Ferill 689. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


151. löggjafarþing 2020–2021.
Þingskjal 1577  —  689. mál.
2. umræða.Nefndarálit


um frumvarp til laga um breytingu á ýmsum lögum á vátryggingamarkaði og bankamarkaði.

Frá meiri hluta efnahags- og viðskiptanefndar.


    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Hjörleif Gíslason frá fjármála- og efnahagsráðuneyti og Evu Ómarsdóttur frá Samkeppniseftirlitinu.
    Umsagnir bárust frá Samkeppniseftirlitinu og Seðlabanka Íslands.
    Með frumvarpinu eru lagðar til breytingar á lögum sem gilda á vátryggingamarkaði og bankamarkaði. Tildrög breytinganna eru þríþætt og er frumvarpinu ætlað að bregðast við annmörkum eða ósamræmi í lögum eða á milli lagabálka sem Fjármálaeftirlitið hefur greint við eftirlitsstörf, bregðast við athugasemdum Eftirlitsstofnunar EFTA (ESA) og ljúka innleiðingu tiltekinna gerða.

Breytingartillögur meiri hlutans.
Lög um dreifingu vátrygginga, nr. 62/2019.
    Meiri hlutinn leggur í samráði við ráðuneytið til nokkrar breytingar á lögum um dreifingu vátrygginga, nr. 62/2019.
    Í 15. tölul. 3. gr. laganna er skilgreining á hugtakinu vátryggingaumboðsmaður. Samkvæmt orðskýringunni getur vátryggingaumboðsmaður starfað á ábyrgð fleiri en eins vátryggingafélags. Nefndinni barst ábending frá ráðuneytinu þess efnis að ákvæðið byggðist á ákvæðum eldri laga um miðlun vátrygginga, nr. 32/2005, en stæðist vart lengur. Gæti vátryggingaumboðsmaður starfað á ábyrgð fleiri en eins vátryggingafélags væri enginn eðlismunur á starfsemi hans og vátryggingamiðlara. Leggur meiri hlutinn því til breytingu á orðskýringunni þannig að vátryggingaumboðsmaður geti aðeins starfað á ábyrgð eins vátryggingafélags.
    Í 13. gr. laganna er fjallað um viðtöku fjármuna vátryggingamiðlara og meðferð fjármuna sem viðskiptavinur greiðir til hans. Ákvæðið er innleiðing á a-lið 6. mgr. 10. gr. tilskipunar Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) 2016/97/ESB um dreifingu vátrygginga. Í ákvæði tilskipunarinnar er kveðið á um skyldu aðildarríkja til að gera allar nauðsynlegar ráðstafanir til að vernda viðskiptavini fyrir vangetu vátryggingamiðlara og aðila sem dreifir vátryggingu sem aukaafurð til að yfirfæra iðgjaldið til vátryggingafélagsins eða yfirfæra kröfufjárhæðina eða iðgjaldaendurgreiðsluna til hins tryggða. Til samræmis við ákvæði tilskipunarinnar leggur meiri hlutinn því til að 13. gr. laganna gildi einnig um aðila sem dreifir vátryggingu sem aukaafurð.
    Þá er í samráði við ráðuneytið lagt til að kveðið verði á um að 3. og 4. mgr. 12. gr. laganna gildi um aðila sem dreifa vátryggingu sem aukaafurð. Í ákvæðunum er kveðið á um skyldu vátryggingamiðlara til að senda Fjármálaeftirlitinu staðfestingu á endurnýjun starfsábyrgðartryggingar og upplýsingar um það hjá hvaða vátryggingafélagi hann hefur starfsábyrgðartryggingu eða aðra jafngilda tryggingu.
Aðrar breytingartillögur.
    Að auki eru lagðar til breytingar sem eru tæknilegs eðlis og ekki ætlað að hafa efnisleg áhrif.
    Að framansögðu virtu leggur meiri hlutinn til að frumvarpið verði samþykkt með þeim breytingum sem lagðar eru til á sérstöku þingskjali.
    Jón Steindór Valdimarsson var fjarverandi við afgreiðslu málsins en ritar undir álitið með heimild í 4. mgr. 18. gr. starfsreglna fyrir fastanefndir Alþingis.
    Brynjar Níelsson var fjarverandi við afgreiðslu málsins.


Alþingi, 28. maí 2021.

Óli Björn Kárason,
form., frsm.
Jón Steindór Valdimarsson. Oddný G. Harðardóttir.
Bryndís Haraldsdóttir. Ólafur Þór Gunnarsson. Sigmundur Davíð Gunnlaugsson.
Hjálmar Bogi Hafliðason.