Ferill 712. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


151. löggjafarþing 2020–2021.
Prentað upp.

Þingskjal 1642  —  712. mál.
Leiðréttur texti.

2. umræða.



Nefndarálit með breytingartillögu


um frumvarp til laga um umhverfismat framkvæmda og áætlana.

Frá umhverfis- og samgöngunefnd.


    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Steinunni Fjólu Sigurðardóttur og Magnús Dige Baldursson frá umhverfis- og auðlindaráðuneyti, Bergþóru Þorkelsdóttur og Guðmund Val Guðmundsson frá Vegagerðinni, Auði Önnu Magnúsdóttur og Magnús Óskarsson frá Landvernd, Brynjólf Jónsson frá Skógræktarfélagi Íslands, Jónu Bjarnadóttur, Þórólf Nielsen og Axel Val Birgisson frá Landsvirkjun, Þröst Eysteinsson og Aðalstein Sigurgeirsson frá Skógræktinni, Árna Bragason og Birki Snæ Fannarsson frá Landgræðslunni, Axel Benediktsson, Ísak Má Jóhannesson, Sigríði Skaftadóttur og Hlín Gísladóttur frá Umhverfisstofnun, Baldur Dýrfjörð frá Samorku, Örnu Grímsdóttur, Tómas Má Sigurðsson og Ásbjörn Blöndal frá HS Orku, Heiðu Aðalsteinsdóttur fá Orkuveitu Reykjavíkur, Guðjón Bragason frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga, Ernu Hrönn Geirsdóttur frá Reykjavíkurborg, Kristin Magnússon, Kristínu Huld Sigurðardóttur og Agnesi Stefánsdóttur frá Minjastofnun Íslands, Guðrúnu Vöku Steingrímsdóttur og Hlyn Gauta Sigurðsson frá Bændasamtökum Íslands og Lárus M. K. Ólafsson frá Samtökum iðnaðarins.
    Nefndinni bárust umsagnir frá Bændasamtökum Íslands, HS Orku hf., Landgræðslunni, Landsvirkjun, Landvernd, Minjastofnun Íslands, ÓFEIGU náttúruvernd, Orkuveitu Reykjavíkur, Reykjavíkurborg, Sambandi íslenskra sveitarfélaga, Samorku, samtökum orku- og veitufyrirtækja, Samtökum iðnaðarins, Skógræktarfélagi Íslands, Skógræktinni, Umhverfisstofnun og Vegagerðinni.

Umfjöllun nefndarinnar.
Almennt.
    Með frumvarpinu er lagt til að samþykkt verði ný heildarlög um umhverfismat framkvæmda og áætlana sem komi í stað laga um mat á umhverfisáhrifum, nr. 106/2000, og laga um umhverfismat áætlana, nr. 105/2006. Þá eru lagðar til breytingar á skipulagslögum, nr. 123/2010, lögum um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála, nr. 130/2011, og lögum um náttúruvernd, nr. 60/2013.
    Drög að frumvarpinu voru unnin af starfshópi skipuðum af umhverfis- og auðlindaráðherra en í hópnum sátu fulltrúar ólíkra sjónarmiða sem hafa hagsmuna að gæta í málinu, m.a. bæði frá Samtökum atvinnulífsins og umhverfis- og náttúruverndarsamtökum. Fyrir nefndinni kom fram almenn ánægja með þær grundvallarbreytingar sem frumvarpið felur í sér og lúta að ferli mats á umhverfisáhrifum en þær horfa til hagræðis og einföldunar á lagaumhverfi framkvæmda.

Staða álits Skipulagsstofnunar um umhverfismat framkvæmda.
    Í 27. gr. er að finna ákvæði sem lýtur að afgreiðslu leyfis til matsskyldra framkvæmda. Þar kemur m.a. fram að við ákvörðun um leyfi til framkvæmdar skuli leyfisveitandi kynna sér umhverfismatsskýrslu framkvæmdaraðila um framkvæmdina og leggja álit Skipulagsstofnunar um umhverfismat hennar til grundvallar. Á fundum nefndarinnar kom fram ólíkur skilningur á efni frumvarpsins að því er snertir stöðu álitsins og hvort það er bindandi fyrir leyfisveitanda. Hinn ólíki skilningur fólst annars vegar í því að nauðsynlegt sé að kveða skýrt á um að álitið sjálft sé bindandi en ekki einungis skilyrðin sem þar komi fram, og hins vegar í því að hendur leyfisveitanda séu bundnar um of með því að álit Skipulagsstofnunar sé bindandi. Að mati nefndarinnar er skýrt af orðalagi 2. mgr. 27. gr. að leggja skal álit Skipulagsstofnunar til grundvallar leyfisveitingu. Að öðru leyti vísar nefndin til umfjöllunar um stöðu álits Skipulagsstofnunar í greinargerð með frumvarpinu, sérstaklega í kafla 3.10 og athugasemdum um V. kafla.

Aðkoma almennings.
    Við umfjöllun nefndarinnar kom fram sá misskilningur að breytingar væru lagðar til varðandi rétt til að kæra matsskylduákvörðun. Fyrir nefndinni komu fram ábendingar um að þær breytingar sem frumvarpið fæli í sér leiddu til þess að aðkoma almennings að umhverfismatsferli framkvæmda myndi versna frá því sem nú er. Nefndin tekur fram að eitt af meginmarkmiðum þeirrar heildarendurskoðunar laga um mat á umhverfisáhrifum sem starfshópurinn réðst í var að tryggja sem best aðkomu almennings og annarra hagsmunaaðila að ferlinu þannig að hún samræmdist sem best ákvæðum Árósasamningsins. Þeir staðir í ferlinu þar sem almenningur getur komið að sjónarmiðum sínum eru hinir sömu og samkvæmt gildandi lögum. Frumvarpið felur í sér einföldun á málsmeðferð sem að mati nefndarinnar er einkum til þess fallin að auðvelda almenningi aðkomu að ferlinu. Þá áréttar nefndin það sem fram kemur í greinargerð með frumvarpinu að í samanburði við aðrar Norðurlandaþjóðir og Skota sker Ísland sig úr sem eina landið sem hefur opna heimild til að kæra matsskylduákvörðun efnislega en með frumvarpinu er hvergi vikið frá þeirri heimild.

Tengsl við verndar- og orkunýtingaráætlun.
    Fyrir nefndinni kom fram að samkvæmt frumvarpinu væru 10 MW orkuver eða breytingar á þeim matsskyldar framkvæmdir líkt og gert væri ráð fyrir í gildandi lögum. Þær framkvæmdir féllu jafnframt undir lög um verndar- og orkunýtingaráætlun, sbr. lög nr. 48/2011. Samkvæmt þeim lögum félli breyting eða viðbót eldri virkjana óháð stærðarviðmiðum ekki undir rammaáætlun ef slík breyting er ekki matsskyld. Bent var á að endurnýjun eða uppfærsla vélbúnaðar innan húss gæti haft í för með sér aflaukningu sem næmi meira en 10 MW og væri því umhverfismatsskyld samkvæmt frumvarpinu. Nefndin bendir á að liður 3.02 í viðauka 1, sem tekur til orkuvera með 10 MW uppsett rafafl eða meira, er efnislega óbreyttur frá lið 3.02 í 1. viðauka við lög um mat á umhverfisáhrifum, nr. 106/2000, og vísast um það til umfjöllunar í greinargerð um 1. viðauka. Frumvarpið hefur því ekki í för með sér efnisbreytingu á umhverfismatsskyldu hvað þessu viðvíkur. Þá bendir nefndin á 24. tölul. I. viðauka tilskipunar 2011/92/ESB eins og henni var breytt með tilskipun 2014/52/ESB þar sem fram kemur að sérhver breyting eða útvíkkun á framkvæmdum sem tilgreindar eru í viðaukanum, svo fremi að slík breyting eða útvíkkun uppfylli hugsanleg þröskuldsgildi, skuli háð mati á umhverfisáhrifum. Nefndin telur að ekki séu forsendur til að breyta frumvarpinu vegna þessarar athugasemdar en leggur til að umhverfis- og auðlindaráðuneyti taki málið til skoðunar.

Samráðsgátt.
    Samkvæmt 7. gr. skal Skipulagsstofnun starfrækja landfræðilega gagna- og samráðsgátt um skipulag, umhverfismat og leyfisveitingar og er í ákvæðinu kveðið á um skyldubundna notkun gáttarinnar. Á fundum nefndarinnar var sérstakri ánægju lýst með þetta fyrirkomulag. Í gáttinni verði haldið utan um öll gögn sem tengjast mati á umhverfisáhrifum á einum stað og sé hún til þess fallin að auðvelda og skýra alla ferla og gera aðgengi almennings að gögnum betra, sem er í samræmi við markmið Árósasamningsins.
    Nefndin ítrekar að til að slík gátt geti orðið það miðlæga stjórntæki sem henni er ætlað þarf að tryggja fjármuni til að koma henni á laggirnar og þróa hana. Tekið er undir þau sjónarmið sem fram komu fyrir nefndinni að vinna við gerð og þróun slíkrar gáttar verði að vera í góðu samráði við þá aðila sem muni nýta sér gáttina. Nefndin vekur einnig athygli á því að í frumvarpi til laga um breytingu á skipulagslögum, nr. 123/2010 (275. mál á yfirstandandi löggjafarþingi), er kveðið á um að Skipulagsstofnun skuli starfrækja landfræðilega gagna- og samráðsgátt. Nefndin bendir á að samlegðaráhrif kunna að vera af því að sú gátt verði nýtt vegna mats á umhverfisáhrifum.
    
Breytingartillögur nefndarinnar.
Stærðarmörk skóga.
    Í flokki A í 1. viðauka eru tilgreindar þær framkvæmdir sem ávallt eru háðar umhverfismati. Töluliður 1.04 tekur til nýræktunar skóga. Þar er gerð tillaga um breytingu á þröskuldsviðmiðum varðandi nýrækt skógar og lagt til að öll nýrækt yfir 50 ha verði háð umhverfismati en samkvæmt gildandi lögum er viðmiðið 200 ha. Bent var á að sú breyting myndi hefta mjög starfsemi skógarbænda vegna kostnaðar sem til félli við umhverfismat og þannig vinna gegn loftslagsmarkmiðum Íslands um bindingu kolefnis með skógrækt. Nefndin tekur undir þau sjónarmið og leggur til breytingu á liðnum þannig að þröskuldsviðmiðin verði áfram 200 ha.

Jarðvarma- og iðjuver.
    Liður 3.17 í viðauka 1 tekur til jarðvarmavera eða iðjuvera til framleiðslu á rafmagni, gufu og heitu vatni sem nemur 2.500 kW uppsettu afli eða meira, utan þess sem fellur undir tölulið 3.02. Fram kom að skilgreina þyrfti útreikninga sem lægju að baki 2.500 kW uppsettu afli eða meira en miklu gæti munað um hvaða viðmiðunarhitastig væri notað. Nauðsynlegt væri að tilgreina, t.d. í skýringum við ákvæðið, með hvaða hætti viðmiðunarhitastig í þessu tilviki væri reiknað. Nefndin bendir á að í athugasemdum í greinargerð um tölulið 3.17 kemur fram að uppsett afl varmavera skuli reiknað út frá framrásarhitastigi sem sent er frá varmaverinu og bakrásarhitastigi sem notendur varmans skila frá sér. Þessu til frekari áréttingar leggur nefndin til að skýringin verði færð inn í orðalag töluliðarins.

Framleiðsla vetnis.
    Bent var á að vetnisframleiðsla félli undir framleiðslu ólífræns hráefnis í tölulið 6.01 í 1. viðauka og væri því matsskyld framkvæmd. Ekki væri gerður greinarmunur á framleiðslu vetnis eftir því hvernig það væri framleitt en þar kæmu helst tvær aðferðir til greina. Annars vegar væri það framleiðsla vetnis beint úr jarðefnaeldsneyti, t.d. jarðgasi, með „steam reforming“-aðferðum án þess að vinna rafmagn úr gasinu fyrst. Þetta væri yfirleitt gert í stórum efnaverksmiðjum þar sem koltvísýringi úr ferlinu væri veitt út í andrúmsloftið og vetni haldið eftir. Hins vegar væri það framleiðsla vetnis beint úr raforku og vatni með rafgreiningu. Það er rafefnafræðileg aðferð við vinnslu vetnis þar sem ekkert jarðefnaeldsneyti og engin koltvísýringslosun kemur við sögu í vinnslunni. Mikill munur væri á umhverfisáhrifum aðferðanna og væri eðlilegt að framkvæmdir með síðarnefndu aðferðinni væru tilkynningarskyldar og féllu í B-flokk.
    Þá var athygli nefndarinnar vakin á því að orðalag töluliðar 6.01 í viðauka 1, þar sem taldar eru upp tilteknar efnaverksmiðjur, væri ekki að fullu í samræmi við texta viðeigandi EES-gerðar sem frumvarpinu væri ætlað að innleiða. Svo virtist vera að fallið hefði brott við innleiðinguna texti sem ætlað væri að skýra nánar stærð og umfang þeirrar starfsemi sem væri átt við. Eru þetta orðin sem um ræðir: „Integrated chemical installations, i.e. chemical conversion processes, in which several units are juxtaposed and are functionally linked to one another and which are […]“ Að höfðu samráði við ráðuneytið leggur nefndin til breytingu á orðalagi töluliðar 6.01 þessu til lagfæringar. Þannig verði efnaverksmiðjur samkvæmt töluliðnum afmarkaðar við þær verksmiðjur sem eru með samþætta framleiðslu þar sem fram fer umfangsmikil iðnaðarframleiðsla með efnaumbreytingu og sem framleiða þau efni sem tilgreind eru í tölulið i-vi. Með samþættri framleiðslu er átt við að verksmiðjan samanstandi af ólíkum einingum, þar sem tilteknar einingar framleiða afurðir sem notaðar eru í öðrum einingum verksmiðjunnar til framleiðslu á lokaafurð. Þar með verður ákvæðið samsvarandi því ákvæði sem fram kemur í 6. tölul. í viðauka I í tilskipun 2011/92/ESB eins og henni var breytt með tilskipun 2014/52/ESB. Þá er lögð til breyting á tölulið 6.02 til að tryggja að efnaverksmiðjur sem falla ekki undir tölulið 6.01, og þar af leiðandi í flokk A sem umhverfismatsskyldar framkvæmdir, falli undir tölulið 6.02 og í flokk B.
    Nefndin áréttar að breytingarnar munu leiða til þess að framleiðsla vetnis með raforku sem unnin er úr endurnýjanlegum orkugjöfum, svo sem vatnsorku, jarðhita og vindorku og úr vatni með rafgreiningu, fellur í flokk 6.02 og þar með í flokk B sem tilkynningarskyldar framkvæmdir.

Lagning nýrra vega.
    Töluliður 10.07 í viðauka 1 tekur til lagningar nýrra vega, enduruppbyggingar vega eða breikkunar vega úr tveimur akreinum í a.m.k. fjórar sem eru 10 km eða lengri. Vegagerðin benti á að oft væri verið að styrkja og breikka vegi í sama vegstæði og veglínu og væri óþarflega íþyngjandi að slíkar framkvæmdir, enduruppbygging vega, væru háðar umhverfismati. Þá gæti hluti framkvæmdar falist í endurbyggingu í fyrirliggjandi vegstæði en hluti væri utan þess. Rétt væri að miðað yrði við lengd nýbyggingar, þ.e. utan fyrirliggjandi vegstæðis, og ótvírætt yrði að matsskyldan tæki ekki til endurbyggingar vegar í óbreyttu vegstæði. Nefndin tekur undir sjónarmið Vegagerðarinnar hvað þetta varðar og leggur til breytingu á tölulið 10.07.

Gúmmíiðnaður.
    Nefndinni barst ábending frá ráðuneytinu þess efnis að ósamræmi væri milli orðalags í tölulið 9.01 í 1. viðauka og umfjöllunar í greinargerð en í töluliðinn vantaði stærðarafmörkun sem gerð er grein fyrir í greinargerð. Nefndin leggur til breytingu þessu til lagfæringar.
    Rétt er að töluliður 9.01 í 1. viðauka orðist svo: „Framleiðsla og meðferð á vörum úr gúmmílíki þar sem stærð gólfflatar er a.m.k. 1.000 m2.“ Slík framsetning er í samræmi við umfjöllun í greinargerð.

Málskot.
    Í 30. gr. er mælt fyrir um að ákvarðanir Skipulagsstofnunar um hvort framkvæmd skuli háð umhverfismati skv. 20. gr. og ákvarðanir leyfisveitanda um veitingu leyfis til framkvæmda séu kæranlegar til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála. Í umsögn Umhverfisstofnunar kom fram að ákvarðanir stofnunarinnar um veitingu leyfa til framkvæmda á friðlýstum svæðum væru kæranlegar til ráðherra en ekki til úrskurðarnefndarinnar skv. 81. gr. laga um náttúruvernd, nr. 60/2013. Með hliðsjón af þessu leggur nefndin til þá breytingu á 30. gr. að áðurnefndar ákvarðanir séu kæranlegar til úrskurðarnefndarinnar nema sérlög kveði á um annað.

Gildistaka.
    Nefndin fékk þær upplýsingar frá ráðuneytinu að unnið væri að reglugerð um umhverfismat framkvæmda og áætlana sem kæmi í stað gildandi reglugerðar um mat á umhverfisáhrifum. Heppilegast væri að gildistöku laganna og þeirrar reglugerðar bæri upp á sama tíma en ráðuneytið vænti þess að reglugerðin yrði tilbúin til birtingar í lok sumars. Að beiðni ráðuneytisins leggur nefndin því til breytingu á gildistökuákvæði frumvarpsins þannig að lögin taki gildi 1. september 2021.

Sátt sem ber að virða.
    Ýmsar fleiri athugasemdir bárust nefndinni þar sem fram komu tillögur að breytingum á frumvarpinu. Nefndin bendir á að lengi hefur verið reynt að ná fram breytingum á þeim málaflokkum sem eru undir í þessu máli og hefur verið kallað eftir því að regluverkið verði einfaldað. Sú vinna sem að baki frumvarpinu býr hefur leitt af sér sátt milli ólíkra aðila, en starfshópurinn sem vann drög að frumvarpinu leiddi saman ólík sjónarmið og í honum sátu fulltrúar með ólíka aðkomu að málinu. Sátt náðist innan starfshópsins og skrifuðu fulltrúar hans allir undir drög að frumvarpi.
    Nefndin telur mikilvægt að virða þá sátt sem náðst hefur um málið en hún endurspeglast að miklu leyti í þeim jákvæðu umsögnum sem bárust. Leggur nefndin því einungis til minni háttar breytingar sem reifaðar eru hér að framan.
    Nefndin leggur til að frumvarpið verði samþykkt með eftirfarandi

BREYTINGU:


     1.      Við 1. málsl. 30. gr. bætist: nema sérlög kveði á um annað.
     2.      1. málsl. 1. mgr. 37. gr. orðist svo: Lög þessi öðlast gildi 1. september 2021.
     3.      Við 1. viðauka.
                  a.      Í stað tölunnar „50“ í tölulið 1.04 komi: 200.
                  b.      Við tölulið 3.17 bætist nýr málsliður, svohljóðandi: Uppsett afl varmavera skal reikna út frá því framrásarhitastigi sem sent er frá varmaverinu og því bakrásarhitastigi sem notendur varmans skila frá sér.
                  c.      Í stað orðanna „Efnaverksmiðjur sem framleiða“ í tölulið 6.01 komi: Efnaverksmiðjur með samþætta framleiðslu þar sem fram fer umfangsmikil iðnaðarframleiðsla með efnaumbreytingu og framleiða.
                  d.      Á eftir orðunum „kemískra efna“ í tölulið 6.02 komi: utan þess sem tilgreint er í tölul. 6.01.
                  e.      Við tölulið 9.01 bætist: þar sem stærð gólfflatar er a.m.k. 1.000 m2.
                  f.      Töluliður 10.07 orðist svo: Lagning nýrra vega sem eru 10 km eða lengri eða breikkun vega úr tveimur akreinum í a.m.k. fjórar sem eru 10 km eða lengri.

    Jón Gunnarsson var fjarverandi við afgreiðslu málsins.
    Bergþór Ólason skrifar undir álitið með fyrirvara sem hann hyggst gera grein fyrir í ræðu.

Alþingi, 7. júní 2021.

Bergþór Ólason,
form., með fyrirvara.
Kolbeinn Óttarsson Proppé,
frsm.
Ari Trausti Guðmundsson.
Guðjón S. Brjánsson. Hanna Katrín Friðriksson. Karl Gauti Hjaltason.
Líneik Anna Sævarsdóttir. Vilhjálmur Árnason.