Ferill 587. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


151. löggjafarþing 2020–2021.
Þingskjal 1608  —  587. mál.
2. umræða.Nefndarálit með breytingartillögu


um frumvarp til laga um þjóðkirkjuna.

Frá meiri hluta allsherjar- og menntamálanefndar.


    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Berglindi Báru Sigurjónsdóttur, Fanneyju Óskarsdóttur og Skúla Guðmundsson frá dómsmálaráðuneyti, Ragnhildi Benediktsdóttur frá biskupsstofu, Sólveigu Önnu Bóasdóttur frá guðfræði- og trúarbragðafræðideild Háskóla Íslands, Indriða B. Ármannsson og Karen Eddu Benediktsdóttur frá Þjóðskrá Íslands, Matthías Ásgeirsson og Hjalta Rúnar Ómarsson frá Vantrú, Guðmund Þór Guðmundsson og Brynju Dögg Guðmundsdóttur frá þjóðkirkjunni, Ninnu Sif Svavarsdóttur frá Prestafélagi Íslands og Kristin Jens Sigurþórsson.
    Nefndinni bárust umsagnir frá guðfræði- og trúarbragðafræðideild Háskóla Íslands, Kristni Jens Sigurþórssyni, Prestafélagi Íslands, Vantrú, þjóðkirkjunni og Þjóðskrá Íslands.
    Frumvarp þetta felur í sér heildarlög og er ætlað að koma í stað laga um stöðu, stjórn og starfshætti þjóðkirkjunnar, nr. 78/1997. Þá felur frumvarpið í sér verulega einföldun á regluverki þjóðkirkjunnar. Markmið frumvarpsins er að auka sjálfstæði þjóðkirkjunnar og að ákvörðunarvald hennar verði að mestu leyti á verksviði kirkjuþings.

Umfjöllun nefndarinnar.
Jafnræði og lýðræði (4. gr.).
    Í 4. gr. frumvarpsins er kveðið á um að þjóðkirkjan skuli í starfsháttum sínum halda í heiðri grundvallarreglur jafnræðis og lýðræðis.
    Við meðferð málsins komu fram sjónarmið um að vegna stærðar þjóðkirkjunnar, umfangs og stöðu hennar sé mikilvægt að hún hagi stjórnar- og starfsháttum sínum í samræmi við vandaða stjórnsýsluhætti. Taka ætti fram að kirkjan starfi samkvæmt stjórnsýslulögum og jafnframt upplýsingalögum.
    Meiri hlutinn áréttar að markmið viðbótarsamnings íslenska ríkisins og þjóðkirkjunnar er að auka sjálfstæði þjóðkirkjunnar í málefnum sínum. Hvorki prestar né starfsfólk biskupsstofu eru starfsmenn ríkisins og Ríkisendurskoðun endurskoðar ekki lengur fjármál biskupsstofu og bókhald og launaumsýsla þjóðkirkjunnar hefur verið færð úr kerfum Fjársýslu ríkisins. Með hliðsjón af þeim sjónarmiðum var með lögum nr. 153/2009 fellt brott ákvæði 4. mgr. 26. gr. laga um stöðu, stjórn og starfshætti þjóðkirkjunnar að um málsmeðferð í kirkjuráði, svo og meðal annarra kirkjulegra stjórnvalda, skuli fylgt ákvæðum stjórnsýslulaga, eftir því sem við getur átt, leiði annað eigi af ákvæðum laga eða starfsreglna sem kirkjuþing setur skv. 59. gr. Hið sama eigi almennt við um sérstakt hæfi kirkjulegra stjórnvalda til meðferðar einstakra mála. Meiri hlutinn telur þó ekkert því til fyrirstöðu að þjóðkirkjan hafi hliðsjón af meginreglum almennrar stjórnsýslu þó svo að málsmeðferð á kirkjulegum vettvangi lúti ekki lengur reglum stjórnsýslulaga.

Söfnuðir og sóknir (6. gr.).
    Samkvæmt 4. mgr. 6. gr. frumvarpsins skal Þjóðskrá Íslands árlega, miðað við 1. desember, standa þjóðkirkjunni skil á skrá yfir nöfn, kennitölur og fjölda sóknarbarna sem lögheimili eiga í hverri sókn fyrir sig. Um greiðslur fyrir skrána fer eftir gjaldskrá skráarhaldara. Sama gildir um greiðslur óski þjóðkirkjan tíðari upplýsinga og fyllri um sóknarbörn sín.
    Í umsögn Þjóðskrár Íslands kemur fram að það er mat stofnunarinnar að ekki sé til staðar skýr lagaheimild sem skyldar stofnunina að skrá og miðla upplýsingum um sóknir í þjóðskrá. Það væri á hendi biskupsstofu að skilgreina mörk sókna en ekki Þjóðskrár Íslands. Hlutverk stofnunarinnar sé að skrá og viðhalda trú- eða lífsskoðunarfélagsaðild einstaklinga í þjóðskrá, sbr. 16. tölul. 1. mgr. 6. gr. laga um skráningu einstaklinga, nr. 140/2019.
    Meiri hlutinn bendir á að í greinargerð með frumvarpinu kemur skýrt fram að sóknarmörk séu ákveðin með starfsreglum kirkjuþings samkvæmt tillögu biskupafundar. Þá sé ætlunin með 4. mgr. 6. gr. frumvarpsins að eyða þeim vafa sem uppi hefur verið hvað varðar miðlun upplýsinga. Þá muni þjóðkirkjan veita Þjóðskrá Íslands þær upplýsingar sem hún þarfnast til þess að unnt verði að skrá áfram sóknarbörn í tilteknar sóknir. Meiri hlutinn telur því ekki tilefni til að bregðast með frekari hætti við þessari ábendingu en gert er með frumvarpi þessu.
    Í umsögn Þjóðskrár Íslands komu einnig fram sjónarmið um að ekki liggi skýrt fyrir með hvaða hætti stofnuninni beri að standa skil á þeim gögnum sem fram koma í 4. mgr. 6. gr. frumvarpsins og hver skuli vera viðtakandi þeirra gagna. Að mati meiri hlutans er um að ræða atriði sem ráðast verður í framkvæmd en að öðru leyti telur meiri hlutinn að heimildin sé nógu skýr.

Breytingartillögur meiri hlutans.
Ákvæði til bráðabirgða.
    Á fundum nefndarinnar var bent á misræmi í orðalagi í ákvæði til bráðabirgða í frumvarpinu. Í frumvarpi þessu væri notast við orðalagið „var skipað í embætti samkvæmt lögum um réttindi starfsmanna ríkisins, nr. 70/1996“ en í upphaflegum frumvarpsdrögum hefði verið notað orðalagið „var skipað í embætti í skilningi laga um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins, nr. 70/1996“. Síðara orðalagið væri einnig í samræmi við orðalag 2. mgr. ákvæðis til bráðabirgða XII í lögum um stöðu, stjórn og starfshætti þjóðkirkjunnar, nr. 78/1997. Fram komu sjónarmið um að slík orðalagsbreyting gæti falið í sér að ákvæðið ætti einungis að ná til þeirra sem skipaðir væru í embætti samkvæmt lögum um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins og þannig horfið frá því að ákvæðið tryggði rétt allra þeirra sem skipaðir hefðu verið í embætti í skilningi laganna. Meiri hlutinn telur ábendinguna réttmæta og leggur til orðalagsbreytingar þess efnis.
    Að lokum leggur meiri hlutinn til tæknilega breytingu sem ekki er ætlað að hafa áhrif á efni frumvarpsins. Meiri hlutinn leggur til að frumvarpið verði samþykkt með eftirfarandi

BREYTINGU:


     1.      Orðið „kirkjumála“ í 2. mgr. 9. gr. falli brott.
     2.      Í stað orðanna „samkvæmt lögum“ í 1. mgr. ákvæðis til bráðabirgða komi: í skilningi laga.


    Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir var fjarverandi við afgreiðslu málsins en skrifar undir álit þetta samkvæmt heimild í 4. mgr. 18. gr. starfsreglna fastanefnda Alþingis.


Alþingi, 3. júní 2021.

Páll Magnússon,
form., frsm.
Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir. Birgir Ármannsson.
Silja Dögg Gunnarsdóttir. Steinunn Þóra Árnadóttir. Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir,
með fyrirvara.
Þorsteinn Sæmundsson.