Ferill 345. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


151. löggjafarþing 2020–2021.
Þingskjal 1222  —  345. mál.
2. umræða.



Nefndarálit


um frumvarp til laga um breytingu á lögum um lax- og silungsveiði, nr. 61/2006 (minnihlutavernd o.fl.).

Frá minni hluta atvinnuveganefndar.


    Minni hlutinn telur mikilvægt að fram komi að þau lög sem hér er lagt til að breyta skipa sér í hóp laga sem hafa ákveðna grundvallarþýðingu en í þeim er kveðið á um veiðirétt í ferskvatni og skynsamlega, hagkvæma og sjálfbæra nýtingu fiskstofna í ferskvatni og verndun þeirra. Ákvæði laganna eru ekki af því tagi að fólk skipi sér í ólíkar stjórnmálalegar fylkingar eftir afstöðu til þeirra. Að mati minni hlutans er þess vegna æskilegt að breytingar á slíkum lögum séu gerðar í víðtækri sátt og með sem breiðustum stuðningi á Alþingi.
    Það frumvarp sem hér er til meðferðar er lagt fram nokkuð breytt frá því að ráðherra mælti fyrir upphaflegu frumvarpi á 150. löggjafarþingi (251. mál) en einnig var lagt fram þingmannafrumvarp á 149. löggjafarþingi (464. mál). Fyrrgreindu frumvarpi ráðherra var vísað til atvinnuveganefndar og bárust nefndinni ýmsar tillögur og athugasemdir í umsögnum og máli þeirra gesta er komu fyrir nefndina. Meiri hluti nefndar lagði þá fram álit með breytingartillögum við málið þar sem stefnt var að sömu markmiðum og í upphaflegu frumvarpi, þ.e. minnihlutavernd. Það mál varð ekki útrætt en ráðherra lagði nýtt frumvarp fram á yfirstandandi þingi. Í greinargerð með því segir að brugðist hafi verið við þeim athugasemdum sem bárust nefndinni með því að leggja til aðra nálgun til að ná sömu markmiðum um vernd minni hluta og samráð haft við Landssamband veiðifélaga og Fiskistofu. Að mati minni hlutans hafa verið gerðar verulegar breytingar á milli frumvarpanna og lýsir minni hlutinn áhyggjum af því að frumvarp þetta hafi ekki verið kynnt í samráðsgátt í ljósi þeirra breytinga sem hafa orðið á því frá því það var lagt fram á síðasta löggjafarþingi.
    Minni hlutinn lýsir jafnframt áhyggjum af því að málið hafi, fyrir atbeina meiri hlutans, verið afgreitt úr nefndinni án þess að fullnægjandi umræða hafi tekist um sjónarmið sem höfðu verið kynnt fyrir nefndinni af hálfu gesta er komu fyrir hana. Var það gert þrátt fyrir tilboð minni hluta um samstöðu um málið að því gefnu að það fengi fullnægjandi meðferð í nefndinni. Í því sambandi ber hátt umsögn Veiðifélags Árnesinga, sem er eitt af stærstu veiðifélögum landsins, þar sem m.a. kom fram þung gagnrýni á bótaákvæði í 5. gr. frumvarpsins eins og það stendur nú. Með ákvæðinu er lagt til að til viðbótar hinni almennu bótareglu í 49. gr. laganna komi sérstök bótaábyrgð þeirra sem greiða atkvæði um ráðstöfun veiði samkvæmt nýrri 3. mgr. 40. gr., sbr. a-lið 2. gr. frumvarpsins, að tilteknum skilyrðum uppfylltum. Í því ákvæði er lagt til að við ákvörðun um ráðstöfun veiðiréttar, skv. d-lið 1. mgr. 37. gr. laganna, þurfi samþykki hið minnsta 2/ 3 hluta atkvæða ef lagt er til að draga úr veiði frá því sem tíðkast hefur á viðkomandi veiðisvæði, nema breytingarnar séu óverulegar. Í umsögn Veiðifélags Árnesinga segir að í breytingunni felist að aðeins ómálefnalegar og þar með ólögmætar ákvarðanir veiðiréttar leiði til bótaskyldu sem sé markleysa. Liggi ekki fyrir lögmæt ákvörðun veiðifélags sé um ólögmæta skerðingu eignarréttar að ræða. Þá segir að ekki sé tilefni til þess að breyta gildandi bótaákvæði enda því ætlað að ná því mikilvæga markmiði í sameignarfélagi að jafna hlut tiltekinna eigenda sem þurfa að bera byrðar umfram aðra. Bótaskylda félagsmanna eigi ekki að ráðast af því hvort að þeir hafi greitt atkvæði með eða á móti löglegri ákvörðun félagsfundar, er bindur alla félagsmenn. Að mati minni hlutans hefði verið fullt tilefni til að ræða þessi sjónarmið frekar í nefndinni.
    Þá telur minni hlutinn að þurft hefði að ræða breyttar reglur við skipun nefndarmanna í matsnefnd, sbr. 3. gr. frumvarpsins. Fallið er frá því skilyrði að tveir nefndarmenn skuli hæfir til að gegna embætti héraðsdómara og að Hæstiréttur tilnefni annan þeirra í matsnefnd. Í stað Hæstaréttar skuli Hafrannsóknastofnun tilnefna nefndarmann en áfram er gert ráð fyrir að ráðherra skipi hinn án tilnefningar. Minni hlutinn telur að ekki sé færður fram fullnægjandi rökstuðningur fyrir því að Hafrannsóknastofnun sé gert að tilnefna nefndarmann í matsnefnd með vísan til þess að 3. mgr. 44. gr. laganna heimilar matsnefnd að kveðja sérfræðinga sér til aðstoðar ef þörf þykir. Matsnefnd er einnig heimilt samkvæmt ákvæðinu að leita eftir áliti eða rannsóknum sérfræðinga eða rannsóknastofnana á lífríki vatns þar sem það hefur þýðingu fyrir úrlausn máls. Minni hlutinn telur að í ljósi þess að aðild að veiðifélagi er að lögum skyldubundin þurfi að tryggja sem best réttarfarslegt öryggi í allri málsmeðferð. Hlutverk matsnefndar skv. 45. gr. laganna er ekki bundið við að skera úr ágreiningi um arðskrá eða mörk vatnasvæða heldur einnig önnur þau verkefni er henni eru falin samkvæmt lögum. Minni hlutinn bendir í því samhengi á að með 2. gr. frumvarps þessa er aukið við verkefni matsnefndar með því að bæta nýrri 3. og 4. mgr. við 40. gr. laganna og fela matsnefnd að skera úr um atvik er þar er kveðið á um. Að mati minni hlutans fullnægir tillaga um breytingu á 44. gr. laganna sem fellir niður skilyrði um að tveir nefndarmenn hafi hæfi til að gegna embætti héraðsdómara því ekki kröfu um réttarfarslegt öryggi auk þess sem hún er ekki rökstudd með fullnægjandi hætti.
    Minni hlutinn ítrekar að mikilvægt er að breytingar á mikilvægum lögum sem þessum séu gerðar í víðtækri sátt og með sem breiðustum stuðningi á Alþingi.


Alþingi, 25. mars 2021.

Ólafur Ísleifsson,
frsm.
Sigurður Páll Jónsson.