Ferill 558. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


151. löggjafarþing 2020–2021.
Þingskjal 938  —  558. mál.




Frumvarp til laga


um brottfall laga um leit, rannsóknir og vinnslu kolvetnis, nr. 13/2001 (bann við leit og vinnslu jarðefnaeldsneytis).

Flm.: Andrés Ingi Jónsson, Albertína Friðbjörg Elíasdóttir, Björn Leví Gunnarsson, Guðmundur Andri Thorsson, Helgi Hrafn Gunnarsson, Olga Margrét Cilia, Rósa Björk Brynjólfsdóttir, Sara Elísa Þórðardóttir, Smári McCarthy.


1. gr.

    Lög um leit, rannsóknir og vinnslu kolvetnis, nr. 13/2001, með síðari breytingum, falla úr gildi.

2. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Ákvæði til bráðabirgða.

    Ráðherra skal gera tillögur um breytingar á öðrum lögum sem nauðsynlegar eru í framhaldi af lögfestingu á banni við leit og vinnslu jarðefnaeldsneytis og leggja frumvörp þess efnis fyrir Alþingi einu ári eftir gildistöku þessara laga.

Greinargerð.

    Með frumvarpi þessu er lagt til að leit að jarðefnaeldsneyti á íslensku yfirráðasvæði verði óheimil. Tengd frumvörp voru lögð fram á 149. löggjafarþingi (504. mál) og 150. löggjafarþingi (117. mál) en náðu ekki fram að ganga. Þar var lögð til ótímabundin frysting olíuleitar, en að þessu sinni er lagt til að snúa varanlega baki við möguleika á vinnslu jarðefnaeldsneytis. Með frumvarpinu eru felld úr gildi þau sérlög sem gilda um olíuvinnslu, leit og rannsóknir, auk þess sem ráðherra er falið að gera þær breytingar á öðrum lögum sem af banninu leiðir.
    Ríki heims hafa sammælst um að halda hlýnun jarðar af mannavöldum hið minnsta innan 2°C og helst undir 1,5°C. Á sama tíma ná þau markmið ekki fram í áformum ríkisstjórna heims um vinnslu jarðefnaeldsneytis. Samkvæmt skýrslu Umhverfisstofnunar Sameinuðu þjóðanna, Production Gap Report 2020, er áætlað að ef allar hugmyndir sem þegar eru á teikniborðinu um áframhaldandi vinnslu jarðefnaeldsneytis verða að veruleika blasi við offramleiðsla og offjárfesting. Ef allar hugmyndir stærstu framleiðsluríkjanna ná fram að ganga verður framleiðsla jarðefnaeldsneytis árið 2030 um 120% umfram það sem þarf til að ná markmiði Parísarsamkomulagsins um 1,5°C hlýnun.
    Þessi ósamrýmanlega framtíðarsýn ríkja gengur ekki upp. Til að ná raunverulegum árangri í baráttunni gegn loftslagsbreytingum þarf að draga verulega úr þeim áformum sem þegar eru á teikniborðinu og leggja algjörlega til hliðar allar hugmyndir um frekari vinnslu jarðefnaeldsneytis.
    Með frumvarpinu er tekið á mjög afmörkuðum hluta loftslagsvandans. Með samþykkt þess væri sýnt með afgerandi hætti að Ísland sé reiðubúið að grípa til þeirra aðgerða sem nauðsynlegar eru og skipa sér í hóp þeirra ríkja sem líta á vinnslu jarðefnaeldsneytis sem arf fortíðar.