Ferill 171. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


151. löggjafarþing 2020–2021.
Þingskjal 1848  —  171. mál.




Svar


fjármála- og efnahagsráðherra við fyrirspurn frá Bergþóri Ólasyni um nýja Landspítalann.


    Fyrirspurnin hljóðar svo:
     1.      Hefur stjórn Nýs Landspítala ohf., eða til þess bærir aðilar fyrir hönd stjórnar, sent stjórnvöldum uppfærða kostnaðaráætlun fyrir byggingu nýs Landspítala?
     2.      Í hvaða verkþáttum eru frávik og eru þau til hækkunar eða lækkunar miðað við grunnkostnaðaráætlun?
     3.      Hvað er kostnaðurinn mikið umfram, eða undir, grunnáætlun við hvern verkþátt, miðað við raunkostnað þar sem gögn liggja fyrir og svo uppfærðar áætlanir þar sem þær liggja fyrir?


    Nýr Landspítali ohf. (NLSH) sendir árlega uppfærða kostnaðaráætlun til bæði heilbrigðisráðuneytis og fjármála- og efnahagsráðuneytis í tengslum við undirbúning fjármálaáætlunar og fjárlagagerð komandi ára eftir að hún hefur fengið umfjöllun í stjórn NLSH. Upplýsingar um framkvæmdaáform eru birtar í þeim áætlunum og fjárlagafrumvarpi þar sem útgjaldaheimilda er aflað.
    Þegar frávik frá grunnkostnaðaráætlun eru metin þarf að skoða hvaða forsendur og áform fólust í henni. Áform um byggingu nýs Landspítala má rekja allt til ársins 2001 þegar fyrstu tillögur að uppbyggingu við Hringbraut komu fram en þær forsendur sem lágu þar fyrir voru rýndar, endurskoðaðar og endurmetnar af ýmsum aðilum næstu árin þar á eftir. Árið 2010 var NLSH stofnað með lögum nr. 64/2010. Var þá efnt til hönnunarsamkeppni sem unnið var út frá og lá forhönnun fyrir árið 2013. Vinna við verkefnið var í láginni til ársins 2016 þegar starfsemi verkefnastofu NLSH hófst en bygging sjúkrahótelsins var þá hafin. Fyrstu áætlanir verkefnastofu, sem eru ígildi grunnáætlunar, taka til sjúkrahótels, meðferðarkjarna, rannsóknarhúss, bílastæða- og tæknihúss og annarra þátta sem m.a. ná yfir götur, veitur, lóðaframkvæmdir, tengibrýr og þyrlupall.
    Upphaflegar áætlanir um verkefni NLSH lutu fyrst og fremst að uppbyggingu nýrra bygginga en vörðuðu að litlu leyti ráðstöfun og aðlögun eldra húsnæðis eða kaup á nýjum tækjabúnaði. Allt skipulag og stjórnun verkefnisins hefur þannig tekið mið af brýnum nýframkvæmdum sem fælu í sér viðbót við aðrar fasteignir sem Landspítalinn (LSH) nýtir nú þegar. Alla tíð hefur legið fyrir að skapa þyrfti skýra sýn á það hvernig umgjörð og aðstöðu fyrir starfsemi spítalans yrði hagað í heild og þar með að tryggja þyrfti fjárfestingu í tækjum og öðrum innviðum sem nauðsynlegir eru til að spítalinn geti gegnt hlutverki sínu sem burðarás í íslensku heilbrigðiskerfi. Í því felst að taka þyrfti afstöðu til þess hvernig nýta ætti eldri byggingar og búnað, hvaða endurbóta á þeim væri þörf og eftir atvikum hvaða byggingar yrðu ekki nýttar undir starfsemi spítalans, í samræmi við skilgreinda heilbrigðisstefnu stjórnvalda og þá þróun sem vænta má að verði á eðli og fyrirkomulagi heilbrigðisþjónustu, verkaskiptingu stofnana og rekstri sjúkrahúsa á næstu áratugum.
    Eins og fjallað er um í rammagrein 10 í fjármálaáætlun 2022–2026 hafa heilbrigðisráðherra og fjármála- og efnahagsráðherra tekið ákvörðun um að endurskoða umfang og skipulag fjárfestinga og framkvæmda í því skyni að styrkja heildarsýn og til að tryggja skýra forgangsröðun og góða nýtingu fjármuna. Settur hefur verið á fót nýr stýrihópur sem ber ábyrgð á samhæfingu og stjórn allra meginþátta þess. Er stýrihópnum m.a. falið að staðfesta áætlanir, tryggja að verkefnið í heild lúti áherslum stjórnvalda um hlutverk LSH og endurmeta fyrirliggjandi áætlanir þar sem horft er til heildarskipulags, nýbygginga, nýtingar og aðlögunar eldri bygginga og öflunar tækjabúnaðar. Enn fremur er stýrihópnum falið að skilgreina þau verkefni sem NLSH ohf. er ætlað að annast og tryggja að uppbygging aðstöðu sé í samræmi við þau og fjalla um allar meiri háttar ákvarðanir sem teknar eru á vettvangi NLSH ohf. og veita álit sitt á þeim.
    Heildarmat kostnaðar við nýbyggingar sem gert var 2017 var 62,8 milljarðar kr., uppfært til verðlags í desember 2020. Árlegt endurmat NLSH á kostnaði, sem tók mið af stækkun húsbygginga og breyttu umfangi, breyttu formi húss, auknum burðarþolskröfum, breytingum á útveggjaformi, gengisbreytingum og almennum breytingum á heimsmarkaði (svo sem stálverði), gerir ráð fyrir að kostnaður við nýbyggingar verði 79,1 milljarður kr. á verðlagi desember 2020. Áfallinn kostnaður í verkefninu frá 2010 er 12,4 milljarðar kr. sem að stórum hluta er bygging sjúkrahótels, gatnagerð, hönnunar- og skipulagsgerð og jarðvinna meðferðarkjarna. Endurmat kostnaðar fer fram árlega með hliðsjón af þeim áætlunum um uppbyggingu Landspítala sem byggt er á hverju sinni.
    Frávik í kostnaði koma fram eftir að verkhlutar hafa verið unnir í samræmi við hönnunar- eða framkvæmdasamninga og eru frávikin skýrð í skilamati verkefna. Tveimur framkvæmdaverkefnum er lokið; sjúkrahóteli og gatnagerð við Hringbraut. Frávik kostnaðar við sjúkrahótel voru 8,3% og var það innan skilgreindra óvissumarka. Gatnagerðarverkefni er nýlokið og stendur skilamat þess verkefnis yfir. Benda frumniðurstöður til að niðurstaða kostnaðar sé innan óvissumarka og ófyrirséðs kostnaðar.
    Hafinn er undirbúningur að áætlanagerð fyrir verkefnið í heild sinni, sbr. það sem að framan greinir. Munu þær áætlanir taka til þeirra nýbygginga sem NLSH ohf. hefur unnið að á síðustu árum en einnig til endurgerðar eldri bygginga, kaupa á tækjabúnaði og fjárfestinga í öðrum innviðum, auk kostnaðar við flutning starfseminnar í ný eða aðlöguð eldri hús. Standa vonir til þess að heildstæð áætlun um verkefnið allt geti legið fyrir seint á árinu 2022 en útilokað er að ljúka henni fyrr þar sem ekki hefur enn verið ákveðið hvað af eldra húsnæði spítalans verður nýtt og hvaða breytingar þarf að gera á því.