Ferill 376. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


151. löggjafarþing 2020–2021.
Þingskjal 692  —  376. mál.
3. umræða.



Nefndarálit


um frumvarp til laga um breytingu á búvörulögum, nr. 99/1993 (úthlutun tollkvóta).

Frá minni hluta atvinnuveganefndar.


    Minni hluti nefndarinnar er ósammála áliti meiri hlutans af ástæðum sem gerð er nánari grein fyrir í þessu áliti.

Breyttar aðstæður – endurskoðun landbúnaðarsamnings Íslands og Evrópusambandsins.
    Rétt er að geta þess í upphafi að minni hlutinn tekur undir úttekt utanríkisráðherra og atvinnuvega- og nýsköpunarráðherra, sem birt var 17. desember 2020, um að forsendur landbúnaðarsamnings Íslands og Evrópusambandsins hafi breyst til muna. Er sú niðurstaða ráðherranna í samræmi við það sem minni hluti nefndarinnar hefur bent á við þinglega meðferð málsins á fyrri stigum. Á sama tíma fagnar minni hlutinn því að utanríkis- og þróunarsamvinnuráðherra hafi óskað eftir því að landbúnaðarsamningur við Evrópusambandið verði endurskoðaður.

Ákvæði 112. gr. EES samningsins.
    Minni hlutinn hefur við afgreiðslu málsins vísað til 112. gr. EES-samningsins og er af þeim sökum sérstaklega fjallað um það ákvæði samningsins í áliti meiri hluta nefndarinnar. Umfjöllun meiri hluta atvinnuveganefndar sýnist hins vegar á misskilningi byggð.
    Í upphafi er rétt að taka undir umfjöllun meiri hlutans um að mikill hluti landbúnaðarvara fellur ekki undir EES-samninginn, enda falla landbúnaðarvörur að mestu utan 25.–97. kafla samræmdu vörulýsingar- og vörunúmeraskrárinnar. Tilvísun minni hlutans til 112. gr. EES-samningsins er tilkomin vegna þeirrar einföldu ástæðu að landbúnaðarsamningur Íslands og Evrópusambandsins er ekki hefðbundinn samningur milli tveggja aðila – með öðrum orðum samningurinn er ekki samningur með tilgangsákvæði, efnisákvæðum, endurskoðunarákvæðum, uppsagnarákvæðum og gildistökuákvæðum. Landbúnaðarsamningurinn er í raun fundargerð embættismanna þar sem vísað er til tiltekinna tollskrárnúmera þar sem veittar eru ívilnanir og markaðsaðgangur með tilteknar vörur milli aðila. Í ljósi þess að engin hefðbundin ákvæði eru til staðar í landbúnaðarsamningnum, svo sem endurskoðunarákvæði, er Íslandi sá einn nauðugur kostur að vísa til 112. gr. EES-samningsins til að undirbyggja mikilvægi þess að endurskoða þurfi landbúnaðarsamning Íslands og Evrópusambandsins. Það að vísa til 112. gr. EES-samningsins felur ekki, að mati minni hlutans, í sér að ákvæðinu verði beitt, heldur er einungis verið að vísa til 112. gr. EES-samningsins til að undirbyggja nauðsyn þess að endurskoða landbúnaðarsamning Íslands og Evrópusambandsins.
    Minni hlutinn telur því að afstaða meiri hlutans um að 112. gr. EES-samningsins eigi ekki við sé röng. Auk þess er það rangt sem fram kemur í áliti meiri hlutans að 13. gr. landbúnaðarsamningsins eigi við um endurskoðun á landbúnaðarsamningnum. Í þessu sambandi bendir minni hlutinn á að hér er ekki um að ræða „ákvæði í alþjóðasamningi“ heldur 13. gr. fundargerðar af fundi sendinefnda Íslands og Evrópusambandsins, en rétt er að taka sérstaklega upp það ákvæði til skýringar: „The Parties agree to exchange at regular interal information on traded products, tariff quota management, price quotations and any useful information concerning the respective domestic markets and the implementation of the results of these negotiations.“
    Af þessu ákvæði er ljóst að hér er ekki um að ræða endurskoðunarákvæði, heldur einungis ákvæði um að skiptast á upplýsingum um vöruviðskipti, tollkvóta, verð og aðrar upplýsingar. Minni hlutinn fær ekki séð hvernig unnt er að byggja endurskoðun samningsins á þessu ákvæði og dregur verulega í efa umfjöllun í áliti meiri hluta nefndarinnar um þetta atriði. Nærtækast væri við endurskoðun landbúnaðarsamningsins að vísa til 112. gr. EES-samningsins og taka málið upp í sameiginlegu EES-nefndinni eða óska eftir samningaviðræðum milli sendinefnda Íslands og Evrópusambandsins. Þá fær minni hlutinn ekki séð að 112. gr. leiði til einhverra sérstakra afleiðinga fyrir önnur EFTA-ríki enda er landbúnaðarsamningur Íslands og Evrópusambandsins tvíhliða samningur og varðar ekki sem slíkur önnur EFTA-ríki. Með sama hætti varðar landbúnaðarsamningur Noregs og Evrópusambandsins ekki Ísland og Liechtenstein og breytingar á þeim samningi hafa ekki áhrif fyrir tvö síðastnefndu ríkin.

Fjölgun útboða.
    Minni hluti nefndarinnar fellst ekki á þá afstöðu meiri hlutans að nauðsynlegt sé að fjölga útboðum yfir árið þannig að minna magn sé boðið út í einu. Réttast væri að fresta framkvæmd landbúnaðarsamningsins ótímabundið vegna fordæmalausra aðstæðna sem rekja má til heimsfaraldurs kórónuveirunnar frekar en að endurvekja eldra fyrirkomulag. Þá er minni hlutinn ósammála því hagsmunamati meiri hluta nefndarinnar að nauðsynlegt sé að tryggja jafnara flæði innfluttra vara til að taka tillit til m.a. fjárbindingar innflutningsaðila. Þetta mat er algerlega á skjön við hagsmunamat annarra ríkja, þ.m.t. Evrópusambandsins, sem gripið hafa til umfangsmikilla aðgerða til að bæta hag framleiðenda landbúnaðarvara en ekki innflutningsfyrirtækja. Síðastnefndu aðilarnir, innflutningsfyrirtækin, eru einungis milliliðir en ekki framleiðendur gæða líkt og framleiðendur landbúnaðarvara.

Samkeppnisumhverfi landbúnaðar.
    Minni hluti getur ekki tekið undir ábendingar sem fram koma í umsögn Samkeppniseftirlitsins en meiri hluti nefndarinnar gerir athugasemdir stofnunarinnar að sínum.
    Samkeppniseftirlitið starfar samkvæmt samkeppnislögum, nr. 44/2005, og er samkvæmt hlutverki sínu ætlað að annast framkvæmd laganna. Minni hlutinn dregur verulega í efa að það samræmist hlutverki Samkeppniseftirlitsins, sem er opinbert stjórnvald, að taka þátt í pólitískri umræðu líkt og stofnunin sýnist hafa að einhverju marki gert í því máli sem til meðferðar er fyrir nefndinni. Þá verður ekki hjá því komist að benda á að Samkeppniseftirlitið stuðlar að því, með umsögn sinni, að aukinn verði innflutningur ríkisstyrktra landbúnaðarvara frá aðildarríkjum Evrópusambandsins, en inngrip Evrópusambandsins í sameiginlegu markaðskerfi með landbúnaðarvörur er síst til þess fallið að auka samkeppni á íslenskum markaði með landbúnaðarvörur. Þvert á móti leiðir það til verulegrar tekjuskerðingar fyrir framleiðendur íslenskra landbúnaðarvara.

    Minni hlutinn telur því enn að breytingartillaga hans sem felld var við 2. umræðu málsins hefði bætt málið til muna.

Alþingi, 17. desember 2020.

Sigurður Páll Jónsson,
frsm.
Ólafur Ísleifsson.