Ferill 420. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


151. löggjafarþing 2020–2021.
Þingskjal 929  —  420. mál.




Svar


mennta- og menningarmálaráðherra við fyrirspurn frá Ólafi Ísleifssyni um kynjahlutföll á skólaskrifstofum og við námsgagnagerð.


     1.      Hver eru kynjahlutföll á skólaskrifstofum sveitarfélaga þar sem sérfræðiþjónustu við grunnskóla er sinnt (sálfræðingar, uppeldisfræðingar, félagsráðgjafar og sérkennarar)?
    Samkvæmt upplýsingum frá skólaskrifstofum sveitarfélaga er kynjahlutfall starfsmanna að meðaltali 76% konur og 24% karlar. Kynjaskiptingin á einstaka skólaskrifstofum er allt frá því að vera 100% af einu kyni, karlar eða konur, í það að vera jöfn skipting karla og kvenna.

Skólaskrifstofur sveitarfélaga Kynjahlutfall
Konur Karlar
Reykjavík, þjónustumiðstöðvar 95% 5%
Reykjavík, miðlæg skólaþjónusta 64% 36%
Hafnarfjörður 79% 22%
Garðabær 80% 20%
Kópavogur 86% 14%
Seltjarnarnes 0% 100%
Mosfellsbær 80% 20%
Grindavík 67% 33%
Reykjanes 79% 21%
Suðurnesjabær 100% 0%
Akranes 50% 50%
Borgarbyggð 75% 25%
Félags- og skólaþjónusta Snæfellinga 63% 38%
Ísafjörður 100% 0%
Félags- og skólaþjónusta Austur-Húnvetninga 100% 0%
Húnaþing 100% 0%
Skagafjörður 67% 33%
Akureyri 82% 18%
Fjallabyggð 100% 0%
Norðurþing 75% 25%
Dalvíkurbyggð 13% 88%
Skólaskrifstofa Austurlands 87,5% 12,5%
Fjarðabyggð 0% 100%
Fljótsdalshérað 100% 0%
Hornafjörður 100% 0%
Árborg 90% 10%
Árnesþing 80% 20%
Skólaþjónusta Rangárvalla- og Vestur-Skaftafellssýslu 90% 10%
Vestmannaeyjar 100% 0%

    Mörg sveitarfélög kaupa einnig þjónustu við grunnskóla frá sjálfstætt starfandi sérfræðingum. Ekki liggja fyrir upplýsingar um kynjaskiptingu þeirra aðila þar sem þeir eru ekki starfsmenn sveitarfélaganna og misjafnt hvaða aðili sinnir þeirri þjónustu hverju sinni.

     2.      Hver eru kynjahlutföll við námsgagnagerð, prófasamningu og stefnumörkun á vegum Menntamálastofnunar?
    
Hjá Menntamálastofnun, MMS, starfar í dag 61 starfsmaður (23 karlar og 39 konur). í framkvæmdastjórn sitja forstjóri og sviðsstjórar og eru kynjahlutföll þrír karlar og tvær konur, eða 60% karlar og 40% konur.
    Á miðlunarsviði MMS starfa 15 manns í 14 stöðugildum. Allt starfsfólk sviðsins kemur að námsgagnagerð að einhverju marki, sumir með óbeinum hætti, svo sem samingagerð, hönnun, útgáfumálum, yfirlestri og þess háttar. Kynjaskiptingin er þrír karlar á móti 11 konum eða 21,5% karlar og 78,5% konur. Ef litið er einungis til ritstjóra þá eru þeir í alls 8,5 stöðugildum. Þar af eru konur í sjö stöðugildum og karlar í 1,5 stöðugildi, eða tæp 18% karlar og 82% konur.
    Við samningu prófa starfa þrír karlar og ein kona, eða 75% karlar og 25% konur.

     3.      Eru í gildi jafnréttisáætlanir á þessum sviðum? Hefur ráðherra áform um að setja slíkar áætlanir þar sem þær kynni að vanta?
    Jafnréttisáætlun Menntamálastofnunar tekur til allrar starfsemi Menntamálastofnunar, sbr. 18. gr. laga um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla, nr. 10/2008. Áætlunin kveður á um markið og aðgerðir sem ætlað er að tryggja starfsfólki þau réttindi sem kveðið er á um í 19.–22. gr. laga um jafna stöðu og jafna rétt kvenna og karla og í lögum um bann við mismunun á vinnumarkaði, nr. 86/2018. Sjá: mms.is/jafnrettisaaetlun ásamt aðgerðaáætlun.
    Sveitarfélög bera skv. 12. gr. laga um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla ábyrgð á jafnréttisáætlunum sínum og sinna stofnana. Ráðherra hefur í ljósi þess ekki áform um að setja jafnréttisáætlanir fyrir skólaskrifstofur sveitarfélaga.