Ferill 323. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


151. löggjafarþing 2020–2021.
Þingskjal 666  —  323. mál.
2. umræða.Nefndarálit með breytingartillögu


um frumvarp til laga um fæðingar- og foreldraorlof.

Frá 1. minni hluta velferðarnefndar.


    Með frumvarpinu er lagt til að fæðingarorlof verði lengt í tólf mánuði og réttur til fæðingarstyrks sömuleiðis. 1. minni hluti fagnar þeirri breytingu enda mikilvægt fyrir barn að fá að njóta umönnunar foreldra sinna í sem lengstan tíma í frumbernsku. Í greinargerð frumvarpsins kemur fram að þar sem 20 ár séu liðin frá því að núverandi lög um fæðingarorlof tóku gildi sé rétt að laga fæðingarorlofskerfið að þeirri miklu þróun sem hefur orðið í samfélaginu, þar á meðal í jafnréttismálum og stöðu kynjanna á vinnumarkaði. 1. minni hluti bendir á að þótt fæðingar- og foreldraorlof sé vissulega vinnumarkaðsúrræði togast það í sumum tilfellum á við sjónarmið foreldra um hvað sé þeim og barni þeirra fyrir bestu hverju sinni. Skv. 8. gr. frumvarpsins er hvort foreldri um sig skikkað til að taka 6 mánuði með þeirri undanþágu að heimilt er að framselja einn mánuð til hins foreldrisins og er það sagt til þess að koma til móts við mismunandi aðstæður fjölskyldna. Það er erfitt að sjá hvernig þetta gagnast jafnrétti og sérstaklega hvernig þetta gagnast stöðu kynjanna á vinnumarkaði. Aðstæður foreldra eru mismunandi og hvað gerist ef annað foreldrið hefur ekki tök á að taka sína sex mánuði; falla þeir þá niður, fær barnið þá aðeins að njóta samvista við annað foreldrið? Foreldrar vilja vera með börnum sínum en að mati 1. minni hluta mun þessi tilhögun skv. 8. gr. ekki gera annað en að skapa sektarkennd og jafnvel skömm hjá því foreldri sem einhverra hluta vegna getur ekki nýtt sér þann hluta fæðingarorlofsins sem því er ætlað. Í því efni má t.d. benda á að foreldrar geta búið hvor í sínum landshlutanum. Þá er eins og frumvarpið miði að því að foreldri eða foreldrar eignist aðeins eitt barn, alls ekki annað barn eða það þriðja á lífsleiðinni. Það getur nefnilega verið að það henti foreldrum á einhverjum tímapunkti að skipta með sér orlofinu en með annað barn henti það best að annað foreldrið taki allt orlofið og með því þriðja verði skiptingin enn önnur. Aðstæður fjölskyldna eru með öðrum orðum mismunandi og brýnt að það sé svigrúm í löggjöfinni til að mæta því.
    Ekki verður fram hjá því litið að í meiri hluta umsagna sem bárust um drög að frumvarpinu í samráðsgátt stjórnvalda komu fram ábendingar um mikilvægi þess að foreldrar hefðu meira svigrúm til að ákveða sjálfir hvernig skiptingu fæðingarorlofsins sín á milli væri háttað. Rúmlega 250 umsagnir bárust, þar á meðal töluverður fjöldi umsagna frá konum. Í umsögn Geðverndarfélags Íslands kom fram að með frumvarpinu væri gengið lengra í ósveigjanleika og þvingunarúrræðum en í gildandi lögum auk þess sem ekki hefði verið haft samráð við fagfólk um þarfir ungra barna og fjölskyldna við gerð frumvarpsins. Í umsögn embættis landlæknis sagði að mikilvægt væri að fæðingarorlof væri ekki einungis skilgreint sem réttur foreldra á vinnumarkaði heldur einnig réttur barna til samvista við foreldra á fyrstu mánuðum lífsins. Lengri tími barns í umönnun foreldra sinna á fyrstu mánuðum ævinnar styddu við heilbrigð tilfinningatengsl foreldra og barna og væri mikilvægt lýðheilsu- og geðheilbrigðismál sem varðaði rétt barna til heilbrigðs upphafs í lífinu. Tryggja þyrfti að öll börn sætu við sama borð hvað varði tækifæri til að verja fyrsta æviárinu í umsjá foreldra óháð hjúskaparstöðu og forsjá. Í því tilviki þar sem annað foreldrið gæti ekki eða vildi ekki taka fæðingarorlof ætti barnið að eiga sama rétt og önnur börn til 12 mánaða orlofs. Þá var bent á að aðrar Norðurlandaþjóðir hefðu mun meiri sveigjanleika í sinni fæðingar- og foreldraorlofslöggjöf en það sem lagt væri til í fyrirliggjandi frumvarpi.
    Að mati 1. minni hluta er mikilvægt að stjórnvöld geri allt sem í þeirra valdi stendur til þess að foreldrar geti nýtt það fæðingar- og foreldraorlof sem þeim býðst. Með hliðsjón af framansögðu telur 1. minni hluti rétt að foreldrum verði frjálst að ráðstafa 12 mánaða fæðingarorlofi/fæðingarstyrk eins og hentar best miðað við aðstæður fjölskyldunnar á 24 mánaða tímabili og leggur til breytingartillögu þess efnis. Þá leggur 1. minni hluti til að 9. gr. frumvarpsins um lengingu, framsal eða tilfærslu á rétti foreldris til fæðingarorlofs falli brott enda verður hún óþörf með þeirri breytingu sem lögð er til við 8. gr. Sama á við að breyttu breytanda um 30. gr. frumvarpsins.
    Að framansögðu virtu leggur 1. minni hluti til að frumvarpið verði samþykkt með eftirfarandi

BREYTINGU:


     1.      Við 8. gr.
                  a.      1. mgr. orðist svo:
                      Foreldrar eiga sameiginlegan rétt til fæðingarorlofs í tólf mánuði vegna fæðingar, frumættleiðingar barns eða töku barns í varanlegt fóstur sem annað foreldri getur tekið í heild eða foreldrar skipt með sér.
                  b.      Í stað orðanna „sjálfstæðum rétti þess foreldris“ í 2. mgr. og 2. málsl. 3. mgr. komi: rétti.
                  c.      Í stað orðanna „sjálfstæðum rétti foreldrisins“ í 3. málsl. 3. mgr. komi: rétti.
     2.      9. gr. falli brott.
     3.      1. mgr. 26. gr. orðist svo:
                      Foreldrar utan vinnumarkaðar eða í minna en 25% starfshlutfalli eiga sameiginlegan rétt til fæðingarstyrks í tólf mánuði vegna fæðingar, frumættleiðingar barns eða töku barns í varanlegt fóstur sem annað foreldri getur tekið í heild eða foreldrar skipt með sér. Réttur til fæðingarstyrks vegna fæðingar barns stofnast við fæðingu barnsins og fellur niður þegar barnið nær 24 mánaða aldri.
     4.      1. mgr. 27. gr. orðist svo:
                      Foreldrar sem hafa verið í fullu námi í a.m.k. sex mánuði á síðustu tólf mánuðum fyrir fæðingu barns, frumættleiðingu eða töku barns í varanlegt fóstur og staðist kröfur um námsframvindu á þeim tíma eiga sameiginlegan rétt til fæðingarstyrks í tólf mánuði vegna fæðingar, frumættleiðingar barns eða töku barns í varanlegt fóstur sem annað foreldri getur tekið heild eða foreldrar skipt með sér. Foreldri skal leggja fram staðfestingu frá viðkomandi skóla um að það hafi verið skráð í fullt nám og hafi staðist kröfur um námsframvindu á þeim tíma. Heimilt er að taka tillit til ástundunar náms í stað námsárangurs þá skólaönn sem barn fæðist. Réttur til fæðingarstyrks vegna fæðingar barns stofnast við fæðingu barnsins og fellur niður þegar barnið nær 24 mánaða aldri.
     5.      30. gr. falli brott.

Alþingi, 17. desember 2020.

Anna Kolbrún Árnadóttir.