Ferill 298. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


151. löggjafarþing 2020–2021.
Þingskjal 759  —  298. mál.




Svar


sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra við fyrirspurn frá Höllu Signýju Kristjánsdóttur um urðunarstaði búfjár sem fargað er vegna sjúkdóma.


     1.      Hver er ábyrgð Matvælastofnunar á að viðhalda og miðla upplýsingum um urðunarstaði búfjár sem hefur verið fargað vegna búfjársjúkdóma?
    Samkvæmt 4. gr. laga nr. 55/2003, um meðhöndlun úrgangs, fara heilbrigðisnefndir sveitarfélaga og Umhverfisstofnun (UST) með stjórnsýslu laganna, þ.m.t. með urðunarstöðum. Samkvæmt 19. gr. laganna skulu rekstraraðilar skila skýrslu til UST um úrgang sem meðhöndlaður var á undangengnu almanaksári.
    Með vísan til framangreinds ber Matvælastofnun ekki ábyrgð á meðhöndlun úrgangs á urðunarstöðum eða að viðhalda og miðla upplýsingum um þá staði.

     2.      Hefur Matvælastofnun upplýsingar um riðuveikigrafir og miltisbrandsgrafir, svo sem kort eða yfirlit? Ef svo er, hversu langt aftur ná þær upplýsingar?
    Heildarskráning yfir miltisbrands- og riðuveikigrafir hefur ekki verið gerð. Einstöku héraðsdýralæknar hafa haldið skrár um riðugrafir í sínu héraði. Ráðuneytið telur mikilvægt að haldnar verði samræmdar skrá yfir miltisbrands- og riðuveikigrafir á landinu.

     3.      Þykir ástæða til þess að auka eftirlitsskyldu með urðunarstöðum búfjár vegna búfjársjúkdóma?
    Líkt og fram kemur í svari við 1. tölul. fyrirspurnarinnar hefur Umhverfisstofnun eftirlit með urðunarstöðum, sbr. lög nr. 55/2003, um meðhöndlun úrgangs, en stofnunin heyrir undir umhverfis- og auðlindaráðuneytið.

     4.      Hefur verið gerð áætlun um mögulega urðunarstaði vegna urðunar á fé sem skorið er niður vegna bráðsmitandi búfjársjúkdóma?
    Líkt og framan greinir hvílir ábyrgð á meðhöndlun úrgangs á urðunarstöðum hjá Umhverfisstofnun sem heyrir undir umhverfis- og auðlindaráðuneytið. Samkvæmt reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins nr. 1069/2009 sem innleidd var með reglugerð nr. 674/2017, um heilbrigðisreglur að því er varðar aukaafurðir úr dýrum og aðrar afleiddar afurðir sem ekki eru ætlaðar til manneldis, er urðun dýrahræja ekki heimil án undangenginnar vinnslu, svo sem með þrýstisæfingu og varanlegri merkingu, sbr. 12. og 13. gr. Reglugerðin heimilar þó í 19. gr. sérstakar ráðstafanir er varða urðun gæludýra og hrossa, auk efna í 2. og 3. áhættuflokki, á afskekktum svæðum sem skilgreind eru með reglugerð nr. 992/2019, og vegna tilkynningarskyldra sjúkdóma eða dýrafarsótta þar sem fyrirséð er að vinnslustöð hafi ekki undan.