Ferill 782. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


151. löggjafarþing 2020–2021.
Þingskjal 1602  —  782. mál.




Svar


heilbrigðisráðherra við fyrirspurn frá Önnu Kolbrúnu Árnadóttur um tæknifrjóvgun.


    Í tæknifrjóvgun felst getnaður sem verður í framhaldi af tæknisæðingu eða glasafrjóvgun. Ýmsar meðferðir flokkast undir tæknifrjóvgun, til dæmis meðferð við ófrjósemi eða aðstoð við samkynhneigða og einhleypa til að eignast börn. Fyrirspurnin er því nokkuð víðtæk og þetta svar er afmarkað við glasafrjóvganir, sem er sú aðgerð þegar eggfruma sem numin hefur verið úr líkama konu er frjóvguð með sæðisfrumu utan líkamans. Upplýsinga var aflað hjá þeim aðila sem nú veitir þessa þjónustu hérlendis sem er fyrirtækið Livio Reykjavík.

     1.      Hver er biðtími eftir að komast í tæknifrjóvgun hér á landi?
    Biðtími eftir að hefja meðferð er um þrír til fjórir mánuðir. Núna er hann fjórir mánuðir en það helgast af því að framundan eru sumarfrí þar sem fyrirtækið lokar. Að sumarfríi loknu má búast við að biðtími verði um þrír mánuðir. Það er vilji Livio að halda biðtíma eftir meðferðum undir viðmiðum embættis landlæknis um að hefja meðferð innan 90 daga frá því að ákvörðun um að veita hana er tekin. Oftast hefur tekist að veita þjónustuna innan þess tíma en takmörkun á starfsemi tengd heimsfaraldrinum skapaði biðlista sem enn er verið að vinna niður. Til stendur að auka afköstin með haustinu í þeim tilgangi að halda biðtíma ásættanlegum með 60 daga sem viðmið.

     2.      Hver er meðalaldur þeirra sem óska eftir tæknifrjóvgun?
    Á árunum 2018–2021 var meðalaldur kvenna við fyrstu glasafrjóvgunarmeðferð á Livio 34,5 ár.

     3.      Hversu margir óska tæknifrjóvgunar vegna fyrsta barns?
    Árin 2019–2020 voru gerðar 1.006 glasafrjóvganir og af þeim voru 734 gerðar hjá konum sem áttu ekki barn fyrir og 272 hjá konum sem áttu barn fyrir.

     4.      Hversu margir óska tæknifrjóvgunar sem eiga barn fyrir?
    Sjá svar við 3. tölul. fyrirspurnarinnar.