Ferill 323. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


151. löggjafarþing 2020–2021.
Þingskjal 665  —  323. mál.
2. umræða.Nefndarálit


um frumvarp til laga um fæðingar- og foreldraorlof.

Frá meiri hluta velferðarnefndar.


    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Stefán Daníel Jónsson, Evu Margréti Kristinsdóttur og Bjarnheiði Gautadóttur frá félagsmálaráðuneytinu, Halldór Oddsson og Drífu Snædal frá Alþýðusambandi Íslands, Dagnýju Aradóttur Pind og Sonju Ýri Þorbergsdóttur frá BSRB, Andra Val Ívarsson og Karen Ósk Pétursdóttur frá BHM, Álfheiði M. Sívertsen frá Samtökum atvinnulífsins, Huldu Ragnheiði Árnadóttur frá Félagi kvenna í atvinnulífinu, Leó Örn Þorleifsson frá Vinnumálastofnun, Bryndísi Gunnlaugsdóttur frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga, Jón Fannar Kolbeinsson frá Jafnréttisstofu, Tatjönu Latinovic og Brynhildi Heiðar- og Ómarsdóttur frá Kvenréttindafélagi Íslands, Sigrúnu Daníelsdóttur frá embætti landlæknis, Alexander Kristin Smárason frá Félagi íslenskra fæðingar- og kvensjúkdómalækna, Ingu Maríu Hlíðar Thorsteinsson frá Ljósmæðrafélagi Íslands, Konráð S. Guðjónsson og Öglu Eiri Vilhjálmsdóttur frá Viðskiptaráði Íslands, Þorberu Fjölnisdóttur frá Öryrkjabandalagi Íslands, Jóhönnu Ásgeirsdóttur og Gunndísi Evu Baldursdóttur frá Landssamtökum íslenskra stúdenta, Sigríði Völu Halldórsdóttur frá Gleym-mér-ei og Gunnlaugu Thorlacius og Kjartan Valgarðsson frá Geðverndarfélagi Íslands.
    Nefndinni bárust umsagnir frá Alþýðusambandi Íslands, Árna Hólmari Gunnlaugssyni, sameiginleg umsögn frá Ásdísi Aðalbjörgu Arnalds, doktor í félagsráðgjöf, Ara Klængi Jónssyni, doktor í lýðfræði, Ársæli Má Arnarssyni, prófessor við Háskóla Íslands, Guðnýju Björk Eydal, prófessor og forseta félagsráðgjafardeildar Háskóla Íslands, Ingólfi V. Gíslasyni, prófessor í félagsfræði við Háskóla Íslands, Kolbeini Hólmari Stefánssyni, lektor í félagsráðgjöf við Háskóla Íslands og Sigrúnu Júlíusdóttur, prófessor emeritus í félagsráðgjöf við Háskóla Íslands, Bandalagi háskólamanna, Barnaheill, BSRB, Byggðastofnun, Fanneyju Rún Óskarsdóttur og Hönnu Láru Pálsdóttur, Félagi háskólamenntaðra starfsmanna Stjórnarráðsins, félaginu Femínísk fjármál, Félagi íslenskra fæðingar- og kvensjúkdómalækna, Félagi íslenskra heimilislækna, Félagi um foreldrajafnrétti, Félagsráðgjafafélagi Íslands, Geðverndarfélagi Íslands, Hveragerðisbæ, Jafnréttisstofu, Kvenréttindafélagi Íslands, Ljósmæðrafélagi Íslands, Sambandi íslenskra sveitarfélaga, Sambandi ungra sjálfstæðismanna, Samtökunum ’78, Samtökum atvinnulífsins, Uppreisn – ungliðahreyfingu Viðreisnar, Vesturbyggð, Viðskiptaráði Íslands og Öryrkjabandalagi Íslands.

Almennt.
    Með frumvarpinu er lagt til að samþykkt verði ný lög um fæðingar- og foreldraorlof sem leysi af hólmi lög nr. 95/2000. Í frumvarpinu er m.a. lagt til að réttindi til fæðingar- og foreldraorlofs lengist í 12 mánuði og skiptist jafnt milli foreldra með einum mánuði framseljanlegum þeirra á milli. Meiri hlutinn fagnar því sérstaklega að nú sé stigið það tímabæra skref að lengja fæðingarorlof í 12 mánuði enda um að ræða mikið réttindamál fyrir börn jafnt sem foreldra þeirra.


Réttur foreldra til fæðingarorlofs/fæðingarstyrks og skipting réttarins milli foreldra (8. gr., 26. gr. og 27. gr.).
    Í 1. mgr. 8. gr. frumvarpsins er kveðið á um að foreldrar eigi sjálfstæðan rétt til fæðingarorlofs í allt að sex mánuði hvort um sig vegna fæðingar, frumættleiðingar barns eða töku barns í varanlegt fóstur. Þó sé foreldri heimilt að framselja einn mánuð af sjálfstæðum rétti sínum til hins foreldrisins. Er hér um nýmæli að ræða en með þessu er fallið frá því fyrirkomulagi gildandi laga að tiltekinn fjöldi mánaða sé sameiginlegur sem foreldrar geti skipt sín á milli eða annað þeirra tekið. Sömu reglu um skiptingu réttar foreldra sem eru utan vinnumarkaðar eða í minna en 25% starfshlutfalli til fæðingarstyrks er að finna í 26. gr. frumvarpsins. Þá er sambærilegt ákvæði um rétt foreldra í fullu námi til fæðingarstyrks í 27. gr.
    Fram komu ýmis sjónarmið fyrir nefndinni varðandi skiptingu réttarins milli foreldra og voru þar helst skiptar skoðanir um hvort rétt væri að miða við jafnan sjálfstæðan rétt hvors foreldris um sig eins og frumvarpið mælir fyrir um eða halda í það fyrirkomulag gildandi laga að hafa ákveðinn fjölda mánaða sameiginlegan.
    Bent var á að alþjóðlegar rannsóknir sýni að virk þátttaka beggja foreldra í umönnun barnsins hafi jákvæð áhrif á alhliða þroska þess en ekkert sé líklegra til að ýta undir þá virku þátttöku en orlofstaka beggja foreldra. Þá var vakin athygli á því að samkvæmt rannsóknum hafi umönnunarþátttaka feðra margvísleg jákvæð áhrif á líf barna til lengri tíma, m.a. á hegðun, andlega líðan og félagslega stöðu barna, þar sem hegðunarvandamálum drengja fækkar og sjálfstraust stúlkna eykst. Líkt og fram kemur í greinargerð með frumvarpinu og mörgum þeirra umsagna sem nefndinni bárust hefur reynslan verið sú að sá réttur sem foreldrar geti skipt með sér hafi í langflestum tilvikum verið nýttur af því foreldri sem gengur með barnið. Þannig sýni tölulegar upplýsingar frá Fæðingarorlofssjóði að sá tími sem er eyrnamerktur því foreldri sem ekki gengur með barnið verði að viðmiði um þann tíma sem teljist hæfilegt að það foreldri taki í fæðingarorlof. Ábyrgð foreldra á umönnun barna sinna er því ekki enn orðin jöfn tuttugu árum eftir að sjálfstæður réttur feðra til þriggja mánaða orlofs var festur í lög með það að markmiði að stuðla að jafnri foreldraábyrgð sem og jafnri stöðu kynjanna á vinnumarkaði. Launamunur kynjanna er staðreynd og karlar virðast almennt eiga auðveldara með framgang í starfi. Í ljósi þessa telur meiri hlutinn til mikils að vinna að stuðla að jafnari töku fæðingarorlofs og sjálfstæðum rétti til þess.
    Að mati meiri hlutans er sjálfstæður réttur til töku fæðingarorlofs og jöfn skipting milli foreldra best til þess fallin að ná fram markmiði laganna um að gera foreldrum kleift að samræma fjölskyldu- og atvinnulíf og muni auk þess nýtast sem öflugt vinnumarkaðsúrræði sem muni stuðla að bættri stöðu kynja á vinnumarkaði, jafna launakjör og hafa jákvæð áhrif á þróun í átt að auknu jafnræði í samfélaginu. Þá tryggi það jafnframt rétt barns til samvista við báða foreldra. Meiri hlutinn bindur því vonir við að báðir foreldrar muni nýta sinn sjálfstæða sex mánaða rétt til töku fæðingarorlofs. Til þess að mæta sjónarmiðum um aukinn sveigjanleika á töku orlofs og ráðstöfun foreldra sín á milli leggur meiri hlutinn hins vegar til að foreldri verði heimilt að framselja allt að sex vikur af sjálfstæðum rétti sínum til hins foreldrisins. Leggur meiri hlutinn jafnframt til að ákvæði 1. mgr. 8. gr., 1. mgr. 26. gr. og 1. mgr. 27. gr. verði endurskoðað innan tveggja ára frá gildistöku laganna. Við þá endurskoðun verði einkum litið til þess hvernig fæðingarorlofi eða fæðingarstyrk hafi verið skipt milli foreldra í reynd og þar með hvernig tekist hafi til við að ná þeim markmiðum laganna að tryggja samvistir barns við báða foreldra sína og að gera foreldrum kleift að samræma fjölskyldu- og atvinnulíf.
    Að fæðingarorlofi loknu er brýnt að barni sé tryggt leikskólapláss eða dagvistun en ljóst er að víða er enn langt í land í þeim málum. Leggur meiri hlutinn áherslu á mikilvægi samráðs ríkis og sveitarfélaga við að leita lausna og tryggja jafna stöðu barna og foreldra hvað þetta varðar óháð búsetu.

Lenging, framsal eða tilfærsla á rétti foreldris til fæðingarorlofs/fæðingarstyrks (9. gr. og 30. gr.).
    Í 9. gr. frumvarpsins hvað varðar fæðingarorlof og 30. gr. hvað varðar fæðingarstyrk eru talin upp þau tilvik sem geta leitt til lengingar, framsals eða tilfærslu á sjálfstæðum rétti foreldris til fæðingarorlofs/fæðingarstyrks, umfram þann mánuð sem gert er ráð fyrir að foreldri geti framselt til hins foreldrisins samkvæmt 8. gr., 26. gr. eða 27. gr. frumvarpsins. Að mati meiri hlutans er um að ræða mikilvæga réttarbót fyrir einstæða foreldra þar sem þau tilvik þar sem annað foreldrið getur fengið allan fæðingarorlofsréttinn eru útvíkkuð frá gildandi lögum. Réttur barns til að njóta allt að 12 mánaða fæðingarorlofs, þegar einungis annað foreldrið getur nýtt rétt sinn til töku fæðingarorlofs, er þannig tryggður.
    Eitt þessara tilvika er að finna í 3. mgr. ákvæðisins og lýtur að því þegar foreldri er gert að sæta nálgunarbanni gagnvart barni sínu og/eða brottvísun af heimili og er af þeim völdum ófært um að annast barn sitt á fyrstu 24 mánuðunum eftir fæðingu þess eða eftir að barn kemur inn á heimili við frumættleiðingu eða töku í varanlegt fóstur. Færist þá réttur þess foreldris utan þess réttar sem það hefur þegar nýtt sér yfir til hins foreldrisins. Á þetta við hvort sem foreldrar fara með sameiginlega forsjá eða ekki og skulu lögreglustjóri eða dómstólar staðfesta að foreldri muni sæta nálgunarbanni gagnvart barni sínu og/eða brottvísun af heimili á fyrrgreindu tímabili.
    Nefndin ræddi töluvert hvort rétt væri að leyfa jafnframt tilfærslu réttar til fæðingarorlofs/fæðingarstyrks ef foreldri sætir nálgunarbanni gagnvart hinu foreldrinu, en ekki gagnvart barninu. Í barnaverndarlögum er m.a. gert ráð fyrir því að sé barni háski búinn af háttsemi eða framferði manns svo sem vegna ofbeldis, ógnana eða hótana eða annars athæfis geti barnaverndarnefnd krafist þess fyrir dómi að viðkomandi verði bannað að koma á tiltekinn stað eða svæði, heimsækja eða setja sig með öðrum hætti í samband við barn. Enn fremur getur barnaverndarnefnd krafist þess fyrir dómi að manni verði bönnuð dvöl á heimili ef nefndin telur það nauðsynlegt vegna hagsmuna barns.
    Í minnisblaði sem ráðuneytið sendi nefndinni vegna þessa var vísað til þess að málsgreinar 9. gr. frumvarpsins ættu það sameiginlegt að til staðar væri ákveðinn ómöguleiki á samvistum barns við foreldri vegna nánar tilgreindra ástæðna. Ávallt væru einhverjar aðstæður sem gerðu það að verkum að barn gæti ekki notið samvista við báða foreldra og þættu þessar tilteknu undanþágur 9. gr. því ekki ganga gegn markmiðum frumvarpsins um að tryggja barni samvistir við báða foreldra. Það hefði verið niðurstaða starfshópsins sem vann að samningu frumvarpsins að í ljósi framangreinds markmiðs væri ekki rétt að 3. mgr. 9. gr. tæki til tilvika þegar aðstæður væru með þeim hætti að samskipti foreldris við barn sitt teldust vera í lagi þrátt fyrir að foreldrið sætti nálgunarbanni gagnvart hinu foreldrinu. Foreldri gæti í ákveðnum tilvikum verið í góðum tengslum og samskiptum við barn sitt þrátt fyrir að sæta nálgunarbanni gagnvart hinu foreldrinu. Það hafi því verið mat starfshópsins að gengið væri gegn markmiðum laganna um að tryggja barni samvistir við báða foreldra ef málsgreinin yrði með þeim hætti að nægjanlegt væri að nálgunarbann gagnvart hinu foreldrinu væri til staðar. Því bæri að miða eingöngu við tilvik þar sem um væri að ræða nálgunarbann gagnvart barni.
    Meiri hlutinn bendir á að réttur til fæðingarorlofs vegna fæðingar barns fellur niður er barnið nær 24 mánaða aldri skv. 2. mgr. 8. gr. Eigi foreldrar að sjá um uppeldi barns undir tveggja ára aldri í sameiningu og báðir að taka fæðingarorlof innan þeirra tímamarka er vandséð að mati meiri hlutans að unnt sé að virða nálgunarbann sem foreldri sætir gagnvart hinu foreldrinu á þeim tíma. Telja má að foreldri væri ómögulegt að afhenda ómálga barn sitt til hins foreldrisins án þess að koma á framfæri upplýsingum um þarfir þess á hverjum tíma og samskipti foreldra því óhjákvæmileg, hvort sem þau eru skrifleg, munnleg eða fyrir milligöngu fulltrúa barnaverndar eða ættingja, sem geti þar með falið í sér brot gegn nálgunarbanni. Í lögum um nálgunarbann og brottvísun af heimili, nr. 85/2011, er fjallað um skilyrði fyrir beitingu úrræðanna. Meiri hlutinn áréttar að nálgunarbann er afar íþyngjandi úrræði sem ekki er beitt nema í ítrustu neyð og ef sýnt þykir að önnur og vægari úrræði dugi ekki til. Ósætti eða ágreiningur milli foreldra getur þannig ekki eitt og sér leitt til þess að nálgunarbanni sé beitt. Þá getur sá sem nálgunarbann beinist gegn ávallt krafist þess að lögreglustjóri beri ákvörðunina undir dóm.
    Með hliðsjón af framangreindu telur meiri hlutinn vandkvæðum háð að barn sé í reglulegri umgengni hjá báðum foreldrum þegar annað sætir nálgunarbanni gagnvart hinu. Þar af leiðandi telur meiri hlutinn sömu rök geta átt við í þessum tilvikum og þegar nálgunarbann beinist að barninu sjálfu. Í ljósi þess leggur meiri hlutinn til að ákvæði 3. mgr. 9. gr. gildi einnig í tilvikum þar sem nálgunarbann foreldris beinist gegn hinu foreldrinu. Leggur meiri hlutinn til sambærilega breytingu á 3. mgr. 30. gr.
    Vakin er athygli á að nálgunarbann leiðir ekki eitt og sér til tilfærslu á rétti til fæðingarorlofs heldur er forsenda tilfærslu að nálgunarbannið geri því foreldri sem banninu sætir í raun ókleift að nýta þann rétt sem það á til töku fæðingarorlofs innan 24 mánaða frá fæðingu barns, töku þess í varanlegt fóstur eða því að barn kemur inn á heimili við frumættleiðingu. Miðað við að foreldrið sem sætir banninu eigi rétt á sex mánaða fæðingarorlofi getur þar af leiðandi ekki komið til tilfærslu samkvæmt ákvæðinu nema nálgunarbann sé í gildi síðustu sex mánuði þess tíma, þ.e. þegar liðnir eru á bilinu 18–24 mánuðir frá fæðingu barns, töku þess í varanlegt fóstur eða því að barn kemur inn á heimili við frumættleiðingu. Hafi foreldri nýtt tvo mánuði af rétti sínum til töku fæðingarorlofs og framselt hinu foreldrinu einn mánuð leiðir nálgunarbann sem foreldrið sætir þannig ekki til tilfærslu fæðingarorlofs samkvæmt ákvæðinu nema að því marki sem nálgunarbannið gildir innan síðustu þriggja mánaða þess 24 mánaða tímabils sem heimild til töku fæðingarorlofs nær til. Skammvinnt nálgunarbann sem ákvarðað er snemma á því 24 mánaða tímabili nægir enda ekki til að uppfylla það skilyrði ákvæðisins að foreldri verði af þeim völdum ófært um að annast barn sitt á tímabilinu. Sé foreldri sem ekki hefur ráðstafað rétti sínum til töku fæðingarorlofs t.d. úrskurðað í eins mánaðar nálgunarbann þegar barn þess er þriggja mánaða gamalt getur foreldrið enn þá nýtt allan fæðingarorlofsrétt sinn innan 24 mánaða tímabilsins eftir að nálgunarbanni lýkur.
    Með þeirri breytingu sem meiri hlutinn leggur til er litið svo á að brottvísun af heimili eða nálgunarbann, hvort sem það beinist að barni eða hinu foreldrinu, valdi því að foreldri sem úrskurður um slíkt beinist að teljist vera ófært um að annast barn sitt í skilningi ákvæðisins á gildistíma úrskurðarins. Áskilnaður ákvæðisins um að foreldri skuli af þeim völdum vera ófært um að annast barn sitt á fyrstu 24 mánuðum eftir fæðingu þess lýtur þannig eingöngu að þeim tímamörkum sem undir eru en ekki að mati á því hvort foreldri teljist fært eða ófært um að annast barn þrátt fyrir nálgunarbann eða brottvísun af heimili. Þá bendir meiri hlutinn á að 8. mgr. 9. gr. tekur til þeirra tilvika þar sem fyrirséð er að forsjárlaust foreldri muni ekki annast barn sitt á þeim 24 mánuðum sem réttur til töku fæðingarorlofs nær til þar sem foreldrið hafi ekki umgengni við barnið á grundvelli niðurstöðu lögmælts stjórnvalds, eða þegar fyrir liggur niðurstaða um að umgengni forsjárlausa foreldrisins við barnið skuli vera verulega takmörkuð, svo sem undir eftirliti. Er Vinnumálastofnun þá heimilt að færa ónýttan rétt forsjárlausa foreldrisins til fæðingarorlofs til forsjárforeldrisins. Sambærilegt ákvæði um fæðingarstyrk er í 8. mgr. 30. gr. frumvarpsins. Að mati meiri hlutans er með þessu móti nægjanlega tryggt að orlofsrétturinn færist á milli foreldra nógu snemma til að ekki þurfi að koma til óæskilegs rofs á samfelldu fæðingarorlofi í þeim tilvikum þar sem aðstæður eru með þeim hætti að tilfærslan sé nauðsynleg.

Veikindi barnshafandi foreldris á meðgöngu (17. gr.).
    Fram kom að rétt væri að lögfest yrði ákvæði um meðgönguorlof, þ.e. að barnshafandi foreldri geti farið í meðgönguorlof frá 36. viku meðgöngu sem myndi ekki dragast frá réttinum til fæðingarorlofs. Mikið álag væri á konur á seinni hluta meðgöngu jafnvel þótt meðgangan væri eðlileg og án læknisfræðilegra sjúkdóma eða fylgikvilla. Því væri mjög algengt að þær leituðu til mæðraverndar og lækna til að fá veikindavottorð vegna t.d. þreytu og grindargliðnunar sem geta verið eðlileg einkenni á seinni hluta meðgöngu. Þá ættu konur miserfitt með að fara í veikindaleyfi þar sem veikindaréttur væri mismunandi. Meiri hlutinn bendir á að í 17. gr. frumvarpsins er að finna heimild til lengingar fæðingarorlofs sé barnshafandi foreldri nauðsynlegt af heilsufarsástæðum sem tengjast meðgöngunni að fá leyfi frá störfum eða hætta þátttöku á vinnumarkaði meira en mánuði fyrir áætlaðan fæðingardag barns að mati sérfræðilæknis. Lengist orlofið um þann tíma sem um ræðir en að hámarki um tvo mánuði. Eins og fram kemur í 2. mgr. ákvæðisins þarf vottorð sérfræðilæknis þar sem rökstudd er þörf fyrir lengingu fæðingarorlofs vegna þessara aðstæðna. Meiri hlutinn bendir á að þar er átt við sérfræðinga í t.d. heimilislækningum, fæðingarlækna eða kvensjúkdómalækna.
    Eins og fram kom á fundum nefndarinnar eiga konur á vinnumarkaði jafnframt kjarasamningsbundinn rétt til veikindaleyfis. Telji læknir viðkomandi konu að það sé heilsu hennar fyrir bestu að hætta að vinna áður en meðgöngu lýkur getur hún fengið vottorð þess efnis.

Greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði (24. gr.) og viðmiðunartímabil og útreikningar á greiðslum úr Fæðingarorlofssjóði (23. gr.).
    Á fundum nefndarinnar kom fram að nauðsynlegt væri að hækka lágmarksgreiðslurnar og við það miðað að greiðslur sem samsvari lágmarkslaunum yrðu óskertar en ekki 80% af launum. Þá var hvatt til þess að hámarksmánaðargreiðsla úr Fæðingarorlofssjóði yrði hækkuð en samkvæmt frumvarpinu og gildandi lögum er hún 600.000 kr. Það væri eðlilegt að hámarkið fylgdi í það minnsta almennri launaþróun í landinu og hækki með reglulegu millibili. Var á það bent að hækkun hámarksgreiðslna yki líkur á því að tekjuhærra foreldrið tæki fæðingarorlof. Sú tilhögun væri betur til þess fallin að ná fram markmiði laganna um að tryggja barni samvistir við báða foreldra heldur en það fyrirkomulag að rétturinn sé bundinn við hvort foreldri fyrir sig. Fram kom að bæði fjárhæð lágmarksgreiðslna og hámarksgreiðslna hindraði að einhverju leyti að foreldrar sem væru annars vegar í efstu og hins vegar neðstu tekjubilum fullnýttu rétt sinn til orlofs. Jafnframt var bent á að algengara væri að þetta leiddi til þess að foreldrið sem gengi með barnið tæki orlof með þeim afleiðingum að framgangur þess á vinnumarkaði kynni að verða hægari en hins foreldrisins. Meiri hlutinn tekur undir að þörf er á því að endurskoða fjárhæð þessara greiðslna og leggur áherslu á að við endurskoðun laganna og þegar svigrúm verði til hækkunar greiðslna verði fyrst horft til lágmarksgreiðslna. Miklu skiptir að greiðslurnar dragi ekki úr því að báðir foreldrar nýti rétt sinn til töku fæðingarorlofs. Meiri hlutinn bendir þó á að um langtímaverkefni er að ræða hvort sem er varðandi hækkun hámarksgreiðslna og lengingu fæðingarorlofs. Fyrri aðgerðir stjórnvalda hafa miðað að því að hækka hámarksgreiðslur en nú er tekið það mikilvæga skref að lengja samanlagðan rétt foreldra til fæðingarorlofs í 12 mánuði.

Sérstakur styrkur vegna skerts aðgengis að fæðingarþjónustu (43. gr.).
    Í 43. gr. kemur fram að sé barnshafandi foreldri nauðsynlegt að mati sérfræðilæknis að dvelja fjarri heimili sínu í tengslum við nauðsynlega þjónustu vegna fæðingar barns sé heimilt að greiða foreldrinu sérstakan styrk í allt að 14 daga fyrir áætlaðan fæðingardag barns enda dvelji foreldri fjarri heimili sínu þá daga. Meiri hlutinn fagnar þessu nýmæli og telur slíkan styrk mikið réttindamál fyrir fólk sem þarf að ferðast um lengri veg á fæðingarstað. Bent var á að aðrar aðstæður en læknisfræðilegar, t.d. færð á vegum eða óveður, gætu valdið því að nauðsynlegt gæti verið að barnshafandi foreldri fari fyrr af stað á fæðingarstað. Meiri hlutinn tekur undir það og áréttar að slík atvik rúmast innan ákvæðisins, þ.e. sé það mat sérfræðilæknis að barnshafandi foreldri sé nauðsynlegt að dvelja fjarri heimili sínu í tengslum við nauðsynlega þjónustu vegna fæðingar, t.d. vegna slæmrar veðurspár eða fyrirhugaðs verkfalls sem geti haft áhrif á för á fæðingarstað, sé heimilt að greiða nefndan styrk. Líkt og að framan greinir teljast heimilislæknar til sérfræðilækna og ætti fæð annarra sérfræðilækna á landsbyggðinni því ekki að koma í veg fyrir eða torvelda öflun vottorðs vegna þessa.
    Fram kom að sums staðar á landinu eru verulegar vegalengdir í nauðsynlega fæðingarþjónustu, t.d. á sunnanverðum Vestfjörðum. Barnshafandi foreldri þar sé a.m.k. gert að dvelja nær fæðingarþjónustu frá og með 38. viku meðgöngu. Þá geti viðkomandi verið gert að fara enn fyrr af stað frá heimili sínu ef fyrir hendi eru aðstæður sem kalla á það, t.d. áhættumeðganga. Þá sé ekki óalgengt að meðganga geti varað allt fram á 42. viku og því geti barnshafandi foreldri þurft að dvelja fjarri heimili sínu vegna væntanlegrar fæðingar í lengri tíma en þá 14 daga sem 43. gr. kveður á um. Að mati meiri hlutans er brýnt að mæta þessum tilvikum og leggur meiri hlutinn því til breytingu á 1. mgr. 43. gr. þess efnis að heimilt sé að veita barnshafandi foreldri sérstakan styrk vegna daga sem meðgangan varir fram yfir áætlaðan fæðingardag til viðbótar við nefnda 14 daga fyrir áætlaðan fæðingardag. Verða sömu skilyrði að vera uppfyllt, þ.e. að barnshafandi foreldri sé nauðsynlegt að mati sérfræðilæknis að dvelja fjarri heimili sínu í tengslum við nauðsynlega fæðingarþjónustu og að það dvelji fjarri heimili sínu þessa daga. Þá leggur meiri hlutinn til þá breytingu að heimilt sé að veita sérstakan styrk í allt að 28 daga fyrir áætlaðan fæðingardag sé um fjölburameðgöngu að ræða með vísan til þess að meðalmeðgöngulengd með tvíbura er 36 vikur á Íslandi og er almennt stefnt að fæðingu í kringum 37. eða 38. viku ef meðgangan gengur vel.
    Varðandi þau tilvik þegar konur þurfa að fara fyrr frá heimili sínu en á 38. viku, t.d. vegna áhættumeðgöngu, til að vera nærri fæðingarþjónustu bendir meiri hlutinn á að skv. 17. gr. frumvarpsins á barnshafandi foreldri rétt á lengingu fæðingarorlofs og greiðslum úr Fæðingarorlofssjóði sé því nauðsynlegt af heilsufarsástæðum sem tengjast meðgöngunni að fá leyfi frá störfum eða hætta þátttöku á vinnumarkaði meira en mánuði fyrir áætlaðan fæðingardag barns að mati sérfræðilæknis þann tíma sem um ræðir og allt að tveimur mánuðum.

Foreldraorlof (XI. kafli).

    Nefndin ræddi rétt foreldra til töku foreldraorlofs og þá hvort og hvernig slíkt orlof hefur nýst fjölskyldum, t.d. til þess að brúa umönnunarbilið milli fæðingarorlofs og dagvistunar. Fram kom að stjórnvöld hafa ekki yfirsýn yfir fjölda foreldra sem nýta rétt sinn til töku þessa orlofs þar sem ekki þarf að tilkynna um töku þess til Fæðingarorlofssjóðs. Með frumvarpinu er lagt til að skila þurfi afriti tilkynningar um foreldraorlof til Vinnumálastofnunar og verður þá hægt að halda utan um nýtingu foreldra á réttinum. Að mati meiri hlutans mun slík skráning skipta miklu máli til framtíðar, m.a. við skoðun hugmynda um greiðslur í foreldraorlofi.


Aðrar breytingartillögur.
    Auk þess leggur meiri hlutinn til breytingar sem eru til þess fallnar að auka skýrleika, m.a. á gildistöku og lagaskilum við gildandi lög. Breytingarnar eru tæknilegs eðlis og er ekki ætlað að hafa efnisleg áhrif.
    Við meðferð málsins hjá nefndinni benti félagsmálaráðuneytið á að leiðrétta þyrfti fjárhæð í 3. mgr. 24. gr. með tilliti til þróunar launa, verðlags og efnahagsmála og leggur meiri hlutinn til breytingu þess efnis.
    Með vísan til þess sem að framan er rakið leggur meiri hlutinn til að frumvarpið verði samþykkt með þeim breytingum sem lagðar eru til á sérstöku þingskjali.


Alþingi, 17. desember 2020.

Ólafur Þór Gunnarsson,
frsm.
Ásmundur Friðriksson. Guðmundur Ingi Kristinsson,
með fyrirvara.
Halla Signý Kristjánsdóttir. Lilja Rafney Magnúsdóttir. Vilhjálmur Árnason,
með fyrirvara.