Ferill 613. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


151. löggjafarþing 2020–2021.
Þingskjal 1344  —  613. mál.
2. umræða.Nefndarálit


um frumvarp til laga um breytingu á lögum um loftferðir, nr. 60/1998, með síðari breytingum (skyldur flugrekenda vegna COVID-19).

Frá 2. minni hluta umhverfis- og samgöngunefndar.


    Annar minni hluti umhverfis- og samgöngunefndar telur verulegum vafa undirorpið hvort b-liður 1. mgr. 1. gr. frumvarpsins, um að ráðherra geti skyldað flugrekendur til að synja farþegum um aðgang að loftfari á leið til landsins í vissum tilfellum, fái staðist gagnvart íslenskum ríkisborgurum í ljósi 2. mgr. 66. gr. stjórnarskrárinnar. Telur 2. minni hluti að túlka beri stjórnarskrárákvæðið þannig að það veiti íslenskum ríkisborgurum vernd og að sú vernd verði að vera virk í öllum aðstæðum. Þetta sé ekki nægjanlega tryggt með fyrirliggjandi frumvarpi. 2. minni hluti telur hættu á að ríkissjóður verði skaðabótaskyldur vegna tjóns sem rakið verði til skyldu flugrekanda til að synja íslenskum ríkisborgara um aðgang að loftfari á leið til landsins, að því marki sem sú skylda yrði talin jafngilda því að meina íslenskum ríkisborgurum að koma til landsins í skilningi stjórnarskrárinnar.
    Jafnframt setur 2. minni hluti fyrirvara við raunverulega nauðsyn þeirrar lagasetningar sem mælt er fyrir um í frumvarpinu. Frumvarpið var lagt fram fyrir tilstuðlan ráðuneytisins og þótti nauðsynlegt að það yrði að lögum sem fyrst. Síðan hefur margt breyst, bæði hvað varðar regluumhverfi sóttvarna hér á landi sem og framgang faraldursins sjálfs. Telur 2. minni hluti að í ljósi þessa hafi ekki verið sýnt fram á að enn sé knýjandi þörf á þeirri lagasetningu sem hér er til umfjöllunar.
    Annar minni hluti leggst gegn samþykkt frumvarpsins en tekur þó undir og styður breytingartillögu meiri hluta nefndarinnar um að c-liður 1. mgr. 1. gr. frumvarpsins falli brott.

Alþingi, 4. maí 2021.

Bergþór Ólason,
form., frsm.
Karl Gauti Hjaltason.