Ferill 798. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


151. löggjafarþing 2020–2021.
Þingskjal 1451  —  798. mál.
Beiðni um skýrslu


frá ríkisendurskoðanda um starfsemi Samkeppniseftirlitsins.

Frá Óla Birni Kárasyni, Brynjari Níelssyni, Sigmundi Davíð Gunnlaugssyni, Bergþóri Ólasyni, Sigríði Andersen, Haraldi Benediktssyni, Njáli Trausta Friðbertssyni, Willum Þór Þórssyni og Líneik Önnu Sævarsdóttur.


    Með vísan til 6. gr. og 17. gr. laga um ríkisendurskoðanda og endurskoðun ríkisreikninga, nr. 46/2016, er þess óskað að ríkisendurskoðandi geri stjórnsýsluendurskoðun á starfsemi Samkeppniseftirlitsins og taki saman skýrslu fyrir Alþingi.
    Í skýrslunni verði dregið fram m.a. mat á árangri af eftirlitshlutverki Samkeppniseftirlitsins og kannað hvernig framkvæmd samrunamála var á árunum 2018, 2019 og 2020. Eftirfarandi atriði verði skoðuð sérstaklega, eftir því sem við á:
     1.      Hversu margar styttri samrunatilkynningar skv. 6. mgr. 17. gr. a samkeppnislaga voru sendar Samkeppniseftirlitinu á tímabilinu 2018–2020, sundurliðað eftir árum. Hversu oft í þessum tilvikum var óskað eftir að samrunaaðilar sendu lengri tilkynningu, hversu margir dagar liðu þar til sú ósk var borin upp og hverjar ástæður þess voru að óskað var lengri tilkynningar hverju sinni.
     2.      Hversu margar samrunatilkynningar sem bárust Samkeppniseftirlitinu á tímabilinu töldust ófullnægjandi. Hversu langur tími leið í hverju tilviki frá því að ófullnægjandi tilkynning barst þar til Samkeppniseftirlitið tilkynnti samrunaaðila þá niðurstöðu sína að hún væri ófullnægjandi.
     3.      Hversu mörgum samrunamálum var lokið án þess að Samkeppniseftirlitið teldi ástæðu til frekari rannsóknar, þ.e. lokið í fasa I. Hver meðferðartími hvers máls var og hver niðurstaðan var, þ.e. ekki tilefni til íhlutunar, málinu lokið með sátt eða synjað um samruna.
     4.      Hversu mörg samrunamál sættu frekari rannsókn, þ.e. færðust yfir í fasa II. Hvaða rök lágu til grundvallar í hverju tilviki og hver niðurstaða hvers máls var, þ.e. ekki tilefni til íhlutunar, málinu lokið með sátt eða synjað um samruna. Hver meðferðartími hvers máls var, þ.e. heildarmálsmeðferðartími í fasa I og fasa II.
     5.      Varðandi þau tilfelli þegar skipaður er óháður kunnáttumaður eða eftirlitsnefnd þar sem samrunamáli skal ljúka með sátt:
                  a.      Á hvaða lagagrundvelli skipun kunnáttumanns eða eftirlitsnefndar byggist.
                  b.      Hvernig Samkeppniseftirlitið metur og tryggir óhæði kunnáttumanns eða eftirlitsnefndar.
                  c.      Hvaða almennu og sérstöku hæfisskilyrði óháður kunnáttumaður eða eftirlitsnefnd þarf að uppfylla.
                  d.      Hvaða svigrúm fyrirtæki hafa til að velja sér kunnáttumann eða eftirlitsnefnd og hvaða eftirlitsúrræði Samkeppniseftirlitið hefur gagnvart þeim sem skipaðir eru.
                  e.      Hvaða reglur gilda um þóknun óháðs kunnáttumanns og til hvaða úrræða fyrirtæki geta gripið gagnvart Samkeppniseftirlitinu ef ágreiningur rís um þóknun.
                  f.      Með vísan til 7. gr. stjórnsýslulaga, hvernig Samkeppniseftirlitið bregst við ábendingum frá fyrirtækjum ef ágreiningur rís um störf, þ.m.t. um þóknun óháðs kunnáttumanns eða eftirlitsnefndar.
     6.      Hversu oft óskað hefur verið eftir heimild til þess að framkvæma samruna, þrátt fyrir að málsmeðferð Samkeppniseftirlitsins sé ekki lokið, sbr. 4. mgr. 17. gr. a samkeppnislaga. Í hvaða tilvikum Samkeppniseftirlitið hefur samþykkt slíka beiðni.
     7.      Hversu oft Samkeppniseftirlitið hefur nýtt heimild til að óska eftir samrunatilkynningu, sbr. 3. mgr. 17. gr. b samkeppnislaga, þegar samrunaaðilar telja veltuskilyrði skv. 1. mgr. 17. gr. a laganna ekki uppfyllt en hafa tilkynnt um framkvæmd samruna til Samkeppniseftirlitsins. Hver málsmeðferðartími og niðurstaða þessara mála var.
     8.      Hvort eðlilegt sé að málsmeðferðarreglur Samkeppniseftirlitsins séu í formi reglugerða frá ráðherra í ljósi ábendinga ríkisendurskoðanda varðandi aðgerðir sem grípa þurfi til svo Samkeppniseftirlitið geti sinnt lögbundnu hlutverki sínu sem best.
     9.      Úttekt á áhrifum ákvarðana Samkeppniseftirlitsins, þ.e.:
                  a.      Hvort samrunaskilyrði hafa náð markmiðum sínum.
                  b.      Gagnasöfnun sem sýnir tímalengd mála.

Greinargerð.

    Samkeppniseftirlitið gegnir mikilvægu hlutverki í íslensku samfélagi. Eftirlitið þarf að vera skilvirkt og málshraðinn viðunandi, ekki síst þegar kemur að samruna fyrirtækja. Hagsmunir bæði atvinnulífs og neytenda eru best tryggðir með því að kaup og sala fyrirtækja og rekstrareininga gangi skjótt fyrir sig, séu hafin yfir vafa og dragi ekki úr virkri samkeppni á markaði. Samkeppni skapar hagstæðar aðstæður fyrir neytendur, hóflegra og sanngjarnara verð fyrir vöru og þjónustu. Löggjöf, reglur og verklag þurfa að renna stoðum undir skilvirkari og skjótari meðferð samrunamála og til þess þarf stjórnsýsluúttekt ríkisendurskoðanda á samrunamálum. Stjórnsýsluúttektir ríkisendurskoðanda hafa reynst mikilvæg og öflug verkfæri fyrir löggjafann til að leggja mat á frammistöðu framkvæmdarvaldsins, skilvirkni, skipulag og nýtingu opinbers fjár og eftir atvikum brotalamir í lagasetningu. Þá hafa úttektir ríkisendurskoðanda reynst starfsmönnum og forstöðumönnum ríkisstofnana góður vegvísir til að ná markmiðum og tryggja góða stjórnsýslu og þjónustu.
    Samkeppniseftirlitið tók nýlega til við að framfylgja breyttum málsmeðferðarreglum er lúta að málshraða og skilvirkara verklagi í samrunamálum og svipar til þess sem þekkist í Evrópu. Áhrif breytinganna hafa þó ekki enn komið í ljós.
    Atvinnulífið hefur lengi gagnrýnt málsmeðferðartíma Samkeppniseftirlitsins í samrunamálum og telur brýnt að hraða ferlinu og lágmarka kostnað fyrirtækja og atvinnulífs vegna fyrirhugaðra samruna.
    Til samanburðar hefur verið greint frá því að framkvæmd samrunamála á vettvangi Evrópusambandsins og í Noregi sé mun skilvirkari og skjótari en hér á landi. Aðeins 2-3% tilkynntra samruna séu að jafnaði færð í fasa II í Noregi og hjá Evrópusambandinu, en fasi II kalli á 90 daga lengri málsmeðferðartíma, á meðan hlutfallið hér á landi hafi að meðaltali verið tæp 44% á tímabilinu 2017–2020. Skortur sé á skýrum kröfum til Samkeppniseftirlitsins um hvernig rannsókn skuli fara fram í fasa I og að rökstyðja þurfi flutning yfir í fasa II, ólíkt því sem sjá má í Evrópusambandinu og í Noregi.