Ferill 830. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


151. löggjafarþing 2020–2021.
Þingskjal 1878  —  830. mál.
Svar


forsætisráðherra við fyrirspurn frá Þorsteini Sæmundssyni um kostnað við ferðir ráðherra innan lands.


    Fyrirspurnin hljóðar svo:
     1.      Hver var kostnaður vegna ráðherrabílstjóra, þ.e. laun, launatengd gjöld og annar kostnaður, á árunum 2017–2019?
     2.      Hver var rekstrarkostnaður ráðherrabíls á árunum 2017–2019? Ef bílar voru fleiri en einn óskast svar sundurliðað.
     3.      Hver var gistikostnaður vegna ferða ráðherra innan lands á árunum 2017–2019?
     4.      Hverjar voru dagpeningagreiðslur vegna ferða ráðherra innan lands á árunum 2017– 2019?
     5.      Hver var annar kostnaður vegna ferða ráðherra innan lands á árunum 2017–2019?
    Svar óskast sundurliðað eftir árum.


    1.–2. tölul.
    Í svari við fyrirspurn frá Birni Leví Gunnarssyni um ráðherrabíla og bílstjóra á 148. löggjafarþingi (þskj. 715, 275. mál) er sýndur rekstrarkostnaður ráðherrabifreiðar og kostnaður vegna bílstjóra og öryggisgæslu sem bílstjórar hafa með höndum árið 2017.
    Umbra, þjónustumiðstöð Stjórnarráðsins, tók yfir rekstur sérútbúinna ráðherrabifreiða og starfssamband við ráðherrabílstjóra í apríl 2018. Frá þeim tíma hefur kostnaður vegna bifreiða og bílstjóra komið af fjárveitingum Umbru. Eftirfarandi yfirlit sýnir kostnað vegna ráðherrabílstjóra og ráðherrabifreiðar á umræddu tímabili samkvæmt upplýsingum frá Umbru. Launakostnaður felur í sér laun og önnur starfskjör og er um að ræða hlutdeild í framangreindum heildarkostnaði Umbru en ekki kostnað vegna tiltekinna bílstjóra. Að sama skapi er kostnaði vegna ráðherrabifreiða skipt hlutfallslega milli ráðherra.
Tegund 2017 2018 2019
Launakostnaður 14.240.663 kr. 15.284.616 kr. 18.862.315 kr.
Bifreiðakostnaður 2.122.866 kr. 1.619.769 kr. 2.357.248 kr.

    3.–5. tölul.
    Eftirfarandi yfirlit sýnir gistikostnað, dagpeningagreiðslur og annan kostnað vegna ferða ráðherra innan lands á umræddu tímabili.
Tegund 2017 2018 2019
Gistikostnaður 0 kr. 68.922 kr. 37.900 kr.
Dagpeningagreiðslur 0 kr. 0 kr. 0 kr.
Annar kostnaður 0 kr. 12.800 kr. 0 kr.