Ferill 716. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


151. löggjafarþing 2020–2021.
Þingskjal 1657  —  716. mál.
2. umræða.Nefndarálit með breytingartillögu


um breytingu á lögum um grunnskóla, nr. 91/2008, og lögum um framhaldsskóla, nr. 92/2008 (fagráð eineltismála).

Frá meiri hluta allsherjar- og menntamálanefndar.


    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Elísabetu Pétursdóttur, Brynju Stephanie Swan, Jóhönnu Þórunni Pálsdóttur og Hildi Ýri Þórðardóttur frá mennta- og menningarmálaráðuneyti, Lindu Hrönn Þórisdóttur frá Barnaheillum, Steinunni Bergmann frá Félagsráðgjafafélagi Íslands, Önnu Láru Steindal frá Landssamtökunum Þroskahjálp, Valgerði Rún Benediktsdóttur og Svandísi Ingimundardóttur frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga, Vigdísi Sigurðardóttur og Steinunni Birnu Magnúsdóttur frá Persónuvernd og Sigurveigu Þórhallsdóttur frá umboðsmanni barna.
    Umsagnir bárust frá Barnaheillum, Félagsráðgjafafélagi Íslands, Landssamtökunum Þroskahjálp, Persónuvernd, Sambandi íslenskra sveitarfélaga og umboðsmanni barna.
    Með frumvarpinu er ætlunin að styrkja lagastoð fagráðs eineltismála í grunn- og framhaldsskólum hjá Menntamálastofnun, kveða á um heimild ráðherra til að fela stofnuninni eða öðrum aðila að sinna verkefninu, tryggja heimild til að vinna með persónuupplýsingar, þ.m.t. viðkvæmar persónuupplýsingar, og mæla fyrir um afhendingu gagna. Þá er mælt fyrir um undanþáguheimild frá stjórnsýslulögum og upplýsingalögum sem gerir fagnefndinni kleift að takmarka aðgang aðila að gögnum í þágu hagsmuna barns en ákvæðið á sér fyrirmynd í barnaverndarlögum.

Umfjöllun nefndarinnar.
Fagráð eineltismála.
    Nefndin fjallaði á fundum sínum um málið en með frumvarpinu er ætlunin að styrkja lagastoð fagráðs eineltismála hjá Menntamálastofnun. Fagráðið hefur það hlutverk að veita skólasamfélaginu stuðning vegna eineltismála með almennri ráðgjöf auk þess sem hægt er að vísa eineltismálum til fagráðsins ef ekki tekst að finna fullnægjandi lausn á þeim innan skóla eða sveitarfélags. Með frumvarpinu eru ekki lagðar til efnisbreytingar sem snerta störf ráðsins en fyrir nefndinni komu fram ábendingar um nauðsyn þess að endurskoða umgjörð eineltismála. Fjöldi eineltismála hafi aukist undanfarin ár í skólasamfélaginu, m.a. neteineltismál, og mikilvægt sé að bregðast við því. Fyrir nefndinni komu einnig fram ábendingar um nauðsyn þess að unnið yrði að fyrirbyggjandi aðgerðum gegn einelti með því að efla fræðslu, bæði meðal nemenda og starfsfólks, um mikilvægi góðra samskipta og jákvæðs skólabrags. Fram kom að unnið væri að innleiðingu nýsamþykktrar menntastefnu þar sem einelti sem málaflokkur yrði í ákveðnum forgangi. Meiri hlutinn tekur undir mikilvægi þess að lagaleg umgjörð og stjórnsýsluleg staða fagráðs eineltismála sé skýr og telur frumvarpið fyrsta skrefið í nauðsynlegri endurskoðun á umgjörð eineltismála. Mikilvægt er að efla fræðslu og forvarnastarf til að fyrirbyggja einelti og tryggja að fagleg nálgun, skýrir verkferlar og stuðningur við aðila og hópa þar sem einelti viðgengst ráði för þegar unnið er með þennan viðkvæma málaflokk. Meiri hlutinn telur að þegar litið er til hagsmuna og velferðar barna sé nauðsynlegt að málaflokkurinn njóti forgangs í innleiðingu menntastefnunnar.

Aðgangur að gögnum.
    Í frumvarpinu er lagt til að um aðgang að gögnum hjá fagráði eineltismála fari eftir ákvæðum stjórnsýslulaga og upplýsingalaga. Fagráðið geti þó með rökstuddri ákvörðun takmarkað aðgang aðila að tilteknum gögnum ef það telur þau geta skaðað hagsmuni barns eða samband þess við aðra. Fagráðið geti einnig ákveðið að aðilar og lögmenn þeirra geti kynnt sér skjöl og önnur gögn án þess að þau eða ljósrit af þeim séu afhent. Fyrir nefndinni komu fram ábendingar um að gæta þyrfti að því að deila aðeins nauðsynlegum og viðeigandi upplýsingum með hliðsjón af hagsmunum barnsins. Meiri hlutinn tekur fram að það er á ábyrgð ábyrgðaraðila, þ.e. fagráðsins, að meta hvaða upplýsinga sé nauðsynlegt að afla og miðla svo að tilgangi sé náð og tekur undir nauðsyn þess að mótaðar verði ítarlegri verklagsreglur og viðmið fyrir vinnslu þessara mála.

Breytingartillögur meiri hlutans.
Vinnsla og meðferð persónuupplýsinga.
    Í frumvarpinu er lagt til að fagráði eineltismála verði heimil vinnsla persónuupplýsinga, þar á meðal viðkvæmra persónuupplýsinga um líkamlegt og andlegt heilbrigði einstaklings, en skilyrði þess að ráðið hafi heimild til að vinna með slíkar upplýsingar er að vinnslan sé nauðsynleg vegna starfsemi og hlutverks fagráðsins skv. b-lið 3. tölul. 3. gr. laga um persónuvernd og vinnslu persónuupplýsinga. Um vinnslu persónuupplýsinga fer eftir lögum um persónuvernd og vinnslu persónuupplýsinga. Fagráði eineltismála ber að upplýsa málsaðila um fyrirhugaða upplýsingaöflun samkvæmt ákvæðinu í samræmi við 2. mgr. 17. gr. sömu laga, sbr. 14. gr. reglugerðar Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) 2016/679. Fyrir nefndinni komu fram ábendingar frá Persónuvernd um að sú fræðsla sem málsaðilum yrði veitt yrði ávallt skrifleg en eftir atvikum ásamt munnlegum skýringum. Byggðist það m.a. á því að með skriflegri fræðslu væri betur tryggt samræmi í þeirri fræðslu sem veitt væri. Þá veitti það ábyrgðaraðila jafnframt betri yfirsýn yfir hvaða fræðsla hefði verið veitt og hvenær. Meiri hlutinn tekur undir þessi sjónarmið og telur það tryggja betur faglega nálgun að fagráðið upplýsi málsaðila skriflega og leggur til breytingu á frumvarpinu til samræmis við það.
    Meiri hlutinn leggur til að frumvarpið verði samþykkt með eftirfarandi

BREYTINGU:


    Á eftir orðinu „málsaðila“ í 3. málsl. 3. mgr. 2. gr. og 3. málsl. 3. mgr. 4. gr. komi: skriflega.

Alþingi, 8. júní 2021.

Páll Magnússon,
form.
Silja Dögg Gunnarsdóttir,
frsm.
Guðmundur Andri Thorsson.
Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir. Birgir Ármannsson. Steinunn Þóra Árnadóttir.