Ferill 800. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


151. löggjafarþing 2020–2021.
Prentað upp.

Þingskjal 1457  —  800. mál.
Flutningsmaður.
Tillaga til þingsályktunar


um fordæmingu á ofbeldisaðgerðum ísraelsks herliðs í Palestínu.


Flm.: Halldóra Mogensen, Andrés Ingi Jónsson, Ari Trausti Guðmundsson, Björn Leví Gunnarsson, Guðmundur Andri Thorsson, Helgi Hrafn Gunnarsson, Hjálmar Bogi Hafliðason, Jón Þór Ólafsson, Jón Steindór Valdimarsson, Líneik Anna Sævarsdóttir, Olga Margrét Cilia, Ólafur Þór Gunnarsson, Smári McCarthy, Steinunn Þóra Árnadóttir.


    Alþingi ályktar að fordæma harðlega ofbeldisaðgerðir ísraelsks herliðs gegn palestínsku þjóðinni sem og landtökustefnu Ísraelsstjórnar. Alþingi skorar á stjórnvöld í Ísrael að hætta þegar í stað hvers konar beitingu hervalds í samskiptum við Palestínu og að flytja herlið sitt og landtökufólk brott af hernumdum svæðum Palestínu.
    Alþingi skorar á ríki heims að taka undir þessa fordæmingu, að styðja við mannréttindi og að beita sér fyrir frjálsri Palestínu.

Greinargerð.

    Alþjóðlegu samtökin Mannréttindavaktin (e. Human Rights Watch) gáfu þann 27. apríl sl. út skýrslu þar sem framgöngu Ísraels gagnvart íbúum Palestínu var lýst sem mannréttindaglæp, ofsóknum og aðskilnaðarstefnu (e. apartheid). Undanfarna daga og vikur hefur ofbeldi af hálfu ísraelskra stjórnvalda í garð palestínskra borgara snaraukist með ítrekuðum árásum sem hafa kostað hundruð óbreyttra borgara lífið. Árásirnar fylgja í kjölfar aukinnar spennu á landtökusvæðum vegna brottflutnings palestínskra íbúa af landtökusvæðunum.
    Forsvarsmenn Ísraels hafa lýst aðgerðum sínum á þann hátt að þær beinist gegn Hamas-samtökunum og séu liður í að bregðast við hryðjuverkaárásum. En staðreyndin er sú að ofbeldið hefur einna helst beinst að almennum palestínskum borgurum og eru stór hluti særðra og látinna börn. Nýjasta hrina loftárása Ísraelsríkis, sem hefur nú staðið yfir í um viku, eða síðan 10. maí, hefur kostað hið minnsta 198 palestínska borgara lífið, þar af 58 börn og sært yfir 1.200 til viðbótar. Fjölmörg heimili hafa verið sprengd í loft upp og eru nú meira en 34.000 manns á vergangi vegna þessara nýjustu árása. Fjölmargir skólar, spítalar og aðrar opinberar byggingar hafa einnig verið jafnaðar við jörðu. Á sama tíma hafa níu látist og 23 særst í Ísrael vegna árása Hamas-samtakanna.
    Alþingi samþykkti samhljóða árið 2011 að fela ríkisstjórninni að viðurkenna Palestínu sem sjálfstætt og fullvalda ríki innan landamæranna frá því fyrir sex daga stríðið árið 1967. Með því varð Ísland fyrst vestrænna ríkja til að svara kalli Palestínumanna eftir stuðningi um að verða fullgildur aðili að Sameinuðu þjóðunum. Árásir á almenna palestínska borgara fela í sér ólögmætar ofsóknir eins þjóðríkis gagnvart almennum borgurum annars. Þær fela í sér víðtæk mannréttindabrot og stríða gegn öllum þeim almennu mannréttindasamningum sem stjórnvöldum nútímans ber að starfa eftir.