Ferill 512. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


151. löggjafarþing 2020–2021.
Þingskjal 859  —  512. mál.




Frumvarp til laga


um breytingu á lögum um aukatekjur ríkissjóðs, nr. 88/1991 (leyfi til nafnbreytinga og leyfi til breytinga á skráningu kyns).

Flm.: Andrés Ingi Jónsson, Björn Leví Gunnarsson, Guðmundur Ingi Kristinsson, Hanna Katrín Friðriksson, Helgi Hrafn Gunnarsson, Inga Sæland, Jón Steindór Valdimarsson, Olga Margrét Cilia, Rósa Björk Brynjólfsdóttir, Sara Elísa Þórðardóttir, Smári McCarthy, Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir.


1. gr.

    26. tölul. 1. mgr. 14. gr. laganna fellur brott.

2. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi og gilda um leyfi sem sótt hefur verið um frá 1. janúar 2021.

Greinargerð.

    Með frumvarpi þessu er lagt til að felld verði niður gjaldtaka vegna tvenns konar leyfa sem Þjóðskrá afgreiðir. Annars vegar er um að ræða leyfi til nafnbreytinga samkvæmt lögum um mannanöfn og hins vegar leyfi til breytinga á skráningu kyns samkvæmt lögum um kynrænt sjálfræði.
    Megintilgangur frumvarpsins er að styrkja rétt einstaklinga til að skilgreina kyn sitt, líkt og kveðið er á um í lögum um kynrænt sjálfræði, og rétt fólks til nafns. Að mati flutningsmanna standa jafnframt ríkir almannahagsmunir til þess að grundvallarupplýsingar eins og nafn og kyn séu rétt skráðar í þjóðskrá. Þjóðskrá inniheldur grunnupplýsingar um einstaklinga sem nauðsynlegar eru til starfrækslu ríkis og sveitarfélaga og því þurfa upplýsingar í henni að byggjast á bestu fáanlegu gögnum á hverjum tíma. Með gjaldtökunni skapast hindrun fyrir því að skráning á nafni og kyni einstaklinga sé sem réttust, sem aftur stendur í vegi fyrir því að markmið laga um skráningu einstaklinga náist.
    Lagt er til að gjaldtakan falli niður frá og með 1. janúar 2021, þannig gildi ákvæðið afturvirkt um leyfi sem gefin hafa verið út frá áramótum.