Ferill 663. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


151. löggjafarþing 2020–2021.
Þingskjal 1132  —  663. mál.




Frumvarp til laga


um breytingu á lögum um þingfararkaup alþingismanna og þingfararkostnað, nr. 88/1995, með síðari breytingum (ferðakostnaður).

Flm.: Steingrímur J. Sigfússon, Guðjón S. Brjánsson, Brynjar Níelsson, Willum Þór Þórsson, Björn Leví Gunnarsson, Bryndís Haraldsdóttir, Jón Steindór Valdimarsson, Inga Sæland.


1. gr.

    Við 7. gr. laganna bætist ný málsgrein, svohljóðandi:
    Réttur þingmanns skv. 1. og 2. mgr., sem sækist eftir endurkjöri, fellur niður þegar sex vikur eru til kjördags. Þó má ákveða í reglum forsætisnefndar að heimilt sé að endurgreiða alþingismanni ferðakostnað á þessu tímabili ef um er að ræða viðburði eða ferðir á vegum Alþingis eða þegar Alþingi er enn að störfum og þingmaður tekur þátt í störfum þess.

2. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Greinargerð.

    Frumvarp þetta er lagt fram af forsætisnefnd og áheyrnarfulltrúum, að Þorsteini Sæmundssyni undanskildum. Tilgangur frumvarpsins er að takmarka rétt þingmanna til endurgreiðslu ferðakostnaðar í aðdraganda kosninga til Alþingis.
    Lög nr. 88/1995, um þingfararkaup alþingismanna og þingfararkostnað (þingfararkaupslög), nefna ekki frá hvað tíma réttur þingmanns til þess að fá greiddan ferðakostnað skv. 7. gr. laganna hefst og hvenær honum lýkur. Af 1. gr. laganna, um að þingfararkaup greiðist til síðasta dags þess mánaðar er kjörtímabili eða þingsetu lýkur, og ákvæðum stjórnarskrárinnar um alþingiskosningar og lengd kjörtímabilsins leiðir á hinn bóginn að almennt verður að ganga út frá því að réttur þingmanns til greiðslu ferðakostnaðar miðist við kjörtímabilið eða þann tíma sem hann situr á Alþingi.
    Rökin að baki því að takmarka rétt þingmanna, sem sækjast eftir endurkjöri í alþingiskosningum, til endurgreiðslu ferðakostnaðar eru þau að þannig megi tryggja betur að jafnræði sé með þeim og nýjum þingmannsefnum eða nýjum stjórnmálasamtökum, t.d. þegar þeir koma sér á framfæri við kjósendur. Er því í frumvarpinu lagt til að réttur til endurgreiðslu aksturskostnaðar falli niður á tilteknu tímamarki, sex vikum fyrir kjördag, en að undanþágur verði heimilaðar. Slíkt tímamark er til þess fallið að draga úr ójafnræði þeirra sem hyggjast leita eftir endurkjöri og nýrra frambjóðenda við kosningar. Almennt má ætla að sex vikum fyrir kjördag liggi fyrir hvaða þingmenn sækjast eftir endurkjöri. Þar er tekið mið af ákvörðun landskjörstjórnar um skiptingu Reykjavíkurkjördæmanna, sem er fimm vikum fyrir kjördag, sbr. 1. mgr. 7. gr. laga nr. 24/2000, um kosningar til Alþingis, og ákvæðum stjórnarskrárinnar um þingrof og boðun til almennra kosninga, sem er um það bil sex vikum fyrir kjördag, sbr. 24. gr. stjórnarskrárinnar.
    Gert er ráð fyrir því að tillagan afmarkist við þá alþingismenn sem sækjast eftir endurkjöri. Almennt verður að gera ráð fyrir að upplýsingar um þá liggi fyrir skömmu eftir að almennar reglulegar kosningar hafa verið auglýstar eða þingrofsboðskapur hefur verið birtur í Stjórnartíðindum. Það þarf hins vegar ekki endilega að vera svo, þar sem stjórnmálasamtök geta haft mismunandi aðferðir við að stilla upp framboðslistum (prófkjör, uppstilling, o.s.frv.). Þá er frestur til þess að leggja fram framboðslista samkvæmt gildandi kosningalögum 15 dagar fyrir kjördag og landskjörstjórn auglýsir listana endanlega 10 dögum fyrir kjördag. Komi upp vafi um hvort þingmaður hafi sóst eftir endurkjöri er gert ráð fyrir því að skrifstofa Alþingis skeri úr um rétt þingmanns, sbr. 16. gr. þingfararkaupslaga. Slíkum úrskurði er síðan hægt að skjóta til forsætisnefndar sem fellir endanlega úrskurð um málið. Frumvarpið nær ekki til þeirra þingmanna sem ekki hyggjast gefa kost á sér áfram til setu á Alþingi.
    Í þeim tilvikum þegar þingmaður sem sækist eftir endurkjöri þarf að sinna opinberum erindagjörðum á vegum Alþingis, t.d. sækja viðburði eða fara í ferðir á vegum þess, eða þegar þing er enn að störfum og þingmaður tekur þátt í störfum þess eftir hið tilgreinda tímamark (sex vikur), er lagt til að heimilt verði að greiða ferðakostnað við slíkar aðstæður. Samhliða takmörkun ferðakostnaðar er nauðsynlegt að tryggja að alþingismenn geti sinnt þingstörfum í aðdraganda kosninga, t.d. ef Alþingi er enn að störfum eða kalla þarf fastanefnd saman til fundar.
    Samfara lagabreytingunni er nauðsynlegt að breyta reglum forsætisnefndar um þingfararkostnað. Þar kemur til álita að á eftir 6. gr. komi ný grein, svohljóðandi:

6. gr. a.
Ferðakostnaður í aðdraganda kosninga.

    Réttur þingmanns, sem sækist eftir endurkjöri, til endurgreiðslu ferðakostnaðar í kjördæmi, sbr. 3. gr., vegna ferða milli heimilis og Reykjavíkur, sbr. 4. gr., og ferða í önnur kjördæmi (fundaferðir), sbr. 5. gr., fellur niður þegar sex vikur eru til kjördags eða þegar þing hefur verið rofið. Frá sama tíma fellur niður heimild þingmanns skv. 4. mgr. 6. gr. til þess að nýta bílaleigubifreið til ferða skv. 3. gr. og 5. gr.
    Þrátt fyrir ákvæði 1. mgr. er heimilt að endurgreiða þingmanni ferðakostnað skv. 3.–5. gr. þegar um er að ræða viðburði eða ferðir á vegum Alþingis eða þegar þing er enn að störfum og þingmaður tekur þátt í störfum þess með því að sækja þingfundi eða nefndarfundi.

    Við undirbúning frumvarpsins var með vísan til 27. gr. laga nr. 115/2011, um Stjórnarráð Íslands, um setningu reglna um starfskostnað og önnur starfskjör ráðherra, leitað sjónarmiða forsætisráðuneytis og fjármála- og efnahagsráðuneytis um þær fyrirætlanir sem felast í frumvarpinu. Í svari forsætisráðuneytisins segir að ráðuneytisstjórar og starfsfólk ráðuneytanna tveggja hafi fundað um málið og sammælst um að gera ekki athugasemdir við áformað frumvarp. Mun fjármála- og efnahagsráðuneyti vinna tillögur að breytingum á reglum um greiðslu ferðakostnaðar og önnur starfskjör ráðherra sem feli í sér sambærilegar takmarkanir á endurgreiðslu ferðakostnaðar ráðherra í aðdraganda kosninga og lagt er upp með í frumvarpinu.