Ferill 399. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Microsoft Word.


151. löggjafarþing 2020–2021.
Þingskjal 570  —  399. mál.
Stjórnarfrumvarp.Frumvarp til laga


um breytingu á lögum um tekjuskatt, nr. 90/2003 (hvatar til fjárfestinga).

Frá fjármála- og efnahagsráðherra.1. gr.

    Við lögin bætist nýtt ákvæði til bráðabirgða, svohljóðandi:
    Þrátt fyrir hámark fyrningar skv. 1.–4. tölul. 37. gr. er heimilt á árunum 2021–2025 að fyrna eignir skv. 1. tölul. 33. gr., sem aflað er á árinu 2021, um allt að 50% af fyrningargrunni, allt að niðurlagsverði eignar, sbr. 42. gr.
    Að auki er heimilt að reikna sérstakt 15% fyrningarálag á stofnverð eigna skv. 1. mgr., sem aflað er á árunum 2021–2022, og sem teljast umhverfisvænar, stuðla að sjálfbærri þróun, uppfylla áskilin skilyrði og falla undir einn af eftirfarandi flokkum:
     1.      Vistvænar samgöngur.
     2.      Endurnýjanleg orka.
     3.      Hreinsun fráveituvatns og endurnýting úrgangs.
     4.      Sjálfbær og umhverfisvæn stýring á náttúruauðlindum og landnotkun.
    Fyrningarálag 2. mgr. á einnig við um eignir sem falla ekki undir framangreinda flokka en eru umhverfisvottaðar af viðurkenndum aðilum eða uppfylla a.m.k. tvö af eftirfarandi skilyrðum:
     1.      Eru með A+ eða hærri einkunn samkvæmt orkuviðmiðum Evrópusambandsins.
     2.      Eru hluti af kerfi eða starfsemi sem er tileinkuð framleiðslu á vöru sem hefur hlotið umhverfisvottun frá viðurkenndum aðilum.
     3.      Eru hluti af kerfi sem tilgreint er í viðeigandi BAT-viðmiðunarskýrslum Evrópusambandsins og uppfyllir losunarviðmið í viðeigandi BAT-viðmiðunarskýrslum Evrópusambandsins.
     4.      Eru knúnar 100% af raforku frá endurnýjanlegum orkugjöfum, lífeldsneyti eða rafeldsneyti.
     5.      Lækka rafmagnsnotkun um a.m.k. 30% eða minnka losun loftmengunarefna um a.m.k. 50% hlutfallslega samanborið við hina útskiptu eign eða samanburðareign á markaði.
    Fyrningarálag er fyrnanlegt með jöfnum fjárhæðum á þremur árum frá og með rekstrarárinu 2023 en er hvorki heimilt að færa niður í heild eða að hluta á móti skattskyldum söluhagnaði, sbr. 14. gr., né telst til stofnverðs skv. 2. mgr. 12. gr. við útreikning á skattskyldum söluhagnaði. Ónýtist eign eða er seld áður en fyrningarálagið er að fullu nýtt fellur það sem eftir stendur niður án gjaldfærslu.
    Fyrningarálag og nýting þess skal vera aðgreint sérstaklega í eignaskrá með skattframtali hvers árs með tilvísun til þeirrar eignar sem það reiknast af. Með framtali skal jafnframt skila, á því formi sem ríkisskattstjóri óskar, rökstuðningi um hvernig skilyrði fyrningarálags teljast uppfyllt varðandi hverja eign. Skatturinn skal birta á vef sínum lista yfir þá skattaðila sem hafa nýtt sér fyrningarálag og fjárhæð fyrningarálags.
    Sé samanlagt fyrningarálag skattaðila hærra en 75 millj. kr. er ríkisskattstjóra heimilt að krefjast þess á grundvelli 94. gr. eða 96. gr. að lagt sé fram rökstutt álit óháðra sérfræðinga á því hvort eign eða eignir teljist fullnægja skilyrðum í ákvæði þessu og reglugerð sem ráðherra setur, sbr. 8. mgr. Sé slíkt álit lagt fram er ríkisskattstjóra jafnframt heimilt að afla álits annarra óháðra sérfræðinga.
    Ákvæði þetta á ekki við um fyrirtæki í eigu eða á ábyrgð ríkisins eða sveitarfélaga eða skattaðila sem teljast vera í fjárhagsvanda. Þá er ekki heimilt að reikna fyrningarálag þegar fjárfestingin leiðir af skyldum og kröfum sem skattaðila ber að uppfylla í rekstri sínum og rekstrarumhverfi samkvæmt lögum eða alþjóðasamningum. Enn fremur er ekki heimilt að reikna fyrningarálag, þrátt fyrir að skilyrði 2. eða 3. mgr. teljist uppfyllt, ef eign telst valda umtalsverðu tjóni sem gengur gegn einu eða fleirum umhverfismarkmiðum eins og þau markmið eru skilgreind í reglugerð sem ráðherra setur, sbr. 8. mgr.
    Ráðherra skal í reglugerð setja nánari reglur um framkvæmd þessa ákvæðis, þar á meðal nánari afmörkun á því hvaða eignir teljast falla undir 2. mgr. og 3. mgr. þar sem alþjóðleg viðmið skulu höfð til hliðsjónar og hvenær skattaðili telst vera í fjárhagsvanda.

2. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi og koma til framkvæmda við álagningu 2022 og síðar eftir því sem nánar er mælt fyrir um í 1. gr.

Greinargerð.

1. Inngangur.
    Frá því að heimsfaraldur kórónuveirunnar (SARS-CoV-2), reið yfir hefur fjárfesting dregist verulega saman og atvinnuleysi aukist til muna. Hið opinbera hefur brugðist við slaka í fjárfestingu með auknum útgjöldum til opinberra framkvæmda en skortur er á fjárfestingu af hálfu einkaaðila. Á sama tíma er ljóst að baráttan við loftslagsvána hverfur ekki þrátt fyrir að heimsfaraldur gangi yfir og áfram er nauðsynlegt að aðgerðir stjórnvalda styðji við stefnumótun um árangur í þeim efnum. Til þess að styðja við græna umbreytingu sem nauðsynleg er á öllum sviðum samfélagsins til að ná loftslagsmarkmiðum stjórnvalda er í frumvarpinu lögð sérstök áhersla á að hvatarnir snúi að fjárfestingum í eignum sem teljast umhverfisvænar og stuðla að sjálfbærni.

2. Tilefni og nauðsyn lagasetningar.
    Tilefni lagasetningarinnar má rekja til yfirlýsingar ríkisstjórnarinnar um aðgerðir til að mæta efnahagslegum áhrifum af völdum kórónuveirufaraldursins. Útbreiðsla veirunnar og ráðstafanir til að hamla útbreiðslu hennar hafa þegar haft áhrif á efnahagslífið og samfélagið allt. Fyrirhugaðar aðgerðir miða að því að hvetja til fjárfestinga einkaaðila í atvinnurekstrareignum með sérstaka áherslu á eignir sem teljast umhverfisvænar og stuðla að sjálfbærni í umhverfismálum. Frumvarpið er liður stjórnvalda í öflugri viðspyrnu gegn neikvæðum áhrifum faraldursins.

3. Meginefni frumvarpsins.
    Frumvarpið felur í sér tvenns konar frávik frá gildandi lögum sem taka til fjárfestinga í atvinnurekstrareignum í formi lausafjár. Annars vegar er um að ræða heimild til þess að fyrna slíkar eignir sem aflað er á árinu 2021 hraðar en gildandi lög segja til um (flýtifyrning). Sú aðgerð getur almennt leitt til lægri skattgreiðslna fyrstu árin eftir kaup en á móti kæmi hærri skattgreiðsla á síðari árum þegar búið væri að fyrna stofnverðið að niðurlagsverði (10%).
    Hins vegar er um að ræða heimild til að reikna sérstakt fyrningarálag af stofnverði (kaupverði) ákveðinna atvinnurekstrareigna sem aflað er á árunum 2021–2022 sem heimilt yrði að fyrna með jöfnum fjárhæðum á þremur árum í fyrsta skipti frá og með rekstrarárinu 2023 (gjaldárið 2024). Skilgreining þeirra eigna sem falla undir heimildina eru eignir sem teljast umhverfisvænar, stuðla að sjálfbærri þróun og falla undir einn af þeim fjórum flokkum sem taldir eru upp í frumvarpinu. Flokkunum er ætlað að endurspegla eignir sem kalla mætti grænar með hliðsjón af alþjóðlegum reglum og viðmiðunum eins og nánar yrði kveðið á um í reglugerð ráðherra. Með tilliti til markmiða frumvarpsins um að auka fjárfestingu einkaaðila er lagt til að fyrningarálag afmarkist þó ekki einvörðungu við eignir sem falla undir viðkomandi flokka heldur taki einnig til annarra eigna sem að uppfylltum skilyrðum má telja að séu sambærilegar og stuðli að sömu markmiðum. Aðgerðin felur í sér hærri fyrningargrunn sem vísað er til í frumvarpinu sem fyrningarálags.

4. Samræmi við stjórnarskrá og alþjóðlegar skuldbindingar.
    Efni frumvarpsins gefur ekki tilefni til að ætla að það stangist á við stjórnarskrá eða alþjóðlegar skuldbindingar. Í ljósi ákvæða 40. og 77. gr. stjórnarskrárinnar var þess gætt við undirbúning frumvarpsins að orðalag ákvæðisins væri skýrt og að öðru leyti í samræmi við kröfur sem leiða má af stjórnarskrárákvæðunum.

5. Samráð.
    Frumvarp þetta er samið í fjármála- og efnahagsráðuneytinu og snertir fyrst og fremst atvinnurekstur. Við vinnslu þess var haft samráð við embætti ríkisskattstjóra auk þess sem leitað var ráðgjafar frá utanaðkomandi sérfræðingum á sviði skattamála sem og sérfræðingum í umhverfismálum. Ekki gafst tími til að kynna frumvarpsdrögin almenningi í opinni samráðsgátt stjórnvalda.

6. Mat á áhrifum.
    Erfitt er að segja til um áhrif tillagna frumvarpsins á tekjur ríkissjóðs því að þau munu ráðast af því hve mikið fjárfesting mun aukast í tilefni lagasetningarinnar og hve stór hluti atvinnurekstrareigna telst uppfylla skilyrði fyrir fyrningarálagi.
    Fjárhagsáhrif frumvarpsins eru tvíþætt. Heimild til flýtifyrninga mun valda frestun á skattgreiðslum fyrirtækja og er áætlaður núvirtur kostnaður ríkissjóðs metinn um 400 millj. kr. Heimild til að reikna sérstakt fyrningarálag af grænum eignum og sambærilegum eignum mun auka skattafrádrátt fyrirtækja og er áætlað að núvirtur kostnaður þeirrar heimildar nemi um 3,6 milljörðum kr. Heildarkostnaður ríkissjóðs af lagabreytingunum er þannig metinn á 4 milljarða kr. að núvirði.
    Varðandi áhrif breytinganna á tekjur ríkissjóðs er áætlað að ríkissjóður muni verða af samtals 4 milljarða kr. tekjum árin 2022 og 2023 vegna flýtifyrninga en endurheimta þær tekjur árin 2024–2027. Heimild til fyrninga á sérstöku fyrningarálagi grænna eigna og sambærilegra eigna er áætlað að muni skerða árlegar tekjur ríkissjóð um 1,2 milljarða kr. árin 2024–2026.

Um einstakar greinar frumvarpsins.
Um 1. gr.

    Í 1. mgr. ákvæðisins er kveðið á um sérstaka heimild til að fyrna hraðar atvinnurekstrareignir í formi lausafjár, sem falla undir 1.–4. tölul. 37. gr., í stað þeirrar hámarksfyrningar sem kveðið er á um í töluliðum ákvæðisins. Heimildin er bundin við eignir sem aflað er á árinu 2021 og mundi því ekki gilda um eignir sem aflað væri síðar. Með orðinu aflað er einkum verið að vísa til kaupa á eign en gæti þó, við vissar aðstæður, einnig átt við um leigu á eign sem í skattalegu tilliti skal fara með líkt og um kaup væri að ræða, svo sem kaupleigu. Fram kemur að heimildin eigi við um árin 2021–2025 og er þar verið að vísa til þess að ef nýta á auknar heimildir til fyrningar samkvæmt ákvæðinu þurfi að gera það innan þess tímaramma. Þetta gæti t.d. átt við um eign sem væri aflað á árinu 2021 og sem ekki væri farið að nýta við tekjuöflun í atvinnurekstri og því væri óheimilt að fyrna hana skv. 34. gr. laganna. Við þessar aðstæður getur takmörkunin skipt máli en ef ekki næst að fullnýta heimildir ákvæðisins innan þessa tímaramma gilda almennar reglur um það sem eftir stendur. Að öðru leyti gilda almennar reglur, þar á meðal um ákvörðun fyrningargrunns skv. 36. gr. og að ekki megi fyrna eign niður fyrir þá fjárhæð sem nemur 10% af stofnverði hennar (niðurlagsverði) skv. 42. gr.
    Í 2. mgr. er að finna heimild til þess að reikna sérstakt fyrningarálag á eignir skv. 1. mgr. sem aflað er á árunum 2021–2022 og sem teljast umhverfisvænar, stuðla að umhverfissjálfbærni í skilningi ákvæðisins og falla undir einn eignaflokk málsgreinarinnar. Heimildin er rýmri en 1. mgr. að því leyti að hún nær jafnframt til eigna sem aflað er á árinu 2022. Fyrningarálagið reiknast af stofnverði (kaupverði) og er heimilt að fyrna álagið og færa til gjalda í samræmi við skilyrði ákvæðisins. Ólíkt 1. mgr. sem kveður á um hækkun fyrningarhlutfalls er í 2. mgr. kveðið á um hærri fyrningargrunn umfram það sem leiðir af almennum reglum. Í ákvæðinu kemur fram að þær eignir sem heimildin tekur til skuli teljast umhverfisvænar, stuðla að sjálfbærri þróun í umhverfismálum, uppfylla áskilin skilyrði og falla undir einn af fjórum flokkum ákvæðisins (grænar eignir). Flokkarnir yrðu nánar skilgreindir í reglugerð ráðherra. Flokkarnir beinast að framgangi á heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna. Flokkar 1 og 2 beinast að heimsmarkmiðum 7, 9, 11 og 13. Flokkur 3 beinist að heimsmarkmiðum 9, 11, 12, 13, 14 og 15. Flokkur 4 beinist að heimsmarkmiðum 13 og 14. Flokkarnir byggjast á alþjóðlegum reglum og viðmiðunum um grænar fjárfestingar og þá einkum regluverki Evrópusambandsins og flokkunarkerfi þess eins og það er hverju sinni. Þá er einnig byggt á viðmiðunum og leiðbeiningum um grænar fjárfestingar, svo sem varðandi útgáfu grænna skuldabréfa.
    Í 3. mgr. er kveðið á um heimild til að reikna fyrningarálag vegna eigna sem falla ekki undir flokka 2. mgr. en telja má sambærilegar og stuðla að sömu markmiðum. Er talið eðlilegt að afmarka ekki úrræðið við eignir sem falla undir umrædda fjóra flokka með tilliti til markmiða frumvarpsins um að örva fjárfestingu einkaaðila. Einstök skilyrði sem lögð eru til grundvallar í 3. mgr. byggjast á alþjóðlegum viðmiðunum án þess þó að um sé að ræða skilyrði sem snúa að tilteknum eignaflokki líkt og á við um 2. mgr. Ákvæði 3. mgr. beinist að heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna 7, 9, 11, 12, 13, 14 og 15. Tekið skal fram að ef eign fellur undir einhvern flokk 1–4. í 2. mgr. en uppfyllir ekki að fullu skilyrðin sem gerð eru til eigna í þeim flokki þá kemur 3. mgr. ekki til skoðunar.
    Eignir sem falla undir 3. mgr. eru annars vegar þær sem hafa umhverfisvottun viðurkenndra aðila, þ.m.t. vottanir um kolefnishlutleysi og hins vegar þær eignir sem uppfylla a.m.k. tvö af fimm skilyrðum í 1.–5. tölul. ákvæðisins. Flest þau skilyrði sem fram koma í töluliðum 3. mgr. eru þess eðlis að það ætti ekki að vera vandkvæðum bundið að ganga úr skugga um hvort skilyrði hvers töluliðar séu uppfyllt. 5. tölul. er þó sérstakur að þessu leyti en samkvæmt honum þarf að bera saman umhverfisáhrif nýju eignarinnar við umhverfisáhrifin sem voru til staðar áður en hin nýja eign var tekin í notkun eða ætla mætti að hefðu verið til staðar. Horfa skal til umhverfisáhrifa eldri eignar ef verið er að skipta eign út fyrir nýja en annars til samanburðareignar á markaði. Við mat á því hvort eign telst samanburðareign skal horfa til þess hvort eign geti að fullu komið í stað þeirrar eignar sem aflað er. Enn fremur skal taka tillit til þess hve líklegt er að samanburðareignin hefði verið í notkun og getur þar meðal annars skipt máli hvort eignin sé:
     a.      ráðandi á markaði fyrir tiltekna notkun,
     b.      í mikilli notkun almennt vegna tiltekinnar virkni eða
     c.      mikið sé fjárfest í slíkum eignum í viðkomandi atvinnugrein til sambærilegra nota eða virkni.
    Sé slíkum viðmiðunum ekki til að dreifa skal að jafnaði miða við samanburðareign sem kom á markað innan fimm ára. Um hlutfallslegan samanburð er að ræða þannig að eftir atvikum þyrfti að taka tillit til afkastagetu eignanna við matið. Gera verður ríka kröfu til sönnunar þegar fyrningarálag byggist á 5. tölul.
    Í 4.–6. mgr. er nánar fjallað um þau skilyrði sem gilda um fyrningarálag skv. 2. og 3. mgr. Í 4. mgr. kemur fram að fyrningarálagið sé fyrnanlegt með jöfnum fjárhæðum á þremur árum frá og með rekstrarárinu 2023 (framtalsár 2024). Þá er áréttað að um fyrningarálagið gildi ekki sömu reglur og gilda almennt um stofnverð fyrnanlegra eigna, þ.m.t. heimildir til að færa niður stofnverð á móti skattskyldum söluhagnaði skv. 14. gr. og útreikning á skatt-skyldum söluhagnaði, ef eign sú sem fyrningarálagið er reiknað af yrði seld, sbr. 2. mgr. 12. gr. laganna. Um fyrningarálagið gilda því sérreglur.
    Í 5. mgr. segir að fyrningarálag skuli aðgreint í eignaskrá með skattframtali hvers árs ásamt tilvísun í þá eign sem álagið reiknast af. Þá skal með framtali fylgja rökstuðningur fyrir því hvernig eign uppfylli skilyrði ákvæðisins, sbr. einnig reglugerð ráðherra þar um. Eins og fram kemur í skýringum við 3. mgr. er meiri þörf á greinargóðum rökstuðningi þegar fyrningarálag byggist á 5. tölul. 3. mgr. Að lokum er í 5. mgr. ráðgert að Skatturinn birti á vef sínum lista yfir þá skattaðila sem hafa nýtt sér fyrningarálag ásamt upplýsingum um fjárhæð álagsins.
    Í 6. mgr. er kveðið á um heimild til handa ríkisskattstjóra til þess að kalla eftir upplýsingum á tilteknu formi, sér að kostnaðarlausu, í þeim tilfellum þegar reiknað fyrningarálag væri 75 millj. kr. eða hærra. Við þessar aðstæður yrði heimilt að krefjast þess að lagt yrði fram rökstutt álit óháðra sérfræðinga á viðkomandi sviði um hvort skilyrði fyrir fyrningarálagi séu uppfyllt. Væri slíkt álit lagt fram yrði ríkisskattstjóra jafnframt heimilt að afla álits annarra óháðra sérfræðinga.
    Í 7. mgr. er áréttað að ívilnanir sem ákvæðið mælir fyrir um taka ekki til fyrirtækja í eigu eða á ábyrgð ríkisins eða sveitarfélaga. Þá tekur ákvæðið ekki til skattaðila sem teljast vera í fjárhagsvanda. Þá þykir það ekki samræmast settum markmiðum að veitt sé sérstök ívilnun þegar svo háttar til að fyrirtæki sé skylt samkvæmt lögum eða alþjóðasamningum að koma upp tilteknum búnaði til þess að draga úr neikvæðum umhverfisáhrifum en sem dæmi um þetta væri fyrirtæki sem bæri t.d. skylda til að koma sér upp hreinsunarbúnaði innan ákveðins tíma. Ívilnuninni er fyrst og fremst ætlað að hvetja almennt til grænna valkosta við kaup á atvinnurekstrareignum og slíkur almennur hvati telst ekki vera fyrir hendi þegar aðilum er skylt að ráðast í þess konar fjárfestingar. Þá er ekki heimilt að reikna fyrningarálag, þrátt fyrir að skilyrði 2. eða 3. mgr. teljist uppfyllt, ef eign telst valda umtalsverðu tjóni á einu eða fleiri umhverfismarkmiðum. Er hér um að ræða skilyrði sem byggist á erlendri fyrirmynd og ráðgert að verði nánar skilgreint í reglugerð ráðherra.
    Í 8. mgr. segir að ráðherra skuli setja nánari reglur um framkvæmd ákvæðisins í reglugerð, þar á meðal nánari afmörkun á því hvaða eignir teljist grænar þar sem alþjóðleg viðmið skuli höfð til hliðsjónar en einnig nánari afmörkun á því hvenær skattaðili teljist vera í fjárhagsvanda. Varðandi skilgreiningu á grænum eignum er með alþjóðlegum viðmiðunum einkum vísað í regluverk Evrópusambandsins og flokkunarkerfi þess eins og það er hverju sinni sem og viðmið og leiðbeiningar um grænar fjárfestingar, svo sem varðandi útgáfu grænna skuldabréfa.

Um 2. gr.

    Greinin þarfnast ekki skýringar.