Ferill 419. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Microsoft Word.


151. löggjafarþing 2020–2021.
Þingskjal 626  —  419. mál.
Stjórnarfrumvarp.



Frumvarp til laga


um breytingu á lögum um veiðar í fiskveiðilandhelgi Íslands og lögum um stjórn fiskveiða (veiðistjórn grásleppu, sandkola og hryggleysingja).

Frá sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra.



I. KAFLI

Breyting á lögum um veiðar í fiskveiðilandhelgi Íslands, nr. 79/1997.

1. gr.

    1. mgr. 7. gr. laganna hljóðar svo:
    Ráðherra er með reglugerð heimilt að ákveða staðbundin veiðisvæði við grásleppuveiðar þannig að þar geti aðeins stundað veiðar bátar sem skráðir eru frá byggðarlagi við hlutaðeigandi veiðisvæði og útgerð bátsins eigi þar heimilisfesti.

2. gr.

    2. málsl. 2. mgr. 21. gr. laganna fellur brott.

II. KAFLI

Breyting á lögum um stjórn fiskveiða, nr. 116/2006.

3. gr.

    Á eftir 1. mgr. 9. gr. laganna kemur ný málsgrein, svohljóðandi:
    Heimilt er að úthluta aflahlutdeild til veiða á staðbundnum nytjastofnum hryggleysingja þannig að sérstök aflahlutdeild komi fyrir hvert veiðisvæði.

4. gr.

    Við töflu 1. mgr. 13. gr. laganna bætist:
Grásleppa 2%

5. gr.

    Við 6. mgr. 15. gr. laganna bætist eftirfarandi: Ráðherra er heimilt með reglugerð að undanskilja grásleppu frá ákvæði þessu ef aðstæður á markaði leiða til þess að afli vertíðar verður óvenjulítill.

6. gr.

    Við lögin bætast þrjú ákvæði til bráðabirgða, svohljóðandi:

    a. (XXII.)
    Setja skal skipum aflahlutdeild í grásleppu. Aflahlutdeild einstakra skipa skal ákveðin með tilliti til aflareynslu sem fengin hefur verið á grundvelli leyfis sem skráð er á viðkomandi skip. Við mat á veiðireynslu skal miða við þrjú bestu veiðitímabil leyfisins sem skráð er á skipið frá og með árinu 2014 til og með árinu 2019.

    b. (XXIII.)
Endurreikna skal aflahlutdeild í sandkola við upphaf fiskveiðiársins 2021/2022 með þeim hætti sem hér segir:
     a.      Að 85/100 hlutum samkvæmt skráðum aflahlutdeildum hvers fiskiskips í sandkola við upphaf fiskveiðiársins 2021/2022.
     b.      Að 15/100 hlutum samkvæmt veiðireynslu hvers fiskiskips í sandkola á fiskveiðiárunum 2017/2018 og 2019/2020 á svæðinu norðan skilgreinds aflamarkssvæðis fyrir sandkola sem afmarkast af Snæfellsnesi, suður um að Stokksnesi.

    c. (XXIV)
    Við upphaf fiskveiðiársins 2021/2022 skal setja skipum sjálfstæða aflahlutdeild skv. 2. mgr. 9. gr. í sæbjúgu á hverju veiðisvæði samkvæmt reglugerð nr. 741/2019 um veiðar á sæbjúgum á eftirfarandi hátt:
     a.      Svæði A–E: Samkvæmt aflareynslu skips á fiskveiðiárunum 2017/2018, 2018/2019 og 2019/2020 vestan 20°V.
     b.      Svæði F–H: Samkvæmt aflareynslu skips á fiskveiðiárunum 2017/2018, 2018/2019 og 2019/2020 austan 20°V.

7. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Greinargerð.

1. Inngangur.
    Með frumvarpi þessu er lagt til að tekin verði upp aflamarksstjórn við veiðar á grásleppu, sandkola í allri fiskveiðilandhelginni og sæbjúgum. Auk þess er lagt til að heimilað verði að úthluta aflahlutdeild til veiða á staðbundnum nytjastofnum hryggleysingja þannig að sérstök aflahlutdeild komi fyrir hvert veiðisvæði. Frumvarp þetta er samið í atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu.

2. Tilefni og nauðsyn lagasetningar.
    Markmið fiskveiðistjórnar er að stuðla að verndun og hagkvæmri nýtingu nytjastofna Íslands og tryggja þannig trausta atvinnu og byggð í landinu. Veiðum á helstu nytjastofnum er stjórnað með úthlutun aflamarks við upphaf hvers fiskveiðiárs á grundvelli þeirrar aflahlutdeildar sem bátar hafa. Slík fiskveiðistjórn hefur reynst góð með tilliti til þess hve auðvelt er að stýra því hvaða magn er veitt hverju sinni og hagkvæmni hefur aukist. Á þennan hátt hafa sjálfbærar veiðar verið tryggðar, verið hvatning til nýsköpunar þar sem aðilar reyna að fá sem mest verðmæti úr aflahlut sínum og stuðlað að bættri umgengni um auðlindina.
    Veiðum í nokkrum nytjastofnum er þó enn stjórnað með sóknarmarki, þá í formi dagafjölda eða stöðvunar veiða þegar afli er kominn yfir ráðlagðan hámarksafla samkvæmt Hafrannsóknastofnun. Meðal þeirra eru grásleppa og staðbundnir hryggleysingjar, einkum sæbjúgu og ígulker.

2.1. Grásleppa.
    Á undanförnum árum hefur veiðistjórn grásleppu sætt gagnrýni fyrir að vera ómarkviss og ófyrirsjáanleg fyrir þá sem stunda veiðarnar. Á síðustu grásleppuvertíð komu ókostir núverandi veiðistjórnar grásleppu vel í ljós. Veiðar voru heimilaðar í tiltekinn fjölda daga en þegar á leið varð ljóst að stöðva yrði veiðarnar fyrr en ætlað var með hliðsjón af aflaráðgjöf Hafrannsóknastofnunar. Þetta kom misjafnlega niður á þeim sem stunda veiðarnar þar sem mismunandi var hvenær þeir hófu veiðar. Hafði þar m.a. þýðingu að veiðar í innanverðum Breiðafirði eru heimilaðar síðar en á öðrum svæðum vegna áhrifa þeirra á æðarvarp og dúntekju.
    Samkvæmt gildandi lögum eru veiðar á grásleppu háðar takmörkuðum fjölda leyfa. Þá er hverju skipi, sem leyfis nýtur, eingöngu heimilt að stunda veiðar í ákveðinn fjölda daga á hverju sumri. Þessu fyrirkomulagi sóknarstýringar var í upphafi komið á með reglugerð um grásleppuveiðar, nr. 474/1990. Með henni var mælt fyrir um útgáfu leyfa til báta sem stundað höfðu grásleppuveiðar á einu af árunum 1987–1990, en eigendur bátanna voru verr settir en aðrir hvað varðaði úthlutun botnfiskveiðiheimilda á þessum tíma og hafði það nokkuð að segja við þessa ráðstöfun.
    Með 1. mgr. 7. gr. laga um veiðar í fiskveiðilandhelgi Íslands, nr. 79/1997, var lögfest hvaða bátar gætu fengið leyfi Fiskistofu til veiða á grásleppu og það bundið við þá báta sem rétt höfðu haft til að fá leyfi til veiða á grásleppu árið 1997. Í athugasemdum við ákvæðið í frumvarpi er varð að þeim lögum kom fram að ástæða hefði þótt til að takmarka veiðar á grásleppu í ljósi mikils fjölda smábáta og að án slíkra takmarkana gætu veiðarnar farið algerlega úr böndunum á skömmum tíma. Einnig var vísað til markaðsaðstæðna og réttar þeirra manna sem stundað höfðu veiðarnar og höfðu þar af leiðandi minni aflaheimildir í öðrum fisktegundum. Í ákvæðinu er einnig mælt fyrir um heimild ráðherra til að kveða nánar á um fyrirkomulag veiðanna með reglugerð.
    Núverandi fyrirkomulag byggist á lokaráðgjöf Hafrannsóknastofnunar sem miðast við að niðurstaða úr stofnmælingum í marsmánuði gildi 70% á móti næstliðnu ári. Þessi lokaráðgjöf birtist ekki fyrr en um mánaðamótin mars–apríl. Fjöldi báta sem virkja leyfin getur verið misjafn, og fer það eftir gæftum, verði, veðri o.fl. Leyfi þessi eru framseljanleg milli báta.
    Árið 2018 skipaði sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra starfshóp sem ætlað var að fara yfir tilhögun veiðistjórnar grásleppuveiða og gera tillögur um breytingar á henni. Starfshópurinn skilaði greinargerð haustið sama ár sem birt var í samráðsgátt stjórnvalda, sjá nánar kafla 5.1. Í greinargerðinni voru teknir saman helstu kostir og gallar núverandi veiðistjórnar. Talið var til kosta að grásleppuveiðar væru gerðar út á smábátum og stundaðar vítt og breitt um landið. Einungis fiskiskip undir 15 brúttótonnum geta fengið úthlutað leyfi (að undanskildum örfáum frávikum um stærri skip sem eiga sér sögulegar skýringar). Veiðisvæði eru átta og er hvert leyfi gefið út fyrir veiðar á einu svæði á hverri vertíð, eftir því sem rétthafi óskar. Fram kom að veiðileyfi hefðu ekki færst mikið milli svæða og að ekki fylgdi því mikill kostnaður að afla sér leyfis til grásleppuveiða miðað við að hefja veiðar á tegundum sem hafa verið hlutdeildarsettar.
    Þá kom fram að helstu ókostir núverandi veiðistjórnar fælust í því að hún er ómarkviss með tilliti til þess að fylgt sé ráðgjöf, þ.e. að veiði sé innan heildarafla. Heimildir til veiða eru bundnar ákveðnum samfelldum dögum sem þýðir að þegar leyfi er virkjað á skip hefst talning daga óháð veðri, sem getur ýtt undir að veitt sé þótt veður séu slæmt eða óæskilegur meðafli sé mikill. Þá er ekki unnt að taka tillit til bilana, veikinda eða annarra ófyrirséðra tafa. Auk þess er breytilegt milli ára hversu margir virkja leyfi til veiðanna. Einnig var talið til ókosta að ekki lægi fyrir í byrjun vertíðar hversu marga daga hverjum leyfishafa sé heimilt að stunda veiðarnar.
    Enda þótt reynsla síðustu vertíðar sýni að stjórnvöldum hafi tekist að halda heildarveiði nálægt ráðlögðum afla með stöðvun veiðanna kom sú aðgerð mjög misjafnlega við einstaka útgerðir þar sem sumir höfðu hafið veiðar strax og leyft var en aðrir hugðust bíða þar til síðar eða veiðisvæði sem þeir hugðust veiða á höfðu ekki verið opnuð fyrir veiðum.

2.2. Sandkoli.
    Með reglugerð um stjórn veiða í atvinnuskyni fiskveiðiárið 1997/1998 var sett aflamark fyrir sandkola sem gilti sunnan við tiltekna línu samkvæmt ráðgjöf Hafrannsóknastofnunar. Náði svæðið frá Snæfellsnesi, suður um og austur að Eystrahorni. Miðaði úthlutun aflamarks við veiðireynslu skipa sunnan línunnar en afli norðan hennar var óverulegur. Í ljósi þess að lítið var vitað um veiðimöguleika norðan aflamarkssvæðisins var ákveðið að undanskilja það svæði og var tilgangurinn ekki síst að varna brottkasti.
    Hafrannsóknastofnun hefur lagt til að sandkolaafli fiskveiðiársins 2020/2021 fari ekki yfir 319 tonn. Einnig hefur stofnunin lagt til að sérstaka aflamarkssvæðið frá Snæfellsnesi suður um að Stokksnesi verði lagt niður og að öll sandkolamið verði undir aflamarki.
    Um langt skeið lagði stofnunin einungis til aflamark á fyrrgreindu svæði þar sem beinar veiðar á sandkola voru ekki stundaðar utan þess. Frá árinu 2016 hefur ráðgjöfin gilt fyrir Íslandsmið. Á undanförnum fimm fiskveiðiárum hefur aflinn utan aflamarkssvæðisins verið á bilinu 11–45% af heildarafla sandkola en meðaltal síðustu þriggja fiskveiðiára verið 26%.
    Nauðsynlegt er að endurreikna aflahlutdeild í sandkola sem tekur til fiskveiðilandhelginnar í heild til að ná fram markvissri stjórn í sandkola sem er í samræmi ráðgjöf Hafrannsóknastofnunar. Við mat á því hvernig skipta ætti hlutdeild í sandkola milli þeirra sem þegar eru með hlutdeild á aflamarkssvæðinu og þeirra sem hafa stundað frjálsar sandkolaveiðar var í fyrstu stuðst við samantekt frá Hafrannsóknastofnun um veiðar síðustu þriggja ára og það hlutfall látið ráða skiptingunni 75/25. Þegar frumvarpið var kynnt í samráðsgátt stjórnvalda komu fram sjónarmið um að veiðar norðan aflamarkssvæðisins hefðu verið frjálsar en veiðar innan aflamarkssvæðisins væru takmarkaðar með útgefnu aflamarki. Því skyldi einnig skoða hlutfall veiða frá þeim tíma sem allar veiðar á sandkola voru frjálsar. Í skýrslu Hafrannsóknastofnunar um ástand fiskstofna frá árinu 1998 kemur fram að sandkolaveiðar hafi fyrst og fremst verið stundaðar í Faxaflóa, við Reykjanes og með suðurströndinni austur að Stokksnesi. Því er ljóst að þegar aflamarki var úthlutað fyrir framangreint svæði var afli norðan þess óverulegur. Um 3,5% afla á árunum 1994–1996 voru veidd norðan við svæðið sem síðar var skilgreint sem aflamarkssvæði. Sú leið var valin við mat á veiðireynslu við úthlutun endurreiknaðrar aflahlutdeildar í sandkola að hlutfall afla norðan viðmiðunarsvæðis á árunum 1994–1996 var látið gilda 50% og hlutfallið undanfarin þrjú fiskveiðiár var látið gilda 50%. Þannig var dregið úr vægi þess sem veitt hafði verið undanfarin ár utan aflamarkssvæðis og frumvarpsdrögunum breytt til samræmis úr 25% í 15%, þ.e. með reiknireglunni 3,5/2+26/2. Þykir þessi aðferð byggjast á málefnalegum forsendum og taka tillit til aðila sem nú þegar eru með hlutdeild í sandkola og þeirra sem stundað hafa frjálsar veiðar norðan aflamarkssvæðisins.

2.3. Hryggleysingjar.
    Hafrannsóknastofnun veitir ráð um staðbundna nýtingu nokkurra tegunda nytjastofna við Ísland sem kalla má stjórnareiningar. Í sumum tilfellum hefur það verið gert um nokkurt skeið, svo sem varðandi rækjustofna þar sem veitt er sérstök ráðgjöf fyrir úthafsrækju auk þess sem sérstök ráðgjöf er fyrir svæðin við Eldey, Snæfellsnes, Arnarfjörð, Ísafjarðardjúp, Húnaflóa, Skagafjörð, Öxarfjörð og Skjálfanda. Um staðbundið aflamark til veiða á rækju við Eldey og við Snæfellsnes voru sett sérstök lagaákvæði en önnur framangreind svæði voru hlutdeildarsett á grunni eldri laga.
    Á undanförnum árum hefur áhugi á veiðum á hryggleysingjunum sæbjúgum og ígulkerum aukist og nú er svo komið að ráðgjöf um ígulker er veitt fyrir þrjú svæði og átta ráðgjafarsvæði eru fyrir sæbjúgu. Þá má nefna að ráðgjöf í beitukóng er einnig veitt fyrir tvö aðskilin svæði. Sérstakar áskoranir hafa komið upp við stjórn þessara veiða. Eru sæbjúgu sennilega besta dæmið þar um. Veiðar á þessum stofni hafa aukist mikið á síðustu árum, en í gildi eru níu leyfi til veiðanna sem gilda um öll þekkt veiðisvæði við landið, sem eru átta talsins. Hafrannsóknastofnun veitir ráð um hámarksafla á hverju veiðisvæði og þegar fyrir séð er að afli á hverju veiðisvæði fari yfir ráðlagðan afla er veiðisvæðum lokað með reglugerð. Aðrir nytjastofnar sem gætu komið til svæðisbundinnar úthlutunar, verði frumvarp þetta að lögum, eru ígulker og beitukóngur.
    Heildarafli við veiðar á sæbjúgum undanfarin fiskveiðiár hefur verið umfram veiðiráðgjöf og veiðar á mismunandi ráðgjafarsvæðum verið stöðvaðar fyrir lok veiðitímabils. Vegna endurskoðunar ráðgjafar er útlit fyrir að afli á næsta fiskveiðiári verði allt að 60% minni en fyrir tveimur árum. Þetta er óheppilegt, leiðir til kapphlaups um veiðarnar, verri umgengni um afla og skaðar verðmætasköpun í vinnslu og markaðsstarfi. Léleg afkoma mun vera af veiðunum. Hefur þetta raunar leitt útgerðir skipa á þessum veiðum til að leita gagnkvæmra samninga sín á milli um skiptingu veiðimagns.
    Hafa með þessu staðið nokkur rök til þess að úthlutað verði aflamarki til þessara veiða. Vafi lék hins vegar á hvort heimilt væri samkvæmt gildandi lögum að úthluta staðbundinni aflahlutdeild. Sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra skipaði starfshóp 15. maí 2019 sem ætlað var að fara yfir valdheimildir ráðherra við stjórn veiða á sæbjúgum og m.a. hvort ráðherra væri heimilt að úthluta staðbundinni aflahlutdeild fyrir sæbjúgu. Í starfshópnum sátu Arnór Snæbjörnsson, yfirlögfræðingur hjá atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu, Hulda Árnadóttir lögmaður og Jóhannes Karl Sveinsson lögmaður. Í júlí 2019 skilaði starfshópurinn áliti til ráðherra þar sem kom fram að vafi léki á því hvort unnt væri að setja svæðisbundna aflahlutdeild á hvert ráðgjafarsvæði um sig. Á hinn bóginn var bent á að ráðherra gæti lagt fram frumvarp til laga er veita mundi fullnægjandi lagastoð. Nauðsynlegt er að brugðist verði við þeirri ábendingu bæði með tillögu um að veitt verði almenn heimild til úthlutunar svæðisbundinnar aflahlutdeilda fyrir stofna hryggleysingja og með tillögu um sérstakt ákvæði til bráðabirgða sem mæli fyrir um hlutdeildarsetningu sæbjúgna.

3. Meginefni frumvarpsins.
3.1. Grásleppa.
    Verði frumvarpið að lögum verður tekin upp aflamarksstjórn við veiðar á grásleppu. Til þessa þarf breytingar á bæði lögum um veiðar í fiskveiðilandhelgi Íslands þar sem eru sérreglur um núverandi veiðistjórn, sem og lögum um stjórn fiskveiða hvað snertir framkvæmd úthlutunar, hámarksaflahlutdeild og heimild ráðherra til að víkja frá veiðiskyldu við grásleppuveiðar.
    Í umsögn Hafrannsóknastofnunar um greinargerð starfshóps um veiðistjórn hrognkelsaveiða, sem birt var í samráðsgátt stjórnvalda, benti stofnunin á að engin fiskifræðileg rök væru fyrir því að viðhalda svæðaskiptingu fyrir grásleppuveiðar, enda hefðu skip ekki mikið verið að flytja sig á milli svæða. Þó benti stofnunin á að æskilegt væri að ráðherra yrði heimilt að grípa til ráðstafana ef aðstæður kölluðu á aukna stýringu. Því er lagt til með 1. gr. frumvarpsins að heimilað verði að ákveða staðbundin veiðisvæði við grásleppuveiðar þannig að aðeins geti þar stundað veiðar bátar sem skráðir séu frá byggðarlagi eða verstöð við hlutaðeigandi veiðisvæði og útgerð.
    Til að tryggja að hlutdeild í grásleppu verði dreifð er lagt er til að sett verði 2% hámarksaflahlutdeild í grásleppu. Sé miðað við aflahæsta skip hverrar vertíðar á viðmiðunartímabilinu, þ.e. árunum 2014–2019, sbr. töflu, er meðalhámarksaflahlutdeild þessara vertíða 1,2% og er meðaltal hæsta afla á skip um 60 tonn. Meðaldagafjöldi vertíðanna 2014–2019 var 35 dagar. Verði frumvarpið að lögum er því svigrúm fyrir þá sem stunda grásleppuveiðar að auka nokkuð heimildir sínar. Hafa ber í huga í þessu sambandi að dæmi eru um að útgerð reki tvo til þrjú skip sem stunda grásleppuveiðar og því segir hámarksafli á skip ekki endilega til um hver hámarksafli sé á útgerð.

2014–2019
Hlutdeild aflahæsta skipsins fyrir hvert ár
Ár Heildarafli (kíló) Veiðar aflahæsta skipsins (kíló)
2014 3.976.682 59.230 1,4894326%
2015 6.219.048 62.204 1,0002174%
2016 5.367.259 68.397 1,2743376%
2017 4.532.388 50.133 1,1061057%
2018 4.468.692 62.863 1,4067427%
2019 4.965.934 56.226 1,1322341%

    Mörg skip sem stunda grásleppuveiðar fá ekki úthlutað aflamarki í öðrum tegundum. Ef aðstæður á markaði leiða til þess að ekki sé réttlætanlegt að halda til veiða gæti 50% veiðiskylda af úthlutuðu aflamarki komið mjög harkalega niður á þeim sem einungis fá úthlutað aflamarki í grásleppu. Þegar metið er hvort skip hafi veitt 50% af úthlutuðu aflamarki er litið til veiða allra tegunda samanlagt. Þeir sem einungis hafa aflamark í grásleppu geta því ekki reitt sig á að veiða aðrar tegundir til að uppfylla veiðiskylduna. Í ljósi þessa er lagt til að ráðherra verði heimilt að undanskilja grásleppu frá veiðiskyldu ef markaðsaðstæður leiða til þess að afli vertíðar verði óvenjulítill.

3.2. Svæðisbundið aflamark fyrir staðbundna nytjastofna hryggleysingja.
    Með frumvarpinu er lagt til að tekin verði upp heimild til að svæðisbinda aflahlutdeild í þeim tilvikum þegar eiginleikar nytjastofns gera að verkum að hann verður lítt eða ekki hreyfanlegur og aflaráðgjöf tekur mið af því.

3.3. Ákvæði til bráðabirgða, hlutdeildarsetning grásleppu, sandkola og sæbjúgna.
    Lagt er til að sett verði þrjú bráðabirgðaákvæði við lög um stjórn fiskveiða, sem mæla fyrir um hlutdeildarsetningu í grásleppu, sandkola og sæbjúgum. Í sérhverju ákvæði er lögð til mismunandi aðferðafræði við mat á veiðireynslu og leiðir það af því hvernig hverjum stofni hefur verið stjórnað á síðustu árum.
    Lagt er til að veiðireynsla grásleppu verði metin út frá þremur bestu veiðitímabilum af sex, frá og með árinu 2014 til og með árinu 2019. Rökin fyrir því eru að grásleppuveiðar standa yfir í stuttan tíma og frátafir á einni vertíð geta því haft mikið að segja varðandi veiðireynslu það ár. Þá eru aflabrögð misjöfn milli ára og eftir svæðum. Sá mismunur jafnast út með lengra viðmiðunartímabili. Því er málefnalegt að litið sé til svo langs viðmiðunartíma. Þá leiða sanngirnissjónarmið til þess að taka vertíðina 2020 ekki inn í viðmiðunartímann þar sem gæftir voru óvenjugóðar og nauðsynlegt var að grípa til takmarkana á veiðunum sem kom misjafnlega niður á útgerðum eftir því hvenær veiðar hófust. Þá er lagt til að aflahlutdeild skuli úthlutað á grundvelli veiðireynslu af því leyfi sem skráð er á skip miðað við þrjú bestu veiðitímabil á viðmiðunartímanum, en ekki á grundvelli veiðireynslu skips síðustu þrjú veiðitímabil eins og annars er mælt fyrir um í 1. mgr. 9. gr. laganna. Réttur til að fá grásleppuveiðileyfi hefur gengið kaupum og sölum. Þegar seldur hefur verið réttur til að fá grásleppuveiðileyfi af skipi eru líkur til að útgerð þess stundi ekki lengur grásleppuveiðar. Ef miðað væri við veiðireynslu fiskiskips mundi það geta leitt til þess að þeir sem veiðarnar stunda og hafa nýlega öðlast rétt til að fá leyfi fengju úthlutað lítilli aflahlutdeild. Er þessi tillaga gerð samkvæmt tillögu fyrrgreinds starfshóps.
    Með reglugerð um stjórn veiða í atvinnuskyni fiskveiðiárið 1997/1998 var sett aflamark fyrir sandkola sem gilti sunnan við tiltekna línu samkvæmt ráðgjöf Hafrannsóknastofnunar. Miðaði úthlutun aflamarks við áætlun um afla skipa sunnan línunnar en lítið var vitað um stofnstærð norðan hennar og var tilgangurinn ekki síst að varna brottkasti. Hafrannsóknastofnun hefur lagt til að sandkolaafli fiskveiðiársins 2020/2021 fari ekki yfir 319 tonn. Einnig hefur stofnunin lagt til að sérstaka aflamarkssvæðið frá Snæfellsnesi suður um að Stokksnesi verði lagt niður og að öll sandkolamið verði undir aflamarki.
    Á undanförnum þremur fiskveiðiárum hefur aflinn utan framangreinds aflamarkssvæðis verið 26% af heildarafla sandkola við landið. Við úthlutun aflamarks vegna fiskveiðiársins 2020/2021 var tekið tillit til þess að ráðgjöf gilti fyrir fiskveiðilandhelgina í heild en ekki einungis á aflamarkssvæðinu.
    Við frumvarpsvinnuna, eftir að drög frumvarpsins voru birt til samráðs, var stuðst við samantekt frá Hafrannsóknastofnun varðandi veiðar á aflamarkssvæðinu og utan þess á undanförnum þremur fiskveiðiárum og það hlutfall látið ráða skiptingunni og námundað þannig að skiptingin yrði 75/25. Það má telja slíka nálgun vera sanngjarna og forsendur við endurútreikning aflamarks málefnalegar. Rétt þótti engu að síður að taka tillit til þeirra sjónarmiða að veiðar norðan aflamarkssvæðisins hefðu verið frjálsar allt frá því að aflamark var sett á sandkola 1997 fyrir aflamarkssvæðið frá Snæfellsnesi, suður um og austur að Eystrahorni. Því komi til álita að skoða einnig hlutfall veiða frá þeim tíma sem allar veiðar á sandkola voru frjálsar. Í fyrrnefndri skýrslu Hafrannsóknastofnunar um ástand fiskstofna frá árinu 1998 kemur fram að sandkolaveiðar hafi fyrst og fremst verið stundaðar í Faxaflóa, við Reykjanes og með suðurströndinni austur að Stokksnesi. Því er ljóst að þegar aflamarki var úthlutað fyrir framangreint svæði hafði afli norðan þess verið óverulegur. Samkvæmt skráningum í afladagbækur veiðiskipa var um 3,5% afla á árunum 1994–1996 norðan við svæðið sem síðar var skilgreint sem aflamarkssvæði. Því var tekið tillit til framkominna athugasemda og drögunum breytt á þann veg að hlutfall afla norðan viðmiðunarsvæðis á árunum 1994–1996 var látið gilda 50% og hlutfallið undanfarin þrjú fiskveiðiár var látið gilda 50%. Þannig lækkar vægi þess sem veitt hefur verið undanfarin ár utan aflamarkssvæðis og drögunum breytt til samræmis úr 25% í 15%.
    Lagt er til að sæbjúgu verði hlutdeildarsett á átta veiðisvæðum. Hafrannsóknastofnun veitir nú ráð um hámarksafla fyrir átta veiðisvæði við landið en fjöldi svæðanna sem ráðgjöf nær yfir hefur vaxið á undanförnum árum og mörk svæðanna tekið breytingum. Það er talið erfiðleikum háð að miða við aflareynslu skips á hverju svæði fyrir sig. Lagt til að aflareynsla verði metin með einfaldari hætti þannig að hafsvæðinu í kringum landið verði skipt í tvennt við 20°V. Þannig er lagt til að hlutdeild verði úthlutuð á veiðisvæði á grundvelli aflareynslu skips í þeim hluta landhelginnar sem veiðisvæðið er. Þannig mun hvert skip sem fær aflahlutdeild vestan 20°V fá sömu hlutdeild í öllum þeim fimm svæðum sem Hafrannsóknastofnun veitir ráð um vestan þeirrar lengdargráðu. Sama gildir um þau þrjú svæði sem nú eru skilgreind ráðgjafarsvæði austan við 20°V. Mun hlutdeild hvers veiðisvæðis vera sjálfstæð og óháð þessari skiptingu eftir að úthlutun aflahlutdeildar hefur farið fram. Aflamark skipa á hverju veiðisvæði mun svo ráðast af hlutdeild skips á því svæði og leyfilegum heildarafla á svæðinu skv. 3. gr. laga um stjórn fiskveiða, nr. 116/2006.

4. Samræmi við stjórnarskrá og alþjóðlegar skuldbindingar.
    Lög um stjórn fiskveiða eru öðrum þræði reist á mati á því að sú hagkvæmni, sem leiði af varanleika aflahlutdeildar og heimildum til framsals hennar og aflamarks, stuðli að arðbærri nýtingu fiskstofna fyrir þjóðarbúið í samræmi við markmið 1. gr. laganna. Skv. 3. málsl. 1. gr. laganna myndar úthlutun veiðiheimilda hins vegar ekki eignarrétt eða óafturkallanlegt forræði einstakra aðila yfir þeim. Aflaheimildir eru aðeins varanlegar í þeim skilningi að þær verða hvorki felldar niður né þeim breytt nema með lögum, sbr. dóm Hæstaréttar Íslands í máli nr. 12/2000 frá 6. apríl 2000. Löggjafinn getur því frá einum tíma til annars meðal annars kveðið nánar á um réttinn til fiskveiða, þar á meðal úr einstökum stofnum eða bundið hann skilyrðum vegna breyttra sjónarmiða um ráðstöfun þeirrar sameignar íslensku þjóðarinnar, sem nytjastofnar á Íslandsmiðum eru. Hins vegar verður mat löggjafans ávallt að vera reist á málefnalegum forsendum þannig að ekki fari í bága við jafnræðisreglu 1. mgr. 65. gr. stjórnarskrárinnar. Jafnframt þarf að gæta jafnræðis við takmörkun atvinnufrelsis skv. 1. mgr. 75. gr. stjórnarskrárinnar. Meðal þeirra atriða sem löggjafinn getur látið ráða vali sínu í þessum efnum er tillit til hagsmuna af atvinnu og fjárfestingum sem bundnir hafa verið í sjávarútvegi, og til reynslu og þekkingar því samfara, sbr. dóm Hæstaréttar í máli nr. 221/2004 frá 18. nóvember 2004.
    Það er því á valdi löggjafans að velja á milli kosta um hvernig veiðireynsla verður lögð til grundvallar við úthlutun aflahlutdeilda við stjórn fiskveiða innan fyrrgreindra marka og hefur löggjafanum verið veitt víðtækt mat í þessum efnum, sbr. dóm Hæstaréttar nr. 462/2015 frá 28. janúar 2015.
    Með frumvarpinu er lagt til að tveir nytjastofnar sem ekki hefur áður verið stjórnað á grundvelli úthlutaðs aflamarks verði hlutdeildarsettir. Einnig er í frumvarpinu lagt til að sandkoli verði hlutdeildarsettur fyrir allt landið. Í öllum tilfellum er lagt til að vikið verði frá 1. mgr. 9. gr. laga um stjórn fiskveiða, nr. 116/2006, við mat á veiðireynslu þar sem niðurstaðan við beitingu ákvæðisins mundi ekki leiða til sanngjarnar niðurstöðu fyrir þá sem veiðarnar stunda vegna þess hvernig þeim hefur verið stjórnað á undanförnum árum.
    Í gildandi lögum eru grásleppuveiðar takmarkaðar við ákveðinn hóp sem rétt hefur til að stunda þær veiðar á grundvelli opinbers leyfis. Um það bil 450 skip hafa rétt til að fá leyfi til grásleppuveiða, skv. 1. mgr. 7. gr. laga um veiðar í fiskveiðilandhelgi Íslands, nr. 79/1997. Leyfi eru virkjuð fyrir flest skip sem hafa rétt til að fá leyfi fyrir hverja vertíð og fara á grásleppuveiðar. Einhver réttindi til að fá leyfi hafa verið sett í geymslu hjá Fiskistofu, t.d. vegna þess að skip skortir haffæri eða af öðrum ástæðum. Þá hafa einhver skip rétt til að fá leyfi en leyfin eru ekki virkjuð á grásleppuvertíðinni þar sem skipin fara ekki á veiðar.
    Verði frumvarp þetta að lögum munu einungis þau skip sem hafa rétt til grásleppuveiða og hafa nýtt leyfið á því tímabili sem afmarkað er í bráðabirgðaákvæðinu fá úthlutaða aflahlutdeild með tilliti til veiðireynslu á grundvelli þess leyfis sem skráð er á skip. Verður atvinnuréttindum leyfishafa því ekki raskað með frumvarpinu. Veiðireynsla er það viðmið sem stjórnvöld hafa lagt til grundvallar þegar takmarka á aðgang að fiskveiðiauðlindinni. Aðili sem ekki hefur stundað grásleppuveiðar á viðmiðunartímanum en leiðir rétt sinn af framangreindu ákvæði verður ekki talinn geta haft réttmætar væntingar til þess að veiðistjórn í grásleppu verði ekki breytt til samræmis við fiskveiðistjórn helstu nytjastofna Íslands eða að leyfi sem ekki eru nýtt sem slík leiði af sér rétt við slíkar breytingar.
    Veiðar á sandkola hafa verið frjálsar norðan viðmiðunarsvæðisins sem nær frá Snæfellsnesi, suður um og austur að Eystrahorni. Með því að fella það svæði einnig undir aflamarksstjórn er ljóst að taka verður tillit til þeirra aðila sem hafa haft atvinnu af því að veiða sandkola á því svæði. Í frumvarpinu er lagt til að aflahlutdeild núverandi hlutdeildahafa verði endurreiknuð að hluta til og að tekið verði tillit til þeirra aðila sem stundað hafa sandkolaveiðar í góðri trú um möguleika sína til að halda veiðum áfram. Með frumvarpinu er leitað málamiðlunar í ljósi ólíkra sjónarmiða og hagsmuna milli þeirra aðila sem stundað hafa sandkolaveiðar á grundvelli úthlutaðs aflamarks og þeirra sem hafa stundað veiðar á sandkola norðan viðmiðunarlínu án nokkurra takmarkana.

5. Samráð.
5.1. Veiðistjórn grásleppu.
    Hinn 15. maí 2018 skipaði sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, sem fyrr greinir, starfshóp til að fara yfir tilhögun veiðistjórnar grásleppuveiða og gera rökstudda tillögu um breytingar sæi starfshópurinn ástæðu til. Í starfshópinn voru skipaðir tveir fulltrúar án tilnefningar auk fulltrúa Landssambands smábátaeigenda. Greinargerð starfshópsins var sett í samráðsgátt stjórnvalda á vefnum Ísland.is, mál nr. S-141/2018. Alls bárust 27 umsagnir í samráðsgáttina auk þess sem sjö umsagnir voru sendar beint til ráðuneytisins. Við vinnslu frumvarpsins var litið til þeirra sjónarmiða sem fram komu í greinargerðinni sem og framkominna umsagna.
    Drög að frumvarpinu voru sett í samráðsgátt stjórnvalda, mál nr. S-173/2020. Alls bárust 64 umsagnir. Af þeim sem tóku beina afstöðu til þess hvort færa ætti grásleppuveiðar undir aflamarksstjórn voru 39 umsagnaraðilar fylgjandi tillögunni og 21 andvígur. Auk þess bárust þrjár umsagnir varðandi stjórn veiða á hryggleysingjum og sandkola.
    Helstu athugasemdir þeirra sem voru fylgjandi breyttri veiðistjórn voru að veiðarnar yrðu hagkvæmari og fyrirsjáanlegri, og auknar líkur á nýliðun, umgengni um auðlindina mundi batna og minna yrði um óæskilegan meðafla, svo sem sjávarspendýr og sjófugla. Helstu athugasemdir þeirra sem voru andvígir breyttri veiðistjórn voru að samþjöppun yrði í greininni þar sem aflaheimildir mundu safnast á fárra hendur, nýliðun yrði erfiðari og að breytingin mundi hafa neikvæð áhrif á smábátaútgerð í landinu og veikja atvinnulíf, sérstaklega í minni byggðum landsins. Þá komu ábendingar um að taka þyrfti tillit til aðila sem keypt hefðu leyfi til veiða undanfarin ár en veiðireynsla þeirra væri lítil sem engin á viðmiðunartímabilinu sem kynnt var í samráðsgáttinni, þ.e. árin 2013–2018.
    Í umsögn Landssambands smábátaeigenda var vísað til samþykkta frá landsfundi sambandsins 2019 þar sem fram kom andstaða félagsmanna við að hlutdeildarsetja grásleppu. Einnig kom fram að umræða um málefnið hefði haldið áfram frá þeim tíma og að skiptar skoðanir væru meðal félagsmanna. Jafnframt vísaði landssambandið til þess að það hefði borið fram ýmsar tillögur sem miðuðu að því að veita útgerðum meiri sveigjanleika við veiðarnar og ákvörðun um skipulag veiðanna. Ekki væri nauðsynlegt að færa grásleppu í aflamarksstjórn til að ná því fram. Í umsögn landssambandsins komu meðal annars þær ábendingar fram að þrátt fyrir að þak væri á samanlagðri hlutdeild einstakra aðila, einstaklinga eða lögaðila sýndu dæmin að túlkun þess ákvæðis hefði ekki komið í veg fyrir tilgang þess. Einnig taldi sambandið að veiðiskylda, sbr. 6. mgr. 15. gr. laga um stjórn fiskveiða, nr. 116/2006, ætti ekki að ná yfir grásleppuveiðar þar sem markaðsaðstæður gætu verið mismunandi og þær ráða miklu um sókn á vertíð. Sambandið vakti athygli á því að fyrir þyrfti að liggja lögfræðilegt álit á því að heimilt væri að svifta aðila sem litla eða enga veiðireynslu hefðu haft undanfarin sex ár veiðirétti sem grásleppuleyfi veitti þeim í dag, en um er að ræða yfir 100 skip. Jafnframt var vakin athygli á því að sérstaklega yrði réttur aðila skoðaður með tilliti til eignarréttar grásleppuleyfa. Þá komu fram sjónarmið um að viðhalda svæðaskiptingu og setja stærðartakmarkanir á skip sem heimilt væri að stunda veiðarnar.
    Samtök fyrirtækja í sjávarútvegi telja eðlilegt að hugað sé að breytingum á stjórn grásleppuveiða en benda á að ef farin verður sú leið sem lögð er til í frumvarpinu þurfi að tryggja að slík framkvæmd hamli ekki öðrum veiðum þar sem grásleppa hefur verið hluti aflans.

5.2. Veiðistjórn sandkola.
    Fjórðungssamband Vestfjarða taldi þá nálgun sem er í drögunum ná til að jafna hagsmuni aðila. Samtök fyrirtækja í sjávarútvegi telja að rétt sé að staldra við og huga nánar að því hvað geti talist eðlilegur og sanngjarn grundvöllur við sameiningar veiðiheimilda á þessum tveimur svæðum. Reglur er lúta að veiðistjórn þurfi að samræmast áunnum réttindum þeirra sem veiðarnar stunda. Verði ákvæðið í frumvarpinu um breytt fyrirkomulag aflahlutdeildar í sandkola að lögum töldu samtökin að líta megi svo á að um tilfærslu á aflahlutdeild sé að ræða til þeirra sem hafa safnað aflareynslu á öðru svæði eða öfugt. Þannig væri hugsanlegt að ekki sé aðeins um skerðingu og takmörkun á stjórnarskrárvörðum atvinnuréttindum að ræða heldur vakni upp spurningar um réttarstöðu aðila.

5.3. Veiðistjórn hryggleysingja.
    Í athugasemdum sem lutu að heimild ráðherra til að úthluta svæðisbundnum aflaheimildum hryggleysingja var tekið undir mikilvægi þess að slíkt yrði gert. Varanleiki veiðiheimilda og þar með fyrirsjáanleiki í rekstri væri lykilatriði til að tryggja afkomu veiðanna og rekstraröryggi fyrirtækja, atvinnuöryggi starfsmanna, vöruþróun, nýsköpun, markaðssókn, fjármögnun og lánakjör fyrirtækjanna. Samtök fyrirtækja í sjávarútvegi lögðu áherslu á mikilvægi þess að fyrir lægi skýr og málefnaleg skilgreining á því hvað teldist staðbundinn stofn og tryggt yrði að um afmarkaða og aðskilda stofna væri að ræða. Þá bentu samtökin á að við úthlutun aflahlutdeildar í sæbjúgum væri í drögunum gert ráð fyrir að hlutdeild yrði reiknuð á grunni tveggja meginsvæða, þ.e. austur- og vestursvæðis, og þeir styddu þá leið til úthlutunar heimilda á þeim átta veiðisvæðum sem hámarksafli væri ráðlagður.

5.4. Viðbrögð við framkomnum athugasemdum.
    Tilefni þótti til að breyta frumvarpinu í ljósi framkominna athugasemda.
    Í fyrsta lagi var talið rétt að taka tillit til athugasemda varðandi veiðiskyldu þegar markaðsaðstæður fyrir grásleppuafurðir eru erfiðar. Breyting var gerð á drögunum þar sem ráðherra er veitt heimild með reglugerð til að undanskilja grásleppu tímabundið frá veiðiskyldu skv. 6. mgr. 15. gr. laga nr. 116/2006 séu markaðsaðstæður metnar með þeim hætti að réttlætanlegt væri að víkja frá 50% veiðiskyldu.
    Í öðru lagi var talin þörf á að taka meira tillit til þeirra aðila sem stunduðu grásleppuveiðar á vertíðunum 2019 og 2020 en eru ekki með aflareynslu á viðmiðunartímabilinu 2013–2018. Brugðist var við með því að breyta viðmiðunartímabilinu í 2014–2019 þannig að tryggt væri að þeir aðilar sem nýttu leyfi 2019 fengju úthlutað í samræmi við þá veiðireynslu. Ekki þótti rétt að miða við árið 2020 vegna sérstakra aðstæðna.
    Í þriðja lagi var gerð breyting vegna athugasemda um eðlilegan og sanngjarnan grundvöll við sameiningar veiðiheimilda á veiðisvæðum sandkola. Í vinnu við frumvarpsdrögin var sem fyrr segir stuðst við samantekt frá Hafrannsóknastofnun varðandi veiðar á aflamarkssvæðinu og utan þess á undanförnum þremur fiskveiðiárum og það hlutfall látið ráða skiptingunni 75/25. Rétt þótti engu að síður að taka tillit til þeirra sjónarmiða sem fram komu um að veiðar norðan aflamarkssvæðisins hefðu verið frjálsar allt frá því að aflamark var sett á sandkola 1997 fyrir aflamarkssvæðið frá Snæfellsnesi, suður um og austur að Eystrahorni. Því komi til álita að skoða einnig hlutfall veiða frá þeim tíma sem allar veiðar á sandkola voru frjálsar. Í áðurnefndri skýrslu Hafrannsóknastofnunar um ástand fiskstofna frá árinu 1998 kemur fram að sandkolaveiðar hafi fyrst og fremst verið stundaðar í Faxaflóa, við Reykjanes og með suðurströndinni austur að Stokksnesi. Því er ljóst að þegar aflamarki var úthlutað fyrir framangreint svæði hafi afli norðan þess verið óverulegur. Samkvæmt skráningum í afladagbækur veiðiskipa var um 3,5% afla áranna 1994–1996 norðan við svæðið sem síðar var skilgreint sem aflamarkssvæði. Því var tekið tillit til framkominna athugasemda og frumvarpsdrögunum breytt á þann veg að hlutfall afla norðan viðmiðunarsvæðis á árunum 1994–1996 var látið gilda 50% og hlutfallið undanfarin þrjú fiskveiðiár var látið gilda 50%. Þannig lækkar vægi þess sem veitt hefur verið undanfarin ár utan aflamarkssvæðis og var drögunum breytt til samræmis úr 25% í 15%.
    Ekki þótti tilefni til að breyta efni frumvarpsins að öðru leyti.

6. Mat á áhrifum.
    Ábyrg fiskveiðistjórn varðar almannahag og með hlutdeildarsetningu nytjastofna er stefnu stjórnvalda í fiskveiðistjórn fylgt. Kostirnir varðandi stjórn grásleppuveiða sem og veiða á hryggleysingjum eru ótvíræðir: ábyrgari og fyrirsjáanlegri fiskveiðistjórn, meiri sveigjanleiki fyrir þá sem stunda veiðarnar og einfaldari stjórnsýsla.
    Með frumvarpinu er leitast við að tryggja verðmætasköpun til lengri tíma, enda ýtir aflamarksskipulag jafnan undir hagræðingu og bætta afkomu í rekstri. Stjórnsýslan er vel í stakk búin til að koma efni frumvarpsins í framkvæmd. Fiskistofa mun annast nauðsynlega stjórnsýslu við framkvæmd hlutdeildarsetningar á þeim nytjastofnum sem frumvarpið tekur til.
    Stjórnsýslan um veiðar á grásleppu og hryggleysingjum verður einfaldari þar sem ekki þarf að sækja um og gefa út leyfi ár hvert þegar stýrt er með hlutdeildarsetningu og ekki verður heldur þörf á að setja nýja reglugerð fyrir hverja vertíð auk breytingarreglugerða. Þá mun ekki koma til þess að veiðar hvers svæðis sem ráðgjöf er veitt um verði stöðvaðar þar sem veiðum verður stjórnað með úthlutun aflamarks.
    Þeir aðilar sem verða helst fyrir áhrifum af frumvarpinu eru þeir sem stunda veiðar á þeim nytjastofnum sem frumvarpið tekur til sem og þær opinberu stofnanir sem koma að framkvæmd fiskveiðistjórnar. Eftirlit Fiskistofu og Landhelgisgæslunnar með veiðunum verður einfaldara og skilvirkara, m.a. þar sem ekki þarf að fylgjast með dagafjölda hvers báts á grásleppuveiðum eða lönduðum afla á hverju svæði fyrir sig við veiðar á hryggleysingjum.
    Á fiskveiðiárinu 2017/2018 nam veiðigjald vegna grásleppu 44 millj. kr. Með lögum um veiðigjald, nr. 145/2018, sem tóku gildi 29. desember 2018, var fallið frá því að innheimta veiðigjald á þá nytjastofna sem ekki lúta aflamarki. Verði frumvarpið þetta að lögum verður grásleppa að nýju gjaldskyldur nytjastofn í skilningi laga um veiðigjald.
    Ef miðað er við ráðlagðan heildarafla af sæbjúgum fyrir fiskveiðiárið 2020/2021 verða tekjur af veiðigjaldi fyrir sæbjúgu 2,2 millj. kr. frá og með fiskveiðiárinu 2021/2022. Ekki verða gefin út sérstök leyfi til sæbjúgnaveiða og en tekjur af útgáfu níu leyfa eru 225 þús. kr. sem renna árlega í ríkissjóð og munu tekjur ríkissjóðs því lækka sem því nemur. Áætluð fjárhagsáhrif á ríkissjóð vegna innheimtu veiðigjalda af sæbjúgum eru þá aukning á tekjum um 2 millj. kr. (2,2 millj. kr. mínus 225. þús. kr.).
    Ef miðað er við ráðlagðan heildarafla Hafannsóknastofnunar fyrir veiðar á sandkola verða tekjur af veiðigjaldi fyrir sandkola innan við 1 millj. kr.
    Verði frumvarpið óbreytt að lögum hefur það engin áhrif á útgjöld ríkissjóðs en gera má ráð fyrir nokkurri hækkun tekna af veiðigjaldi, eða á bilinu 30–40 millj. kr., miðað við forsendur við ákvörðun veiðigjalda, aflamagns í grásleppu árið 2021 og væntra áhrifa afsláttarreglna sem nýtast einkum smærri útgerðum. Þá er gert ráð fyrir að frumvarpið hafi jákvæð en óveruleg áhrif á sértekjur Fiskistofu.
    Efni frumvarpsins er kynhlutlaust en gera má ráð fyrir að frumvarpið leiði til efnahagslegs ávinnings fyrir þá sem stunda veiðar á grásleppu og sæbjúgum þar sem hlutdeildasetning felur oftast í sér verðmætaaukningu á veiðiréttindum. Karlmenn eru þar í miklum meiri hluta. Varðandi stjórn veiða á sandkola er ekki gert ráð fyrir miklum áhrifum á þá sem veiðarnar stunda.

Um einstakar greinar frumvarpsins.

Um 1. gr.

    Með greininni er lagt til að ráðherra verði heimilt með reglugerð að ákveða staðbundin veiðisvæði við grásleppuveiðar.

Um 2. gr.

    Með greininni er lagt til að sérákvæði um sviptingu leyfis til grásleppuveiða falli brott, enda ekki þörf á því verði frumvarpið að lögum.

Um 3. gr.

    Lagt ert til að ráðherra geti úthlutað staðbundinni aflahlutdeild á hryggleysingjum í áföngum eftir því hvernig veiðar og veiðiálag þróast með hliðsjón af aflaráðgjöf Hafrannsóknastofnunar. Ráðherra mun svo úthluta svæðisbundnu aflamarki til samræmis við svæðisskiptingu hlutdeilda. Við mat á aflareynslu innan hvers svæðis gilda 1. og 2. mgr. 9. gr. gildandi laga eftir því sem við á. Um frekari skýringar vísast til umfjöllunar í kafla 3.2.

Um 4. gr.

    Lagt er til að hámarksaflahlutdeild í grásleppu megi ekki fara yfir 2%. Að öðru leyti vísast til umfjöllunar í kafla 3.1.

Um 5. gr.

    Með greininni er lagt til að ráðherra verði heimilt að undanskilja grásleppu frá 50% veiðiskyldu komi til þess að markaðsaðstæður verði það slæmar að veiðar verði ekki stundaðar nema í litlum mæli. Í ljósi þess að hluti þeirra skipa sem nýtt eru til grásleppuveiða er ekki með aflahlutdeild í öðrum nytjastofnum gæti reynst torvelt fyrir þessi skip að veiða 50% af úthlutuðu aflamarki við framangreindar aðstæður.

Um 6. gr.

    Lagt er til að við lögin bætist þrjú ný bráðabirgðaákvæði sem mæla fyrir um hlutdeildarsetningu grásleppu, sæbjúgna og sandkola.
    Verði frumvarp þetta óbreytt að lögum munu skip sem hafa rétt til leyfis skv. 1. mgr. 7. gr. gildandi laga um veiðar í fiskveiðilandhelgi Íslands, nr. 79/1997, fá úthlutað aflahlutdeild á grundvelli aflareynslu af því leyfi sem skráð er á skipið. Þá er einnig mælt svo fyrir að aflareynsla skuli metin á grundvelli þriggja bestu veiðitímabila á viðmiðunartímanum 2014–2019. Í því felst að skip sem hafa rétt til að fá leyfi fá úthlutað aflahlutdeild á grundvelli veiðireynslu þriggja bestu veiðitímabila sem leyfið var nýtt á viðmiðunartíma leyfisins. Engu skiptir hvort leyfið hafi verið í geymslu hjá Fiskistofu eða hafi ekki verið virkjað undanfarin ár ef leyfið var nýtt innan viðmiðunartímans.
    Lagt er til að aflahlutdeild í sandkola verði endurreiknuð og að hlutdeild verði reiknuð fyrir allan stofninn í stað þess fyrirkomulags sem verið hefur frá árinu 1997 þegar aflamark var sett fyrir svæðið frá Snæfellsnesi, suður um og austur að Eystrahorni en veiðar norðan þess frjálsar.
    Lagt er til að úthlutað verði svæðisskiptri aflahlutdeild í sæbjúgum og byggist sú skipting á veiðireynslu austan og vestan við línu sem dregin er við 20°V. Hafrannsóknastofnun veitir nú ráð um hámarksafla fyrir átta svæði en svæðum sem stofnunin veitir ráð um hefur fjölgað nokkuð á undanförnum árum auk þess sem stærð svæðanna hefur tekið breytingum. Veiðireynsla þeirra sem hafa stundað veiðar á sæbjúgum nær þó einnig út fyrir hin skilgreindu svæði. Því er lagt til að mat aflareynslu verði tvíþætt til einföldunar.