Ferill 855. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


151. löggjafarþing 2020–2021.
Prentað upp.

Þingskjal 1670  —  855. mál.
Flutningsmenn.




Frumvarp til laga


um breytingu á lögum um stjórn fiskveiða, nr. 116/2006 (strandveiðar).

Flm.: Lilja Rafney Magnúsdóttir, Halla Signý Kristjánsdóttir.


1. gr.

    Við lögin bætist nýtt ákvæði til bráðabirgða, svohljóðandi:
    Ráðherra skal tryggja 48 daga á strandveiðitímabilinu 2021. Hafi ráðherra fullnýtt heimildir innan 5,3% kerfisins, sbr. 3. mgr. 8. gr. laganna, er ráðherra heimilt að flytja til strandveiða allt að 20% af þorskveiðiheimildum almenna byggðakvótakerfisins, sbr. 10. gr. laganna, auk skel- og rækjuuppbóta fiskveiðiársins 2021–2022, sbr. 11. gr. laganna.
    Ráðherra skal tryggja að flutningsheimild, sbr. 1. mgr., skerði ekki veiðiheimildir dagróðrabáta á næsta fiskveiðiári.

2. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Greinargerð.

    Frumvarpi þessu er ætlað að tryggja strandveiðar í 48 veiðidaga á árinu 2021 með auknum sveigjanleika í viðmiðunarafla til strandveiða. Er þessari aðgerð fyrst og fremst ætlað að vinna gegn atvinnuleysi í kjölfar heimsfaraldurs kórónuveiru sem hefur bitnað á vinnandi fólki hringinn í kringum landið. Þau sem stunda veiðar innan strandveiðikerfisins hafa sum getað framfleytt sér á annarri vinnu þá mánuði sem strandveiðar eru ekki stundaðar. Með auknu atvinnuleysi skiptir enn meira máli að fyrirsjáanleiki og vissa sé til staðar í strandveiðum til að tryggja afkomu einstaklinga og fjölskyldna. Markmið aðgerðarinnar er að efla atvinnu og tryggja afkomu fólks vítt og breitt um landið.
    Strandveiðar hafa verið stundaðar frá 30. júní 2009. Frá árinu 2010 hafa veiðar verið heimilaðar árlega í fjóra mánuði frá maí fram í ágúst. Veiðisvæði strandveiðibáta eru fjögur og eru leyfi til strandveiða gefin út miðað við heimilisfesti viðkomandi útgerðar. Auk náttúrulegra aðstæðna, veðurs og fiskgengdar á grunnslóð er einungis heimilt að stunda veiðarnar fjóra daga í viku frá mánudegi til fimmtudags. Hver veiðiferð má ekki standa lengur en í 14 klukkustundir. Veiðarnar eru skilyrtar við veiði með handfærum og afli hvers dags má ekki fara umfram 650 þorskígildi.
    Fram til ársins 2018 var áætluðum afla til strandveiða skipt niður á veiðisvæði og mánuði. Þegar viðmiðun hvers mánaðar var náð voru veiðar stöðvaðar. Þeir meinbugir voru á þeirri stjórnun að spenna hlóðst upp þegar stutt var í lokun svæða. Þótti það bjóða hættunni heim og var því ákveðið að gera breytingar á kerfinu. Jafnframt myndaðist ójafnræði í fjölda daga á milli veiðisvæða.

Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.


    Við breytingar á strandveiðikerfinu 2018 var horfið frá skiptingu afla á svæði og strandveiðileyfi takmörkuð við 48 veiðidaga, tólf í hverjum mánuði. Með breytingunum var gert ráð fyrir að sá afli sem var tilgreindur til strandveiða dygði til að tryggja 48 veiðidaga. Veiðiárin 2018 og 2019 gekk það eftir, en á árinu 2020 nægði viðmiðun hins vegar ekki til að mæta afla strandveiðibáta. Þegar ljóst varð að sú yrði raunin stöðvaði Fiskistofa veiðarnar 19. ágúst með tilheyrandi ójafnvægi á milli svæða með tilliti til misjafnrar fiskgengdar innan svæða eftir mánuðum.

Strandveiðar
– þorskur
Fjöldi Viðmið Afli
2018 548 bátar 10.200 tonn1 9.070 tonn
2019 623 bátar 11.100 tonn1 9.328 tonn
2020 669 bátar 10.720 tonn2 10.751 tonn
1 Af óslægðum botnfiski.
2 Upphafleg viðmiðun 10.000 tonn.

    Þegar litið er til upphafs strandveiða á yfirstandandi veiðitímabili er ólíklegt að 10.000 tonn muni tryggja veiðar til ágústloka. Afli fyrstu sjö dagana hefur aukist um 37% frá sömu viðmiðun árið 2020 og allt útlit er fyrir að um 700 bátar stundi strandveiðar í ár. Samkvæmt tölum undanfarinna þriggja ára hefur bátum á strandveiðum fjölgað. Margar ástæður liggja þar að baki, m.a. aukið atvinnuleysi meðal landsmanna og samþjöppun aflaheimilda sem hefur aukið eftirspurn eftir veiðiheimildum. Auk þess hefur störfum við fiskveiðar fækkað.
    Þar sem aflaviðmiðun dugði ekki árið 2020 og miklar líkur eru á áframhaldandi fjölgun báta samfara auknum afla ákvað ráðherra að óheimilt yrði að stunda strandveiðar á yfirstandandi veiðitímabili á rauðum dögum; uppstigningardegi, öðrum í hvítasunnu, 17. júní og frídegi verslunarmanna. Þrátt fyrir þær ráðstafanir er ólíklegt að viðmiðunarafli dugi til loka tímabilsins. Einnig er sú hætta til staðar að fækkun veiðidaga leiði til sams konar spennu og myndaðist í kerfinu fyrir breytingarnar 2018 og 48 daga kerfinu var ætlað að leysa. Þó að fjölgun „banndaga“ sé óveruleg leggst hún saman við veður og aðstæður hverju sinni.
    Með breytingum þeim sem hér eru lagðar til er gert ráð fyrir sveigjanleika í viðmiðunarafla til strandveiða. Samkvæmt reglugerð nr. 726/2020, um veiðar í atvinnuskyni, er viðmiðunarafli til strandveiða 10.000 tonn af þorski. Verði þörf á að hækka þá viðmiðun kæmi sá afli frá þorskveiðiheimildum almenna byggðakvótakerfisins sem og skel- og rækjuuppbótum fiskveiðiársins 2021–2022. Ekki skal skerða sérstaka byggðakvótann þar sem gildandi samningar kveða þegar á um ákveðið magn. Skiptir og miklu að Fiskistofa stöðvi ekki veiðar, sbr. 2. málsl. 2. mgr. 6. gr. a laga nr. 116/2006, sem ráðherra hefur heimilað á grundvelli bráðabirgðaákvæðisins. Þá skal ráðherra tryggja að flutningsheimild skerði ekki veiðiheimildir dagróðrabáta á næsta fiskveiðiári til að tryggja atvinnu og rekstrarafkomu þeirra.