Ferill 496. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


151. löggjafarþing 2020–2021.
Þingskjal 827  —  496. mál.




Frumvarp til laga


um breytingu á lögum um kosningar til Alþingis, nr. 24/2000 (fjölgun jöfnunarsæta).

Flm.: Björn Leví Gunnarsson, Helgi Hrafn Gunnarsson, Jón Þór Ólafsson, Sara Elísa Þórðardóttir, Smári McCarthy, Þórhildur Sunna Ævarsdóttir.


1. gr.

    1. og 2. mgr. 8. gr. laganna orðast svo:
    Þingsæti eru 63 og skiptast þannig milli kjördæma:
             Norðvesturkjördæmi     6 þingsæti
             Norðausturkjördæmi     6 þingsæti
             Suðurkjördæmi     6 þingsæti
             Suðvesturkjördæmi     6 þingsæti
             Reykjavíkurkjördæmi suður     6 þingsæti
             Reykjavíkurkjördæmi norður     6 þingsæti
    Í Norðvesturkjördæmi skulu vera tvö jöfnunarsæti, í Norðausturkjördæmi og Suðurkjördæmi fjögur jöfnunarsæti í hvoru kjördæmi, í Suðvesturkjördæmi skulu vera sjö jöfnunarsæti og í Reykjavíkurkjördæmi norður og Reykjavíkurkjördæmi suður skulu vera fimm jöfnunarsæti í hvoru kjördæmi.

2. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Greinargerð.

    Markmið þessa frumvarps er að ná sem mestu samræmi við hlutfallslega skiptingu atkvæða á milli stjórnmálasamtaka í kosningum til Alþingis og hlutfallslega skiptingu þingsæta. Þar eru aðallega tvö atriði sem hafa áhrif. Mestu áhrifin eru vegna ákvæðis 4. mgr. 31. gr. stjórnarskrárinnar um að stjórnmálasamtök geti einungis fengið jöfnunarsæti ef þau hafa hlotið minnst fimm af hundraði af gildum atkvæðum á landinu öllu. Heildarfjöldi jöfnunarsæta hefur einnig áhrif.
    Í undanförnum kosningum hefur munað talsverðu á milli hlutfallslegs fjölda atkvæða og skiptingar þingsæta á milli þingflokka. Ef ekki er gert ráð fyrir 5% þröskuldinum í stjórnarskrá hefðu t.d. fimm framboð í kosningum til Alþingis árið 2013 fengið eitt til tvö þingsæti hvert. Áhrifin af því leiða svo til þess að þau þingsæti dreifast yfir á aðra flokka umfram hlutfallslegt atkvæðavægi. Þá fékk Sjálfstæðisflokkurinn tvö aukaþingsæti, Framsóknarflokkurinn fjögur, Samfylkingin eitt og Björt framtíð eitt. Ef tekið er tillit til 5% reglu stjórnarskrárinnar þá fékk Framsóknarflokkurinn tvö aukaþingsæti á kostnað Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs og Pírata sem hefðu þá átt að fá eitt aukajöfnunarsæti hvor flokkur.
    Í kosningunum 2016, ef ekki er tekið tillit til 5% þröskuldsins, þá fékk Sjálfstæðisflokkurinn fimm aukaþingsæti, Vinstrihreyfingin – grænt framboð tvö aukaþingsæti, Píratar tvö og Viðreisn eitt auka. Samfylkinguna vantaði eitt þingsæti, Bjarta framtíð tvö, Dögun tvö, Flokk fólksins þrjú og Alþýðufylkinguna eitt. Ef tekið er tillit til 5% þröskuldsins hins vegar, þá fékk Sjálfstæðisflokkurinn fjögur aukaþingsæti á kostnað Framsóknarflokksins (1), Samfylkingarinnar (1) og Bjartrar framtíðar (2).
    Úthlutun þingsæta í kosningunum 2017 var nær því að vera rétt miðað við atkvæðahlutfall stjórnmálasamtaka. Ef ekki er tekið tillit til 5% þröskuldsins munaði einungis einu sæti sem Framsóknarflokkurinn fékk á kostnað Bjartrar framtíðar. Ef tekið er tillit til þröskuldsins í stjórnarskrá fékk Framsóknarflokkurinn einnig eitt aukaþingsæti en þá á kostnað Samfylkingarinnar.
    Skekkjan af því að hafa fá jöfnunarsæti í undanförnum þrennum kosningum er þónokkur. Í kosningunum 2013 munaði tveimur þingsætum. Það hefði þýtt ríkisstjórn með 34 þingsæta meiri hluta en ekki 36 þingsæta. Það hefði ekki verið hægt að mynda meirihlutaríkisstjórn Sjálfstæðisflokks, Viðreisnar og Bjartrar framtíðar af því að þeir flokkar hefðu bara haft 30 þingmenn samtals og núverandi ríkisstjórn sem var mynduð 2017 væri nú einungis með 32 þingsæti eftir að grisjast hefur úr þingflokki Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs.
    Þriðja atriðið sem hefur áhrif á hlutfallslegan fjölda þingsæta er mismunandi vægi atkvæða á milli kjördæma. Í þessu frumvarpi er ekki gert ráð fyrir því að jafna þann mun en ef það væri gert þyrfti að gera breytingu á 2. mgr. 1. gr. þessa frumvarps á eftirfarandi hátt:
    Í Norðvesturkjördæmi er ekkert jöfnunarsæti, í Norðausturkjördæmi er eitt jöfnunarsæti,
í Suðurkjördæmi fjögur jöfnunarsæti, í Suðvesturkjördæmi skulu vera tólf jöfnunarsæti, í Reykjavíkurkjördæmi norður sex jöfnunarsæti og í Reykjavíkurkjördæmi suður skulu vera fimm jöfnunarsæti.