Ferill 570. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


151. löggjafarþing 2020–2021.
Þingskjal 1269  —  570. mál.
2. umræða.



Nefndarálit með breytingartillögu


um frumvarp til laga um breytingu á lögum um skilameðferð lánastofnana og verðbréfafyrirtækja, nr. 70/2020 (forgangsröð krafna við skila- og slitameðferð).

Frá efnahags- og viðskiptanefnd.


    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Hjörleif Gíslason frá fjármála- og efnahagsráðuneyti.
    Umsögn barst frá Hagsmunasamtökum heimilanna.
    Með frumvarpinu er lagt til að ákvæði tilskipunar Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) 2017/2399 um breytingu á tilskipun 2014/59/ESB að því er varðar rétthæð ótryggðra skuldagerninga í réttindaröð við ógjaldfærnismeðferð verði innleidd í íslenskan rétt.
    Helsta efnisbreytingin sem lögð er til í frumvarpinu er sú að í lögum um skilameðferð lánastofnana og verðbréfafyrirtækja, nr. 70/2020, verði kveðið á um forgangsröð krafna við skila- og slitameðferð fyrirtækja sem falla undir gildissvið laganna.

Breytingartillögur nefndarinnar.
    Í 25. gr. laga um skilameðferð lánastofnana og verðbréfafyrirtækja er kveðið á um skyldu lánastofnana til að halda skrá yfir fjárhagslega samninga sem viðkomandi lánastofnun er aðili að. Þá kveður greinin á um heimild skilavaldsins til að ákveða að önnur fyrirtæki og einingar sem falla undir gildissvið laganna haldi slíka skrá. Nefndinni barst ábending frá ráðuneytinu þess efnis að framangreind tilhögun væri umfram þær skyldur sem kveðið er á um í tilskipun 2014/59/ESB. Þá þætti skyldan ástæðulaus með aukinni þekkingu á regluverkinu enda geti lánastofnanir með skjótum hætti komið slíkri skrá á fót ef nauðsyn krefur. Eru því lagðar til breytingar á 25. gr. laganna þess efnis að fortakslaus skylda lánastofnana til að halda skrá samkvæmt ákvæðinu falli brott og skilavaldinu þess í stað veitt heimild til að krefjast þess að slíkri skrá sé komið á fót, ef það metur slíkt nauðsynlegt. Þegar heimildin er nýtt og skilavaldið óskar eftir upplýsingum úr skránni getur það ákveðið að mislangir frestir eigi við um afhendingu þeirra vegna ólíkra tegunda af fjárhagslegum samningum.
    Aðrar breytingartillögur nefndarinnar eru tæknilegs eðlis og ekki ætlað að hafa efnisleg áhrif.
    Nefndin leggur til að frumvarpið verði samþykkt með eftirfarandi

BREYTINGU:


     1.      Á eftir 3. gr. komi ný grein, svohljóðandi:
             Eftirfarandi breytingar verða á 25. gr. laganna:
                  a.      1. mgr. fellur brott.
                  b.      Í stað orðanna „verðbréfafyrirtæki, fjármálastofnun skv. b-lið 1. mgr. 2. gr. og eignarhaldsfélög skv. c- eða d-lið 1. mgr. 2. gr.“ í 2. mgr. kemur: fyrirtæki eða eining.
                  c.      Við 2. mgr. bætist nýr málsliður, svohljóðandi: Skilavaldið getur krafist þess að slíkri skrá sé komið á fót innan hæfilegs tímafrests.
                  d.      Í stað 1. málsl. 3. mgr. koma tveir nýir málsliðir, svohljóðandi: Skilavaldið getur krafist þess að fyrirtæki eða eining afhendi upplýsingar úr skrá yfir fjárhagslega samninga innan skamms tímafrests, allt að 24 klukkustunda, gerist þess þörf. Skilavaldið getur ákveðið að mislangir tímafrestir eigi við um afhendingu upplýsinga vegna ólíkra tegunda af fjárhagslegum samningum.
     2.      Í stað orðsins „Ákvæðið“ í 9. gr. komi: Ákvæði 1. málsl.
     3.      Við 13. gr.
                  a.      Í stað orðanna „eða hafa“ í b-lið 3. tölul.1. efnismgr. komi: og hafa ekki.
                  b.      C-liður 3. tölul. orðist svo: forgangsröð samkvæmt þessum tölulið er tilgreind í samningsskilmálum og, ef við á, í útboðs- og skráningarlýsingu sem unnin er í tengslum við útgáfuna.
     4.      Í stað orðanna „Við lögin bætist ný grein, 102. gr.“ í inngangsmálslið 14. gr. komi: Á undan 102. gr. laganna kemur ný grein.

    Jón Steindór Valdimarsson var fjarverandi við afgreiðslu málsins.

Alþingi, 20. apríl 2021.

Óli Björn Kárason,
form., frsm.
Brynjar Níelsson. Bryndís Haraldsdóttir.
Rósa Björk Brynjólfsdóttir. Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir. Sigmundur Davíð Gunnlaugsson.
Smári McCarthy. Þórarinn Ingi Pétursson.