Ferill 558. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


151. löggjafarþing 2020–2021.
Þingskjal 1794  —  558. mál.
2. umræða.



Nefndarálit


um frumvarp til laga um brottfall laga um leit, rannsóknir og vinnslu kolvetnis, nr. 13/2001 (bann við leit og vinnslu jarðefnaeldsneytis).

Frá minni hluta atvinnuveganefndar.


Inngangur.
    Með frumvarpinu er lagt til að leit að jarðefnaeldsneyti á íslensku yfirráðasvæði verði óheimil. Íslendingar hafa mikilvægu hlutverki að gegna, rétt eins og aðrar þjóðir heims, þegar kemur að því að bregðast við aðsteðjandi loftslagsvá, draga úr losun gróðurhúsalofttegunda og tryggja að hlýnun jarðar verði ekki meiri en 1,5°C. Nauðsynlegt er nú að leita allra leiða til að minnka losun koldíoxíðs, m.a. með því að draga úr eða hætta alveg notkun á jarðefnaeldsneyti. Að hefja í fyrsta sinn jarðefnaeldsneytisvinnslu af hálfu íslenskra aðila á slíkum tímum væri skref í þveröfuga átt og reyndar glapræði að mati minni hluta nefndarinnar.
    Alþjóðaorkumálastofnunin gaf nýlega út skýrslu þar sem fram kemur að hætta verði öllum fjárfestingum í jarðefnaeldsneyti ef þetta takmark á að nást og ef koma á í veg fyrir óafturkræfan skaða á jörðinni. Því til viðbótar má benda á að engin virk leit að olíu í lögsögu Íslands stendur nú yfir og eru því engir beinir hagsmunir sem fara forgörðum við slíkt bann. Eru því engin rök sem standa til þess að viðhalda núgildandi lagaramma utan um slíka starfsemi.

Mikilvægi tafarlauss afnáms laganna.
    Í áliti meiri hluta nefndarinnar kemur fram sá rökstuðningur að nægur tími sé til að „skoða“ málið vegna þess að á þessum tímapunkti hafi enginn aðili leyfi til leitar eða vinnslu samkvæmt lögunum. Minni hlutinn bendir á að engin trygging er fyrir því að staðan verði þannig áfram.
    Óljóst er hver réttarstaða mögulegs leitar- og vinnsluaðila yrði ef leit hæfist samkvæmt núgildandi lögum en búið væri að afnema þau þegar vinnsla væri fyrirhuguð. Telur minni hlutinn því brýnt að afnema lögin sem fyrst til þess að fyrirbyggja að umsókn um leit eða vinnslu standi afnámi laganna fyrir þrifum. Í því sambandi gagnrýnir minni hlutinn fyrirætlan meiri hlutans um að vísa málinu til ríkisstjórnarinnar með tilheyrandi töfum og óvissu, enda með öllu óljóst í þokkabót hvort stjórnarmeirihluti næsta kjörtímabils hafi nokkurn áhuga á því að afnema lögin og enn síður á því að setja það í hæfilegan forgang.

Óljósar væntingar meiri hluta nefndarinnar.
    Í áliti meiri hluta nefndarinnar kemur fram að hann árétti „þó mikilvægi þess að Ísland grípi til markvissra og ákveðinna aðgerða í baráttunni gegn loftslagsbreytingum í samræmi við metnaðarfullan stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar og markmiðið um kolefnishlutlaust Ísland eigi síðar en árið 2040“. Minni hlutinn gagnrýnir að þrátt fyrir þessa áréttingu hafni meiri hlutinn því að stíga nein skref á þessum tímapunkti. Minni hlutinn bendir sömuleiðis á að hvergi í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar er kveðið á um afnám laganna sem lagt er til að verði afnumin í frumvarpinu. Reyndar eru þær væntingar ekki skýrar í áliti meiri hlutans heldur.
    Hinn 2. október 2020 kynnti ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra nýja langtímaorkustefnu fyrir Ísland, sem ber heitið „Orkustefna til ársins 2050: Sjálfbær orkuframtíð“. Í orkustefnunni er gert ráð fyrir því að árið 2050 hafi jarðefnaeldsneyti alfarið vikið fyrir endurnýjanlegum orkugjöfum hér á landi. Slík markmið eru í samræmi við aðra stefnumótun stjórnvalda, m.a. aðgerðaáætlun í loftslagsmálum til ársins 2030, þar sem stefnt er að því að Ísland verði kolefnishlutlaust fyrir árið 2040.

Ísland í fararbroddi.
    Þegar samstillt átak er nauðsynlegt um allan heim til að ná markmiðum um að takmarka hlýnun jarðar eiga Íslendingar að vera fyrirmynd annarra þjóða um aðgerðir og árangur í loftslagsmálum. Bann við leit og vinnslu jarðefnaeldsneytis í íslenskri lögsögu, þar sem slíkar auðlindir kann þó að vera að finna, skapar þrýsting á aðrar þjóðir um að hætta vinnslu sinni eða láta af áætlunum um að auka við hana. Samþykkt frumvarpsins getur sent mikilvæg skilaboð til umheimsins og nágrannaþjóða okkar, sem sumar stunda enn vinnslu jarðefnaeldsneytis, um að nú sé tími til að hætta slíkri vinnslu. Minni hlutinn leggur til að frumvarpið verði samþykkt óbreytt.

Alþingi, 12. júní 2021.

Helgi Hrafn Gunnarsson,
frsm.
Oddný G. Harðardóttir.