Ferill 360. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


151. löggjafarþing 2020–2021.
Þingskjal 1754  —  360. mál.
Síðari umræða.



Nefndarálit með breytingartillögu


um tillögu til þingsályktunar um græna atvinnubyltingu.

Frá minni hluta efnahags- og viðskiptanefndar.


    Tillaga til þingsályktunar um græna atvinnubyltingu er lögð fram með það að markmiði að fjölga störfum, örva eftirspurn og styðja við loftslagsvæna verðmætasköpun á Íslandi. Tillagan er jafnframt lögð fram með tilliti til alþjóðlegra loftslagsskuldbindinga Íslands á tímum hamfarahlýnunar og í ljósi efnahagssamdráttar, sögulegs fjöldaatvinnuleysis og framleiðsluslaka vegna kórónuveirufaraldursins. Með grænu atvinnubyltingunni er m.a. lagt til að stofnaður verði grænn fjárfestingarsjóður með fimm milljarða kr. í stofnfé, sem styðji við loftslagsvæna atvinnuuppbyggingu og grænan hátækniiðnað. Orkuskiptum verði hraðað, ráðist verði í stuðning við grænmetisframleiðslu og skipulega uppbyggingu iðngarða, ráðist verði í kraftmikið skógræktarátak og stóreflingu almenningssamgangna um allt land. Með þessu væri hægt að slá tvær flugur í einu höggi: Örva eftirspurn og atvinnu en um leið skapa grænna og sjálfbærara samfélag á Íslandi og greiða leiðina að metnaðarfyllri loftslagsmarkmiðum á næstu árum. Minni hlutinn telur að markaðurinn muni aldrei einn og sér leysa þetta stóra vandamál sem við stöndum frammi fyrir sem er hlýnun jarðar. Til þess þurfi samstarf hins opinbera og einkageirans. Hins vegar þarf pólitíska forystu til að leiða umbreytingarnar.

Grænn fjárfestingarsjóður.
    Lagt er til að komið verði á fót grænum fjárfestingarsjóði til að styðja við þróun loftslagslausna og græns hátækniiðnaðar og auka vægi loftslagsvænnar atvinnuuppbyggingar á Íslandi. Eins og stjórn Grænu orkunnar bendir á í umsögn sinni hefur verið skortur á fjárfestingu í fyrirtækjum og verkefnum sem skila nægilegum samdrætti losunar innan tímaramma aðgerðaáætlunar í loftslagsmálum.
    Til þess að réttlæta beina þátttöku ríkissjóðs í fjármögnun og rekstri fjárfestingarsjóðs þurfa markmið og árangursmælikvarðar, aðrir en bein fjárhagsleg arðsemi, að vera mjög skýrir. Þau þrjú svið sem vega þyngst þegar horft er til meginmarkmiða aðgerðaáætlunar í loftslagsmálum eru landsamgöngur, umsvif skipa og orkuframleiðsla.
    Minni hlutinn tekur undir það sem fram kemur í umsögn stjórnar Grænu orkunnar að mikilvægt sé að Alþingi taki skýra afstöðu til þess hvar fjármagn skorti á þessu sviði og hvert hlutverk hins opinbera eigi að vera í tengslum við aukna fjárfestingu á sviðinu. Aukið gagnsæi væri fengið með því að setja fram skýr markmið fyrir þátttöku fjárfestingarsjóðsins í verkefnum á þessum þremur afmörkuðu sviðum.
    Stjórn Landverndar hefur líka bent á að gera þurfi grænar fjárfestingar arðbærar þannig að einnig megi virkja almenna fjárfesta í fjárfestingum sem örva þróun græna hagkerfisins. Í þessu sambandi telur minni hlutinn mikilvægt að hafa í huga fjárhagslegar ívilnanir til grænna fjárfestinga til viðbótar við umhverfisgjöld og skatta og þá staðreynd að gjald á losun gróðurhúsalofttegunda er skilvirk leið til að örva grænar fjárfestingar og beina fjárfestingum í þá átt. Þá leggur minni hlutinn áherslu á að gjaldtaka vegna losunar kolefnis verði að vera sanngjörn til að ná fram kolefnishlutleysi. Byggja þurfi á hugmyndum um sanngjörn umskipti og tryggja að samráð sé haft við samtök launafólks og atvinnulífs við allar breytingar á sköttum og öðrum gjöldum og tryggt sé að þær breytingar bitni ekki á tekjulægri hópum og heildaráhrif komi ekki ójafnt niður á fólki eftir fjárhag, félagslegri stöðu eða eftir því hvar á landinu það býr.

Metnaðarfyllri loftslagsmarkmið.
    Í þingsályktunartillögunni er kveðið á um að umhverfis- og auðlindaráðherra hafi forgöngu um að mótuð verði ný aðgerðaáætlun í loftslagsmálum sem geri ráð fyrir 60% samdrætti í losun gróðurhúsalofttegunda fyrir árið 2030 miðað við árið 2005. Markmið um kolefnishlutleysi árið 2040 verði fest í lög, skerpt á sjálfstæði og aðhaldshlutverki loftslagsráðs gagnvart stjórnvöldum og stjórnsýsla loftslagsmála efld.
    Í umsögn Landsnets kemur fram ákall um metnaðarfyllri loftslagsmarkmið. Tekur Landsnet undir þörfina á metnaðarfullum loftslagsmarkmiðum og bendir jafnframt á að ein áhrifaríkasta lausnin sé aukin og bætt nýting innlendra endurnýjanlegra orkugjafa í stað jarðefnaeldsneytis. Við uppbyggingu flutningskerfis raforku er m.a. horft til stefnu stjórnvalda sem birtist í þingsályktun um stefnu stjórnvalda um uppbyggingu flutningskerfis raforku. Metnaðarfyllri loftslagsmarkmið kunna að setja aukinn þrýsting á framkvæmdir í flutningskerfinu en mikilvægt er að slík markmið skili sér inn í stefnu um uppbyggingu flutningskerfisins. Landsnet bendir á mikilvægi aðgengis að innlendri grænni orku í orkuskiptunum og tekur skýrt fram að stofnunin muni leggja sitt af mörkum til að uppbygging og þróun raforkuflutningskerfisins styðji vel við áætlanir um orkuskipti.
    Landvernd segir lögfestingu markmiða í loftslagsmálum áríðandi til þess að meiri líkur séu á því að markmiðin lifi af stjórnarskipti og til þess að bæði almenningur og Alþingi hafi betri möguleika til aðhalds ef ríkisstjórnir standa ekki við markmiðin. Með því að lögfesta markmið sýna Alþingi og stjórnarflokkarnir að þeim er alvara með að ná markmiðum í loftslagsmálum. Minni hlutinn tekur undir framangreind sjónarmið.

Efling almenningssamgangna.
    Efling almenningssamgangna er einn stærsti liðurinn í því að stuðla að því að markmiðum um kolefnishlutleysi verði náð. Með því að auka vægi almenningssamgangna rýmkast um aðra umferð á samgönguæðum höfuðborgarsvæðisins og meira svigrúm veitist fyrir val á samgönguleiðum. Efling landsbyggðarstrætós eykur við valkosti almennings og gerir fólki auðveldara fyrir að ferðast á milli landshluta með strætisvagni. Því þarf að styrkja almenningssamgöngur um allt land. Í efnahagsástandinu í kjölfar kórónuveirufaraldursins er kjörið að flýta fyrir framkvæmdum á Borgarlínu; framkvæmdirnar eru mannfrekar, búa til störf og skila jafnframt miklum loftslagsávinningi.
    Í umsögn ungra umhverfissinna er eflingu almenningssamgangna og landsbyggðarstrætós fagnað sérstaklega og benda þau á að ungt fólk sé almennt opið fyrir framsæknum breytingum í samgöngumálum. Að mati minni hlutans fælist mikil samgöngubót í því að flýta Borgarlínu og það mundi skila miklum loftslagsávinningi.

Hröðun orkuskipta.
    Minni hlutinn telur brýnt að ráðast í markvissar aðgerðir til að hraða orkuskiptum á láði og legi. Stutt verði enn frekar við uppbyggingu rafhleðslustöðva um allt land með það fyrir augum að nýskráningu bensín- og dísilbíla verði hætt frá og með árinu 2025 enda sé það metnaðarfyllra en að miða við árið 2030. Styrkja þarf flutnings- og dreifikerfi rafmagns svo að kerfið standi undir auknu álagi, m.a. vegna rafvæðingar hafna. Stefna skal að því að tvöfalda framlög til Orkusjóðs, m.a. til að styðja við kaup á vistvænum tækjum, bæði vegna iðnaðar og samgangna á landi og í skipum og haftengdri starfsemi.

Stórsókn í nýsköpun og þróun og uppbygging iðngarða.
    Minni hlutinn telur mikilvægt að stórauka rannsóknir og þróun hérlendis á sviði framleiðslu og nýtingar á endurnýjanlegu eldsneyti. Með því er hægt að fjölga tækifærum fyrir atvinnusköpun og hálaunuðum tæknistörfum. Áætlanagerð á þessu sviði hefur verið fremur almenn fram að þessu. Stjórn Grænu orkunnar nefnir í umsögn sinni nýtingu vistvæns eldsneytis á skipum sem dæmi um nýsköpunarverkefni sem brýnt er að fjármagna. Í því samhengi væri nýtt hafrannsóknarskip gullið tækifæri til að nýta vistvænt eldsneyti og tengja það fræðslu, rannsóknum og þróun hér á landi. Jafnframt leggur Græna orkan það til að hið opinbera gæti með skattaívilnunum í formi reglna um hraða afskrifta, eða með úthlutun kvóta, liðkað fyrir fjárfestingu í breytingum á vélbúnaði skipa eða nýsmíði hreinorkuskipa. Með því að stuðla að markaði fyrir vistvænt eldsneyti af innlendum uppruna mætti vinna stærri hluta þessara verkefna hér á landi og þá næðust einnig markmið tillögunnar um græna atvinnusköpun og að byggja upp dýrmæta þekkingu hér á landi varðandi nýtingu eldsneytis af innlendum uppruna, umgengni og málum er snúa að öryggi.
    Minni hlutinn telur að nauðsynlegur hluti af grænni atvinnubyltingu sé að skapa umhverfi sem nýtist til fjölbreyttrar atvinnu- og verðmætasköpunar. Gera þarf áætlun um að skipaður verði starfshópur um skipulega uppbyggingu iðngarða á Íslandi þar sem virði hreinnar orku er hámarkað, svo sem til uppbyggingar í matvælaiðnaði, lífrænni eldsneytisframleiðslu, líftækni og garðyrkju. Hafist verði handa við breytingar á lögum, regluverki og leyfiskerfum til að liðka fyrir slíkri starfsemi. Að því er snertir uppbyggingu iðngarða bendir Landsnet á í umsögn að ákvæði raforkulaga sem tengjast fjölnýtingu auðlindastrauma séu ófullkomin og þarfnist endurskoðunar. Mikilvægt er að regluverkið sé gagnsætt og skýrt að því er varðar skipulag þessara mála og réttarstöðu. Minni hlutinn tekur undir þessi sjónarmið og telur ljóst að úrbætur á þessu sviði muni hjálpa hagaðilum í þróun nýrra umhverfisvænna atvinnutækifæra, m.a. í nærsamfélögum sem minnki kolefnisfótspor, og einnig gera þau sem byggja og reka innviði skilvirkari og fljótari í viðbrögðum sínum við örum framförum á tæknisviðinu.
    Að framangreindu virtu leggur minni hlutinn til að málið verði samþykkt með eftirfarandi

BREYTINGU:


    Í stað dagsetningarinnar „1. maí 2021“ í tillögugreininni komi: 1. janúar 2022.

Alþingi, 12. júní 2021.

Rósa Björk Brynjólfsdóttir,
frsm.
Jón Steindór Valdimarsson. Smári McCarthy.