Ferill 7. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


151. löggjafarþing 2020–2021.
Þingskjal 921  —  7. mál.
2. umræða.Nefndarálit


um frumvarp til laga um breytingu á lögum um fjármálafyrirtæki, nr. 161/2002, með síðari breytingum (varnarlína um fjárfestingarbankastarfsemi).

Frá meiri hluta efnahags- og viðskiptanefndar.


    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Gunnlaug Helgason frá fjármála- og efnahagsráðuneyti, Katrínu Júlíusdóttur og Yngva Örn Kristinsson frá Samtökum fjármálafyrirtækja, Björk Sigurgísladóttur, Andrés Þorleifsson, Tómas Sigurðsson, Elmar Ásbjörnsson og Guðrúnu Ögmundsdóttur frá fjármálaeftirliti Seðlabanka Íslands og Ásgeir Brynjar Torfason, Gylfa Magnússon og Guðjón Rúnarsson.
    Umsagnir bárust frá Hagsmunasamtökum heimilanna og Samtökum fjármálafyrirtækja.
    Með frumvarpinu er lagt til að nýtt ákvæði bætist við lög um fjármálafyrirtæki, nr. 161/2002, þess efnis að bein og óbein stöðutaka kerfislega mikilvægra viðskiptabanka og sparisjóða í fjármálagerningum, að frátöldum skuldabréfum utan veltubókar, og hrávöru verði takmörkuð þannig að samanlögð eiginfjárþörf bankans eða sparisjóðsins vegna stöðutökunnar megi ekki vera umfram 15% af eiginfjárgrunni hans. Frumvarpinu er ætlað að hrinda í framkvæmd tillögu í hvítbók um framtíðarsýn fyrir fjármálakerfið um afmörkun varnarlínu milli viðskipta- og fjárfestingarbankastarfsemi.
    Eftir fjármálakreppuna hafa flest vestræn ríki sett ákveðnar varnarlínur á milli viðskiptabanka- og fjárfestingarbankastarfsemi innan sömu stofnunar. Með samþykkt frumvarpsins væri áhættumikil fjárfestingarbankastarfsemi takmörkuð án þess að lagðar yrðu of íþyngjandi kvaðir á starfsemina. Bann við því að stöðutaka fari umfram 15% af eiginfjárgrunni heftir augljóslega vöxt áhættumikillar fjárfestingarbankastarfsemi kerfislega mikilvægra banka án þess þó að raska núverandi starfsemi þeirra og gefur þeim töluvert svigrúm.
    Í alþjóðlegum samanburði eru íslenskir bankar mjög litlir og því skiptir miklu að þeir geti starfað með hagkvæmum hætti. Kvaðir eða takmarkanir sem eru settar til að draga úr áhættu verða að taka mið af því þannig að ekki sé dregið úr stærðarhagkvæmni og þjónustuframboði kerfislega mikilvægra viðskiptabanka eða möguleikum til áhættudreifingar með fjölbreyttari tekjustofnum.
    Meiri hlutinn bendir á að undanfarin ár hefur verið ráðist í róttækar breytingar á áhættuvörnum íslenska fjármálakerfisins með innleiðingu nýrra laga og reglna og aukins eftirlits fjármálaeftirlits Seðlabanka Íslands. Í umsögn Samtaka fjármálafyrirtækja er m.a. bent á að „raunverulegt eiginfé lánastofnana, sem hlutfall af heildareignum, er umtalsvert hærra hér á landi en í þeim löndum sem við berum okkur saman við“. Geta íslenskra lánastofnana til að mæta áföllum er því meiri en í nágrannalöndum.
    Meiri hlutinn leggur til að frumvarpið verði samþykkt óbreytt.


Alþingi, 18. febrúar 2021.

Óli Björn Kárason,
form.
Brynjar Níelsson, frsm. Bryndís Haraldsdóttir.
Ólafur Þór Gunnarsson. Þórarinn Ingi Pétursson.