Ferill 718. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Microsoft Word.


151. löggjafarþing 2020–2021.
Þingskjal 1197  —  718. mál.
Stjórnarfrumvarp.Frumvarp til laga


um breytingu á lögum um meðferð sakamála, nr. 88/2008 (réttarstaða brotaþola, fatlaðs fólks og aðstandenda).

Frá dómsmálaráðherra.


1. gr.

    Í stað orðanna „í slíku sérútbúnu húsnæði“ í 4. málsl. 9. gr. laganna kemur: og brotaþola eða vitni með geðræna eða vitsmunalega skerðingu eða skerta skynjun, í sérútbúnu húsnæði.

2. gr.

    Í stað tilvísunarinnar „1. mgr.“ í 1. málsl. 1. mgr. 16. gr. laganna kemur: 1. og 3. mgr.

3. gr.

    Á eftir 2. mgr. 39. gr. laganna kemur ný málsgrein, svohljóðandi:
    Ef rannsókn máls varðar orsök andláts einstaklings getur maki eða sambúðarmaki, lögráða barn eða annar lögráða niðji, foreldri eða lögráða systkini hins látna komið fram sem fyrirsvarsmaður hans.

4. gr.

    Við 1. mgr. 40. gr. laganna bætast tveir nýir málsliðir, svohljóðandi: Nú hefur brotaþoli fengið tilnefndan réttargæslumann skv. 41. gr. og skal þá lögregla jafnframt upplýsa hann um framvindu rannsóknar máls nema talið verði að það torveldi rannsóknina. Aðra brotaþola skal upplýsa eftir því sem tilefni er til.

5. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 41. gr. laganna:
     a.      Á eftir 3. mgr. kemur ný málsgrein, svohljóðandi:
                  Ef rannsókn máls varðar orsök andláts einstaklings er lögreglu heimilt að tilnefna fyrirsvarsmanni skv. 3. mgr. 39. gr. réttargæslumann, ef þess er óskað og hann hefur að mati lögreglu þörf fyrir slíka aðstoð meðan á rannsókn málsins stendur.
     b.      Í stað tilvísunarinnar „1.–3. mgr.“ í 4. mgr. kemur: 1.–4. mgr.

6. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 42. gr. laganna:
     a.      Í stað tilvísunarinnar „1.–3. mgr.“ í 1. mgr. kemur: 1.–4. mgr.
     b.      Við bætist ný málsgrein, svohljóðandi:
                  Nú hefur dómi héraðsdóms verið áfrýjað en bótakrafa brotaþola er ekki til endurskoðunar fyrir Landsrétti og er þá engu að síður heimilt að skipa brotaþola réttargæslumann við meðferð málsins fyrir Landsrétti, enda sé nauðsynlegt að taka þar af honum skýrslu.

7. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 47. gr. laganna:
     a.      1. málsl. 1. mgr. orðast svo: Meðan á rannsókn stendur á réttargæslumaður rétt á að fá aðgang að þeim gögnum málsins sem varða brotaþola nema lögregla telji hættu á að rannsókn torveldist við það.
     b.      Á eftir 1. málsl. 1. mgr. kemur nýr málsliður, svohljóðandi: Réttargæslumaður á jafnframt rétt á að fá afhent þau gögn sem eru honum nauðsynleg til að gæta hagsmuna skjólstæðings síns.
     c.      Í stað orðanna „gögnum máls skv. 1. mgr.“ í 3. mgr. kemur: þeim gögnum máls sem honum eru nauðsynleg til að gæta hagsmuna sinna.

8. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 59. gr. laganna:
     a.      Við a-lið 1. mgr. bætist: sem og ef brotaþoli er með geðræna eða vitsmunalega skerðingu eða skerta skynjun.
     b.      Á eftir orðinu „börn“ í c-lið 1. mgr. kemur: eða fatlað fólk.
     c.      Á eftir 1. mgr. kemur ný málsgrein, svohljóðandi:
                  Meðan á rannsókn stendur getur viðbótarskýrslutaka af brotaþola eða öðru vitni farið fram fyrir dómi skv. a- og c-lið 1. mgr. ef rannsóknarhagsmunir krefjast þess og slík skýrslugjöf telst ekki sérstaklega íþyngjandi fyrir brotaþola eða annað vitni.

9. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 61. gr. laganna:
     a.      Við 1. mgr. bætist nýr málsliður, svohljóðandi: Bjóða skal fötluðum sakborningi að hafa með sér hæfan stuðningsaðila við skýrslutöku.
     b.      Við 2. mgr. bætist nýr málsliður, svohljóðandi: Bjóða skal fötluðu vitni að hafa með sér hæfan stuðningsaðila við skýrslutöku.

10. gr.

    3. málsl. 2. mgr. 111. gr. laganna orðast svo: Ef um er að ræða brot á XXII. kafla almennra hegningarlaga og brotaþoli hefur ekki náð 15 ára aldri eða hefur geðræna eða vitsmunalega skerðingu eða skerta skynjun skal hann þó aðeins koma fyrir dóm ef dómari telur sérstaka ástæðu til.

11. gr.

    Við 1. mgr. 113. gr. laganna bætist nýr málsliður, svohljóðandi: Bjóða skal fötluðum sakborningi að hafa með sér hæfan stuðningsaðila við skýrslutöku.

12. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 2. mgr. 123. gr. laganna:
     a.      Á eftir orðunum „15 ára“ í 1. málsl. kemur: eða fötluðu vitni.
     b.      Við bætist nýr málsliður, svohljóðandi: Bjóða skal fötluðu vitni að hafa með sér hæfan stuðningsaðila við skýrslutöku.

13. gr.

    Við 193. gr. laganna bætist ný málsgrein, svohljóðandi:
    Nú er kröfu skv. XXVI. kafla vísað frá héraðsdómi, samkvæmt fyrirmælum 2. mgr. 176. gr., vegna þess að ákærði er sýknaður með dómi og getur kröfuhafi þá án kæru og þrátt fyrir ákvæði þessarar greinar komið að við meðferð áfrýjunarmáls fyrir Landsrétti, eftir fyrirmælum 4. mgr. 199. gr., d-liðar 2. mgr. og 4. mgr. 201. gr. og 203. gr., kröfu um ómerkingu og heimvísun héraðsdóms hvað kröfu sína varðar.

14. gr.

    Á eftir 1. málsl. 3. mgr. 196. gr. laganna kemur nýr málsliður, svohljóðandi: Krafa um endurskoðun á grundvelli 4. mgr. 193. gr. getur þó ekki tekið til annars en ómerkingar og heimvísunar ákvæðis héraðsdóms um frávísun kröfunnar.

15. gr.

    Orðin „ef krafa“ og „hefur verið dæmd að efni til“ í 4. mgr. 199. gr. laganna falla brott.

16. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 201. gr. laganna:
     a.      Orðin „sem dæmd hefur verið að efni til“ í d-lið 2. mgr. falla brott.
     b.      Á eftir orðunum „í héraði“ í 4. mgr. kemur: eða vísað frá héraðsdómi vegna fyrirmæla 2. mgr. 176. gr.

17. gr.

    2. mgr. 208. gr. laganna orðast svo:
    Nú er héraðsdómur ómerktur eingöngu hvað varðar frávísun kröfu skv. 1. og 2. mgr. 172. gr., og skal þá víkja henni til meðferðar í héraðsdómi í sérstöku einkamáli í samræmi við ákvæði 175. gr.

18. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Greinargerð.

1. Inngangur.
    Með frumvarpi þessu, sem samið er af réttarfarsnefnd, eru lagðar til breytingar á nokkrum ákvæðum laga um meðferð sakamála, 88/2008. Að meginstefnu má skipta þeim breytingartillögum í þrennt. Í fyrsta lagi er með frumvarpi þessu leitast við að bæta réttarstöðu brotaþola við meðferð tiltekinna sakamála hjá lögreglu og fyrir dómstólum. Er þar átt við mál þar sem brotaþola hefur verið tilnefndur eða skipaður réttargæslumaður svo sem t.d. á við um kynferðisbrotamál. Þær breytingar sem lagðar eru til í þessu skyni varða til að mynda aukna upplýsingaskyldu lögreglu til brotaþola og aðgang réttargæslumanns að gögnum auk breytinga sem eiga að tryggja að bótakrafa brotaþola komist að á áfrýjunarstigi jafnvel þótt ákærði hafi verið sýknaður í héraði sem og að brotaþoli geti notið aðstoðar réttargæslumanns við skýrslutöku fyrir Landsrétti þótt krafa hans sé ekki til meðferðar þar.
    Í öðru lagi eru lagðar til breytingar í því augnamiði að bæta réttarstöðu fatlaðs fólks við meðferð mála hjá lögreglu og fyrir dómstólum. Í þeim efnum er m.a. lagt til að dómari geti ákveðið í vissum tilvikum að skýrsla af fötluðum brotaþola eða vitni verði tekin í sérútbúnu húsnæði sem og að dómari geti kvatt til kunnáttumann sér til aðstoðar við skýrslutöku af fötluðu vitni. Þá er lagt til að fötluðum sakborningi og vitni verði heimilt að hafa með sér hæfan stuðningsaðila við skýrslutöku, hvort heldur sem er hjá lögreglu eða fyrir dómi.
    Í þriðja lagi er stefnt að því með frumvarpinu að bæta réttarstöðu aðstandenda látins einstaklings í þeim tilvikum sem rannsókn lögreglu beinist að dánarorsök hans. Þannig verði aðstandanda heimilt að koma fram sem fyrirsvarsmaður hins látna undir rannsókn málsins hjá lögreglu og í ákveðnum tilvikum unnt að tilnefna fyrirsvarsmanni réttargæslumann.

2. Tilefni og nauðsyn lagasetningar.
    Markmið þeirra breytinga sem lagðar eru til með frumvarpi þessu er sem fyrr segir að bæta réttarstöðu brotaþola og fatlaðra, sem og aðstandenda látinna einstaklinga, og bregðast þannig við breyttum samfélagslegum viðhorfum til aðkomu þessara aðila að málum sem þá varða, hvort heldur á rannsóknarstigi hjá lögreglu eða eftir að mál er komið fyrir dóm. Frumvarpið á sér nokkurn aðdraganda og hefur við samningu þess m.a. verið litið til skýrslna sem unnar hafa verið á síðustu árum um þau málefnasvið sem efni þess snertir.
    Þar ber í fyrsta lagi að nefna skýrslu Hildar Fjólu Antonsdóttur: Réttlát málsmeðferð með tilliti til þolenda kynferðisbrota, sem unnin var fyrir stýrihóp forsætisráðherra um heildstæðar úrbætur að því er varðar kynferðislegt ofbeldi og kom út í maí 2019. Í skýrslunni eru gerðar tillögur í 15 liðum sem hafa það að augnamiði að styrkja réttarstöðu og bótarétt brotaþola kynferðisbrota, m.a. með hliðsjón af löggjöf hinna Norðurlandanna. Við hluta þessarar tillagna hefur ríkissaksóknari þegar brugðist með Fyrirmælum nr. 1/2020 um tilkynningar til brotaþola og réttargæslumanna, sem komu í stað eldri fyrirmæla nr. 3/2009. Samkvæmt hinum nýju fyrirmælum ber ákæruvaldinu nú að sjá til þess að brotaþoli og réttargæslumaður séu upplýstir um það ef sakborningur/kærði er settur í gæsluvarðhald og þegar hann er laus úr gæsluvarðhaldi þegar um brot gegn XXII.–XXIV. kafla almennra hegningarlaga, nr. 19/1940, er að ræða eða atvik máls eru með þeim hætti að telja verði mikilvægt fyrir brotaþola að vera upplýstur um framangreint. Þessir kaflar almennra hegningarlaga fjalla um kynferðisbrot, manndráp og líkamsmeiðingar og brot gegn frjálsræði manna. Þá skal ríkissaksóknari samkvæmt hinum nýju reglum enn fremur tilkynna brotaþola og réttargæslumanni um áfrýjun sýknudóma og annarra dóma sem hann fær annars ekki vitneskju um, enda sé áfrýjunarstefna ekki birt fyrir brotaþola. Loks er mælt fyrir um að tilkynna skuli réttargæslumanni, hafi hann verið tilnefndur eða skipaður, um stöðu máls eða afgreiðslu þess, ásamt brotaþola sjálfum.
    Loks skal þess getið að það verklag hefur verið tekið upp hjá öllum embættum lögreglustjóra utan höfuðborgarsvæðisins, í samstarfi við héraðssaksóknara, að kynna þolendum kynferðisbrota niðurfellingu máls þeirra á ákæruvaldsstigi á fundi með fulltrúa ákæruvalds og réttargæslumanni. Þannig berst brotaþola þá tilkynning um niðurfellingu héraðssaksóknara á máli er hann varðar og er viðkomandi boðið í viðtal hjá lögfræðingi hjá embætti lögreglustjóra þar sem ákvörðunin er kynnt. Hvað varðar mál sem eru rannsökuð hjá embætti lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu, þá kynnir héraðssaksóknari brotaþola um niðurfellingu þeirra. Þetta nýja verklag hefur gefist vel.
    Með frumvarpi þessu hefur verið litið til framangreindrar skýrslu og tekið tillit til hluta þeirra tillagna sem þar eru settar fram og þá einkum þeirra er varða upplýsingaskyldu lögreglu til réttargæslumanns um framvindu máls sem og aðgang réttargæslumanns að þeim gögnum sem brotaþola varða. Loks er þess að geta, líkt og nánar verður vikið að í kafla 3.1, að brugðist er við hugmyndum um að lögfesta formlega aðild brotaþola að ákærumálum með því að leitast við með þessu frumvarpi að tryggja að bótakrafa brotaþola komist að á áfrýjunarstigi jafnvel þótt ákærði hafi verið sýknaður í héraði sem og að tryggja brotaþola réttargæslumann við skýrslutöku fyrir Landsrétti þótt bótakrafa hans sé ekki þar til meðferðar, en um þessi atriði er ekki fjallað í skýrslunni. Um talsverðar réttarbætur er að ræða fyrir brotaþola.
    Í öðru lagi hefur við samningu þessa frumvarps verið litið til samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks, sem tók gildi 3. maí 2008 og var fullgiltur af Íslands hálfu 23. september 2016, en í 1. tölul. 13. gr. samningsins segir:

        Aðildarríkin skulu tryggja fötluðu fólki virkan aðgang að réttarkerfinu til jafns við aðra, meðal annars með því að laga málsmeðferð alla að þörfum þess og taka tilhlýðilegt tillit til aldurs viðkomandi, í því skyni að gera því kleift að gegna hlutverki sínu með virkum hætti sem beinir og óbeinir þátttakendur, þar með talið sem vitni, í öllum málarekstri, einnig á rannsóknarstigi og öðrum undirbúningsstigum.

    Þá hefur verið horft til Skýrslu starfshóps um meðferð kynferðisbrotamála þegar um fatlaða sakborninga og/eða brotaþola er að ræða, sem unnin var fyrir ríkissaksóknara og kom út í júní 2018. Í skýrslunni er m.a. lagt til að ráðist verði í heildarendurskoðun á þeim reglum sem gilda um skýrslutökur af sakborningum og vitnum í lögum um meðferð sakamála með það fyrir augum að bæta réttarstöðu fatlaðs fólks. Þær tillögur sem lagðar eru fram í skýrslunni eru almennt til bóta og hafa þær verið hafðar til hliðsjónar við undirbúning frumvarps þessa. Í því sambandi er rétt að minna á það grundvallarmarkmið réttarvörslukerfisins og réttarfarsreglna á sviði sakamálaréttarfars að tryggja eftir fremsta megni að staðreyndir verði leiddar í ljós í sakamálum. Einn liður í því er að skýrslur af ákærðu, brotaþolum og vitnum fari fram með þeim hætti að tekið sé mið af þörfum hvers og eins eftir því sem framast er unnt. Slík framkvæmd stuðlar að því að skýrslan komi að sem bestum notum og sönnunargildi framburðarins verði eins og best verður á kosið. Eru þá enn ónefnd þau sjálfsögðu réttindi að viðkomandi sé að lögum sýnd tilhlýðileg virðing með hliðsjón af stöðu hans og þörfum. Í lögum um meðferð sakamála skortir á að réttarfarsreglur taki mið af framangreindu að því er fatlað fólk varðar og er með frumvarpi þessu leitast við að bæta úr því.

3. Meginefni frumvarpsins.
3.1. Breytingar er varða réttarstöðu brotaþola.
    Þær breytingar sem lagðar eru til með 4. gr., 6. og 7. gr., og 13.–17. gr. frumvarpsins eiga það sammerkt að vera ætlað að bæta réttarstöðu brotaþola annars vegar á meðan á rannsókn lögreglu stendur og hins vegar við meðferð máls fyrir dómi. Verður nú gerð í stórum dráttum grein fyrir þeim breytingum en að öðru leyti vísast til skýringa við einstakar greinar frumvarpsins.
    Í þessu skyni er í fyrsta lagi lagt til með 4. gr. frumvarpsins að skýrt komi fram í 1. mgr. 40. gr. laga um meðferð sakamála að í þeim tilvikum sem brotaþoli hefur fengið tilnefndan réttargæslumann skv. 41. gr. laganna skuli lögregla upplýsa hann um framvindu rannsóknar máls nema talið verði að það torveldi hana. Í gildandi ákvæði segir nú það eitt að lögreglu sé skylt, eftir því sem við á, að leiðbeina brotaþola um réttindi hans lögum samkvæmt. Í þessu felst umtalsverð breyting þar sem frumkvæðisskylda er lögð á lögreglu að upplýsa brotaþola eða réttargæslumann um hvernig rannsókn vindur fram eftir því sem tilefni er til. Dæmi um upplýsingagjöf sem hér félli undir væru upplýsingar til brotaþola um að grunaður brotamaður hafi verið boðaður til skýrslutöku sem og þegar skýrslutöku lýkur. Þessi skylda lögreglu fellur þó niður ef talið er að upplýsingagjöfin kunni að torvelda rannsókn málsins en telja verður það nauðsynlega takmörkun.
    Í öðru lagi er með 7. gr. frumvarpsins kveðið á um ríkari rétt réttargæslumanns til aðgangs að rannsóknargögnum en nú er gert. Í gildandi 1. mgr. 47. gr. laga um meðferð sakamála kemur þannig fram að á meðan rannsókn standi eigi réttargæslumaður einungis rétt á að fá aðgang að þeim gögnum sem varða þátt skjólstæðings hans í málinu og honum eru nauðsynleg til að gæta hagsmuna skjólstæðingsins. Lagt er til að í stað þess að takmarka þennan aðgang við gögn sem varða þátt brotaþola, verði kveðið á um rétt réttargæslumanns til aðgangs gögnum málsins sem varða brotaþola, nema lögregla telji hættu á rannsókn torveldist við það. Að auki verði kveðið á um að réttargæslumaður eigi jafnframt rétt á að fá afhent þau gögn sem eru honum nauðsynlegt til að gæta hagsmuna skjólstæðings síns. Einnig er lagt til að í 3. mgr. 47. gr. verði kveðið á um að brotaþoli sem ekki nýtur aðstoðar réttargæslumanns eigi rétt til aðgangs að þeim gögnum máls sem honum eru nauðsynleg til að gæta hagsmuna sinna. Áréttað er að ekki er víst að ávallt falli saman réttur til aðgangs að gögnum sem varða brotaþola og gögn sem réttargæslumaður eða brotaþoli á rétt á að fá afhent þar sem þau eru honum nauðsynleg til að gæta hagsmuna skjólstæðings síns. Slíkt verður að ráðast af atvikum hvers máls en í einhverjum tilvikum kynni réttur til að fá gögn afhent að vera þrengri en réttur til aðgangs að gögnum.
    Athygli er vakin á því að ekki er lagt til að þær breytingar sem fjallað hefur verið um hér að framan og lagðar eru til með 4. gr. og 7. gr. frumvarpsins taki til allra brotaþola heldur takmarkist við þolendur alvarlegustu brota gegn líkama og persónu. Enda er ekki óeðlilegt að þeir brotaþolar njóti ríkari réttar að þessu leyti heldur en þolendur „vægari“ brota eða lögaðilar sem telja að á sér hafi verið brotið. Af þeim sökum er tekið fram í 4. gr. frumvarpsins, þar sem lögð er til breyting á 40. gr. laga um meðferð sakamála, að hún fjalli um tilvik þar sem brotaþola hefur verið tilnefndur réttargæslumaður skv. 41. gr. laganna. Skv. 41. gr. er skylt að tilnefna réttargæslumann ef rannsókn beinist að broti gegn XXII. kafla almennra hegningarlaga (kynferðisbrot) eða brotaþoli hefur ekki náð 18 ára aldri þegar rannsókn hefst, og samkvæmt ósk brotaþola ef rannsókn beinist að broti gegn XXIII. kafla (manndráp og líkamsmeiðingar) eða XXIV. kafla (brot gegn frjálsræði manna). Verði frumvarp þetta að lögum verður aukinheldur heimilt að ákveðnum skilyrðum uppfylltum að tilnefna fyrirsvarsmanni látins einstaklings réttargæslumann, en að því er nánar vikið í kafla 3.3.
    Í þriðja lagi eru með 13.–17. gr. frumvarpsins lagðar til breytingar í því augnamiði að tryggja að bótakrafa á hendur sakborningi komist að á áfrýjunarstigi jafnvel þótt ákærði hafi verið sýknaður í héraði. Er hér átt við svonefndar einkaréttarkröfur skv. 1. mgr. 172. gr. laga um meðferð sakamála, þar sem segir að brotaþoli og hver sá annar sem telur sig hafa öðlast kröfu að einkarétti á hendur sakborningi vegna refsiverðrar háttsemi hans geti leitað dóms um hana í sakamáli eftir því sem nánar er ákveðið í XXVI. kafla laganna. Samkvæmt skýlausum fyrirmælum gildandi 2. mgr. 176. gr. laga um meðferð sakamála ber nú að vísa slíkri kröfu af sjálfsdáðum frá dómi ef sakamál er fellt niður, því vísað frá dómi eða ákærði sýknaður með dómi án þess að það hafi verið vegna þess að hann sé talinn ósakhæfur. Af því leiðir m.a. að jafnvel þótt ákæruvaldið ákveði að áfrýja sýknudómi hefur kröfuhafi engin úrræði til þess að koma kröfu sinni að við áfrýjunarmeðferð, enda telst hann ekki aðili að sakamálinu og hefur því ekki heimild til að kæra frávísun bótakröfunnar. Með öðrum orðum, þá fellur bótakrafa í raun niður við sýknudóm í héraði og gildir þá einu þótt ákærði sé síðar sakfelldur á æðra dómstigi.
    Með 13.–17. gr. frumvarpsins er m.a. lagt til að ný málsgrein bætist við 193. gr. sem fjalli um aðstæður sem þessar. Samkvæmt henni yrði kröfuhafa heimilt án kæru að koma að við meðferð áfrýjunarmálsins kröfu um ómerkingu og heimvísun héraðsdóms hvað kröfu sína varðar. Gert er ráð fyrir að slíkri kröfu verði komið að eftir sömu reglum og eiga nú við ef krafa hefur verið dæmd að efni til, sbr. 4. mgr. 199. gr., d-lið 2. mgr. og 4. mgr. 201. gr. og 203. gr. laga um meðferð sakamála. Rétt er að taka fram að ástæða þess að kröfuhafi getur einungis gert kröfu um ómerkingu og heimvísun héraðsdóms hvað kröfuna varðar er sú að þar sem krafan hefur aldrei verið dæmd að efni til á fyrsta dómstigi er ekki heimilt að taka efnislega afstöðu til hennar á áfrýjunarstigi. Verði fallist á ómerkingu héraðsdóms hvað kröfuna varðar, sem í flestum tilvikum yrði á grundvelli sakfellingar ákærða á áfrýjunarstigi, færi krafan til meðferðar að nýju í héraðsdómi í sérstöku einkamáli í samræmi við ákvæði 175. gr. laganna.
    Í fjórða lagi þá er lagt til að við 42. gr. laganna bætist ný málsgrein í því skyni að tryggja að í þeim tilvikum sem bótakrafa brotaþola er ekki til endurskoðunar við áfrýjunarmeðferð, þá sé engu að síður heimilt að skipa honum réttargæslumann við þá meðferð, enda sé nauðsynlegt að taka skýrslu af brotaþola á áfrýjunarstigi.

3.2. Breytingar er varða réttarstöðu fatlaðs fólks.
    Þeim breytingum sem lagðar eru til með 1. gr. og 8.–12. gr. frumvarpsins er ætlað að koma til móts við þarfir fatlaðs fólks og bæta réttarstöðu þess við meðferð sakamála á rannsóknarstigi og fyrir dómstólum. Í því skyni er í fyrsta lagi lagt til með 1. gr. frumvarpsins að við 9. gr. laga um meðferð sakamála, sem fjallar um dómþing, verði bætt heimild til þess að taka skýrslu af brotaþola eða vitni með geðræna eða vitsmunalega skerðingu eða skerta skynjun, í sérútbúnu húsnæði. Er hér litið til skilgreiningar 2. gr. laga um þjónustu við fatlað fólk með langvarandi stuðningsþarfir, nr. 38/2018, en þar er fatlað fólk skilgreint svo: „Fólk með langvarandi líkamlega, geðræna eða vitsmunalega skerðingu eða skerta skynjun sem verður fyrir ýmiss konar hindrunum sem geta komið í veg fyrir fulla og árangursríka samfélagsþátttöku til jafns við aðra ef aðstoðar nýtur ekki við.“ Með hliðsjón af velferð brotaþola og vitna sem undir ákvæðið geta fallið þykir full ástæða til þess að bæta heimild sem þessari við lög um meðferð sakamála.
    Í öðru lagi eru lagðar til breytingar á 59. gr. laga um meðferð sakamála en þar er fjallað um hvenær skal eða er heimilt að taka skýrslu af brotaþola eða öðrum vitnum fyrir dómi á meðan mál er enn á rannsóknarstigi. Skv. a-lið gildandi 1. mgr. 59. gr. skal það gert í öllum tilvikum ef rannsókn beinist að broti gegn XXII. kafla almennra hegningarlaga (kynferðisbrot) og skv. c-lið skal taka skýrslu af brotaþola eða öðrum vitnum fyrir dómi ef þau neita að mæta til skýrslutöku hjá lögreglu eða neita að svara spurningum hennar, ætla má að þau komist ekki fyrir dóm við meðferð málsins eða það er talið æskilegt með tilliti til hagsmuna þeirra, svo sem ef um börn er að ræða. Samkvæmt orðanna hljóðan tekur a-liður ákvæðisins ekki til fatlaðs fólks en aftur á móti virðist mega ráða af dómaframkvæmd Hæstaréttar Íslands að það geti fallið undir c-lið ákvæðisins, sbr. dóma réttarins frá 8. september 2016 í máli nr. 615/2016 og frá 15. júní 2017 í máli nr. 433/2016. Rétt þykir að taka af öll tvímæli um að nýta megi a- og c-lið 1. mgr. 59. gr. til að taka skýrslu af fötluðum brotaþola eða vitni fyrir dómi. Því er lagt til með 8. gr. frumvarpsins að ákvæði a-liðar um skyldu til að að taka skýrslu fyrir dómi ef rannsókn beinist að kynferðisbroti taki, auk barna 15 ára og yngri, einnig til brotaþola með geðræna eða vitsmunalega skerðingu eða skerta skynjun. Jafnframt verði skýrt kveðið á um í hinni almennu heimild c-liðar að hún geti tekið til fatlaðs fólks. Samhliða þessum breytingum er lagt til að nýrri málsgrein verði bætt við 59. gr. þar sem gert verði ráð fyrir þeim möguleika að viðbótarskýrslur skv. a- og c-lið 1. mgr. 59. gr. verði teknar fyrir dómi á rannsóknarstigi ef rannsóknarhagsmunir krefjast þess og slík skýrslugjöf telst ekki sérlega íþyngjandi fyrir brotaþola eða annað vitni.
    Þær breytingar sem lagðar eru til á 59. gr. laga um meðferð sakamála tengjast náið þeirri breytingu sem lögð er til með 10. gr. frumvarpsins á 2. mgr. 111. gr. laganna. Skv. gildandi 2. mgr. 111. gr. er dómara nú heimilt að taka til greina sem sönnunargögn skýrslur sem ákærði, brotaþoli eða önnur vitni hafa gefið fyrir dómi áður en mál var höfðað skv. 59. og 106. gr. laganna. Þó skulu skýrslugjafar koma á ný fyrir dóm við málsmeðferð ef þess er kostur og annar hvor málsaðili krefst eða dómari telur annars ástæðu til. Ef um er að ræða brot á XXII. almennra hegningarlaga (kynferðisbrot) og brotaþoli hefur ekki náð 15 ára aldri skal hann þó ekki koma fyrir dóm að nýju nema dómari telji sérstaka ástæðu til. Til samræmis við þá breytingu sem lögð er til á a-lið 1. mgr. 59. gr. laganna er lagt til að í þeim tilvikum sem rannsókn beinist að kynferðisbroti taki 2. mgr. 111. gr. einnig til brotaþola með geðræna eða vitsmunalega skerðingu eða skerta skynjun, og þannig verði brotaþolum í þeirri stöðu aðeins gert að gefa skýrslu að nýju ef dómari telur sérstaka ástæðu til. Með breytingu á orðalagi ákvæðisins er slakað nokkuð á skilyrðum fyrir því að skýrsla verði tekin af brotaþola, sem er barn eða fatlaður, við aðalmeðferð til viðbótar við skýrslu sem hann hefur gefið fyrir dómi á rannsóknarstigi.
    Í þriðja lagi er með 9., 11. og 12. gr. frumvarpsins lagt til að fötluðum sakborningi eða fötluðu vitni verði boðið að hafa með sér hæfan stuðningsaðila við skýrslutöku, hvort heldur hjá lögreglu eða fyrir dómi. Þessi stuðningsaðili gæti t.d. verið réttindagæslumaður fatlaðs fólk eða annar hæfur aðili sem sjálfur er ekki vitni eða sakborningur í máli.
    Í fjórða lagi skal getið annarrar breytingar sem lögð er til með 12. gr. frumvarpsins þar sem gerð er tillaga um að heimild dómara skv. 2. mgr. 123. gr. laga um meðferð sakamála til að kveðja til kunnáttumann sér til aðstoðar við skýrslutöku verði rýmkuð. Samkvæmt gildandi lögum nær heimildin einungis til þess er tekin er skýrsla af vitni yngra en 15 ára en með frumvarpinu er lagt til að hún taki einnig til þess ef um fatlað vitni er að ræða.

3.3. Breytingar er varða réttindi aðstandenda látinna einstaklinga.
    Með 3. og 5. gr. frumvarpsins eru lagðar til breytingar á 39. og 41. gr. laga um meðferð sakamála í því skyni að bæta réttarstöðu aðstandenda látins einstaklings og veita þeim betra færi á að fylgjast með framgangi lögreglurannsóknar en að gildandi lögum. Skv. gildandi 39. gr. er heimilt að skipa brotaþola svonefndan fyrirsvarsmann í tveimur tilvikum, þ.e. ef brotaþoli er ólögráða eða lögaðili, og hefur fyrirsvarsmaður sömu réttarstöðu og ef hann hefði sjálfur talið sig hafa beðið tjón af refsiverðri háttsemi, sbr. 3. mgr. 39. gr. Af þessu leiðir til að mynda að á lögreglu og ákæruvaldi hvíla ákveðnar leiðbeiningar- og upplýsingaskyldur gagnvart fyrirsvarsmanni samkvæmt ákvæðum V. kafla laganna. Með 3. gr. frumvarpsins er lagt til að nýrri málsgrein verði bætt við 39. gr. laganna þar sem kveðið verði á um að ef rannsókn máls varði orsök andláts einstaklings, geti maki eða sambúðarmaki, lögráða barn eða annar lögráða niðji, foreldri eða lögráða systkini hins látna komið fram sem fyrirsvarsmaður hans. Einungis er gert ráð fyrir því að einn þessara aðila geti komið fram sem fyrirsvarsmaður látins brotaþola. Þá er rétt að taka að fram að ástæða þess að notað er orðið „einstaklingur“ en ekki „brotaþoli“ í þessu sambandi er sú að ekki er ávallt ljóst þegar í upphafi hvort andlát verði rakið til saknæmrar hegðunar eða til að mynda til slysfara. Rétt þykir að aðstandandi eigi þess kost að honum verði skipaður fyrirsvarsmaður jafnvel þótt ekki sé ljóst í upphafi hvort hinn látni teljist brotaþoli eður ei.
    Með 5. gr. frumvarpsins er þessu nátengt lögð til breyting á 41. gr. þannig að fyrirsvarsmaður látins einstaklings geti, að eigin ósk, fengið tilnefndan réttargæslumann ef hann hefur að mati lögreglu þörf fyrir slíka aðstoð meðan á rannsókn málsins stendur. Það verður að velta á atvikum hvers máls hvort slík þörf sé talin fyrir hendi en áréttað skal að réttargæslumaður fyrirsvarsmanns hefur fyrst og fremst þær skyldur að gæta hagsmuna hins látna undir rannsókn málsins. Ekki er um að ræða réttargæslumann aðstandenda sem slíkra en af því leiðir að hlutverk réttargæslumanns í þessu tilliti er til að mynda ekki að setja fram einkaréttarkröfu skv. XXVI. kafla laga um meðferð sakamála.

4. Samræmi við stjórnarskrá og alþjóðlegar skuldbindingar.
    Markmið þeirra breytinga sem lagðar eru til með frumvarpi þessu er að bæta réttarstöðu brotaþola og fatlaðra, sem og aðstandenda látinna einstaklinga, og bregðast þannig við breyttum samfélagslegum viðhorfum til aðkomu þessara einstaklinga að málum sem þá varða, hvort heldur á rannsóknarstigi hjá lögreglu eða eftir að mál er komið fyrir dóm. Í því sambandi hefur meðal annars verið litið til samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks.
    Efni frumvarpsins er til þess fallið að styrkja mannréttindavernd og samræmist bæði stjórnarskrá og alþjóðlegum skuldbindingum sem Ísland hefur undirgengist.

5. Samráð.
    Frumvarpið var kynnt í samráðsgátt stjórnvalda á vefnum Ísland.is 19.–25. mars 2021, sbr. mál nr. S-70/2021. Alls bárust fimm umsagnir um frumvarpið.
    Landsamtökin Þroskahjálp og Mannréttindaskrifstofa Íslands lýsa ánægju með þær breytingatillögur frumvarpsins sem miðað að því að styrkja réttarstöðu fatlaðra við meðferð sakamála. Þó er þeim ábendingum komið á framfæri að taka til athugunar hvort nauðsynlegt sé að grípa til enn frekari aðgerða í þeim efnum, t.d. varðandi viðeigandi aðlögun og viðtalstækni. Þessar ábendingar gáfu ekki tilefni til breytinga á frumvarpinu en rétt er að kanna hvort nauðsynlegt sé að bregðast við þeim með öðrum aðferðum en lagasetningu, svo sem með fræðslu eða verklagsreglum. Þá skal tekið fram að áður en frumvarpið var birt í samráðsgátt var haft samráð við Landsamtökin Þroskahjálp til þess að tryggja rétta hugtakanotkun.
    Umsagnir Hildar Fjólu Antonsdóttur og Maríu Sjafnar Árnadóttur eiga það sammerkt að þar er talið að ekki sé nægilega langt gengið í að bæta réttarstöðu brotaþola við meðferð sakamála. Sambærileg sjónarmið koma fram í umsögn Mannréttindaskrifstofu Íslands og sameiginlegri umsögn Aflsins, Kvenfélagasambands Íslands, Kvennaathvarfsins, Kvennaráðgjafarinnar, Kvenréttindafélags Íslands, Rótarinnar, Stígamóta og UN WOMEN á Íslandi. Á meðal þess sem fram kemur í þessum umsögnum er að rétt sé að veita brotaþola formlega aðilastöðu í sakamáli, gjafsókn til þess að sækja bótarétt á hendur geranda sem og frekari kæruheimildir á meðan mál er enn á rannsóknarstigi. Ekki var talið rétt að gera breytingar á frumvarpinu í tilefni af þessu umsögnum.

6. Mat á áhrifum.
    Frumvarpið felur í sér breytingar á nokkrum ákvæðum laga um meðferð sakamála er snerta réttarstöðu brotaþola, fatlaðra og aðstandenda látinna brotaþola. Verði frumvarpið að lögum mun það styrkja stöðu allra kynja, en þá sérstaklega kvenna, þar sem þolendur kynferðisbrota eru í flestum tilvikum konur. Verði frumvarpið að lögum mun ekki halla á réttindi ákveðins kyns gagnvart öðru, heldur er frumvarpinu ætlað að styrkja stöðu allra þeirra er það fjallar um, óháð kyni.
    Verði frumvarpið óbreytt að lögum er hvorki gert ráð fyrir því að það hafi í för með sér útgjöld fyrir ríkissjóð né sveitarfélög.

Um einstakar greinar frumvarpsins.
Um 1. gr.

    Með þessari grein er lögð til heimild til handa dómara til þess að ákveða að skýrslugjöf brotaþola eða vitnis með geðræna eða vitsmunalega skerðingu eða skerta skynjun, fari fram í sérútbúnu húsnæði. Slík skýrslutaka gæti t.d. farið fram í Barnahúsi eða sérútbúnu herbergi í dómhúsi en að öðru leyti þykir ekki ástæða til að lögbinda þær kröfur sem gera verður til sérútbúins húsnæði í skilningi ákvæðisins. Þannig verði það undir dómara komið, eftir atvikum í samráði við hlutaðeigandi, að meta hverju sinni hvort húsnæði taki mið af þörfum þess sem taka á skýrslu af.

Um 2. gr.

    Sú breyting sem lögð er til með þessari grein er lagatæknilegs eðlis og leiðir af 7. gr. frumvarpsins þar sem lögð er til breyting á 47. gr. laganna.

Um 3. gr.

    Með þessari grein er lagt til það nýmæli að heimilt verði skv. 39. gr. laganna að aðstandandi látins einstaklings geti komið fram sem fyrirsvarsmaður hans í þeim tilvikum sem rannsókn beinist að orsök andláts hans. Tekið skal fram að samkvæmt ákvæðinu getur einungis einn aðili verið fyrirsvarsmaður látins einstaklings og skal hann koma úr hópi þeirra aðstandenda sem taldir eru upp í ákvæðinu. Þá ber að skilja ákvæðið svo að rétt til þess að koma fram sem fyrirsvarsmaður hafi maki eða sambúðarmaki en sé honum ekki til að dreifa færist rétturinn til lögráða barns eða niðja hins látna, og svo koll af kolli. Í sjálfu sér er þó ekkert því til fyrirstöðu að eftirlifandi aðstandendur komi sér saman um hver þeirra skuli vera fyrirsvarsmaður. Ef þeir sem rétt eiga til þess að koma fram sem fyrirsvarsmaður, svo sem eftirlifandi foreldrar, börn eða systkini, koma sér aftur á móti ekki saman um hvert þeirra skuli vera fyrirsvarsmaður fellur réttur samkvæmt ákvæðinu niður. Er þá litið til þess að um ívilnandi réttarfarsúrræði er að ræða og ekki rétt að lögregla verði sett í þá aðstöðu að skera úr um ágreining eftirlifandi aðstandenda að þessu leyti. Þá er að lokum rétt að árétta, sem óþarfi er að taka fram í ákvæðinu sjálfu, að hafi látinn brotaþoli verið ólögráða á andlátsstundu, þá kemur lögráðamaður fram sem fyrirsvarsmaður hans, sbr. 2. mgr. 39. gr. laganna.

Um 4. gr.

    Með 4. gr. frumvarpsins er lagt til að í 1. mgr. 40. gr. verði lögfest frumkvæðisskylda lögreglu, í þeim tilvikum sem brotaþola hefur verið tilnefndur réttargæslumaður, til að upplýsa réttargæslumann um framvindu rannsóknar máls. Dæmi um slíka upplýsingagjöf eru upplýsingar til brotaþola um að grunaður brotamaður hafi verið boðaður til skýrslutöku sem og þegar skýrslutöku lýkur. Þó verður slík skylda ekki lögð á lögreglu ef talið er að það að veita réttargæslumanni umræddar upplýsingar geti torveldað rannsókn málsins. Í því sambandi er rétt að taka fram að slík takmörkun kann í eðli sínu að vera tímabundin og raknar þá frumkvæðisskylda lögreglu við aftur ef rannsóknarhagsmunir eru ekki lengur taldir í húfi.

Um 5. gr.

    Með þessari grein lagt til að heimilt verði í ákveðnum tilvikum að skipa fyrirsvarsmanni látins einstaklings réttargæslumann, sbr. 3. gr. frumvarpsins. Heimildin er bundin því skilyrði annars vegar að fyrirsvarsmaður beri sjálfur fram slíka ósk og hins vegar að lögregla telji að fyrirsvarsmaður hafi þörf fyrir aðstoð réttargæslumanns meðan á rannsókn málsins stendur. Áréttað er það sem fram kom í kafla 3.3 að réttargæslumaður sem skipaður er samkvæmt þessari grein hefur það hlutverk að aðstoða fyrirsvarsmann við að gæta hagsmuna hins látna. Réttargæslumaður hefur í þessu tilliti ekki það hlutverk að gæta hagsmuna aðstandendanna sjálfra, svo sem með því að setja fram fyrir þeirra hönd kröfu skv. XXVI. kafla laganna.

Um 6. gr.

    Með þessari grein er lögð til breyting í því skyni að styrkja réttindi brotaþola á áfrýjunarstigi með því að bæta við 42. gr. laganna heimild til að skipa honum réttargæslumann við meðferð máls á áfrýjunarstigi þótt einkaréttarkrafa hans sé ekki þar til meðferðar enda sé nauðsynlegt að taka þar af honum skýrslu. Sambærilega heimild er ekki að finna í gildandi lögum.

Um 7. gr.

    Með 1. mgr. er lögð til breyting á 1. mgr. 47. gr. laganna í því augnamiði að veita réttargæslumanni ríkari rétt til aðgangs að rannsóknargögnum en nú er til staðar, sbr. nánar umfjöllun í kafla 3.1. að framan, þannig að hann eigi rétt á að fá aðgang að gögnum máls sem brotaþola varða nema lögregla telji hættu á að rannsókn torveldist við það. Áréttað er að þessi réttur tekur vitanlega einungis til aðgangs að gögnum er varða þann brotaþola sem réttargæslumaður gætir hagsmuna fyrir, en ekki gögnum sem varða mögulega aðra brotaþola í máli.
    Þá er með 2. mgr. fjallað um rétt réttargæslumanns til þess að fá afhent þau gögn sem honum eru nauðsynlegt til að gæta hagsmuna skjólstæðings síns. Tekið skal fram að með „aðgangi“ að gögnum er átt við að réttargæslumaður hafi heimild til þess að kynna sér gögn sem varða brotaþola. Réttur til þess að fá gögn afhent takmarkast aftur á móti við þau gögn sem honum eru nauðsynleg til að gæta hagsmuna skjólstæðings síns.
    Með 3. mgr. er lögð til breyting þannig að brotaþoli sem ekki nýtur aðstoðar réttargæslumanns eigi rétt til aðgangs að þeim gögnum máls sem honum eru nauðsynleg til að gæta hagsmuna sinna.

Um 8. gr.

    Með 8. gr. eru tekin af öll tvímæli um nýta megi a- og c-lið 1. mgr. 59. gr. til að taka skýrslu af fötluðum brotaþola eða vitni fyrir dómi í ákveðnum tilvikum. Því er lagt til með 8. gr. frumvarpsins að ákvæði a-liðar um skyldu til að að taka skýrslu fyrir dómi ef rannsókn beinist að kynferðisbroti taki, auk barna 15 ára og yngri, einnig til brotaþola með geðræna eða vitsmunalega skerðingu eða skerta skynjun. Jafnframt verði skýrt kveðið á um í hinni almennu heimild c-liðar að hún geti tekið til fatlaðs fólks.
    Samhliða þessum breytingum er lagt til að nýrri málsgrein verði bætt við 59. gr. þar sem gert verði ráð fyrir þeim möguleika að viðbótarskýrslur skv. a- og c-lið 1. mgr. 59. gr. verði teknar fyrir dómi ef rannsóknarhagsmunir krefjast þess og slík skýrslugjöf telst ekki sérlega íþyngjandi fyrir brotaþola eða annað vitni.

Um 9. gr.

    Með þessari grein er lagt til að fötluðum sakborningi eða vitni sem kallað er til skýrslugjafar hjá lögreglu skuli ávallt boðið að hafa með sér hæfan stuðningsaðila við skýrslugjöfina. Þessi stuðningsaðili gæti t.d. verið réttindagæslumaður fatlaðs fólk eða annar hæfur aðili sem sjálfur er ekki vitni eða sakborningur í máli.

Um 10. gr.

    Þær breytingar sem lagðar eru til á 2. mgr. 111. gr. laganna tengjast náið þeim breytingum sem lagðar eru til á 59. gr. með 8. gr. frumvarpsins. Þannig er lagt til að í þeim tilvikum sem rannsókn beinist að kynferðisbroti taki 2. mgr. 111. gr. einnig til brotaþola með geðræna eða vitsmunalega skerðingu eða skerta skynjun og þannig verði brotaþolum í þeirri stöðu aðeins gert að gefa skýrslu að nýju að dómari telji sérstaka ástæðu til. Með breytingu á orðalagi ákvæðisins er slakað nokkuð á skilyrðum fyrir því að skýrsla verði tekin af brotaþola, sem er barn eða fatlaður, við aðalmeðferð til viðbótar við skýrslu sem hann hefur gefið fyrir dómi á rannsóknarstigi.

Um 11. gr.

    Með þessari grein er lagt til að fötluðum sakborningi, sem kallaður er til skýrslugjafar fyrir dómi, skuli ávallt boðið að hafa með sér hæfan stuðningsaðila við skýrslugjöfina. Greinin svarar til 9. gr. frumvarpsins sem fjallar um skýrslutöku hjá lögreglu.

Um 12. gr.

    Með þessari grein er lagt til að fötluðu vitni sem kallað er til skýrslugjafar fyrir dómi skuli ávallt boðið að hafa með sér hæfan stuðningsaðila við skýrslugjöfina. Greinin svarar til 9. og 11. gr. frumvarpsins að þessu leyti.
    Að auki er lagt til að heimild dómara skv. 2. mgr. 123. gr. laga um meðferð sakamála til kveðja til kunnáttumann sér til aðstoðar við skýrslutöku verði rýmkuð. Samkvæmt gildandi lögum nær heimildin einungis til þess er tekin er skýrsla af vitni yngra en 15 ára en með frumvarpinu er lagt til að hún taki einnig til þess ef um fatlað vitni er að ræða.

Um 13. gr.

    Með 13. gr. frumvarpsins er lögð til breyting á 193. gr. þannig að brotaþoli geti komið að einkaréttarkröfu á hendur ákærða á áfrýjunarstigi, jafnvel þótt ákærði hafi verið sýknaður í héraði og einkaréttarkröfu verið vísað frá dómi, en ítarlegri umfjöllun um aðstæður er að finna í kafla 3.1 að framan. Gert er ráð fyrir að slíkri kröfu verði komið að á áfrýjunarstigi eftir sömu reglum og eiga nú við ef krafa hefur verið dæmd að efni til, sbr. 4. mgr. 199. gr., d-lið 2. mgr. og 4. mgr. 201. gr. og 203. gr. laga um meðferð sakamála. Rétt er að taka fram að ástæða þess kröfuhafi getur einungis gert kröfu um ómerkingu og heimvísun héraðsdóms hvað kröfuna varðar, er sú að þar sem krafan hefur aldrei verið dæmd að efni til á fyrsta dómstigi er ekki heimilt að taka efnislega afstöðu til hennar á áfrýjunarstigi. Verði fallist á ómerkingu héraðsdóms hvað kröfuna varðar, sem í flestum tilvikum yrði á grundvelli sakfellingar ákærða á áfrýjunarstigi, færi krafan til meðferðar að nýju í héraðsdómi í sérstöku einkamáli í samræmi við ákvæði 175. gr. laganna. Yrði dómur héraðsdóms hins vegar ómerktur í heild sinni og málið sent heim í hérað myndi einkaréttarkrafan þó fylgja sakamálinu við nýja meðferð þess fyrir héraðsdómi.

Um 14. gr.

    Sú breyting sem lögð er til með þessari grein leiðir beint af 13. gr. frumvarpsins og vísast til skýringa við þá grein sem og kafla 3.1 í greinargerð að framan.

Um 15. gr.

    Sú breyting sem lögð er til með þessari grein leiðir af 13. gr. frumvarpsins og þarfnast ekki sérstakra skýringa.

Um 16. gr.

    Þær breytingar sem lagðar eru til með þessari grein leiða af 13. gr. frumvarpsins og þarfnast ekki sérstakra skýringa.

Um 17. gr.

    Sú breyting sem lögð er til með þessari grein leiðir beint af 13. gr. frumvarpsins og vísast til skýringa við þá grein sem og kafla 3.1 í greinargerð.

Um 18. gr.

    Ákvæðið þarfnast ekki skýringar.