Ferill 568. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


151. löggjafarþing 2020–2021.
Þingskjal 1363  —  568. mál.
Síðari umræða.Nefndarálit með breytingartillögu


um tillögu til þingsályktunar um nýja þýðingu á samningi Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks.

Frá allsherjar- og menntamálanefnd.


    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Elísabetu Gísladóttur og Berglindi Báru Sigurjónsdóttur frá dómsmálaráðuneyti, Steinunni Bergmann og Önnu Guðrúnu Halldórsdóttur frá Félagsráðgjafafélagi Íslands, Tryggva Þórhallsson frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga, Ölmu Ýri Ingólfsdóttur frá Öryrkjabandalagi Íslands, Árna Múla Jónasson frá Landssamtökunum Þroskahjálp og Rannveigu Traustadóttur frá Rannsóknasetri í fötlunarfræðum við Háskóla Íslands.
    Nefndinni bárust umsagnir frá Félagsráðgjafafélagi Íslands, Landssamtökunum Þroskahjálp, Öryrkjabandalagi Íslands, Rannsóknasetri í fötlunarfræðum við Háskóla Íslands og Sambandi íslenskra sveitarfélaga.
    Með þingsályktunartillögunni er lagt til að ný þýðing á samningi Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks komi í stað fyrri þýðingar sem fylgdi með tillögu til þingsályktunar um fullgildingu samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks sem varð að þingsályktun nr. 61/145 árið 2016.
    Að mati nefndarinnar samræmist ný þýðing mun betur grundvallarhugmyndum samningsins en fyrri þýðing. Þá tekur nefndin undir sjónarmið um mikilvægi þess að stjórnvöld ráðist í átak til að kynna nýja þýðingu samningsins og um leið leita leiða til að taka úr umferð eldri og mismunandi útgáfur af samningnum. Nefndin leggur einnig áherslu á að þýðingin verði sett fram á aðgengilegu formi og verði m.a. gefin út á táknmáli og blindraletri. Í þessu samhengi komu fram sjónarmið um mikilvægi þess að almennar athugasemdir (e. General Comments) sem gefnar hafa verið út um túlkun einstakra ákvæða samningsins verði einnig þýddar og gerðar aðgengilegar á auðlesnu formi. Athugasemdir þessar eru mikilvægur liður í því að gera fötluðu fólki kleift að þekkja og skilja réttindi sín og standa sjálft vörð um þau, en einnig til að auka þekkingu og skilning almennings á samningnum, þó einkum þeirra sem starfa til að mynda í réttarvörslukerfinu og félags- og heilbrigðiskerfinu. Í ljósi þeirrar vinnu sem liggur nú til grundvallar við nýja þýðingu samningsins telur nefndin æskilegt að ráðist verði í að þýða almennu athugasemdirnar og tryggja enn frekar vernd réttinda sem um ræðir. Í þeim efnum er mikilvægt að halda áfram að eiga víðtækt samráð við fatlað fólk og aðra hagsmunaaðila.
    Að lokum leggur nefndin til orðalagsbreytingar á texta þingsályktunartillögunnar sem ekki er ætlað að hafa efnisleg áhrif en nefndin telur æskilegra að vísa til auglýsingar í Stjórnartíðindum þar sem fyrri þýðing samningsins var birt, sérstaklega í ljósi þess að samningurinn fylgdi ekki þingsályktuninni sjálfri, nr. 61/145, heldur tillögunni, sbr. þingskjal 1693 á 145. löggjafarþingi.
    Nefndin leggur til að tillagan verði samþykkt með eftirfarandi

BREYTINGU:


    Tillögugreinin orðist svo:
    Alþingi ályktar að nota skuli nýja þýðingu á samningi Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks, sbr. fylgiskjal I með tillögu til þingsályktunar þessarar, í stað þýðingar á samningnum sem birtur var sem fylgiskjal í auglýsingu nr. 5/2016 í C-deild Stjórnartíðinda.

    Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir var fjarverandi við afgreiðslu málsins.

Alþingi, 4. maí 2021.

Páll Magnússon,
form.
Steinunn Þóra Árnadóttir,
frsm.
Guðmundur Andri Thorsson.
Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir. Birgir Ármannsson. Olga Margrét Cilia.
Silja Dögg Gunnarsdóttir. Þorsteinn Sæmundsson.