Ferill 711. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


151. löggjafarþing 2020–2021.
Prentað upp.

Þingskjal 1640  —  711. mál.
Undirskriftir.

2. umræða.



Nefndarálit með breytingartillögu


um frumvarp til laga um breytingu á lögum um loftslagsmál, nr. 70/2012 (markmið um kolefnishlutleysi).

Frá meiri hluta umhverfis- og samgöngunefndar.


    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Ásu Ögmundsdóttur og Önnu Sigurveigu Ragnarsdóttur frá umhverfis- og auðlindaráðuneytinu, Kristínu Lind Árnadóttur og Jónu Bjarnadóttur frá Landsvirkjun, Hólmfríði Sigurðardóttur frá Orkuveitu Reykjavíkur, Lárus M.K. Ólafsson frá Samtökum iðnaðarins, Ólaf S. Andrésson prófessor við Háskóla Íslands, Árna Finnsson frá Náttúruverndarsamtökum Íslands og Tinnu Hallgrímsdóttur, Finn Ricart Andrason, Chanee Thianthong og Jóhannes Bjarka Urbancic frá Ungum umhverfissinnum.
    Nefndinni bárust umsagnir frá Landsvirkjun hf., Náttúruverndarsamtökum Íslands, Ólafi S. Andréssyni, Orkuveitu Reykjavíkur, Samtökum iðnaðarins og Ungum umhverfissinnum.
Með frumvarpinu er lagt til að aukið verði við markmið laga um loftslagsmál, nr. 70/2012, þannig að bætt verði við lögin markmiði um að kolefnishlutleysi verði náð 2040, sbr. stefnumörkun ríkisstjórnarinnar. Til viðbótar við markmiðsákvæði frumvarpsins er lögð til ný orðskýring sem skilgreinir orðið kolefnishlutleysi.

Umfjöllun nefndarinnar.
Almennt.
    Markmið um kolefnishlutlaust Ísland árið 2040 var sett fram í stjórnarsáttmála ríkisstjórnar Framsóknarflokks, Sjálfstæðisflokks og Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs sem tók við 30. nóvember 2017 og er frumvarpið í efnislegu samræmi við það markmið. Kolefnishlutleysi lýsir ástandi þar sem jafnvægi hefur náðst milli losunar gróðurhúsalofttegunda og bindingar kolefnis af mannavöldum og nettólosun er því engin.
    Leiðarljós loftslagsstefnu Íslands er stefnumið Parísarsamningsins frá 2015 um að takmarka hækkun meðalhitastigs andrúmslofts jarðar við 1,5°C. Til að ná markmiði Parísarsamningsins þarf því að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda af mannavöldum eins hratt og nokkur kostur er með minni notkun jarðefnaeldsneytis í orkuframleiðslu og samgöngum og á sama tíma að auka kolefnisbindingu með öllum tiltækum aðferðum.
    Almennri ánægju með frumvarpið er lýst í þeim umsögnum sem bárust nefndinni. Í þeim kemur m.a. fram mikilvægi samráðs í frekari stefnumótun um kolefnishlutleysi og að við útfærslu markmiða um kolefnishlutleysi verði horft til alþjóðlegra viðmiða og stefnumörkunar.
    Meiri hlutinn telur ljóst að alþjóðlegar skuldbindingar Íslands í loftslagsmálum ná til mannlegra athafna sem hafa áhrif á losun og bindingu og gildir það einnig um markmiðið um kolefnishlutleysi. Meiri hlutinn áréttar mikilvægi samráðs við sérfræðinga, almenning og aðra hagsmunaaðila í frekari stefnumótun um kolefnishlutleysi og útfærslu markmiða.
    Meiri hlutinn minnir í þessu samband á að kolefnishlutleysi er samfélagsverkefni. Það er grundvallarforsenda góðs árangurs að vinna og kostnaður við að ná því marki sé á ábyrgð ríkisins, sveitarfélaga, atvinnufyrirtækja og almennings.

Lögfesting áfangamarkmiðs um samdrátt í losun fyrir árið 2030.
    Í umsögnum er kallað eftir lögfestingu á áfangamarkmiði um samdrátt í losun fyrir árið 2030. Meiri hlutinn áréttar að íslensk stjórnvöld hafa með yfirlýsingu frá desember 2020 skuldbundið sig til að taka þátt í sameiginlegu markmiði með Noregi gagnvart Evrópusambandinu og um leið því samdráttarmarkmiði sem fellur innan beinna skuldbindinga Íslands. Að auki er stefnt að innleiðingu Evrópugerða þar sem útfært er nánar hvernig markmiðum verði náð og er Ísland þátttakandi í sameiginlegum verkefnum sem af þeim útfærslum leiðir. Áfangamarkmið skýrast í takt við slíkar útfærslur skref fyrir skref og ekki er unnt að binda þau í lög tiltekinn árafjölda fram í tímann.
    Markmið Íslands í loftslagsmálum er að minnsta kosti 55% samdráttur í losun og var það markmið tilkynnt formlega til loftslagssamnings Sameinuðu þjóðanna í febrúar á þessu ári. Í fyrra markmiði, sem sett var fram árið 2016, var stefnt að 40% samdrætti í losun miðað við losun ársins 1990. Meiri hlutinn telur afar mikilvægt að íslensk stjórnvöld vinni ötullega að framangreindum markmiðum og kynni með reglulegu millibili uppfærða aðgerðaáætlun sína.

Landnotkun og kolefnisbinding.
    Í umsögnum er fjallað um að nauðsynlegt sé að hlutur landnotkunar sé skýrður og gagnrýnt að ekki liggi fyrir hvernig losun vegna landnotkunar verði meðhöndluð gagnvart kolefnishlutleysi. Í þessu sambandi áréttar meiri hlutinn að til að ná markmiði um kolefnishlutleysi skiptir mestu máli að draga hratt úr losun. Það er þó ljóst að bætt landnotkun, aukin endurheimt vistkerfa, skógrækt og aðrar aðferðir við að binda kolefni varða miklu um kolefnishlutleysi.
    Mat á losun og kolefnisbindingu í landnotkun og skógrækt er háð töluverðri óvissu og mun meiri en frá öðrum uppsprettum. Bæði er vandasamt að mæla kolefnisbúskap gróðurs og jarðvegs og eins er flókið að greina á milli náttúrulegra ferla og áhrifa mannlegra athafna. Vegna þessa er losun ríkja í alþjóðlegum samanburði yfirleitt tilgreind án landnotkunar og skuldbindingar og losunarbókhald varðandi skógrækt og landnotkun aðskilið frá öðrum uppsprettum.
    Meiri hlutinn áréttar að það er lykilatriði að þær upplýsingar sem liggja til grundvallar mati á árangri Íslands í átt að kolefnishlutleysi séu áreiðanlegar og að unnt sé að staðfesta þær. Meiri hlutinn er meðvitaður um að nú er skortur á áreiðanlegum upplýsingum varðandi tiltekin atriði sem varða landnotkun og endurheimt vistkerfa og því skiptir miklu máli að bæta rannsóknir og upplýsingar. Staða þekkingar og upplýsinga er misjöfn eftir einstökum landnotkunarflokkum og unnið er að því að bæta hvernig staðið er að mati á losun gróðurhúsalofttegunda og upptöku kolefnis vegna landnotkunar með það að leiðarljósi að Ísland uppfylli skuldbindingar er snúa að flokkunum landnotkun, breytt landnotkun og skógrækt. Sú vinna hófst árið 2020 með auknum fjárveitingum til Landgræðslunnar og Skógræktarinnar og stefnt er að því að ljúka þeirri vinnu árið 2023.
    Það liggur fyrir að losun frá landnotkun, breyttri landnotkun og skógrækt á Íslandi er hlutfallslega mikil í heildarlosun Íslands samanborið við önnur ríki. Því er nauðsynlegt að útfæra þann þátt nánar gagnvart kolefnishlutleysi þegar meiri þekking liggur fyrir og þegar aðferðafræði Evrópusambandsins og loftslagssamningsins skýrist.
    Telur meiri hlutinn með vísan til þessa ekki unnt að skýra hlut landnotkunar sérstaklega í frumvarpinu.

Breytingartillögur meiri hlutans.
    Í 1. gr. frumvarpsins segir að kolefnishlutleysi skuli nást árið 2040. Meiri hlutinn lítur svo á að á löngu tímabili, t.d. vegna tækninýjunga og vaxandi áhuga á kolefnisbindingu í samfélaginu, kann að vera unnt að ná markmiðinu nokkru fyrir árið 2040. Leggur meiri hlutinn fram breytingartillögu þess efnis að í stað þess að kolefnishlutleysi skuli nást árið 2040 skuli það nást eigi síðar en 2040. Þá leggur meiri hlutinn til breytingu tæknilegs eðlis sem ekki er ætlað að hafa efnisleg áhrif.
    Meiri hlutinn leggur til að frumvarpið verði samþykkt með eftirfarandi:

BREYTINGU:


     1.      Í eftir orðunum „kolefnishlutleysi“ í 1. gr. komi: eigi síðar en.
     2.      Í stað orðanna „Kolefnishlutleysi lýsir ástandi“ í 2. gr. komi: Ástand.

    Karl Gauti Hjaltason skrifar undir nefndarálitið með fyrirvara. Hann styður öflugar aðgerðir til kolefnisbindingar auk þeirra sem dregið geta úr losun gróðurhúsalofttegunda. Hann telur óþarft að lögleiða markmið um kolefnishlutleysi 2040 enda hafi ákvæðið enga lagalega þýðingu. Guðjón S. Brjánsson skrifar undir álitið með fyrirvara sem hann hyggst gera grein fyrir í ræðu.
    Jón Gunnarsson var fjarverandi við afgreiðslu málsins en skrifar undir álit þetta samkvæmt heimild í 4. mgr. 18. gr. starfsreglna fastanefnda Alþingis.

Alþingi, 7. júní 2021.

Ari Trausti Guðmundsson,
frsm.
Guðjón S. Brjánsson,
með fyrirvara.
Hanna Katrín Friðriksson.
Jón Gunnarsson. Karl Gauti Hjaltason,
með fyrirvara.
Kolbeinn Óttarsson Proppé.
Líneik Anna Sævarsdóttir. Vilhjálmur Árnason.