Ferill 536. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


151. löggjafarþing 2020–2021.
Þingskjal 1316  —  536. mál.
2. umræða.



Nefndarálit með breytingartillögu


um frumvarp til laga um breytingu á lögum um háskóla, nr. 63/2006, og lögum um opinbera háskóla, nr. 85/2008 (aðgangsskilyrði).

Frá meiri hluta allsherjar- og menntamálanefndar.


    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Jón Björgvin Stefánsson, Jón Vilberg Guðjónsson og Rakel Þorsteinsdóttur frá mennta- og menningarmálaráðuneytinu, Ólaf Garðar Halldórsson frá Samtökum atvinnulífsins, Eyrúnu Björk Valsdóttur frá Alþýðusambandi Íslands, Önnu Láru Steindal frá Landssamtökunum Þroskahjálp, Jón Birgi Eiríksson frá Viðskiptaráði Íslands, Jóhönnu Vigdísi Arnardóttur frá Samtökum iðnaðarins, Róbert H. Haraldsson og Gísla Fannberg frá Háskóla Íslands, Ingu Þórsdóttur frá heilbrigðisvísindasviði Háskóla Íslands, Eyjólf Guðmundsson frá Háskólanum á Akureyri, Kolbrúnu Þ. Pálsdóttur, Helenu Gunnarsdóttur og Ágústu Björnsdóttur frá menntavísindasviði Háskóla Íslands, Júlíus Viggó Ólafsson, Söru Dís Rúnarsdóttur, Sigvalda Sigurðarson og Hildi Björgvinsdóttur frá Sambandi íslenskra framhaldsskólanema, Ara Kristin Jónsson frá Háskólanum í Reykjavík og Stefán Kalmansson frá Háskólanum á Bifröst.
    Nefndinni bárust umsagnir frá Alþýðusambandi Íslands, Háskóla Íslands, Háskólanum á Akureyri, heilbrigðisvísindasviði Háskóla Íslands, Landssamtökunum Þroskahjálp, menntavísindasviði Háskóla Íslands, Sambandi íslenskra framhaldsskólanema, Samtökum atvinnulífsins, Samtökum iðnaðarins og Viðskiptaráði Íslands.
    Með frumvarpinu er lagt til að breytt verði inntökuskilyrðum í háskóla fyrir nemendur sem vilja hefja nám til fyrstu háskólagráðu í lögum um háskóla, nr. 63/2006, og lögum um opinbera háskóla, nr. 85/2008. Frumvarpinu er ætlað að jafna stöðu nemenda sem hafa lokið list-, tækni- og starfsnámi af 3. hæfniþrepi og þeirra sem lokið hafa stúdentsprófi til inngöngu í háskóla.
    Umsagnaraðilar voru flestir jákvæðir í garð frumvarpsins og telja breytingarnar löngu tímabærar. Aftur á móti komu fram sjónarmið um að tryggja þyrfti nægjanlegan undirbúning fyrir nám á háskólastigi. Í lögum um framhaldsskóla, nr. 92/2008, er einungis kveðið á um að nám til stúdentsprófs skuli taka mið af þörfum nemenda sem hyggja á háskólanám en ekki gerð krafa um að aðrar námsbrautir á 3. hæfniþrepi skuli búa nemendur undir háskólanám. Samt sem áður eigi þau próf að veita almennan aðgang að háskólum. Æskilegra væri að gera greinarmun á lokaprófum sem veita almennan aðgang að háskólanámi og prófum sem veita takmarkaðan aðgang. Þá geti frumvarpið leitt til þess að hafa áhrif á samninga Íslands við önnur lönd um gagnkvæma viðurkenningu náms.
    Meiri hlutinn leggur áherslu á mikilvægi þess að jafna möguleika nemenda sem ljúka prófi af 3. hæfniþrepi samkvæmt aðalnámskrá framhaldsskóla til háskólanáms. Í því samhengi áréttar meiri hlutinn að frumvarpið tryggir þó ekki aðgengi að háskólanámi. Samhliða þessum breytingum er mikilvægt að háskólar móti skýr og gegnsæ viðmið fyrir nám í einstökum deildum sem taki jafnframt mið af hæfni, færni og þekkingu nemenda óháð námsleiðum og lokaprófum á framhaldsskólastigi. Slík viðmið verði til þess fallin að vera leiðbeinandi fyrir framhaldsskóla við skipulag og framsetningu námsbrauta, upplýsandi fyrir nemendur um inntökuskilyrði, auðveldi flokkun umsókna í háskólanám og nýtist háskólum, framhaldsskólum og nemendum. Þá leggur meiri hlutinn áherslu á nauðsyn þess að gott samráð verði á milli háskólastigsins og framhaldsskólastigsins í þessum efnum.
    Meiri hlutinn leggur til breytingar sem ekki er ætlað að hafa efnisleg áhrif en eigi að stuðla að auknu samræmi milli ólíkra lagabálka. Í fyrsta lagi er í frumvarpinu vísað til „þriðja hæfniþreps“. Í lögum um menntun, hæfni og ráðningu kennara og skólastjórnenda við leikskóla, grunnskóla og framhaldsskóla, nr. 95/2019, er notuð raðtala eða vísað til „3. hæfniþreps“. Í því skyni að auka samræmi milli ólíkra lagabálka sem fjalla um sama málefni leggur meiri hlutinn til að í frumvarpinu verði notuð raðtala.
    Í öðru lagi er í efnisgreiningu í fyrirsögn frumvarpsins notað hugtakið „aðgangsskilyrði“. Meiri hlutinn bendir á að í öðrum lögum sem fjalla um skólamálefni er hugtakið „inntökuskilyrði“ notað. Með sömu rökum og um fyrri breytingartillögu meiri hlutans er lagt til að í stað hugtaksins „aðgangsskilyrði“ í efnisgreiningu komi hugtakið „inntökuskilyrði“.
    Að framangreindu virtu leggur meiri hlutinn til að frumvarpið verði samþykkt með eftirfarandi

BREYTINGU:


     1.      Í stað orðanna „þriðja hæfniþrepi“ í 1. gr. og tvívegis í 2. gr. komi: 3. hæfniþrepi.
     2.      Fyrirsögn frumvarpsins orðist svo: Frumvarp til laga um breytingu á lögum um háskóla og lögum um opinbera háskóla (inntökuskilyrði).

Alþingi, 29. apríl 2021.

Páll Magnússon,
form.
Silja Dögg Gunnarsdóttir,
frsm.
Guðmundur Andri Thorsson.
Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir. Birgir Ármannsson. Olga Margrét Cilia.
Steinunn Þóra Árnadóttir. Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir.