Ferill 310. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


151. löggjafarþing 2020–2021.
Þingskjal 565  —  310. mál.
2. umræða.Nefndarálit


um frumvarp til laga um breytingu á lögum um listamannalaun, nr. 57/2009 (tímabundin fjölgun starfslauna og styrkja).

Frá meiri hluta allsherjar- og menntamálanefndar.


    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Karitas H. Gunnarsdóttur og Agnesi Guðjónsdóttur frá mennta- og menningarmálaráðuneyti, Erling Jóhannesson frá Bandalagi íslenskra listamanna, Kolbrúnu Halldórsdóttur frá Félagi leikstjóra á Íslandi, Irmu Gunnarsdóttur frá Félagi íslenskra listdansara, Karl Ágúst Úlfsson frá Rithöfundasambandi Íslands, Birnu Hafstein og Hrafnhildi Theódórsdóttur frá Félagi íslenskra leikara og sviðslistafólks, Höllu Helgadóttur og Hildi Steinþórsdóttur fyrir hönd Fatahönnunarfélags Íslands, Arkitektafélags Íslands, Miðstöðvar hönnunar og arkitektúrs, Félags vöru- og iðnhönnuða og Félags íslenskra teiknara, Steinunni Hrólfsdóttur frá Fatahönnunarfélagi Íslands, Þórunni Hannesdóttur frá Félagi vöru- og iðnhönnuða, Önnu Eyjólfsdóttur og Hlyn Helgason frá Sambandi íslenskra myndlistarmanna, Orra Hugin Ágústsson og Friðrik Friðriksson frá Bandalagi sjálfstæðra leikhúsa og Kjartan Ólafsson.
    Nefndinni bárust umsagnir frá Arkitektafélagi Íslands, Bandalagi íslenskra listamanna, Bandalagi sjálfstæðra leikhúsa, Fatahönnunarfélagi Íslands, Félagi íslenskra hljómlistarmanna, Félagi íslenskra leikara og sviðslistafólks, Félagi íslenskra listdansara, Félagi íslenskra teiknara, Félagi leikstjóra á Íslandi, Félagi vöru- og iðnhönnuða, Kjartani Ólafssyni, Miðstöð hönnunar og arkitektúrs, Rithöfundasambandi Íslands og Sambandi íslenskra myndlistarmanna.
    Í frumvarpi til fjárlaga fyrir árið 2021 (1. mál, þskj. 1) er gert ráð fyrir að veita 225 millj. kr. tímabundið í launasjóði listamanna í ljósi áhrifa heimsfaraldurs kórónuveiru á sjálfstætt starfandi listamenn. Með frumvarpinu er lagt til að við lög um listamannalaun, nr. 57/2009, bætist nýtt ákvæði til bráðabirgða þess efnis að samanlögðum starfslaunum árið 2021 verði fjölgað tímabundið úr 1.600 mánaðarlaunum í 2.150. Þá er lagt til að hlutfallsskipting starfslauna árið 2021 taki mið af þeim listgreinum sem harðast hafa orðið úti í heimsfaraldrinum á árinu 2020. Þannig verði hlutfallslega mest hækkun á starfslaunum og styrkjum til sviðslistafólks og tónlistarflytjenda, en aðrar listgreinar hækki einnig.
    Við meðferð málsins komu fram sjónarmið um að fullt tilefni væri til að fjölga varanlega starfslaunum og styrkjum og að gerð verði áætlun um jafna aukningu á árunum 2021–2025 og að mánaðarlaunin verði að endingu komin í 2.700. Þá voru gerðar athugasemdir þess efnis að við hlutfallsskiptingu starfslauna fyrir árið 2021 hafi ekki verið litið til allra listgreina, eins og t.d. stöðu hönnuða og arkitekta.
    Að mati meiri hlutans er bæði brýnt og tímabært að fram fari endurskoðun á lögum um listamannalaun, sérstaklega með hliðsjón af flóknu og fjölbreyttu launaumhverfi listamanna, þeirri fjölgun á umsóknum um starfslaun sem átt hefur sér stað síðastliðin ár sem og hlutfallsskiptingu milli listgreina. Fyrir liggur að mennta- og menningarmálaráðuneytið á í samræðum um slíka endurskoðun og telur meiri hlutinn mikilvægt að sjónarmið sem komu fram við meðferð málsins verði jafnframt tekin til nánari skoðunar á þeim vettvangi. Í ljósi þess telur meiri hlutinn að svo stöddu æskilegt að brugðist verði við aðstæðum listamanna og því tjóni sem listgreinar hafa orðið fyrir vegna heimsfaraldursins með tímabundinni fjölgun starfslauna fyrir árið 2021 en hvetur ráðuneytið til þess að ljúka nauðsynlegri endurskoðun laganna sem fyrst. Meiri hlutinn leggur til að frumvarpið verði samþykkt óbreytt.


Alþingi, 10. desember 2020.

Páll Magnússon,
form.
Silja Dögg Gunnarsdóttir,
frsm.
Guðmundur Andri Thorsson.
Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir. Birgir Ármannsson. Steinunn Þóra Árnadóttir.
Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir. Þórhildur Sunna Ævarsdóttir.