Ferill 643. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


151. löggjafarþing 2020–2021.
Þingskjal 1393  —  643. mál.
2. umræða.



Nefndarálit með breytingartillögu


um frumvarp til laga um breytingu á lögum um afleiðuviðskipti, miðlæga mótaðila og afleiðuviðskiptaskrár, nr. 15/2018 (dregið úr reglubyrði).

Frá meiri hluta efnahags- og viðskiptanefndar.


    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Guðmund Kára Kárason frá fjármála- og efnahagsráðuneyti og Rannveigu Júníusdóttur og Guðrúnu Finnborgu Þórðardóttur frá Seðlabanka Íslands.
    Umsögn barst frá Seðlabanka Íslands.
    Reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) nr. 648/2012 um OTC-afleiður, miðlæga mótaðila og afleiðuviðskiptaskrár, jafnan kölluð EMIR, var veitt lagagildi hér á landi með lögum um afleiðuviðskipti, miðlæga mótaðila og afleiðuviðskiptaskrár, nr. 15/2018. Reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) 2019/834 um breytingu á reglugerð (ESB) nr. 648/2012 að því er varðar frestun á stöðustofnunarskyldu, kröfur um skýrslugjöf, aðferðir til mildunar áhættu fyrir OTC-afleiðusamninga sem miðlægur mótaðili stöðustofnar ekki, skráningu og eftirlit með afleiðuviðskiptaskrám og kröfurnar fyrir afleiðuviðskiptaskrár, EMIR Refit, kveður á um breytingar á EMIR sem ætlað er að viðhalda því markmiði að tryggja gagnsæi um afleiðuviðskipti og valdheimildir eftirlitsaðila en skýra kröfur og í einhverjum tilvikum slaka á þeim til að einfalda afleiðuviðskipti og skýrslugjöf um þau og draga úr kostnaði.
    Með frumvarpinu eru lagðar til breytingar á lögum nr. 15/2018 til að leiða í íslenskan rétt þær breytingar sem leiðir af EMIR Refit-reglugerðinni.

Breytingartillaga meiri hlutans.
Lögbært yfirvald (2. tölul. 2. gr.).
    Í 2. tölul. 2. gr. frumvarpsins er lagt til að Fjármálaeftirlitið verði eitt lögbært yfirvald í skilningi 22. gr. reglugerðar (ESB) nr. 648/2012, í stað Fjármálaeftirlitsins og Seðlabanka Íslands. Í umsögn Seðlabanka Íslands kemur fram það sjónarmið að fremur ætti að tilgreina að Seðlabankinn sé einn lögbært yfirvald í skilningi reglugerðarinnar. Í því sambandi er bent á að Fjármálaeftirlitið sé hluti af Seðlabanka Íslands og að bankinn fari með þau verkefni sem Fjármálaeftirlitinu eru falin í lögum. Því sé Fjármálaeftirlitið ekki stofnun, öllu heldur sé tilvísun til þess í lögum vísun til eftirlitsstarfsemi Seðlabankans.
    Nefndin óskaði eftir minnisblaði frá ráðuneytinu þar sem fram kæmi afstaða til þessara ábendinga Seðlabanka Íslands. Í minnisblaðinu er aðdragandi sameiningar Seðlabanka Íslands og Fjármálaeftirlitsins rakinn og bent á að enn sé gert ráð fyrir því að verkefni Fjármálaeftirlitsins verði afmörkuð í lögum. Þá sé gert ráð fyrir því að heitinu „Fjármálaeftirlitið“ verði viðhaldið í löggjöf sem fjallar um verkefni Seðlabankans sem fela í sér eftirlit með fjármálastarfsemi.
    Meiri hlutinn tekur undir með því sem fram kemur í minnisblaði ráðuneytisins að rétt sé að viðhalda gagnsæi um hvaða verkefni Seðlabankans feli í sér eftirlit með fjármálastarfsemi. Engu að síður telur meiri hlutinn að gera verði greinarmun á lagaákvæðum sem mæla fyrir um verkefni sem Fjármálaeftirlitinu, sem hluta af starfsemi Seðlabankans, er falið að sinna og ákvæða sem fjalla um stöðu stofnunarinnar samkvæmt lögunum, þótt þau verkefni sem leiðir af þeirri stöðu heyri undir Fjármálaeftirlitið.
    Leggur meiri hlutinn því til að Seðlabanki Íslands, í stað Fjármálaeftirlitsins, verði lögbært yfirvald samkvæmt lögunum.
    Að framansögðu virtu leggur meiri hlutinn til að frumvarpið verði samþykkt með eftirfarandi

BREYTINGU:


    2. tölul. 2. gr. orðist svo: Í stað orðanna „Fjármálaeftirlitið og Seðlabanki Íslands teljast lögbær stjórnvöld“ í 4. mgr. kemur: Seðlabanki Íslands er lögbært yfirvald.

Alþingi, 7. maí 2021.

Óli Björn Kárason,
form., frsm.
Jón Steindór Valdimarsson. Brynjar Níelsson.
Bryndís Haraldsdóttir. Ólafur Þór Gunnarsson. Smári McCarthy.
Hjálmar Bogi Hafliðason.