkans heilsugæslu (08-507).
               Til embættis landlæknis flytjast 40,2 millj. kr. sem fyrr greinir.
    Lyfjagreiðslunefnd er lögð niður frá ársbyrjun 2021 og verkefni hennar færð til Lyfjastofnunar annars vegar og Landspítala hins vegar. Í frumvarpinu eru 54,4 millj. kr. í fjárlagaramma nefndarinnar. Gerð er tillaga um millifærslu á 39,4 millj. kr. til Lyfjastofnunar og 15 millj. kr. í ramma Landspítala.

32.20 Jafnréttismál.
    Gerð er tillaga um 20 millj. kr. tímabundið framlag til Samtakanna ´78.
    Gerð er tillaga um 4 millj. kr. tímabundið framlag til að fylgja eftir aðgerðum í þingsályktun um forvarnir gegn kynferðislegu og kynbundnu ofbeldi og áreitni ásamt áætlun fyrir árin 2021–2025. Framlaginu er ætlað að nýtast fyrir starf forvarnafulltrúa Sambands íslenskra sveitarfélaga.

32.30 Stjórnsýsla heilbrigðismála.
    Í ársbyrjun 2021 tekur gildi nýtt skipurit fyrir Sjúkratryggingar Íslands. Þá verður verkefnum hjálpartækjamiðstöðvar skipt niður á þrjár deildir. Fram til þessa hefur kostnaður við rekstur hjálpartækjamiðstöðvar verið færður yfir á hjálpartækjaliðinn og sértekjur á móti á Sjúkratryggingar Íslands. Nú er talið rétt að færa kostnaðinn til frambúðar á Sjúkratryggingar og hætta þar með færslum á milli liða. Hér eru gjöld hækkuð á Sjúkratryggingar Íslands til samræmis við þann kostnað sem færður hefur verið á hjálpartækjaliðinn vegna rekstrar. Sambærileg tillaga er gerð um lækkun gjalda á þeim lið. Jafnframt eru sértekjur lækkaðar og gjöld hækkuð í samræmi við kostnaðinn og verður sama upphæð síðan færð af hjálpartækjalið á Sjúkratryggingar.
    Lyfjagreiðslunefnd er lögð niður frá ársbyrjun 2021 og verkefni hennar færð til Lyfjastofnunar annars vegar og Landspítala hins vegar. Í frumvarpinu eru 54,4 millj. kr. í fjárlagaramma lyfjagreiðslunefndar. Gerð er tillaga um millifærslu á 39,4 millj. kr. til Lyfjastofnunar og 15 millj. kr. til Landspítala.
    Gerð er tillaga um millifærslu 3 millj. kr. fjárveitingar af lið 08-399-198 til embættis landlæknis vegna verkefnis um sýklalyfjaónæmi.
    Gerð er tillaga um millifærslu 6,1 millj. kr. fjárveitingar af lið 08-399-198 til embættis landlæknis til að mæta kostnaði við árgjald leyfis hjá Prodacapo.

32.40 Stjórnsýsla félagsmála.
    Eftirfarandi tillögur eru hluti af félagslegum aðgerðum vegna COVID-19 til að styðja við atvinnuleitendur, lífeyrisþega, barnafjölskyldur og félagslega viðkvæma hópa:
          Lagt er til að veita 125 millj. kr. til að efla úrræði í formi tómstunda og samveru við börn á aldrinum 12–16 ára. Rannsóknir benda til þess að andleg líðan barna hafi farið versnandi í yfirstandandi heimsfaraldri COVID-19. Mörg börn eru einmana og einangruð auk þess sem þau eru í aukinni hættu á að verða fyrir ofbeldi og vanrækslu á heimilum sínum. Hafa sérfræðingar lagt mikla áherslu á að börn fái notið ýmiss konar tómstunda og samveru við önnur börn á sama aldri. Stór hópur barna í viðkvæmri stöðu á Íslandi naut á liðnu sumri sérstakra sumarúrræða og þótti átakið gefa mjög góða raun. Horft er sérstaklega til aldurshópsins 12–16 ára með áherslu á að leita einstaklingsbundinna leiða til að ná til þess hóps sem hvað síst sækir reglubundið íþrótta- og tómstundastarf.
          Gert er ráð fyrir tillögu að fjárhæð 125 millj. kr. til að efla félagslegan stuðning við fötluð börn og ungmenni og stuðning við foreldra fatlaðra barna og ungmenna sumarið 2021. Áframhald og efling verður á verkefnum, svo sem ævintýrabúðum, námskeiðum og fjölskyldudvöl á hóteli með stuðningi, sem sett voru í gang sumarið 2020 og gáfu afar góða raun. Á tímum heimsfaraldurs hafa margar fjölskyldur fatlaðra barna valið að fara í sjálfskipaða sóttkví til að forðast smit. Álag af völdum skertrar þjónustu ásamt ótta við smit getur valdið umtalsverðu álagi á fjölskyldur. Mótvægisaðgerðir sem eru fallnar til þess að draga úr álagi geta skipt sköpum og komið í veg fyrir alvarlegar og langvinnar afleiðingar af völdum álags.
          Mikilvægt er að styðja áfram við aðgerðir á landsvísu til að draga úr áhættu á smiti meðal heimilislausra, bæði kvenna og karla, og tryggja fullnægjandi aðbúnað þeirra. Lagt er til að þjónustusamningur við Reykjavíkurborg verði framlengdur þannig að þeir sinni áfram þjónustu við hópinn án tillits til lögheimilis. Úrræði sem hafa verið í boði fyrir hópinn eru mörg hver lokuð eða með skerta þjónustu út af sóttvarnaráðstöfunum. Neyðarskýlin eru opin en það vantar viðbótarþjónustu sem tekur mið af stöðunni í samfélaginu. Gert er ráð fyrir 42,5 millj. kr. framlagi til þessa.
          Gildi frjálsra félagasamtaka er mikið þegar bæta þarf nýjum og skapandi lausnum inn í þjónustu við viðkvæma hópa á COVID-19-tímum, lausnum sem hefðbundnir opinberir þjónustuaðilar hafa ekki tök á að sinna. Reiknað er með að um tímabundið skeið erfiðleika sé að ræða þar til bóluefni finnst og verður komið í almenna notkun. Frjáls félagasamtök eru afl sem æskilegt er að virkja við þessar aðstæður. Styrkja þarf félagasamtök sem þjónusta hópa sem upplifa einangrun og andlegt álag vegna COVID-19 og er gert ráð fyrir 40 millj. kr. framlagi til þess.
          Gerð er tillaga um 40 millj. kr. fjárveitingu til að styrkja stjórnvöld vegna upplýsingaskyldu og ráðgjafar. Á tímum samdráttar, þegar atvinnuleysi eykst og breytingar verða á högum fólks, þá fjölgar þeim heimilum sem þarfnast stuðnings og ráðgjafar. Mikilvægt er að stjórnvöld sinni leiðbeiningarskyldu sinni ásamt því að bjóða upp á stuðning og ráðgjöf. Um þessar mundir benda margir á að fólk viti ekki hvert það eigi að leita og hvar það eigi rétt á aðstoð, m.a. hjá þeim sem leita til hjálparsamtaka eftir matarúthlutun. Til að mæta þessu verður staðið að upplýsingainngripum. Ýmsar rafrænar réttindareiknivélar eru nú þegar til en þær eru ekki til sameinaðar í einni reiknivél. Með öflugum velferðarreikni væru kortlögð og framsett á einum stað þau úrræði sem velferðarþjónustan hefur á hverjum tíma.
          Gert er ráð fyrir að veita 30 millj. kr. framlag til ART-verkefnisins. Rannsóknir benda til þess að andleg líðan barna hafi farið versnandi í yfirstandandi heimsfaraldri COVID-19. Mörg börn eru einmana og einangruð auk þess sem þau eru í aukinni hættu á að verða fyrir ofbeldi og eru vanrækt á heimilum sínum. ART er úrræði fyrir börn og unglinga með tilfinninga- og hegðunarvanda. Það er bæði notað í forvarnaskyni og sem meðferðarform en úrræðið byggist á þremur meginþáttum: a) reiðistjórnun, b) félagsfærni og c) eflingu siðferðisþroska. Úrræðið hefur einkum verið í boði í leik- og grunnskólum á Suðurlandi en víða hafa þó önnur sveitarfélög boðið upp á ART-námskeið. Í rannsóknum og úttektum sem gerðar hafa verið á ART hefur komið í ljós að notendur hafa verið ánægðir með úrræðið og að mati kennara og skólastjórnenda hefur ART dregið úr óæskilegri hegðun barna sem hafa tekið þátt í meðferðum úrræðisins, félagsleg færni þeirra hefur aukist, sem og samskipti við fjölskyldur barnanna. Um er að ræða mótvægisaðgerð sem nýtist vel á landsbyggðinni.
          Gert er ráð fyrir 30 millj. kr. framlagi vegna félagslegs stuðnings við fötluð börn og ungmenni og stuðnings við foreldra fatlaðra barna og ungmenna vegna aukins liðveislutíma í dvöl fatlaðra barna í Reykjadal. Stefnt er að því að veita þjónustu um helgar í vetur og að fötluðum börnum og ungmennum verði úthlutað aukastuðningstímum til viðbótar almennum stuðningi sveitarfélagsins. Hægt væri að nýta virka daga eftir skóla ásamt því að nýta helgar nú strax í vetur. Það er staðreynd að flest fötluð börn og ungmenni þarfnast fleiri liðveislutíma en þau fá, sérstaklega núna vegna áhrifa heimsfaraldursins. Auknir liðveislutímar yrðu gott svar við félagslegum áhrifum af kórónuveirufaraldrinum í vetur. Á tímum heimsfaraldurs hafa margar fjölskyldur fatlaðra barna valið að fara í sjálfskipaða sóttkví til að forðast smit. Álag af völdum skertrar þjónustu ásamt ótta við smit getur valdið umtalsverðu álagi á fjölskyldur. Mótvægisaðgerðir sem eru fallnar til þess að draga úr álagi geta skipt sköpum og komið í veg fyrir alvarlegar og langvinnar afleiðingar af völdum álags.
          Gert er ráð fyrir 30 millj. kr. framlagi til að efla félagslegan stuðning við fötluð börn og ungmenni og stuðning við foreldra fatlaðra barna og ungmenna vegna helgarleyfis fatlaðra barna og foreldra þeirra í Vík sumarið 2021. Boðið var upp á helgardvöl sl. sumar og gafst það vel og með viðbótarfjárveitingu verður hægt að endurtaka helgardvölina næsta sumar. Á tímum heimsfaraldurs hafa margar fjölskyldur fatlaðra barna valið að fara í sjálfskipaða sóttkví til að forðast smit. Álag af völdum skertrar þjónustu ásamt ótta við smit getur valdið umtalsverðu álagi á fjölskyldur. Mótvægisaðgerðir sem eru fallnar til þess að draga úr álagi geta skipt sköpum og komið í veg fyrir alvarlegar og langvinnar afleiðingar af völdum álags.
          Gert er ráð fyrir að veita 20 millj. kr. framlag til TINNU, verkefnis sem er sérstaklega til að styðja einstæða foreldra í Reykjavík sem fá fjárhagsaðstoð til framfærslu eða örorkulífeyri og glíma við langvarandi félagslegan vanda. Verkefnið felur í sér víðtækt þverfaglegt samstarf ólíkra aðila innan velferðar- og menntakerfisins, auk virkni og vinnumiðlunar á vegum Vinnumálastofnunar. Meginmarkmiðið er að bjóða þátttakendum heildstæða þjónustu sem stuðlar að bættum lífsgæðum og virkri þátttöku í samfélaginu og á vinnumarkaði eftir því sem við á. Um er að ræða afar viðkvæman hóp einstaklinga og börn þeirra.
          Á samráðsfundi sem félags- og barnamálaráðherra hélt um stöðu heimilanna 28. október sl. kom fram í máli Neytendasamtakanna að málum þar hefði fjölgað mjög á tímum COVID-19. Ástæðan er fyrst og fremst sú að á tímum þar sem fyrirtæki og þjónustuveitendur upplifa samdrátt og íþyngjandi opinber inngrip á borð við sóttvarnaráðstafanir sem bitna á rekstrinum er hætta á því að réttindi neytenda séu hrifsuð af þeim (e. power grab). Hér hefur þetta t.d. birst í málum sem lúta að flugviðskiptum, leigjendum, iðnaðarmönnum og fleiru. Neytendasamtökin tengja þetta beint við áhrif faraldursins og þau greina mikla aukningu mála frá fólki sem ekki þekkir rétt sinn, á erfitt með að sækja hann og talar ekki íslensku. Ofan á þetta aukna álag vegna COVID-19 bætist óvissa um afdrif Neytendastofu. Framfærsluvandi vegna COVID-19 hefur birst slíkum félagasamtökum á þann hátt að leigjendur þekkja ekki rétt sinn þegar semja þarf um aukinn sveigjanleika líkt og það svigrúm sem fasteignaeigendur hafa gagnvart sinni bankastofnun. Því er mjög brýnt í ljósi afleiðinga faraldursins að stutt sé við félagasamtök á sviði neytendaverndar og hagsmuna heimilanna í kjölfar COVID-19 og er gert ráð fyrir 20 millj. kr. framlagi til þess.
          Gerð er tillaga um að veita 15 millj. kr. framlag til að framlengja stuðning við lögregluna á höfuðborgarsvæðinu til að sinna auknum forvörnum og stuðningi við börn í viðkvæmri stöðu. Meðan heldur hefur dregið úr annarri áhættuhegðun unglinga á tímum COVID-19 virðist ofbeldishegðun stórs hóps þeirra hafa aukist til muna. Mikilvægt er að áframhald verði á samstilltu starfi lögreglu með þátttöku aðila sem starfa með börnum til að snúa við því útbreidda viðhorfi meðal ungmenna að líkamsárásir og áhættuhegðun séu eðlileg og jafnvel eftirsóknarverð hegðun.
          Gerð er tillaga um 125 millj. kr. framlag til að efla og styrkja félagslegar aðgerðir fyrir aldraða til eflingar á félagsstarfi aldraða í samvinnu við sveitarfélög svo að hægt verði að efla frístundaiðkun, geðrækt, hreyfingu og forvarnir til að auka lífsgæði og heilbrigði. Í faraldrinum hefur allt frístundastarf aldraðra legið niðri og félagsmiðstöðvar verið lokaðar vegna sóttvarnaráðstafana. Sumarið 2020 gátu sveitarfélög sótt um sérstakt fjárframlag til að auka starfsemi og þjónustu umfram hefðbundið starf og gafst sú tilraun vel. Mikilvægt er að hrinda af stað sambærilegu átaki þegar aðstæður leyfa.
          Gert er ráð fyrir framlagi að fjárhæð 100 millj. kr. til að styrkja félagslegt starf fyrir fullorðið fatlað fólk á árinu 2021. Um er að ræða mikilvæga mótvægisaðgerð fyrir einn viðkvæmasta hópinn til að vinna gegn áhrifum hertra sóttvarnaráðstafana í kjölfar kórónuveirufaraldursins. Með auknu fjármagni er hægt að efla það félagsstarf sem fyrir er og virkja fleiri til þátttöku
          Gert er ráð fyrir 1 millj. kr. framlagi til að styrkja félagslegar aðgerðir fyrir aldraða. Í samvinnu við Rauða krossinn og Landssamband eldri borgara verður unnið að því að efla rafræna þjónustu og skjáheimsóknir. Eftirspurn er eftir þjónustunni því hertar sóttvarnaaðgerðir hafa aukið á einmanaleika og einangrun. Að öllu óbreyttu hefur Landssamband eldri borgara ekki tök á að halda utan um símaþjónustu til lengri tíma og hefur því átt samtal við Rauða krossinn um að taka verkefnið yfir.
    Gerð er tillaga um 4 millj. kr. fjárheimild í samræmi við minnisblað ráðherranefndar um samræmingu mála frá 16. nóvember 2020. Framlagið er til að styrkja félagslegar aðgerðir fyrir aldraða og verður framkvæmdin í samvinnu við Rauða krossinn og Landssamband eldri borgara til að efla rafræna þjónustu og skjáheimsóknir auk þess sem Rauði krossinn hyggst halda sjálfboðaliðanámskeið fyrir eldri borgara sem vilja verða símavinir. Eftirspurn er eftir þjónustunni því hertar sóttvarnaaðgerðir hafa aukið á einmanaleika og einangrun. Að öllu óbreyttu hefur Rauði krossinn ekki tök á frekara námskeiðahaldi án stuðnings.
    Gerð er tillaga um 40 millj. kr. millifærslu af liðnum 07-999-196 Velferðarstyrkir á sviði félagsmála á liðinn 07-999-121 Fjölskyldumál, ýmis verkefni, málaflokkur 29.40. Félagsmálaráðuneytið hefur hafið ný verkefni sem krefjast eftirfylgni og frekari þróunar á komandi árum undir hatti verkefnisins Barnvænt Ísland og er mikilvægt að fjármagn til þeirra verkefna verði betur skilgreint á viðeigandi fjárlagalið. Meðal annars er um að ræða þróun mælaborðs fyrir ríki og sveitarfélög þar sem helstu tölfræðigögn og vísar um líðan og velferð barna og ungmenna á Íslandi eru vöktuð. Mælaborðið er mikilvægur liður í að nýta gagnreyndar rannsóknir og aðferðir til að bregðast við aðstæðum barna og beina sjónum stjórnvalda að verkefnum sem brýnt er að takast á við og forgangsraða. Verkefnið Barnvænt Ísland miðar einnig að því að styðja við heildstæða innleiðingu barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna í víðtæku samstarfi við félagsþjónustu sveitarfélaga og þvert á ráðuneyti. Snýr það m.a. að því að fylgja eftir stefnu um innleiðingu sáttmálans, koma á verklagi við að meta áhrif/hagsmuni barna í tengslum við stjórnarfrumvörp og stefnumótun (sambærilegt og við framkvæmd jafnréttismats) og auka þátttöku barna og ungmenna. Verkefnið Barnvænt Ísland veitir einnig sveitarfélögum stuðning við að auka þátttöku barna og ungmenna í skipulagningu þjónustu, nýtingu gagnreyndra aðferða og raunprófaðra upplýsinga í stefnumótun. Fer sú vinna fram í samstarfi við UNICEF í tengslum við verkefnið Barnvæn sveitarfélög. Mikill áhugi hefur verið meðal sveitarfélaga á að taka þátt í verkefninu, en fyrirhugað er að 10 sveitarfélög bætist í hópinn 2021. Fyrir höfðu 11 sveitarfélög þegar hafið innleiðingu verkefnisins.
    Gerð er tillaga um 40 millj. kr. tímabundið framlag vegna árlegs kostnaðar við umsýslu Tryggingastofnunar með nýjum greiðsluflokki í kjölfar samþykktar á lögum um félagslegan viðbótarstuðning við aldraða nú í sumar. Þessi greiðsluflokkur fellur ekki að þeim sem eru fyrir í umsýslu stofnunarinnar og krefst sérstakrar forritunarvinnu og sérstakrar umsýslu og eftirfylgni í kjölfarið sem gert er ráð fyrir að kalli á um fjögur stöðugildi, eins og fram kemur í kostnaðarmati með frumvarpinu, þar sem um félagslegan stuðning er að ræða.
    Gerð er tillaga um 15 millj. kr. tímabundið framlag til Grófarinnar – Geðræktar.
    Gerð er tillaga um 20 millj. kr. tímabundið framlag til Píeta samtakanna.

34 Almennur varasjóður og sértækar fjárráðstafanir.
34.10 Almennur varasjóður.
    Lagt er til að veitt verði 5 milljarða kr. fjárheimild á málefnasvið 34 Almennur varasjóður og sértækar fjárráðstafanir til að mæta óvæntum útgjöldum vegna COVID-19 á árinu 2021, svo sem vegna kostnaðar í heilbrigðiskerfinu.
    Launa- og verðlagsuppfærsla vegna ársins 2021 nemur 571,2 millj. kr. Skipting á einstaka málaflokka er sýnd í sérstökum yfirlitum I með breytingartillögu meiri hlutans.
         Lögð er til 2 milljarða kr. lækkun fjárheimilda á árinu 2021 vegna ferðakostnaðar ráðuneyta og stofnana. Ferðakostnaður ríkisins lækkaði á fyrstu níu mánuðum ársins um 1,8 milljarða kr. og fór úr 3 milljörðum kr. árið 2019 í tæpa 1,2 milljarða kr. árið 2020. Lækkunin nemur um 60% en hana má rekja til heimsfaraldurs kórónuveiru. Með ferðakostnaði er átt við ferðalög og uppihald á ferðalögum á Íslandi og erlendis. Tölurnar ná til A-hluta stofnana ríkisins sem eru um 160 talsins. Ljóst má vera að áhrifa kórónuveirufaraldursins gætir fram á næsta ár sem hefur í för með sér að ferðalög starfsmanna ríkisins innan lands sem og erlendis verða ekki í sama mæli og þau hafa verið á undanförnum árum. Í ljósi gríðarlegs halla á rekstri ríkissjóðs og fyrirsjáanlegrar lækkunar á kostnaði ríkisins vegna ferðalaga ríkisstarfsmanna sem leiðir af áhrifum faraldursins er lagt til að fjárheimildir málefnasviða og málaflokka verði lækkaðar til samræmis á árinu 2021. Skipting á einstaka málaflokka er sýnd í sérstökum yfirlitum II með breytingartillögu meiri hlutans
    Gerð er tillaga um 159,8 millj. kr. tímabundið framlag vegna verðlagsbóta. Í tillögunni felst að fallið er frá því að draga úr verðbótaþætti vegna almenns rekstrar heilsugæslu og heilbrigðisstofnana. Þess í stað er nú miðað við verðbætur með sambærilegum hætti og gert er í tilfelli sérhæfðrar sjúkrahúsþjónustu. Sundurliðun fjárhæðarinnar er að finna í sérstökum yfirlitum III með breytingartillögu meiri hlutans.
    Meiri hlutinn leggur til að frumvarpið verði samþykkt með þeim breytingum sem skýrðar hafa verið og gerð er tillaga um á sérstökum þingskjölum.

Alþingi, 7. desember 2020.

Willum Þór Þórsson,
form., frsm.
Haraldur Benediktsson. Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir.
Steinunn Þóra Árnadóttir. Páll Magnússon.