Ferill 811. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


151. löggjafarþing 2020–2021.
Þingskjal 1509  —  811. mál.




Tillaga til þingsályktunar


um aðgerðir gegn atvinnuleysi, störf fyrir námsmenn, fjárfestingar í nýsköpun og sumarverkefni fyrir listafólk.


Flm.: Logi Einarsson, Ágúst Ólafur Ágústsson, Guðjón S. Brjánsson, Guðmundur Andri Thorsson, Helga Vala Helgadóttir, María Hjálmarsdóttir, Oddný G. Harðardóttir, Rósa Björk Brynjólfsdóttir.


    Alþingi ályktar að fela fjármála- og efnahagsráðherra, félags- og barnamálaráðherra, mennta- og menningarmálaráðherra og ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra að skipuleggja og framkvæma eftirtaldar sex aðgerðir til að hraða ráðningum í störf, auka virkni á vinnumarkaði, verja afkomuöryggi og leggja grunn að kraftmikilli endurreisn lista og menningar eftir COVID-19-farsóttartímabilið.
     1.      Stuðningur við atvinnuleitendur. Atvinnuleysisbætur hækki upp í 95% af lágmarkstekjutryggingu og tímabil atvinnuleysisbóta verði lengt um 12 mánuði.
     2.      Lengri ráðningarstyrkir. Ráðningarstyrkir verði veittir í 12 mánuði í stað 6 og leyft að hærri ráðningarstyrkur geti einnig nýst einstaklingum sem hafa verið án atvinnu í 6 mánuði í stað 12 í dag. Aðgerðin nái einnig til þeirra sem hafa verið atvinnulitlir frá 2019. Með þessu verði atvinnulífinu tryggður fyrirsjáanleiki, komið í veg fer óþarfa hik í ráðningum og fyrirtækjum gert kleift að gera áætlanir inn í veturinn.
     3.      Tímabundinn skattafsláttur launþega. Launþegum sem hefja aftur störf eftir atvinnuleysistímabil verði veittur tímabundinn skattafsláttur, sem feli í sér tvöföldun persónuafsláttar í jafn marga mánuði og einstaklingur hefur verið frá vinnu vegna atvinnuleysis. Með þessu verði þeim sem urðu fyrir mestu tekjufalli vegna kórónukreppunnar gert kleift að vinna sig hraðar frá tjóninu.
     4.      Lengra tímabil sumarstarfa námsmanna. Tímalengd sumarstarfa námsmanna verði 3 mánuðir í stað 2,5 og störfin nái jafnt til einkafyrirtækja sem opinberra stofnana og félagasamtaka. Enn fremur verði námsmönnum tryggður réttur til atvinnuleysisbóta í námshléum. Þá verði fyrirtækjum gert kleift að ráða nýútskrifaða einstaklinga til starfa á ráðningarstyrk til sex mánaða.
     5.      Forsendur framúrskarandi verkefna treystar. Tímabundin hækkun endurgreiðslna á rannsóknar- og þróunarkostnaði verði fest í sessi og framlög til Tækniþróunarsjóðs aukin með það að markmiði að öll framúrskarandi verkefni hljóti styrk.
     6.      Tækifærum listafólks fjölgað. Listafólk verði styrkt í sumar til að halda viðburði um allt land. Komið verði upp miðlægu og hraðvirku umsóknarferli þar sem listafólk og samkomustaðir geti sótt um styrki til viðburðahalds. Með þessu verði létt undir með listamönnum sem hafa orðið fyrir miklu tekjutapi og stuðlað að fjölbreyttu og þróttmiklu menningarlífi.

Greinargerð.

1. Aukinn stuðningur við atvinnuleitendur.
    Efnahagslegar afleiðingar heimsfaraldursins hafa bitnað einna verst á þeim sem hafa misst vinnuna. Um helmingur atvinnuleitenda á erfitt með að ná endum saman. Það er skynsamleg hagstjórn að styðja betur við þennan hóp, koma í veg fyrir ójafna viðspyrnu og draga úr tjóninu sem langtímaatvinnuleysi veldur þeim sem fyrir því verða. Því er lagt til að atvinnuleysisbætur hækki upp í 95% af lágmarkslaunum og að tímabil tekjutengdra atvinnuleysisbóta verði lengt um 12 mánuði. Kostnaðurinn nemur 3,5 milljörðum kr. fyrir 18 mánaða tímabil sem er ígildi 0,6% atvinnuleysis.

2. Hjálpum fólki og fyrirtækjum hraðar af stað.
    Lagt er til að ráðningarstyrkir verði til 12 mánaða í stað 6 mánaða. Þessi breyting myndi auðvelda fyrirtækjum að gera áætlanir til lengri tíma og auka starfsöryggi launþega. Aðgerðin gefur fyrirtækjunum kost á að ráða starfsfólk til lengri tíma en nú er og veitir þeim sem komast til starfa aukið atvinnuöryggi. Einnig er lagt til að 12 mánaða ráðningarstyrkir verði í boði vegna fólks sem hefur haft stopula vinnu frá 2019. Enn fremur er lagt til að hærri upphæð ráðningarstyrks nái til einstaklinga sem hafa verið atvinnulausir í 6 mánuði í stað 12 mánaða. Hámark greiðslu hærri ráðningarstyrks verði 6 mánuðir, en seinni 6 mánuðir á grunnstyrk. Kostnaður umfram núverandi áætlun er 5,5 milljarðar kr. sem er ígildi 1% atvinnuleysis.

3. Skattafsláttur þegar fólk hefur störf.
    Skerðing tekna hefur verið veruleg hjá þeim sem hafa misst vinnu af völdum heimsfaraldurs. Atvinnulaust fólk hefur þurft að ganga á sjóði sína eða steypa sér í skuldir og því er lagt til að launafólki sem kemst á ný til stafa verði veittur tímabundinn skattafsláttur, jafn lengi og atvinnuleysið varði, meðan það vinnur sig út úr vandanum sem atvinnuleysið olli. Lögð er til tvöföldun persónuafsláttar í jafn marga mánuði og viðkomandi var atvinnulaus. Þannig er skattbyrði þeirra sem báru þyngstu byrðarnar í þessari kreppu lækkuð um 50.000 kr. á mánuði og þeim auðveldað að komast aftur á réttan kjöl fjárhagslega. Engin bein útgjöld eru vegna úrræðisins. Vænt tekjutap vegna úrræðisins verður lítið í samanburði við minnkandi útgjöld vegna atvinnuleysis sem fylgir aukinni virkni á vinnumarkaði. Heildaráhrif úrræðisins yrðu því jákvæð á afkomu ríkissjóðs til skamms og langs tíma. Auk þess sem jafnari viðspyrna vegna úrræðisins mun styrkja tekjuvöxt ríkissjóðs fram á veginn. Úrræðið verði endurskoðað eftir 12 mánuði, en miðað við að það verði tiltækt á meðan atvinnuleysi mælist yfir 6%.

4. Ný og öflugri úrræði fyrir námsmenn og ungt fólk.
    Nýta þarf til fulls eina okkar dýrmætustu auðlind; hugarafl ungs fólks sem er að koma úr námi. Því eru lagðar til aðgerðir svo að unga fólkið komist til starfa í sumar og fái notið krafta sinna, kunnáttu og færni.
    Lagt er til að tímabil sumarstarfa námsmanna verði framlengt úr tveimur og hálfum mánuði í þrjá mánuði.
    Þá er lagt til að sumarstörfin nái einnig til einkafyrirtækja en ekki bara opinberra stofnana og félagasamtaka eins og úrræði ríkisstjórnarinnar gerir ráð fyrir. Lagt er til að námsmenn sem fá ekki vinnu öðlist rétt til atvinnuleysisbóta í námshléi og fyrirtækjum verði gert kleift að ráða nýútskrifaða einstaklinga til starfa á ráðningarstyrk til sex mánaða. Með þessu má tryggja fjölbreyttari atvinnutækifæri fyrir ungt fólk að námi loknu og því gert fært að bæta við menntun sína án þess að eiga á hættu að missa réttindi á vinnumarkaði.
    Kostnaður vegna aðgerðanna er 8 milljarðar kr., ígildi 1,3% atvinnuleysis. Úrræðið verði endurskoðað undir lok árs 2021 og taki mið af atvinnuleysisstigi.

5. Hærri endurgreiðsla vegna rannsókna og þróunar.
    Efla þarf nýsköpun. Tímabundin hækkun þaks á endurgreiðslum vegna rannsóknar og þróunar úr 600 í 1.100 millj. kr. og hækkun hámarkshlutfalls endurgreiðslna úr 20% í 35% fyrir lítil og meðalstór fyrirtæki, 25% fyrir stórfyrirtæki, skapar atvinnu og ýtir undir að þróunarvinna fari fram hér á landi. Lagt er til að þetta hlutfall verði fest í lögum þar sem það er til þess fallið að auka fyrirsjáanleika í rekstri fyrirtækja og skapa hvata til að ráða fólk í vinnu. Þá er augljóst að upplögð tækifæri til atvinnusköpunar fara í súginn þegar framúrskarandi verkefni fá synjun um styrk úr Tækniþróunarsjóði. Því er lagt til að Tækniþróunarsjóði verði tryggt nægilegt fjárhagslegt bolmagn til að styrkja þau verkefni sem hljóta hæstu einkunn á þessu ári. Ef svo á að vera þurfa framlög að taka mið af aðsókn í sjóðinn.
    Kostnaður: 800 millj. sem renni til verkefna sem Tækniþróunarsjóður styður við.

6. Litríkt sumar lista og gleði.
    Sviðslista- og tónlistarfólk hefur að miklu leyti setið eftir í aðgerðum ríkisstjórnarinnar þrátt fyrir að það hafi mátt þola gríðarlegt tekjutap vegna hinna miklu takmarkana á öllu samkomu- og viðburðahaldi á tímum farsóttarinnar. Lagt er til að brugðist verði við vandanum með því að styrkja viðburði sviðslista- og tónlistarfólks í sumar, víðs vegar um landið. Þessi leið er til þess fallin að veita listafólkinu tækifæri til að hefja að nýju sín mikilvægu störf og stuðlað að því að landsmenn fái notið fjölbreyttrar menningardagskrár hér innan lands í sumar. Lagt er til að 250 millj. kr. verði teknar í það að greiða sviðslistafólki fyrir að bjóða upp á viðburði um allt land. Miðlægt og hraðvirkt umsóknarferli verði þróað þar sem listafólk getur sótt um fjármuni til að halda viðburði og þess verði gætt að þeir verði sem fjölbreyttastir og víða haldnir um landið.
    Kostnaður: 250 millj. kr.