Ferill 369. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


151. löggjafarþing 2020–2021.
Þingskjal 1692  —  369. mál.
2. umræða.



Nefndarálit


um frumvarp til laga um Hálendisþjóðgarð.

Frá 1. minni hluta umhverfis- og samgöngunefndar.


    Fyrsti minni hluti telur það vera fyrirslátt að bera fyrir sig tímaskort vegna heimsfaraldurs kórónuveiru þegar kemur að jafn mikilvægu máli og Hálendisþjóðgarður er. 1. minni hluti fellst ekki á slíkar útskýringar og bendir á að frumvarpið var lagt fram fyrir rúmum sex mánuðum. Fyrir þann tíma hafði málið, sem var eitt af stærsta áherslumálunum í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar, verið í a.m.k. tveggja ára samráðsvinnu og kynningarferli um allt land.
    Við meðferð málsins fékk nefndin til sín fjölda sérfræðinga og hagsmunaaðila og 155 umsagnir bárust vegna málsins. Ráðherra og ríkisstjórnin hafa haft nægan tíma til þess að vinna að málinu og hefur fjöldi funda átt sér stað í samfélaginu um þetta mál.
    Meiri hlutanum er tíðrætt um samstöðu en ljóst er að pólitískan vilja skortir meðal ríkisstjórnarflokkanna til þess að klára málið. Þetta er staðan þrátt fyrir gríðarlegar málamiðlanir gagnvart þeim sem vilja halda því opnu að nýjar virkjanir verði bæði innan þjóðgarðsins og í jaðri hans.
    Samfylkingin hefur barist fyrir þjóðgarði á miðhálendi Íslands alla tíð. Það eru því mikil vonbrigði að svæfa eigi nú eitt stærsta baráttumál umhverfissinna til margra ára.
    Fyrsti minni hluti telur að sú tillaga meiri hlutans að vísa frumvarpinu til ríkisstjórnarinnar sé uppgjöf.

Alþingi, 10. júní 2021.

Guðjón S. Brjánsson.