Ferill 388. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


151. löggjafarþing 2020–2021.
Þingskjal 745  —  388. mál.




Svar


dómsmálaráðherra við fyrirspurn frá Andrési Inga Jónssyni um veikleika í umgjörð skráðra trúfélaga og lífsskoðunarfélaga.


     1.      Hvað líður vinnu við endurskoðun laga um skráð trúfélög og lífsskoðunarfélög, nr. 108/1999, með hliðsjón af ábendingum í áhættumati ríkislögreglustjóra varðandi skýrslugjöf félaganna til eftirlitsaðila og upplýsingar um fjárhag þeirra og ráðstöfun fjármuna?
    Í aðgerðaáætlun stjórnvalda vegna varna gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka, sem birt var í ágúst 2019, voru tilgreindar ýmsar aðgerðir sem ráðlagt var að grípa til í því skyni að bregðast við þeim veikleikum sem tilgreindir voru í áhættumati ríkislögreglustjóra. Aðgerðirnar fólust m.a. í því að breyta lögum um skráð trúfélög og lífsskoðunarfélög, gera þar strangari kröfur um hæfi fyrirsvarsmanna þeirra, auka kröfur um ráðstöfun fjármuna og efla eftirlit með slíkum félögum og fjárreiðum þeirra. Gert var ráð fyrir að undirbúningur nýrrar löggjafar hæfist í mars 2020 og að frumvarp yrði lagt fram í október sama ár. Ekki hefur tekist að standa við þau tímamörk en ráðherra telur hins vegar enn fullt tilefni til endurskoðunar á ákvæðum laganna. Nú stendur yfir endurskoðun á áhættumati ríkislögreglustjóra og aðgerðaáætlun stjórnvalda í aðgerðum gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka, sem gert er ráð fyrir að ljúki í febrúar næstkomandi. Gera má ráð fyrir að sú aðgerð sem lýtur að breytingum á lögum um skráð trúfélög og lífsskoðunarfélög verði enn í þeirri aðgerðaáætlun og að aukin áhersla verði lögð á að aðgerðinni verði lokið.

     2.      Hvaða breytingar hafa verið gerðar, í kjölfar áhættumats ríkislögreglustjóra, til að auka getu eftirlitsaðila til að sinna eftirliti með skráðum trúfélögum og lífsskoðunarfélögum og knýja á um úrbætur ef þess er þörf?
    Vísað er til svars við 1. tölul. fyrirspurnarinnar. Aðrar breytingar en þar er gert ráð fyrir hafa ekki verið gerðar.