Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF Word Perfect.

Þingskjal 847, 151. löggjafarþing 313. mál: skipagjald.
Lög nr. 3 8. febrúar 2021.

Lög um skipagjald.


1. gr.

Fjárhæð og álagning.
     Eigandi skips skal greiða árlega í ríkissjóð skipagjald af hverju skipi sem skráð er á aðalskipaskrá eins og hér segir:
Skráningarlengd skips Árlegt gjald (í kr.)
< 8 metrar 10.940
8–15 metrar 19.600
15–24 metrar 43.750
24–45 metrar 86.800
45–60 metrar 143.300
≥ 60 metrar 189.700

     Samgöngustofa fer með álagningu skipagjalds.
     Gjald skal miðað við skráningu 1. janúar ár hvert og er gjalddagi 1. apríl og eindagi 15. maí ár hvert. Við eigendaskipti ber fyrri eigandi ábyrgð á gjaldinu þar til umskráning hefur farið fram.
     Við afskráningu skips skal endurgreiða eða fella niður skipagjald í hlutfalli við þann tíma sem eftir er af yfirstandandi gjaldtímabili.

2. gr.

Lögveð.
     Gjöldum samkvæmt lögum þessum fylgir lögveð í skipi í tvö ár frá því er gjald var kræft.

3. gr.

Umsjón innheimtu.
     Innheimtumenn ríkissjóðs annast innheimtu skipagjalds og skulu þeir skila því í ríkissjóð. Heimilt er að senda eiganda skips tilkynningu um álagningu skipagjalds rafrænt.

4. gr.

Kæruheimild.
     Greiðanda skipagjalds er heimilt að skjóta álagningu skipagjalds til yfirskattanefndar samkvæmt ákvæðum laga um yfirskattanefnd.

5. gr.

Dráttarvextir.
     Hafi skipagjald ekki verið greitt á eindaga skal greiða dráttarvexti, sbr. 1. mgr. 6. gr. laga um vexti og verðtryggingu, nr. 38/2001, af þeirri fjárhæð sem gjaldfallin er frá gjalddaga.

6. gr.

Gildistaka.
     Lög þessi öðlast gildi 1. júlí 2021.

Samþykkt á Alþingi 3. febrúar 2021.