Ferill 752. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


151. löggjafarþing 2020–2021.
2. uppprentun.

Þingskjal 1621  —  752. mál.
Texti felldur brott.

2. umræða.



Nefndarálit með breytingartillögu


um frumvarp til laga um breytingu á lögum um pakkaferðir og samtengda ferðatilhögun, nr. 95/2018 (Ferðatryggingasjóður).

Frá atvinnuveganefnd.


     Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Sigrúnu Brynju Einarsdóttur og Heimi Skarphéðinsson frá atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneyti, Helenu Þ. Karlsdóttur frá Ferðamálastofu, Gunnar Val Sveinsson og Baldur Sigmundsson frá Samtökum ferðaþjónustunnar, Breka Karlsson frá Neytendasamtökunum og Margréti Arnheiði Jónsdóttur og Áshildi Jónsdóttur frá Samtökum fjármálafyrirtækja.
    Nefndinni bárust umsagnir um málið frá Ferðamálastofu, Neytendasamtökunum, Ríkisendurskoðun, Samtökum ferðaþjónustunnar og Skattinum auk minnisblaðs frá atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneyti.

Umfjöllun nefndarinnar.
    Með frumvarpinu er lagt til að stofnaður verði nýr sjóður, Ferðatryggingasjóður, sem hafi það hlutverk að tryggja hagsmuni ferðamanna sem keypt hafa pakkaferð eða samtengda ferðatilhögun sem ekki er framkvæmd í samræmi við samning vegna ógjaldfærni eða gjaldþrots seljanda. Sjóðurinn, sem verði sjálfseignarstofnun, komi í stað þess tryggingakerfis sem rekið hefur verið að mestu óbreytt um áratugaskeið. Starfsemin verði fjármögnuð af tryggingarskyldum aðilum sem eru ferðaskrifstofur sem selja pakkaferðir og samtengda ferðatilhögun og eru leyfisskyldar samkvæmt lögum um Ferðamálastofu, annars vegar með greiðslu iðgjalda og hins vegar með því að leggja fram tryggingu líkt og hingað til. Um efni og markmið frumvarpsins að öðru leyti vísast til greinargerðar með því.
    Almennt var í umsögnum og fyrir nefndinni lýst ánægju með efni frumvarpsins. Samtök ferðaþjónustunnar telja að verði frumvarpið samþykkt skili það bæði aukinni neytendavernd og bættum rekstrarskilyrðum fyrir ferðaskrifstofur þar sem fjárbinding vegna trygginga minnki umtalsvert.

Breytingartillögur nefndarinnar.
Stofngjald, umsóknarfrestir og gjalddagar.
    Í 1. mgr. 3. gr. frumvarpsins er kveðið á um skylduaðild seljenda pakkaferða og samtengdrar ferðatilhögunar sem eru leyfisskyldir samkvæmt lögum um Ferðamálastofu að Ferðatryggingasjóði. Greiða skuli árlegt iðgjald með gjalddaga 1. september. Þó verði gjalddagi þessa árs 1. október samkvæmt ákvæði til bráðabirgða. Þá er í ákvæði til bráðabirgða fyrrgreindum aðilum gert að sækja um aðild að sjóðnum og greiða stofngjald eigi síðar en 1. júlí 2021. Sjóðurinn verði því stofnaður með eingreiðslu allra ferðaskrifstofa sem starfandi voru á árinu 2019. Skuli eingreiðslan nema 1,5% af reiknaðri tryggingarfjárhæð hvers aðila miðað við sölu pakkaferða fyrir það ár.
    Við meðferð málsins fyrir nefndinni kom fram það sjónarmið að íþyngjandi væri fyrir ferðaskrifstofur að miða umsóknarfrest um aðild að Ferðatryggingasjóði við 1. júlí 2021. Þá væri háannatími í ferðaþjónustu og auk þess mjög skammur tími til gagnasöfnunar yrði frumvarpið samþykkt í byrjun júnímánaðar. Þá benda Samtök ferðaþjónustunnar í umsögn sinni um málið á að enn sé nokkuð í að ferðaþjónustan nái sér á strik eftir tekjufall af völdum kórónuveirunnar. Samtökin leggja því til að ferðaskrifstofum sem hófu rekstur árið 2019 eða fyrr verði heimilt að greiða stofnfé til sjóðsins í fjórum jöfnum greiðslum fyrsta árið.
    Nefndin óskaði eftir minnisblaði frá ráðuneytinu þar sem fram kæmi afstaða þess til framangreinds.
    Í minnisblaði ráðuneytisins er bent á að skipting greiðslna í fjórar jafnar greiðslur hefði í för með sér að Ferðatryggingasjóður næði ekki lögbundinni lágmarkseign fyrr en allar greiðslur hefðu borist. Af því leiði að ekki yrði svigrúm til að lækka tryggingarfjárhæð ferðaskrifstofa í samræmi við nýja reiknireglu af því að sjóðurinn yrði ekki í stakk búinn til að veita þá tryggingavernd sem nauðsynleg væri fyrr en hann teldist fullfjármagnaður. Ráðuneytið telur að tillaga um skiptingu stofngreiðslu sé ekki til bóta fyrir frumvarpið en leggur hins vegar til að gjalddagi stofngjalds verði 1. september í stað 1. júlí til að veita ferðaskrifstofum aukið svigrúm til að fjármagna stofngreiðslur til sjóðsins og aðlaga sig að nýju tryggingakerfi. Nefndin tekur undir þetta og leggur til að samhliða verði einnig gerðar breytingar á umsóknarfresti um aðild að sjóðnum í ákvæði til bráðabirgða og fyrsta gjalddaga iðgjalds til sjóðsins í ákvæði til bráðabirgða en ráðuneytið leggur til að ferðaskrifstofur skuli sækja um aðild að sjóðnum eigi síðar en 1. ágúst. Verði sú tillaga samþykkt muni Ferðamálastofa einnig framlengja frest ferðaskrifstofa til árlegra skila á rekstrargögnum til 1. ágúst og árleg skil og umsóknir um aðild að sjóðnum fari því fram samhliða sem er til hagræðis fyrir ferðaskrifstofur. Ráðuneytið leggur til að gjalddagi stofngjalds verði 1. september og gjalddagi fyrsta iðgjalds verði 1. desember. Í tengslum við þetta leggur ráðuneytið einnig til að við ákvæði til bráðabirgða í frumvarpinu bætist málsgrein sem kveði á um að ákvarðanir um tryggingarfjárhæð sem eru í gildi við samþykkt frumvarpsins haldi gildi sínu þar til nýjar ákvarðanir um tryggingarfjárhæð hafa verið teknar. Nefndin fellst á framangreint og leggur til breytingar þess efnis.

Endurskoðun reikninga.
    Með 4. mgr. 1. gr. frumvarpsins er lagt til að Ríkisendurskoðun verði falin endurskoðun reikninga Ferðatryggingasjóðs. Ríkisendurskoðun vakti í umsögn sinni um málið athygli á því að Ferðatryggingasjóður fellur ekki undir hugtakið ríkisaðili eins og það er skilgreint í 3. tölul. 1. mgr. 3. gr. laga um opinber fjármál, nr. 123/2015. Það falli því utan starfssviðs ríkisendurskoðanda að endurskoða reikninga Ferðatryggingasjóðs. Nefndin leggur til að höfðu samráði við ráðuneytið að ákvæðið falli brott og setur fram breytingartillögu þess efnis að stjórn sjóðsins verði falið að láta endurskoða reikninga hans.

Hæfisskilyrði stjórnar.
    Í 1. mgr. a-liðar 2. gr. frumvarpsins er kveðið á um hæfisskilyrði stjórnar Ferðatryggingasjóðs. Þar segir að stjórnarmenn skuli ekki hafa hlotið dóm fyrir refsiverðan verknað í tengslum við atvinnurekstur samkvæmt þeim lögum er þar eru talin upp. Ríkisskattstjóri bendir í umsögn sinni á að sala ferðaþjónustu er virðisaukaskattsskyld samkvæmt lögum um virðisaukaskatt. Þar sem skatturinn er vörsluskattur sé eðlilegt að lög um virðisaukaskatt séu einnig tiltekin í því ákvæði frumvarpsins. Nefndin telur ábendinguna réttmæta og leggur til breytingu þess efnis.

Rafrænar umsóknir.
    Nefndin leggur einnig til að beiðni ráðuneytisins að við frumvarpið bætist ákvæði er kveða á um að leyfisumsóknir til Ferðamálastofu skuli vera á rafrænu formi í ljósi þess að gert er ráð fyrir að fjöldi ferðaskrifstofa sæki um aðild að Ferðatryggingasjóði á árinu. Breytingartillagan er gerð með vísan til þess að stefna stjórnvalda er að auka stafræna þjónustu við almenning og fyrirtæki en það feli í sér aukið gagnsæi og réttaröryggi að samskipti almennings og fyrirtækja við stjórnvöld séu á rafrænu formi og úrvinnsla mála verður einfaldari í framkvæmd. Breytingartillögur nefndarinnar eru að öðru leyti tæknilegs eðlis og er ekki ætlað að hafa efnisleg áhrif.
    Nefndin leggur til að frumvarpið verði samþykkt með eftirfarandi

BREYTINGU:


     1.      Á undan 1. gr. komi ný grein, svohljóðandi:
                      Í stað tilvísunarinnar „skv. 24. gr.“ í c-lið 1. mgr. 23. gr. laganna kemur: skv. VII. kafla.
     2.      Við a-lið 2. gr.
                  a.      Í stað orðanna „eða lögum um staðgreiðslu opinberra gjalda“ í 6. málsl. 1. mgr. komi: lögum um staðgreiðslu opinberra gjalda eða lögum um virðisaukaskatt.
                  b.      4. mgr. orðist svo:
                      Stjórn Ferðatryggingasjóðs skal ráða endurskoðanda til að annast gerð ársreiknings og skal árlega skila ráðherra skýrslu þar sem gerð er grein fyrir störfum og stöðu sjóðsins.
     3.      Á eftir 4. málsl. 1. efnismgr. 3. gr. komi nýr málsliður, svohljóðandi: Umsókn um aðild að sjóðnum skal vera rafræn en að öðru leyti á því formi sem stjórn Ferðatryggingasjóðs ákveður.
     4.      Í stað orðanna „til heimflutnings“ í 1. efnismgr. 5. gr. komi: annast heimflutning.
     5.      Við 11. gr. bætist nýr liður, svohljóðandi: Í stað tilvísunarinnar „skv. 26. gr.“ í 3. málsl. kemur: sbr. 25. gr. a.
     6.      Við 12. gr.
                  a.      Í stað dagsetningarinnar „1. október“ komi: 1. desember.
                  b.      Við bætist nýr liður, svohljóðandi: Við lögin bætist nýtt ákvæði til bráðabirgða, svohljóðandi:
                      Ákvarðanir um tryggingarfjárhæð fyrir árið 2020 skulu halda gildi sínu þar til nýjar ákvarðanir hafa verið teknar á grundvelli laganna.
     7.      14. gr. orðist svo:
                      Við gildistöku laga þessara verða eftirfarandi breytingar á lögum um Ferðamálastofu, nr. 96/2018:
                  a.      2. mgr. 7. gr. laganna orðast svo:
                      Leyfishafi sem fellur undir lög um pakkaferðir og samtengda ferðatilhögun skal vera aðili að Ferðatryggingasjóði skv. VII. kafla þeirra laga og hafa lagt fram tryggingu í samræmi við lög um pakkaferðir og samtengda ferðatilhögun.
                  b.      Eftirfarandi breytingar verða á 8. gr. laganna:
                      1.      Við 1. mgr. bætist nýr málsliður, svohljóðandi: Umsókn skal vera rafræn en að öðru leyti á því formi sem Ferðamálastofa ákveður.
                      2.      4. mgr. orðast svo:
                              Falli leyfishafi undir lög um pakkaferðir og samtengda ferðatilhögun skal hann vera aðili að Ferðatryggingasjóði áður en leyfi er veitt.
                      3.      2. málsl. 8. mgr. fellur brott.
                  c.      Eftirfarandi breytingar verða á 14. gr. laganna:
                      1.      Orðin „rekstrarstöðvunar eða“ í 1. málsl. 1. mgr. falla brott.
                      2.      2. málsl. 1. mgr. orðast svo: Jafnframt er heimilt að fella niður leyfi samkvæmt lögum þessum komi til ógjaldfærni leyfishafa sem fellur undir lög um pakkaferðir og samtengda ferðatilhögun eða ef hann uppfyllir ekki skyldur sínar gagnvart Ferðatryggingasjóði, sbr. VII. kafla laga um pakkaferðir og samtengda ferðatilhögun, nr. 95/2018.
                      3.      3. mgr. fellur brott.
                  d.      Eftirfarandi breytingar verða á 15. gr. laganna:
                      1.      Í stað orðanna „2. og 3. mgr.“ í 1. og 2. mgr. kemur: 2. mgr.
                      2.      4. mgr. fellur brott.
                  e.      Við 17. gr. laganna bætist ný málsgrein, svohljóðandi:
                      Kærufrestur vegna ákvörðunar um niðurfellingu leyfis skv. 14. gr. er fjórar vikur.
     8.      Við ákvæði til bráðabirgða.
                  a.      Í stað dagsetningarinnar „1. júlí 2021“ í 1. mgr. komi: 1. ágúst 2021.
                  b.      1. málsl. 2. mgr. orðist svo: Seljendur sem sækja um aðild að Ferðatryggingasjóði skv. 1. mgr. skulu eigi síðar en 1. september 2021 greiða sem nemur 1,5% af reiknaðri tryggingarfjárhæð hlutaðeigandi seljanda miðað við veltu af sölu pakkaferða árið 2019 í stofngjald til sjóðsins.

    Ásmundur Friðriksson var fjarverandi við afgreiðslu málsins en skrifar undir álit þetta með vísan til 4. mgr. 18. gr. starfsreglna fyrir fastanefndir Alþingis. Helgi Hrafn Gunnarsson, María Hjálmarsdóttir, Ólafur Ísleifsson og Sigurður Páll Jónsson skrifa undir álit þetta með fyrirvara.

Alþingi, 28. maí 2021.

Lilja Rafney Magnúsdóttir,
form., frsm.
Halla Signý Kristjánsdóttir. Ásmundur Friðriksson.
Haraldur Benediktsson. Helgi Hrafn Gunnarsson,
með fyrirvara.
María Hjálmarsdóttir,
með fyrirvara.
Njáll Trausti Friðbertsson. Ólafur Ísleifsson,
með fyrirvara.
Sigurður Páll Jónsson,
með fyrirvara.