Ferill 452. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


151. löggjafarþing 2020–2021.
Þingskjal 1553  —  452. mál.
3. umræða.



Nefndarálit


um frumvarp til laga um breytingu á lögum um málefni innflytjenda, nr. 116/2012 (móttaka flóttafólks og innflytjendaráð).

Frá minni hluta velferðarnefndar.


    Minni hlutinn telur mjög vanta upp á að í frumvarpinu sé tekist heildstætt á við málefni flóttafólks, hælisleitenda og innflytjenda. Frumvarpið er þannig ekki í tengslum við neina stefnumörkun í málaflokknum heldur ætlað að takast á við þröng og afmörkuð verkefni á þessu sviði. Það væri trúverðugra í þeim aðgerðum ef frumvarpið væri hluti af heildstæðri áætlun þar um, áætlun sem byggðist á trúverðugri greiningu á kostnaði og afleiðingum frumvarpsins.
    Í umsögn sem barst frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga um frumvarpið kemur fram að þau verkefni sem tengjast samræmdri móttöku flóttafólks séu verulega vanfjármögnuð, ekkert tillit hefur verið tekið til þess sem má kalla afleiddur kostnaður sem hefur ekki verið reiknaður inn. Jafnframt er tekið fram í umsögninni að aukinn straumur hafi í för með sér verulega hærri útgjöld sveitarfélaga vegna fjárhagsaðstoðar. Í umsögn Reykjanesbæjar er einnig fjallað um aukinn kostnað og talið að aukin útgjöld verði hjá Vinnumálastofnun sem og hjá stoðþjónustu í sveitarfélaginu.
    Minni hlutinn bendir á að leitað var til fjármála- og efnahagsráðuneytisins vegna upplýsinga um afleiddan kostnað. Vísaði ráðuneytið í svari sínu til nefndarinnar til þess að málið væri á ábyrgð félagsmálaráðuneytisins sem vann kostnaðarmat frumvarpsins.
    Minni hlutinn hefur verulegar efasemdir um kostnaðarmat frumvarpsins sem gerir ráð fyrir 23,7 millj. kr. heildarkostnaði. Í verklagsreglum um vinnslu lagafrumvarpa segir á bls. 2 í kaflanum Verkefnaáætlun að leitast skuli við að meta samfélagslegan kostnað af frumvarpinu. Minni hlutinn sér ekki að slíkt mat hafi verið framkvæmt.
    Minni hlutinn telur jafnframt vandséð að þessi vinnubrögð samræmist lögum um opinber fjármál, nr. 123/2015.
    Þá bendir minni hlutinn á að í umræðu á Alþingi 25. mars um fjármálaáætlun 2022-2026 var dómsmálaráðherra, Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, spurð um fjárhagsleg áhrif frumvarps hennar um breytingar á útlendingalögum. Hún sagði: „Það hefur verið tekin ákvörðun um að fjármagna [útgjöld til málaflokks hælisleitenda] samkvæmt raunútgjöldum í stað þess að ofætla í fjárlögum […].“
    Jafnframt vísar minni hlutinn til þess að um þessar mundir er Ísland það Norðurlandanna sem tekur hlutfallslega á móti flestum umsóknum um alþjóðlega vernd. Þessi aukni straumur hefur í för með sér verulega hærri útgjöld sveitarfélaga vegna fjárhagsaðstoðar. Samkvæmt b-lið 2. mgr. 15. gr. laga um félagsþjónustu sveitarfélaga, nr. 40/1991, endurgreiðir ríkissjóður sveitarfélögum þessi útgjöld fyrstu tvö árin eftir að flóttafólk flyst hingað til lands. Sjá má í upplýsingum frá félagsmálaráðuneytinu að þessar endurgreiðslur ríflega tvöfölduðust á milli áranna 2019 og 2020 án þess að gert væri ráð fyrir því í fjárhagsáætlunum. Ætla má að ráðuneytið nýti hluta af því fjármagni sem ætlað var til samræmdrar móttöku til þess að standa straum af endurgreiðslum fjárhagsaðstoðar. Telur minni hlutinn það miður og veldur því að hægar og verr gengur að innleiða samræmda móttöku flóttafólks en vonir stóðu til.
    Loks bendir minni hlutinn á að undanfarið hefur átt sér stað stefnubreyting á Norðurlöndum í málefnum hælisleitenda og flóttafólks. Hún felst m.a. í því að hjálpa nauðstöddu fólki í heimalandi eða nærri heimaslóðum og reyna þannig að nýta fjármuni betur og aðstoða margfalt fleiri en ella. Fleiri lönd Evrópu eru með hælisleitendakerfi sitt í endurskoðun með það að markmiði að ná tökum á síauknum kostnaði og vinna gegn vaxandi aðlögunarvanda.
    Verulegar efasemdir hafa komið fram í umsögnum um kostnaðarmat frumvarpsins og þar er mörgum spurningum ósvarað, spurningum sem hafa vaknað upp eftir 2. umræðu frumvarpsins og telur minni hluti því nauðsynlegt að kalla eftir svörum frá viðeigandi aðilum.

Alþingi, 31. maí 2021.

Anna Kolbrún Árnadóttir.