Ferill 424. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


151. löggjafarþing 2020–2021.
Þingskjal 1643  —  424. mál.
2. umræða.Nefndarálit með breytingartillögu


um frumvarp til laga um breytingu á lögum um slysatryggingar almannatrygginga, nr. 45/2015 (atvinnusjúkdómar, miskabætur o.fl.).

Frá meiri hluta velferðarnefndar.


    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Elsu B. Friðfinnsdóttur, Önnu Birgit Ómarsdóttur og Aðalbjörgu Guðmundsdóttur frá heilbrigðisráðuneyti, Magnús M. Norðdahl frá Alþýðusambandi Íslands, Erling Daða Emilsson frá Fulltingi lögmannsstofu, Ólaf Stefánsson frá Slökkviliði Akureyrar, Pétur Pétursson frá Félagi slökkviliðsstjóra á Íslandi, Magnús Smára Smárason, Bjarna Ingimarsson, Borgar Valgeirsson, Finn Hilmarsson og Hermann Sigurðsson frá Landssambandi slökkviliðs- og sjúkraflutningamanna, Guðmund Heiðar Guðmundsson og Jón Rúnar Pálsson frá Samtökum atvinnulífsins, Báru Brynjólfsdóttur og Þuríði Hörpu Sigurðardóttur frá Öryrkjabandalagi Íslands og Halldóru Jóhannesdóttur og Þóri Ólason frá Tryggingastofnun.
    Nefndinni bárust umsagnir frá Alþýðusambandi Íslands, Félagi slökkviliðsstjóra á Íslandi, Fulltingi slf., Landssambandi slökkviliðs- og sjúkraflutningamanna, Öryrkjabandalagi Íslands, Samtökum atvinnulífsins, Slökkviliði Akureyrar og Tryggingastofnun ríkisins.
    Þá barst nefndinni minnisblað frá heilbrigðisráðuneytinu.

Almennt.
    Með frumvarpinu eru lagðar til breytingar á lögum um slysatryggingar almannatrygginga, nr. 45/2015. Eins og fram kemur í greinargerð er þar lögð til rýmri skilgreining á slysahugtakinu og breyting á hvernig ferðir til og frá vinnu eru skilgreindar. Þá eru skýrð ákvæði um bótarétt vegna slysa þar sem metin er eigin sök slasaðra og sömuleiðis ákvæði um skilmerki um atvinnusjúkdóma. Lagðar eru til breytingar á ákvæðum laganna um örorku og greiðslu slysatrygginga, auk þess sem lagt er til að afnumin verði tenging bóta slysatrygginga og bóta almannatrygginga, auk annarra minni breytinga.

Umfjöllun nefndarinnar.
Tilurð slyss og ferðir til og frá vinnustað.
    Fyrir nefndinni komu fram athugasemdir við 4. gr. frumvarpsins og tillögur um breytingar á skilgreiningu slyss og á ferðum til og frá vinnustað. Meiri hlutinn telur að með orðalagi frumvarpsins um „óvæntan“ atburð fremur en að tala um „utanaðkomandi“ atburð sé ákvæðið skýrara og heldur rýmra en í núgildandi lögum. Þá telur meiri hlutinn að með því að tala um „eðlilega leið“ til og frá vinnustað, fremur en „nauðsynlegar ferðir“, sé um rýmkun á ákvæðinu að ræða eins og raunar kemur fram í greinargerð frumvarpsins. Meiri hlutinn ítrekar það sem fram kemur í greinargerðinni, að það verður að líta til þess að aðstæður barna og fjölskyldna geta verið mismunandi. Því kunni að vera um að ræða eðlilega ferð til og frá vinnu þegar barn er eldra en svo að það sé á leikskólaaldri eða á fyrstu stigum grunnskóla, t.d. í tilvikum þar sem börn eru með fötlun og þurfa fylgd lengur en fyrsta árið í grunnskóla.
Bótaskyldir atvinnusjúkdómar.
    Við umfjöllun nefndarinnar og í umsögnum komu fram athugasemdir við að atvinnusjúkdóma ætti að skilgreina í reglugerð auk þess sem bent var á að reglugerð samkvæmt núgildandi ákvæðum 5. gr. laganna hafi enn ekki verið sett. Meiri hlutinn tekur undir þá gagnrýni og telur brýnt að reglugerðin verði sett í kjölfar samþykktar frumvarpsins til að eyða óvissu. Hins vegar bendir meiri hlutinn á að líklegt megi telja að gera þurfi breytingar á slíkum listum eftir því sem fram vindur og því eðlilegt að um slíkt sé fjallað í reglugerð fremur en í lagatexta. Eðli starfa og þær hættur sem kunna að felast í þeim geta verið breytilegar og ný störf eða störf unnin við breyttar aðstæður kunna að valda endurmati á skilgreiningu atvinnusjúkdóma. Á hinn bóginn er mikilvægt að slík reglugerð verði unnin í samráði við hagsmunaaðila og þá aðila innan heilbrigðisþjónustu og vinnueftirlits sem á hverjum tíma má ætla að hafi besta yfirsýn og þekkingu á aðstæðum sem upp koma og kunna að hafa áhrif á tilurð sjúkdóma.

Slys erlendis.
    Fyrir nefndinni komu fram athugasemdir um að ekki séu nægilega skýr ákvæði í lögunum um slys sem eiga sér stað erlendis. Í umsögn Alþýðusambands Íslands kemur fram að oft geti verið erfitt fyrir launafólk að sækja rétt sinn vegna slysa á svæðum þar sem innviðir eru ekki eins traustir og hérlendis og boðleiðir innan stjórnkerfa ekki skilvirkar. Þá benti sambandið á að íslenskt launafólk fari nú í meira mæli en áður til starfa erlendis á vegum íslenskra fyrirtækja og eigi að njóta sömu réttinda og trygginga og ef það starfar hér á landi.
    Meiri hlutinn bendir á að tilvik þar sem starfsmenn starfa erlendis á vegum íslenskra fyrirtækja séu að mörgu leyti annars eðlis en störf á Íslandi. Þá bendir meiri hlutinn á að erfitt geti verið fyrir íslenska eftirlitsaðila og stofnanir að fá óyggjandi upplýsingar um orsakir atvika. Einnig koma þar til mismunandi lög og reglur sem kunna að gilda í gistilandinu. Meiri hlutinn bendir á að fyrirtæki sem sinna starfi erlendis og starfsmenn þeirra hafi aðrar leiðir til að tryggja hagsmuni sína verði starfsmenn fyrir slysum og að ekki sé tímabært að útvíkka almenna tryggingavernd með þeim hætti sem lagt er til í umsögninni. Meiri hlutinn beinir því til ráðuneytisins að þar og í undirstofnunum þess verði áfram fylgst með umfangi starfa erlendis á vegum íslenskra fyrirtækja af starfsmönnum sem starfa samkvæmt íslenskum vinnurétti og hvort tilefni verður til að útvíkka þær heimildir sem leiðir af lokamálsgrein 10. gr. laganna.

Hlutfallsregla.
    Nefndinni bárust athugasemdir um 11. gr. frumvarpsins sem kveður á um að svokölluð hlutfallsregla verði lögfest. Meiri hlutinn bendir á að reglunni hefur verið beitt árum saman en fái nú þessa mikilvægu lagastoð. Á hinn bóginn er meiri hlutanum kunnugt um þær athugasemdir sem fram hafa komið og að mál vegna beitingar reglunnar er nú rekið fyrir dómstólum. Hins vegar bendir meiri hlutinn á að þegar hafa gengið dómar í málum þar sem framkvæmd reglunnar er staðfest. Meiri hlutinn telur því ekki tilefni til að gera breytingu á þessum ákvæðum frumvarpsins.

Varanlegur miski.
    Í umsögnum og fyrir nefndinni komu fram athugasemdir við heimildarákvæði 4. mgr. 11. gr. frumvarpsins um heimild Sjúkratrygginga Íslands til að semja við lækna utan stofnunarinnar um mat á varanlegum miska. Í umsögn Öryrkjabandalagsins er lagt til að stofnunin þurfi að bera slíka samninga undir ráðuneytið. Meiri hlutinn bendir á að álitsgerðir ráðuneytisins verða aldrei bindandi fyrir stofnunina. Einnig bendir meiri hlutinn á að mikilvægt sé að stofnunin geti leitað til færustu sérfræðinga á hverjum tíma enda ekki hægt að ætla að sérþekking á öllum málefnum sem varða sjaldgæfa atvinnusjúkdóma sé til staðar innan stofnunarinnar á hverjum tíma. Þá bendir meiri hlutinn á að sjálfstæði stjórnsýslustofnana er mikilvægt og því varhugavert að ætla þeim að bera daglega framkvæmd úrskurðarmála undir ráðuneytið.

Ásetningur eða stórfellt gáleysi.
    Fyrir nefndinni var lagt til að ákvæði um heimild til takmörkunar bótaréttar þegar slys verður af ásetningi eða stórfelldu gáleysi hins slasaða verði bætt við lögin. Meiri hlutinn leggur áherslu á að slíkum heimildum yrði að beita af mikilli varfærni og í algerum undantekningartilvikum. Á hinn bóginn telur meiri hlutinn ástæðu til að hafa slíka heimild í lögum, svo sem þegar atvik slyss er með þeim hætti að ótvírætt sé að ásetningur hafi verið fyrir hendi eða gáleysi sem orsakast af þáttum sem hinn slasaði mátti ætla að gætu leitt til slysa. Sem dæmi má nefna þegar ölvun eða neysla fíkniefna hefur verið meðal orsaka að slysi.

Breytingartillögur meiri hlutans.
Upphaf og lok mánaðarlegra bóta.
    Í umsögn sinni bendir Tryggingastofnun á að í a-lið 14. gr. frumvarpsins sé mælt fyrir um breytingu á 15. gr. laganna þess efnis að síðari málsliður 1. mgr. 15. gr. laganna þar sem nú er mælt fyrir um upphaf og lok mánaðarlegra bóta skv. 12. og 13. gr. laganna verði breytt á þann veg að bætur reiknist frá fyrsta degi næsta mánaðar eftir að bótaréttur er fyrir hendi og hann falli niður í lok þess mánaðar er bótarétti lýkur. Bendir stofnunin á að kveðið sé um þá breytingu á bæði 12. og 13. gr. laganna að um eingreiðslu bóta verði að ræða og því sé eðlilegra að fella síðari málslið 1. mgr. 15. gr. laganna brott. Meiri hlutinn tekur undir þessa athugasemd og leggur til breytingu á a-lið 14. gr. frumvarpsins þess efnis.

Tengdar bætur.
    Þá leggur Tryggingastofnun til í umsögn sinni að í 2. mgr. 17. gr. frumvarpsins verði í stað þess að vísa til 21.–22. gr. laga um almannatryggingar, nr. 100/2007, almennt vísað til tengdra bóta samkvæmt lögum um almannatryggingar og lögum um félagslega aðstoð, nr. 99/2007. Stofnunin telur að með slíkri almennri vísun til laganna verði komið í veg fyrir að einstaklingar geti tapað réttindum sem þeir nú þegar eiga. Meiri hlutinn tekur undir tillögu stofnunarinnar og leggur til breytingu á 2. mgr. 17. gr. þess efnis.

Samspil slysadagpeninga við bætur.
    Tryggingastofnun telur þörf á ákvæði um samspil slysadagpeninga við bætur samkvæmt almannatryggingalögum og fleiri lögum. Stofnunin telur að breyting sú sem lögð er til í 3. tölul. 19. gr. frumvarpsins eigi að falla brott, því eftir sem áður skuli slysadagpeningar ekki greiðast fyrir sama tímabil og sjúkradagpeningar samkvæmt lögum um sjúkratryggingar. Meiri hlutinn er sammála Tryggingastofnun að þessu leyti og telur rétt að falla frá fyrirhugaðri breytingu á lögum um sjúkratryggingar.

Ákvæði til bráðabirgða.
    Í d-lið 2. tölul. 19. gr. frumvarpsins er mælt fyrir um að ákvæði til bráðabirgða bætist við lög um almannatryggingar þar sem kveðið er á um að frá 1. janúar 2022 hafi greiðslur samkvæmt lögum um slysatryggingar almannatrygginga ekki áhrif á útreikning bóta samkvæmt lögum um almannatryggingar. Í umsögn Tryggingastofnunar kemur fram að slíkt ákvæði til bráðabirgða sé óþarft þar sem Tryggingastofnun skoði einvörðungu skattskyldar greiðslur sem bætur samkvæmt lögum um slysatryggingar. Meiri hlutinn tekur undir þá athugasemd Tryggingastofnunar og leggur til að ákvæðið falli brott.

    Að framangreindu virtu leggur meiri hlutinn til að frumvarpið verði samþykkt með eftirfarandi

BREYTINGU:


     1.      Í stað orðsins „lengri“ í c-lið 9. gr. komi: langa.
     2.      A-liður 14. gr. orðist svo: 2. málsl. 1. mgr. fellur brott.
     3.      Í stað orðanna „skv. 21.–22. gr. laga um almannatryggingar, nr. 100/2007“ í 2. mgr. 17. gr. komi: samkvæmt lögum um almannatryggingar, nr. 100/2007, og lögum um félagslega aðstoð, nr. 99/2007.
     4.      Við 19. gr.
                  a.      D-liður 2. tölul. falli brott.
                  b.      3. tölul. falli brott.

    Helga Vala Helgadóttir skrifar undir álit þetta með fyrirvara. Hanna Katrín Friðriksson, áheyrnarfulltrúi í nefndinni, er samþykk áliti þessu.

Alþingi, 7. júní 2021.

Helga Vala Helgadóttir, form., með fyrirvara. Ólafur Þór Gunnarsson,
frsm.
Ásmundur Friðriksson.
Guðmundur Ingi Kristinsson. Lilja Rafney Magnúsdóttir. Líneik Anna Sævarsdóttir.
Vilhjálmur Árnason.