Ferill 501. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


151. löggjafarþing 2020–2021.
Þingskjal 834  —  501. mál.
Frumvarp til laga


um breytingu á lögum um þjóðsöng Íslendinga, nr. 7/1983 (afnám takmarkana).

Flm.: Helgi Hrafn Gunnarsson, Björn Leví Gunnarsson, Jón Þór Ólafsson, Smári McCarthy, Þórhildur Sunna Ævarsdóttir, Guðmundur Andri Thorsson, Jón Steindór Valdimarsson.


1. gr.

    3.–6. gr. laganna falla brott.

2. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Greinargerð.

    Frumvarp þetta var áður lagt fram á 149. löggjafarþingi og 150. löggjafarþingi (47. mál) en náði ekki fram að ganga og er nú endurflutt óbreytt.
    Þjóðsöngur Íslendinga er „Ó Guð vors lands“, ljóð eftir Matthías Jochumsson og lag Sveinbjörns Sveinbjörnssonar, samkvæmt lögum um þjóðsöng Íslendinga, nr. 7/1983.
    Í 1. gr. laganna er þjóðsöngur Íslendinga tilgreindur. Í 2. gr. laganna kemur fram að þjóðsöngurinn sé eign íslensku þjóðarinnar og að forsætisráðuneytið fari með umráð yfir útgáfurétti á honum. Í 3. gr. laganna er lagt sérstakt bann við því að þjóðsöngurinn sé birtur eða fluttur í annarri mynd en hinni upprunalegu gerð. Samkvæmt sömu grein er einnig bannað að nota þjóðsönginn á nokkurn hátt í viðskipta eða auglýsingaskyni. Í 4. gr. laganna kemur fram að forsætisráðherra skeri úr um ágreining um rétta notkun þjóðsöngsins, komi slíkur ágreiningur upp. Í 5. gr. kemur fram að með forsetaúrskurði skuli setja nánari ákvæði um notkun þjóðsöngsins, ef þörf þykir. Í 6. gr. laganna er síðan refsiheimild sem kveður á um að brot á lögunum varði sektum eða fangelsi allt að 2 árum.
    Með frumvarpi þessu er lagt til að 3.–6. gr. falli brott úr lögunum. Að mati flutningsmanna er engin ástæða til þess að takmarka tjáningarfrelsi almennings með þeim hætti sem lögin gera, né fá flutningsmenn séð að virðing þjóðsöngsins sé aukin eða honum sýndur sómi með slíkum takmörkunum.

Eign þjóðarinnar.
    Sem fyrr greinir kemur fram í 2. gr. laganna að íslenska þjóðin sé sjálf eigandi þjóðsöngsins. Að mati flutningsmanna er slíkt fyrirkomulag eðlilegt, en hins vegar telja flutningsmenn mikla mótsögn fólgna í því að sama löggjöfin tryggi fyrrnefnt eignarhald, en hóti síðan sektum og fangelsisvist ef hluti af þeirri sömu þjóð birtir eða flytur þjóðsönginn, sína eigin eign, öðruvísi en í upprunalegri mynd. Ef eignarhald yfir tónverkinu veitir ekki heimild til þess að fara með það eins og þeim sama eiganda sýnist verður að spyrja að því nákvæmlega hvað felist í eignarhaldinu. 2. gr. laganna bannar einnig notkun þjóðsöngsins í viðskipta eða auglýsingaskyni. Flutningsmenn telja enga ástæðu til að takmarka rétt almennings til nýtingar á þessari eign sinni í viðskipta- eða auglýsingaskyni. Enn fremur er engan rökstuðning fyrir þessu fyrirkomulagi að finna í greinargerð með frumvarpinu sem varð að lögum um þjóðsöng Íslendinga.

Tilgangur takmarkana.
    Einu skriflegu vísbendingarnar um hvað búi að baki þeim takmörkunum sem hér er lagt til að felldar verði brott er að finna snemma í greinargerð frumvarpsins sem varð að lögum um þjóðsöng Íslendinga, en þar segir: „Þykir einnig ástæða til þess að setja lög um þjóðsöng Íslendinga í líkingu við lögin um þjóðfánann, þar sem staðfest yrði, að lofsöngurinn „Ó, Guð vors lands“ sé þjóðsöngur Íslendinga og eign íslensku þjóðarinnar, og kveðið á um vernd hans gegn misnotkun.“
    Ekki er á neinn hátt útskýrt hvað teljist til „misnotkunar“ á þjóðsöngnum í greinargerð og enn síður hvers vegna slík misnotkun ætti að varða sektum og fangelsisvist.
    Flutningsmenn telja það aftur á móti ekki á nokkurn hátt misnotkun á þjóðsöngnum né vanvirðing gagnvart honum að flytja hann í annarri mynd en þeirri upprunalegu, né að hann sé notaður í viðskipta- eða auglýsingaskyni. Þjóðsöngur Íslendinga er hluti af sameiginlegri menningararfleifð landsmanna allra og telja flutningsmenn að yrði hann nýttur í nýjum listaverkum eða fluttur á frumlegan hátt yrði það honum til framdráttar en ekki minnkunar. Óháð því mati telja flutningsmenn frumvarpsins óverjandi með öllu að refsing liggi við.

Tjáningarfrelsi.
    Lög um þjóðsöng Íslendinga voru fyrst sett árið 1983. Árið 1995 var gerð breyting á mannréttindakafla stjórnarskrárinnar og öðlaðist þá tjáningarfrelsi sérstakan sess sem áður hafði einungis birst í mildara og í rauninni úreltu ákvæði um prentfrelsi.
    Samkvæmt gildandi stjórnarskrá eru tálmanir á tjáningarfrelsi einungis heimilar í þágu allsherjarreglu eða öryggis ríkisins, til verndar heilsu eða siðgæði manna, eða vegna réttinda eða mannorðs annarra, enda teljist þær nauðsynlegar og samrýmist lýðræðishefðum. Að mati flutningsmanna falla þær tálmanir á tjáningarfrelsi sem felast í 3.–6. gr. laganna ekki undir neina heimild til slíkra tálmana samkvæmt stjórnarskrá, né uppfylla þær skilyrði um að vera nauðsynlegar og að samrýmast lýðræðishefðum.
    Því mætti færa rök fyrir því að tæknilega væri óþarfi að fjarlægja umræddar lagagreinar, þar sem dómstólar mundu væntanlega ekki dæma refsingu fyrir brot á lögunum. Flutningsmenn telja þó við hæfi að fjarlægja umræddar greinar af eftirfarandi ástæðum.
    Í fyrsta lagi hafa borgarar landsins rétt á því að geta lesið landslög án þess að sæta innihaldslausum hótunum um sektir og fangelsisrefsingu.
    Í öðru lagi er ekki hægt að tryggja fyrir fram hvaða niðurstöðu dómstólar komist að, enda þótt flutningsmenn séu nokkuð vissir í sinni lagatúlkun. Á endanum eru það dómstólar sem ákveða hvað uppfylli skilyrði stjórnarskrárinnar og hvað ekki.
    Í þriðja lagi verður að gera ráð fyrir því að hinn almenni borgari og aðilar innan stjórnkerfisins líti svo á að landslög séu almennt í gildi.
    Í fjórða lagi hefur löggjöf áhrif á réttarstöðu þeirra sem taldir eru brotlegir við lögin áður en kemur til kasta dómstóla. Sumarið 2018 var t.d. mögulegt brot Ríkisútvarpsins á lögunum til sérstakrar skoðunar af hálfu yfirvalda. Jafnvel þótt dómstólar kæmust á endanum að þeirri niðurstöðu að ekki væri hægt að dæma refsingu vegna tjáningarfrelsisákvæðis stjórnarskrárinnar hafa þeir aðilar sem taldir eru brjóta í bága við lögin þó þurft að sæta slíkri athugun að óþörfu.