Ferill 587. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


151. löggjafarþing 2020–2021.
Þingskjal 1649  —  587. mál.
2. umræða.Breytingartillaga


við frumvarp til laga um þjóðkirkjuna.

Frá Birgi Þórarinssyni.


    2. mgr. 10. gr. orðist svo:
    Biskup Íslands gegnir æðsta embætti þjóðkirkjunnar og fer með yfirstjórn hennar eftir því sem kirkjuþing mælir nánar fyrir um.

Greinargerð.

    Biskupsembættið er elsta embætti á Íslandi sem haldist hefur frá upphafi.
    Saga og hefðir eru dýrmætar eignir sérhvers samfélags, rétt eins og menning þess.Hugtakið embætti í kirkjunni hefur sérstaka merkingu sem byggist á guðfræði hennar. Almennt séð er hugtakið í kirkjulegu samhengi fyrst og fremst tengt þjónustu, ábyrgð, umsjón og forystu, rétt eins ogannars staðar þar sem það kemur fyrir og er að því leyti ótengt kirkjunni. Starf er aftur á móti fyrst og fremst framkvæmd verkefna sem aðrir fela starfsfólki að sinna.
    Má því álykta að ákveðin grundvallarbreyting eigi að verða á hlutverki biskups kirkjunnar með því að fella niður hugtakið embætti biskups og breyta því í starf biskups eins og frumvarpið gerir ráð fyrir. Ætla má að ábyrgð biskups til andlegrar forystu í kirkjunni og umsjónarskylda biskups gagnvart kenningu og siðum hennar hafi þá ekki lengur þann styrk sem biskupsembættið hefur haft í kirkjunni allt frá frumkirkjunni og í samhengi Íslands í meira en þúsund ár.
    Með hliðsjón af framangreindu er því lagt til með breytingartillögu þessari að bæta við 2. mgr. 10. gr. frumvarpsins að biskup Íslands gegni æðsta embætti þjóðkirkjunnar.