Ferill 4. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Microsoft Word.


152. löggjafarþing 2021–2022.
Þingskjal 4  —  4. mál.
Stjórnarfrumvarp.



Frumvarp til laga


um breytingu á ýmsum lögum um skatta og gjöld (gjalddagar, refsinæmi o.fl.).

Frá fjármála- og efnahagsráðherra.



I. KAFLI

Breyting á lögum um tekjuskatt, nr. 90/2003.

1. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 9. tölul. 4. gr. laganna:
     a.      Í stað orðanna „fyrirtækjaskrá Skattsins“ í 1. málsl. kemur: Skattinum.
     b.      2. málsl. orðast svo: Ákvæði II.–VI. og VIII. kafla laga um félög til almannaheilla, nr. 110/2021, gilda um lögaðila eftir því sem við á vegna skráningar og hæfis lögaðila í almannaheillaskrá Skattsins.
     c.      Á eftir 2. málsl. koma þrír nýir málsliðir, svohljóðandi: Þá er það skilyrði fyrir skráningu lögaðila í almannaheillaskrá að staðin hafi verið skil á ársreikningi til ríkisskattstjóra og að ekki sé um að ræða vanskil eða áætlanir skatta, skattsekta, gjalda og skýrsluskila. Ákvörðun ríkisskattstjóra um höfnun á skráningu í almannaheillaskrá eða afskráningu er kæranleg til yfirskattanefndar. Kærufrestur er 30 dagar og reiknast frá dagsetningu ákvörðunar ríkisskattstjóra.

2. gr.

    Í stað orðanna „fyrirtækjaskrá Skattsins“ í 2. málsl. 7. tölul. A-liðar 1. mgr. 30. gr. og 3. málsl. 2. tölul. 31. gr. laganna kemur: Skattinum.

3. gr.

    Í stað orðanna „og 2022“ og „og 2021“ í 1. málsl. 1. mgr. 1. tölul. B-liðar 1. mgr. 30. gr. laganna kemur: 2022, 2023, 2024 og 2025; og: 2021, 2022, 2023 og 2024.

4. gr.

    Á eftir 4. mgr. 92. gr. laganna kemur ný málsgrein, svohljóðandi:
    Aðilar skráðir í almannaheillaskrá, sbr. 9. tölul. 4. gr., skulu ótilkvaddir veita ríkisskattstjóra ókeypis og á því formi sem hann ákveður upplýsingar um mótteknar gjafir og/eða framlög til starfsemi sem telst til almannaheilla skv. 2. mgr. 4. tölul. 4. gr., sbr. og 7. tölul. A-liðar 1. mgr. 30. gr. og 2. tölul. 31. gr.

5. gr.

    Á eftir 1. málsl. 1. mgr. 109. gr. laganna kemur nýr málsliður, svohljóðandi: Sama gildir um tekjuskatt vegna tekna manns sem telja ber fram hjá því hjóna sem hærri hefur hreinar tekjur, sbr. 2. tölul. 1. mgr. 62. gr.

6. gr.

    Á eftir 1. málsl. 4. mgr. 112. gr. laganna kemur nýr málsliður, svohljóðandi: Framteljanda er heimilt við framtalsskil áður en álagning fer fram að óska eftir að greiða eftirstöðvar skv. 1. málsl. í einu lagi á fyrsta gjalddaga eftir álagningu. Eftir að framtali hefur verið skilað er ekki unnt að óska eftir breytingu á greiðslufyrirkomulagi.

7. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á ákvæði til bráðabirgða LXVII í lögunum:
     a.      Í stað orðanna „og 2022“ og „og 2021“ í 1. málsl. kemur: 2022, 2023, 2024 og 2025; og: 2021, 2022, 2023 og 2024.
     b.      Í stað orðanna „og 2021“ í 2. málsl. kemur: 2021, 2022, 2023 og 2024.

II. KAFLI

Breyting á lögum um Ríkisútvarpið, fjölmiðil í almannaþágu, nr. 23/2013.

8. gr.

    Á eftir 2. málsl. 3. mgr. 14. gr. laganna kemur nýr málsliður, svohljóðandi: Framteljanda er heimilt við framtalsskil áður en álagning fer fram að óska eftir að greiða eftirstöðvar skv. 1. málsl. í einu lagi á fyrsta gjalddaga eftir álagningu. Eftir að framtali hefur verið skilað er ekki unnt að óska eftir breytingu á greiðslufyrirkomulagi.

III. KAFLI

Breyting á lögum um umhverfis- og auðlindaskatta, nr. 129/2009.

9. gr.

    Í stað orðanna „500.000 kr. á ári“ í 2. mgr. 6. gr. laganna kemur: 2.000.000 kr. á hverju 12 mánaða tímabili frá því að starfsemi hefst.

IV. KAFLI

Breyting á lögum um virðisaukaskatt, nr. 50/1988.

10. gr.

    Á eftir orðinu ,,vöru“ í 1. málsl. 2. mgr. 8. gr. laganna kemur: eða veitingu þjónustu.

11. gr.

    Á eftir 10. gr. kemur ný grein, 10. gr. a, svohljóðandi:
    Skattaðila, sem móttekur notað lausafé frá einstaklingi utan rekstrar til umboðssölu, er heimilt að miða skattverð við söluþóknun að eftirfarandi skilyrðum uppfylltum:
     1.      Við móttöku notaðs lausafjár til umboðssölu geri einstaklingur og skattaðili með sér skriflegan samning um umboðssöluna þar sem einstaklingur lýsir því yfir að um notað lausafé sé að ræða, að sala þess sé ekki liður í atvinnustarfsemi eða sjálfstæðri starfsemi hans og að lausafjárins hafi ekki verið aflað í þeim tilgangi að selja það aftur með hagnaði.
     2.      Í samningi aðila sé kveðið á um söluþóknun skattaðila sem getur numið tilteknu hlutfalli af söluverði lausafjár eða tiltekinni fastri fjárhæð.
     3.      Samningur aðila sé vistaður meðal bókhaldsgagna skattaðila.
     4.      Að söluverð einstaks lausafjármunar eða samstæðu lausafjármuna nemi að hámarki 100.000 kr.
     5.      Á sölureikningi eða öðrum söluskjölum skattaðila til kaupanda komi fram að skattaðili sé ekki eigandi hins selda lausafjár og ábyrgist ekki eiginleika söluhlutar gagnvart kaupanda.

12. gr.

    Við 2. mgr. 16. gr. laganna bætist nýr málsliður, svohljóðandi: Á sama hátt getur ráðherra sett nánari reglur um afmörkun leiðréttingartímabils.

13. gr.

    Í stað orðanna „fyrirtækjaskrá Skattsins“ í 1. tölul. 3. mgr. 42. gr. A laganna kemur: Skattinum.

14. gr.

    Í stað orðanna ,,evrópsku aksturslotunni vera 45 g“ í 2. málsl. 2. tölul. 6. mgr. ákvæðis til bráðabirgða XXIV í lögunum kemur: samræmdu prófunaraðferðinni vera 50 g.

15. gr.

    Orðið ,,leigusala“ í b-lið 1. mgr. ákvæðis til bráðabirgða XXXIX í lögunum fellur brott.

V. KAFLI

Breyting á lögum um vörugjald af ökutækjum, eldsneyti o.fl., nr. 29/1993.

16. gr.

    2. tölul. 1. mgr. 3. gr. laganna orðast svo: 0,31% á hvert gramm skráðrar koltvísýringslosunar samkvæmt samræmdu prófunaraðferðinni umfram 90 grömm á hvern ekinn kílómetra skráðrar koltvísýringslosunar hafi losunin verið skráð samkvæmt evrópsku aksturslotunni og samræmdu prófunaraðferðinni.

17. gr.

    B-liður 1. mgr. 5. gr. laganna orðast svo: 0,21% á hvert gramm skráðrar koltvísýringslosunar umfram 160 grömm á hvern ekinn kílómetra skráðrar koltvísýringslosunar samkvæmt samræmdu prófunaraðferðinni hafi losunin verið skráð samkvæmt evrópsku aksturslotunni og samræmdu prófunaraðferðinni.

VI. KAFLI

Breyting á lögum um bifreiðagjald, nr. 39/1988.

18. gr.

    Í stað orðanna „133 grömmum af skráðri koltvísýringslosun ökutækis samkvæmt evrópsku aksturslotunni en 139 kr. fyrir hvert gramm af losun umfram það“ í 2. málsl. 2. mgr. 2. gr. laganna kemur: 146 grömmum af skráðri koltvísýringslosun ökutækis samkvæmt samræmdu prófunaraðferðinni en 130 kr. fyrir hvert gramm af losun umfram það.

VII. KAFLI

Breyting á lögum um innheimtu opinberra skatta og gjalda, nr. 150/2019.

19. gr.

    Við 1. málsl. 4. mgr. 11. gr. laganna bætist: ásamt skilagrein.

20. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 14. gr. laganna:
     a.      Eftirfarandi breytingar verða á 1. mgr.:
                  1.      1. málsl. orðast svo: Til tryggingar greiðslu væntanlegrar skattkröfu, fésektar og sakarkostnaðar vegna mála sem sæta skattrannsókn eða lögreglurannsókn er ríkisskattstjóra heimilt að krefjast kyrrsetningar hjá skattaðila og öðrum þeim sem vegna tengsla sinna við mál eru grunaðir um háttsemi er varðar refsingu skv. 109. gr. laga um tekjuskatt, nr. 90/2003, 40. gr. laga um virðisaukaskatt, nr. 50/1988, 30. gr. laga um staðgreiðslu opinberra gjalda, nr. 45/1987, og 19. gr. laga um staðgreiðslu skatts á fjármagnstekjur, nr. 94/1996, ef hætta þykir á að eignum verði ella skotið undan eða þær glatist eða rýrni að mun, enda megi ætla að meint refsiverð háttsemi leiði til sektarákvörðunar skv. 110. gr. laga um tekjuskatt, nr. 90/2003, 41. gr. laga um virðisaukaskatt, nr. 50/1988, 31. gr. um staðgreiðslu opinberra gjalda, nr. 45/1987, og 20. gr. laga um staðgreiðslu skatts á fjármagnstekjur, nr. 94/1996, eða varði ákæru skv. 262. gr. almennra hegningarlaga, nr. 19/1940.
                  2.      Við 3. málsl. bætist: eða lögreglu.
     b.      Eftirfarandi breytingar verða á 2. mgr.:
                  1.      Orðin „að kröfu“ í 1. málsl. falla brott.
                  2.      2. málsl. orðast svo: Skal skattrannsóknarstjóri í kyrrsetningarkröfu tilgreina ætlaðar fjárhæðir vantalinna skatta skattaðila samkvæmt rannsókn þess máls sem um ræðir svo sem hún þá stendur, sem og ætlaðar fjárhæðir fésekta sem kunni samkvæmt rannsókninni að verða gerðar skattaðila eða öðrum þeim sem kyrrsetningar verður krafist hjá skv. 1. mgr.

VIII. KAFLI

Breyting á lögum um fjársýsluskatt, nr. 165/2011.

21. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 9. gr. laganna:
     a.      Orðið „kyrrsetningu“ í 1. málsl. fellur brott.
     b.      Við bætist nýr málsliður svohljóðandi: Um kyrrsetningu gilda ákvæði 14. gr. laga um innheimtu opinberra skatta og gjalda, nr. 150/2019.

IX. KAFLI

Breyting á lögum um fyrirtækjaskrá, nr. 17/2003.

22. gr.

    Orðin „lögaðila sem falla undir 9. tölul. 4. gr. laga um tekjuskatt, nr. 90/2003“ í 4. tölul. 2. gr. og 3. gr. laganna falla brott.

X. KAFLI

Breyting á lögum um aukatekjur ríkissjóðs, nr. 88/1991:

23. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 13. gr. laganna:
     a.      17. tölul. fellur brott.
     b.      18. tölul. orðast svo: Skráning félaga til almannaheilla með starfsemi yfir landamæri samkvæmt lögum um skráningarskyldu félaga til almannaheilla með starfsemi yfir landamæri, nr. 119/2019, og annarra félaga eða aðila sem falla undir 4. og/eða 5. tölul. 2. gr. laga um fyrirtækjaskrá, nr. 17/2003, auk félaga til almannaheilla samkvæmt lögum um félög til almannaheilla, nr. 110/2021 25.000 kr.

24. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.
    Þrátt fyrir ákvæði 1. mgr. öðlast 3. gr. og 9.–18. gr. gildi 1. janúar 2022.
    Ákvæði 20. gr. taka jafnt til mála sem rannsókn er þegar hafin á og þeirra sem síðar eru tekin til skattrannsóknar.

Greinargerð.

1. Inngangur.
    Frumvarp þetta er samið í fjármála- og efnahagsráðuneytinu og varðar ýmsar breytingar á lögum um skatta og gjöld. Um er að ræða breytingar sem snúa að refsinæmi vegna vanframtalinna fjármagnstekna hjóna, gjalddögum þing- og sveitarsjóðsgjalda einstaklinga og útvarpsgjalds, skattfrádrætti vegna hlutabréfakaupa og fjárhæðarmörkum er varða undanþágu frá skattskyldu vegna sölu á raforku eða heitu vatni. Þá er um ræða breytingar sem lúta að ákvörðun skattverðs sem virðisaukaskattur er reiknaður af þegar um er að ræða annars vegar afhendingu þjónustu án endurgjalds og hins vegar sölu á notuðu lausafé í eigu einstaklinga utan rekstrar í umboðssölu. Jafnframt er um að ræða breytingar á lögum um bifreiðagjald, virðisaukaskatt og vörugjald af ökutækjum og eldsneyti að því er varðar losunarviðmið vistvænna ökutækja. Einnig er um að ræða breytingar á lögum um virðisaukaskatt er lúta að skilyrðum þess að útleiga vistvænna ökutækja sé undanþegin skattskyldri veltu. Þá er um að ræða breytingar á lögum um innheimtu opinberra skatta og gjalda, nr. 150/2019, er snúa að skilagreinum með skilum á launaafdrætti og heimildum skattyfirvalda til kyrrsetningar auk tilvísunar til laga um innheimtu opinberra skatta og gjalda í lögum um fjársýsluskatt, nr. 165/2011. Að lokum er um að ræða breytingar sem tengjast annars vegar lögaðilum sem hafa með höndum starfsemi sem telst til almannaheilla og skráðir eru í sérstaka almannaheillaskrá Skattsins og hins vegar lækkun á gjaldi vegna skráningar félaga til almannaheilla með starfsemi yfir landamæri samkvæmt lögum um aukatekjur ríkissjóðs, nr. 88/1991, auk þess sem lagt er til að félög til almannaheilla sem falla undir lög um félög til almannaheilla, nr. 110/2021, greiði sama gjald fyrir skráningu.

2. Tilefni og nauðsyn lagasetningar.
    Tilefni einstakra ákvæða frumvarpsins er mismunandi. Frumvarpið má meðal annars rekja til dóma Héraðsdóms Reykjavíkur í málunum S-3517/2019 og S-3519/2019 auk þess sem í frumvarpinu er kveðið á um ýmis skilyrði, viðmið og samræmi milli lagaákvæða sem nauðsynlegt þykir að lögfesta og nánari grein er gerð fyrir í 3. kafla greinargerðar.

3. Meginefni frumvarpsins.
3.1. Almannaheillaskrá.
    Með lögum um breytingu á ýmsum lögum um skatta og gjöld, nr. 32/2021, voru gerðar breytingar til eflingar á skattaumhverfi þeirra lögaðila sem starfa til almannaheilla og falla undir þriðja geirann. Í lögunum, sem öðluðust gildi 1. nóvember 2021, er gert ráð fyrir því að fyrirtækjaskrá Skattsins haldi sérstaka almannaheillaskrá og að viðkomandi lögaðili sem starfar til almannaheilla sé sannanlega skráður í skrána á því tímamarki sem einstaka gjöf eða framlag er afhent til lögaðila. Þar sem Skatturinn mun halda almannaheillaskrána ólíkt almannaheillafélagaskrá samkvæmt lögum um félög til almannaheilla, nr. 110/2021, sem fyrirtækjaskrá Skattsins heldur er lögð til sú breyting að tilvísun til fyrirtækjaskrár verði felld brott og að það verði Skatturinn sem haldi hina sérstöku almannaheillaskrá. Jafnframt er lagt til að í stað tilvísunar til laga um skráningarskyldu félaga til almannaheilla með starfsemi yfir landamæri, nr. 119/2019, verði vísað til laga um félög til almannaheilla, nr. 110/2021, vegna skráningar og hæfis lögaðila eftir því sem við á í almannaheillaskrá Skattsins. Síðari lögin tóku gildi á eftir lögum nr. 32/2021 en telja verður að ákvæði þeirra laga falli betur að skráningu lögaðila í almannaheillaskrá.
    Í 9. tölul. 4. gr. laga um tekjuskatt, nr. 90/2003, er kveðið á um að lögaðilar sem hafa með höndum starfsemi sem telst til almannaheilla og skráðir eru í sérstaka almannaheillaskrá Skattsins greiði ekki tekjuskatt. Lagt er til að við töluliðinn verði bætt þremur málsliðum þar sem annars vegar er kveðið á um það skilyrði fyrir skráningu lögaðila í almannaheillaskrá að staðin hafi verið skil á ársreikningi til ríkisskattstjóra og að ekki sé um að ræða vanskil eða áætlanir skatta, skattsekta, gjalda og skýrsluskila og hins vegar að ákvörðun ríkisskattstjóra um höfnun á skráningu í almannaheillaskrá eða afskráningu af almannaheillaskrá verði kæranleg til yfirskattanefndar. Þá þykir jafnframt rétt að kveða á um kærufrest hafni ríkisskattstjóri lögaðila um skráningu í almannaheillaskrá eða úrskurði aðila af almannaheillaskrá.
    Jafnframt þykir ástæða til þess að upplýsingaskylda þeirra sem skráðir eru í almannaheillaskrá sé tilgreind sérstaklega í 92. gr. laga um tekjuskatt, vegna eftirlitshagsmuna.

3.2. Skattfrádráttur vegna hlutabréfakaupa.
    Lagðar eru til breytingar á 1. tölul. B-liðar 1. mgr. 30. gr. laga um tekjuskatt, nr. 90/2003, varðandi skattfrádrátt vegna hlutabréfakaupa með því að framlengja gildistíma úrræðisins um þrjú ár. Í gildandi lögum er gert ráð fyrir því að einstaklingar geti nýtt sér frádrátt frá tekjuskattsstofni, að viðbættum fjármagnstekjum, vegna fjárfestinga á árunum 2016–2021. Að óbreyttu yrði því síðasta skattívilnunin veitt við álagningu opinberra gjalda á árinu 2022 vegna fjárfestinga á árinu 2021. Framlenging úrræðisins er í samræmi við stefnu stjórnvalda um að auka aðgengi að fjármagni fyrir bæði nýsköpunarfyrirtæki og smærri fyrirtæki í vexti og getur úrræðið haft mikla þýðingu fyrir slík fyrirtæki.

3.3. Refsinæmi vegna vanframtalinna fjármagnstekna hjóna.
    Þann 7. maí 2021 féllu tveir dómar í Héraðsdómi Reykjavíkur í málunum S-3517/2019 og S-3519/2019. Í þeim reyndi á túlkun 1. mgr. 109. gr., sbr. 2. tölul. 1. mgr. 62. gr., laga um tekjuskatt, nr. 90/2003. Atvik málsins voru þau að tveir einstaklingar voru sýknaðar af skattalagabroti þar sem ekki var talið að háttsemi þeirra hefði fallið undir verknaðarlýsingu 1. mgr. 109. gr. tekjuskattslaga og því ekki verið refsiverð. Í 1. mgr. 109. gr. laganna er kveðið á um að skýri skattskyldur maður af ásetningi eða stórkostlegu hirðuleysi rangt eða villandi frá einhverju því sem máli skiptir um tekjuskatt sinn skuli hann greiða fésekt allt að tífaldri skattfjárhæð af þeim skattstofni sem undan var dreginn og aldrei lægri fésekt en nemi tvöfaldri skattfjárhæðinni. Þá varði stórfellt brot gegn ákvæðinu við 1. mgr. 262. gr. almennra hegningarlaga. Um var að ræða vanframtaldar fjármagnstekjur þeirra skv. C-lið 7. gr. tekjuskattslaga sem skv. 2. tölul. 1. mgr. 62. gr. laganna átti að telja til tekna hjá mökum þeirra skv. A-lið 7. gr. laganna þar sem þeir höfðu hærri tekjur. Niðurstaða dómsins var sú að af lögskýringargögnum mætti ráða skattalegan tilgang 109. gr. laganna, áður 107. gr. þágildandi laga nr. 40/1978, sem hafi verið grunnur núverandi 109. gr. laga nr. 90/2003. Skattalegur tilgangur gat ekki, að mati dómsins, haft áhrif á refsiábyrgð samkvæmt ákvæðinu þannig að ákærðu yrði refsað fyrir brot gegn nefndri lagagrein, þar sem háttseminni var ekki lýst refsiverðri. Engin lögskýring hafi verið tæk sem fellt hafi undir ákvæði 1. mgr. 109. gr. laga nr. 90/2003 aðra háttsemi en þá sem ráða mætti af ótvíræðu orðalagi lagagreinarinnar. Samkvæmt því hafi skort það skilyrði refsiábyrgðar að háttsemi ákærðu hafi verið refsinæm að lögum og voru þeir því sýknaðir af kröfum ákæruvaldsins.
    Fjármagnstekjur hjóna skal leggja saman og telja til tekna hjá því hjóna sem hærri hefur hreinar tekjur, sbr. 2. tölul. 1. mgr. 62. gr. laga nr. 90/2003. Óeðlilegt þykir að það hjóna sem tekjurnar tilheyra og sem skýrir rangt eða villandi frá einhverju um þær í sameiginlegu framtali sé ábyrgðarlaust með öllu í þeim tilvikum þar sem skattleggja skal tekjurnar hjá hinu hjónanna.
    Óeðlilegt þykir að það hjóna sem hefur hærri hreinar tekjur skv. A-lið 7. gr. laganna beri eitt hlutlæga ábyrgð á grundvelli 1. mgr. 109. gr. laganna á vanframtöldum fjármagnstekjum maka. Eðlilegt þykir að saknæmið og refsinæmið snúi að þeim sem tekjurnar tilheyra og telur þær ekki fram í sameiginlegu framtali. Því er lagt til að á eftir 1. málsl. 1. mgr. 109. gr. laganna verði bætt nýjum málslið þess efnis að ákvæði 1. málsliðar greinarinnar taki einnig til tekjuskatts af þeim tekjum sem tilheyra tekjulægri makanum en telja ber fram hjá því hjónanna sem hærri hefur tekjur, sbr. 2. tölul. 1. mgr. 62. gr.

3.4. Skipting gjalddaga þing- og sveitarsjóðsgjalda einstaklinga og útvarpsgjalds.
    Greiðslu eftirstöðva álagðra skatta er skipt með því sem næst jöfnum greiðslum á sjö gjalddaga, 1. júní til 1. desember, hjá einstaklingum skv. 4. mgr. 112. gr. tekjuskattslaga. Nemur greiðsla á hverjum gjalddaga að lágmarki 5.000 kr. skv. 4. málsl. 1. mgr. 112. gr. Útvarpsgjald skiptist þó á þrjá gjalddaga, sbr. 3. mgr. 14. gr. laga um Ríkisútvarpið, fjölmiðil í almannaþágu, nr. 23/2013, þ.e. 1. júní, 1. júlí og 1. ágúst en hjá lögaðilum er gjalddaginn einn, 1. nóvember ár hvert.
    Reynslan hefur sýnt að fjölmargir gjaldendur hafa greitt eftirstöðvarnar upp á fyrsta gjalddaganum. Þetta hefur valdið flækjustigi í framkvæmd þar sem inneign myndast sem ber inneignarvexti á meðan eldri skuld fellur í gjalddaga. Því er lagt til að við framtalsskil geti framteljandi óskað eftir að greiða eftirstöðvar álagðra skatta og gjalda í einu lagi á fyrsta gjalddaga eftir álagningu en ella verði eftirstöðvunum skipt á hefðbundna gjalddaga samkvæmt gildandi 1. málsl. 1. mgr. 112. gr. laganna.

3.5. Fjárhæðarmörk skattskyldu við sölu á raforku eða heitu vatni.
    Samkvæmt 2. mgr. 6. gr. laga um umhverfis- og auðlindaskatta, nr. 129/2009, eru þeir sem selja raforku eða heitt vatn til endanlegra notenda fyrir minna en 500.000 kr. á ári undanþegnir skattskyldu samkvæmt lögunum. Lagt er til að fjárhæðarmörkin verði hækkuð í 2.000.000 kr. Við mat á fjárhæðinni er meðal annars litið til veltumarka 3. tölul. 4. gr. laga um virðisaukaskatt, nr. 50/1988. Við lögfestingu laga nr. 129/2009 áttu fjárhæðarmörk skattskyldunnar sér samsvörun í veltumörkum laga nr. 50/1988, þ.e. 500.000 kr. Sú fjárhæð hefur ekki tekið breytingum í samræmi við þær breytingar sem orðið hafa á veltumörkum virðisaukaskatts. Eðlilegt þykir að samræmis sé gætt í þessum efnum og má í því sambandi benda á að í nefndaráliti meiri hluta efnahags- og skattanefndar við frumvarpið, þingskjal 495 – 257. mál á 138. löggjafarþingi 2009–2010, kemur meðal annars fram að álagning og innheimta skattsins sem ríkisskattstjóri annist sé byggð á sams konar sjónarmiðum og eigi við um virðisaukaskatt.
    Hækkunin mun hafa þau áhrif að einfalda rekstrarumhverfi þeirra aðila sem eru með lítil umsvif og auðvelda eftirlit. Þá er einnig lagt til að orðalagi ákvæðisins verði breytt til samræmis við orðalag 3. tölul. 4. gr. laga nr. 50/1988, þ.e. að miða skuli við tekjur á hverju tólf mánaða tímabili, en ekki almanaksárið. Á árinu 2020 var aðeins einn aðili með veltu undir 500.000 kr. af þeim 65 sem voru á grunnskrá vegna skila á skatti af sölu á heitu vatni. Tólf aðilar voru hins vegar með veltu undir 2.000.000 kr.

3.6. Afhending þjónustu án endurgjalds og sala á notuðu lausafé í eigu einstaklinga utan rekstrar í umboðssölu.
    Samkvæmt 2. mgr. 8. gr. laga um virðisaukaskatt, nr. 50/1988, gildir sú regla að við afhendingu á vöru án endurgjalds, þ.e. þegar um gjöf er að ræða, skuli miða skattverð við almennt gangverð í sams konar viðskiptum. Liggi slíkt almennt gangverð ekki fyrir skuli miða skattverð við reiknað útsöluverð þar sem tekið er tillit til alls kostnaðar að viðbættri þeirri álagningu sem almennt er notuð á vörur eða þjónustu af sama tagi. Í skattframkvæmd hefur skráðum aðila meðal annars borið að greiða virðisaukaskatt af andvirði vöru jafnt sem skattskyldrar þjónustu sem afhent er án endurgjalds og miðar tillagan að því að skjóta styrkari stoðum undir þá framkvæmd enda í samræmi við ákvæði 1. mgr. 11. gr. laganna.
    Síðustu misseri hefur færst í vöxt að verslanir taki að sér milligöngu um sölu á verðlitlu notuðu lausafé fyrir hönd einstaklinga utan rekstrar, til að mynda á fatnaði og húsbúnaði. Oft fá einstaklingarnir aðstöðu hjá versluninni þar sem þeim býðst að selja notuðu vörurnar á verði sem þeir ákveða sjálfir. Ganga má út frá því að í flestum tilvikum séu eigendur varanna ekki skattskyldir á grundvelli laga um virðisaukaskatt og beri þar af leiðandi ekki að leggja virðisaukaskatt á þær vörur sem um ræðir. Í þeim tilvikum er hagnaður af sölu lausafjár jafnframt undanþeginn tekjuskatti, sbr. 2. mgr. 16. gr. laga um tekjuskatt, nr. 90/2003. Aftur á móti telst sala á vöru, sem afhent hefur verið til umsýslu- eða umboðssölu, til skattskyldrar veltu umsýslu- eða umboðsmanns, sbr. 2. mgr. 11. gr. laga um virðisaukaskatt. Umsýslu- eða umboðsmanni ber því að leggja virðisaukaskatt á heildarandvirði hins selda. Í skattframkvæmd hefur verið litið svo á að fyrirtæki geti haft milligöngu um viðskipti tveggja einstaklinga við sölu á notuðu lausafé án þess að fyrirtækið reikni virðisaukaskatt af heildarandvirði hins selda. Um er að ræða umboðssölu þar sem umboðsmaður (miðlarinn) kemur fram í nafni eiganda lausafjár og fyrir hans reikning þ.e. á fjárhagslega ábyrgð hans. Þessi tegund af milligöngu hefur verið nefnd sölumiðlun. Í slíkum tilvikum hefur mátt víkja frá almennum reglum um skattskyldu umboðsmanns, þannig að hann leggi ekki virðisaukaskatt á heildarandvirði hins selda heldur einungis á þóknun sína fyrir miðlunina. Eftirtalin skilyrði þarf að uppfylla svo að fella megi viðskipti undir sölumiðlun. Í fyrsta lagi tekur sölumiðlun eingöngu til viðskipta milli óskattskyldra aðila t.d. einstaklinga utan rekstrar. Í öðru lagi má miðlari ekki tilgreina eða gefa til kynna á sölureikningi, í kaupsamningi, afsali eða öðrum söluskjölum að hann sé seljandi vörunnar sem um ræðir. Í þriðja lagi ber að auðkenna seljanda, þ.e. eiganda vörunnar, með skýrum hætti á sölureikningi eða söluskjali miðlara. Heimilt hefur verið að sleppa því að tilgreina nafn og kennitölu seljanda á sölureikningi miðlara ef á sölureikningnum er vísað til samnings seljanda og miðlara sem er jafnframt að finna í bókhaldi þess síðarnefnda. Í fjórða lagi er miðlara óheimilt að ábyrgjast nokkuð sem varðar hinar seldu vörur. Í þeim tilvikum þegar verslun (miðlari) er með til sölu notað lausafé frá mörgum einstaklingum, og viðskiptavinir geta keypt í einu lagi tvo eða fleiri hluti sem eru í eigu mismunandi einstaklinga getur reynst erfitt fyrir miðlara að uppfylla framangreint skilyrði sölumiðlunar um að eigandi vörunnar sé auðkenndur á sölureikningi eða söluskjali miðlara til kaupanda. Í ljósi þessa er lagt til að tekin verði upp í lögin sérregla um skattverð þegar skattaðili móttekur notað lausafé í eigu einstaklinga utan rekstrar í umboðssölu. Skattaðili kemur þá fram í nafni eiganda og fyrir hans reikning. Sérreglan heimilar umboðsmanni að miða skattverð við söluþóknun samkvæmt samningi aðila að ákveðnum skilyrðum uppfylltum. Séu þau skilyrði ekki uppfyllt kemur til álita að fella viðskipti undir sölumiðlun enda séu skilyrði hennar uppfyllt. Að öðrum kosti ber skattaðila að innheimta virðisaukaskatt af heildarandvirði hin selda skv. 2. mgr. 11. gr. laga um virðisaukaskatt.

3.7. Losunarviðmið.
    Álagning skatta og gjalda á ökutæki tekur að vissu marki mið af skráðri losun koltvísýrings við notkun. Þá meginreglu er þannig að finna í lögum um vörugjald af ökutækjum, eldsneyti o.fl., nr. 29/1993, að vörugjald er lagt á ökutæki miðað við skráða losun koltvísýrings viðkomandi ökutækis, mælt í grömmum á hvern ekinn kílómetra (g/km) umfram tiltekin mörk. Bifreiðagjald sem lagt er á skráð ökutæki að eigin þyngd 3.500 kg eða minna samanstendur annars vegar af fastri gjaldfjárhæð og hins vegar fjárhæð sem ákvarðast með tilliti til skráðrar losunar ofan tiltekinna marka. Þá hefur virðisaukaskattur af innflutningi tímabundið verið felldur niður og undanþeginn skattskyldri veltu að tilteknu hámarki vegna tengiltvinnbifreiða sem hafa skráða losun undir ákveðnum mörkum.
    Þeir alþjóðlegu staðlar sem miðað er við í dag við mat á mengun, losun og eldsneytiseyðslu ökutækja og vísað er til í framangreindum lögum nr. 29/1993 eru annars vegar Nýja evrópska aksturslotan (e. New European Driving Cycle/NEDC), sem nefnd er evrópska aksturslotan, og hins vegar prófunaraðferð fyrir létt ökutæki sem er samræmd á heimsvísu (e. Worldwide Harmonized Light Vehicles Test Procedure/WLTP), sem nefnd er samræmda prófunaraðferðin.
    Koltvísýringslosun ökutækis í framangreindum lagabálkum getur í dag ýmist verið gefin upp samkvæmt evrópsku aksturslotunni, samræmdu prófunaraðferðinni eða samkvæmt báðum aðferðunum. Mismunandi viðmið eru um losun gilda eftir því hver skráning ökutækis er hverju sinni. Í þeim tilvikum þegar skráning losunar hefur bæði átt sér stað samkvæmt evrópsku aksturslotunni og samræmdu prófunaraðferðinni hefur viðmiðið til þessa verið að miða skráða losun við þær losunartölur sem fram koma samkvæmt evrópsku aksturslotunni. Þetta hefur meðal annars leitt til þess að vegna mismunandi útreikningsaðferða og skráninga hafa tiltekin ökutæki ekki getað notið ívilnunar virðisaukaskatts sem þau hefðu annars gert ef viðmiðið hefði eingöngu verið samræmda prófunaraðferðin. Samræmda prófunaraðferðin, sem er nýrri og öflugri prófunarlota fyrir ökutæki heldur en evrópska aksturslotan, er nú talin ráðandi við mat á koltvísýringslosun ökutækja. Vegna þessa er nú lögð til sú breyting á framangreindum lagabálkum að þegar fyrir liggur að losunarviðmið er skráð samkvæmt bæði evrópsku aksturslotunni og samræmdu prófunaraðferðinni skuli eingöngu miða við skráða losun samkvæmt síðarnefndu aðferðinni.

3.8. Útleiga vistvænna ökutækja.
    Ákvæði til bráðabirgða XXXIX í lögum um virðisaukaskatt, nr. 50/1988, var sett með lögum nr. 154/2019. Ákvæðið mælir fyrir um að útleiga á skráningarskyldu ökutæki sem fallið hefur undir ívilnun á grundvelli ákvæðis til bráðabirgða XXIV sé að fullu undanþegin skattskyldri veltu að uppfylltum ákveðnum skilyrðum. Ákvæði til bráðabirgða XXIV kvað áður á um sérstaka virðisaukaskattsívilnun vegna annars vegar innflutnings og skattskyldrar sölu á nýjum rafmagns-, vetnis- eða tengiltvinnbifreiðum og hins vegar vegna innflutnings og fyrstu sölu á notuðum rafmagns-, vetnis- eða tengiltvinnbifreiðum að uppfylltum tilteknum skilyrðum. Með lögum nr. 133/2020 var ákvæði til bráðabirgða XXIV breytt og það meðal annars látið ná til endursölu á notuðum rafmagns-, vetnis- eða tengiltvinnbifreiðum að uppfylltum tilteknum skilyrðum. Eðlilegt þykir að sambærileg sjónarmið gildi í báðum þessara tilvika og er því lagt til að ákvæði til bráðabirgða XXXIX taki þeim breytingum að það nái jafnframt til framleigu á ökutækjum, sem notið hafa fyrrnefndrar ívilnunar, að uppfylltum öðrum skilyrðum sem koma fram í ákvæðinu.

3.9. Skilagrein með skilum á launaafdrætti.
    Lagt er til að áréttað verði í 11. gr. laga um innheimtu opinberra skatta og gjalda, nr. 150/2019, að launagreiðanda sé skylt að senda skilagrein með skilum á afdregnum sköttum sem honum bar að halda eftir af launum, ella verður greiðslunni ekki ráðstafað með réttum hætti.

3.10. Heimildir til kyrrsetningar eigna.
    Með lögum nr. 23/2010 og 24/2011 voru lögfestar heimildir til kyrrsetningar vegna brota á skattalögum. Þar með voru veittar auknar heimildir til kyrrsetningar til að koma í veg fyrir að aðilar sem sættu skattrannsókn kæmu eignum undan eða færðu þær yfir í hendur annarra áður en rannsókn lyki. Ríkisskattstjóri annast rekstur kyrrsetningarmála á landsvísu vegna mála sem sæta skattrannsókn eða lögreglurannsókn og hefur heimild til að kyrrsetja eignir að ákveðnum skilyrðum uppfylltum til að tryggja greiðslu væntanlegrar skattkröfu, fésektar og sakarkostnaðar þó svo að ekki sé búið að ákvarða kröfuna eða sektina, sbr. 14. gr. laga um innheimtu opinberra skatta og gjalda, nr. 150/2019.
    Kyrrsetning er bráðabirgðaaðgerð og tilgangur hennar er að tryggja að eignir verði fyrir hendi til að gera fjárnám í þegar skattákvörðun eða ákvörðun um sekt liggur fyrir en hætta getur verið á að eignum sé komið undan enda má skattaðilum oft vera ljóst þegar við upphaf skattrannsóknar að til endurákvörðunar muni koma og fésektum verði beitt.
    Með lögum um breytingu á lögum er varða rannsókn og saksókn skattalagabrota, nr. 29/2021, voru lögfest skýr skil milli stjórnsýslumála sem eru afgreidd innan skattkerfisins og alvarlegri mála sem sæta refsimeðferð samkvæmt útgáfu fyrirmæla ríkissaksóknara. Vegna þessa þykir nauðsynlegt að gera breytingar á 14. gr. laga nr. 150/2019, í þá veru að kyrrsetningarheimild ákvæðisins taki, auk núverandi heimildar vegna meintrar refsiverðrar háttsemi er varðar ákæru skv. 262. gr. almennra hegningarlaga, nr. 19/1940, jafnframt til meintrar refsiverðrar háttsemi sem varðar sektarákvörðun skv. 109. gr. laga um tekjuskatt, nr. 90/2003, 40. gr. laga um virðisaukaskatt, nr. 50/1988, 30. gr. laga um staðgreiðslu opinberra gjalda, nr. 45/1987, og 19. gr. laga um staðgreiðslu skatts á fjármagnstekjur, nr. 94/1996.
    Rannsókn og ákvörðun sekta vegna skattundanskota er nú í höndum ríkisskattstjóra í þeim tilvikum þegar þau falla ekki undir fyrirmæli ríkissaksóknara. Yfirskattanefnd fer því ekki lengur með sektarheimildir í stærri málum heldur er nefndin í hlutverki sjálfstæðrar kærunefndar sem tekur við kærum vegna ákvarðana ríkisskattstjóra um að leggja á sektir. Þá er breytingartillagan í samræmi við athugasemdir í greinargerð frumvarps þess er varð að lögum nr. 29/2021, þar sem fram kemur að með þeim breytingum sem lagðar séu til í frumvarpinu sé ekki stefnt að breytingum á heimildum ríkisskattstjóra til að beita viðurlögum.
    Telja verður breytingartillöguna nauðsynlega enda lýkur nú meirihluta mála fyrr með sekt hjá ríkisskattstjóra og er ekki vísað áfram til lögreglu eftir gildistöku laga nr. 29/2021. Áður fyrr gat málsmeðferðartími í einstaka máli tekið nokkur ár, þ.e. frá upphafi skattrannsóknar og þar til dómur gekk í málinu, að undangenginni lögreglurannsókn og ákærumeðferð en skattrannsóknir teygja sig að jafnaði ekki yfir mörg ár. Ýmsar áskoranir hafa verið við innheimtu opinberra gjalda og sekta í rannsóknarmálum í gegnum árin og hefur það sýnt sig að kyrrsetning eigna er besta úrræðið til tryggingar innheimtu. Áralöng reynsla er komin á framkvæmd kyrrsetninga en þær eru ekki framkvæmdar nema í um 17% þeirra mála sem eru til rannsóknar og aðeins í þeim málum þar sem næsta öruggt er að rannsókn leiði til endurákvörðunar og skattkröfu. Mjög varlega hefur verið farið við beitingu kyrrsetningarheimildarinnar og verður grundvöllur kyrrsetningar ávallt að vera sterkur og fyrirliggjandi rökstuddur grunur um refsiverða háttsemi. Ávallt er haft í fyrirrúmi að kyrrsetningarþoli verði fyrir sem minnstu óhagræði af kyrrsetningargerðinni, innan þeirra marka sem slíkt er hægt með hliðsjón af hagsmunum ríkissjóðs. Þannig er mun algengara að fasteignir séu kyrrsettar en bankainnstæður, og ríkisskattstjóri hefur við framkvæmd kyrrsetninga gætt þess að aðili hafi trygga framfærslu til skamms tíma eins og áskilið er í 41. gr. laga um aðför, nr. 90/1989.
    Ríkisskattstjóri hefur jafnframt með endurupptökum kyrrsetninga auðveldað kyrrsetningarþolum að losa eignir til að greiða álagðar skattkröfur eða koma eignum í verð, þó alltaf þannig að hagsmunir ríkissjóðs séu tryggðir. Dæmi eru jafnvel um að veitt hafi verið veðleyfi til þess að kyrrsetningarþoli geti endurfjármagnað áhvílandi lán sem hvílir á kyrrsettri fasteign og hann þannig nýtt sér hagstæðari vaxtakjör. Ríkisskattstjóri hefur að auki samþykkt skilmálabreytingar á veðskuldum vegna vanskila kyrrsetningarþola og þannig hefur kyrrsetningarþoli getað gætt hagsmuna sinna gagnvart lánastofnunum. Ríkisskattstjóri metur í hverju einstöku tilviki hvort hætta sé á því að eignir verði ekki fyrir hendi sem ganga megi að til fullnustu kröfu. Undanfarin ár hafa nokkur slík mál ratað til dómstóla þar sem því mati hefur ekki verið hrundið heldur þvert á móti hefur mat embættisins verið staðfest. Rétt er að árétta að aðilum er ávallt tryggður réttur til að koma að andmælum við kyrrsetningargerðinni fyrir dómstólum og sýnir reynslan að þeir nýta sér þann rétt.
    Jafnframt er lögð til sú breyting að heimila kyrrsetningu á meðan mál er til meðferðar hjá lögreglu eins og í tilviki mála sem eru til skattrannsóknar og myndi ríkisskattstjóri þá annast rekstur kyrrsetningarinnar vegna rannsóknarinnar óháð því hvar hún fer fram. Hér gæti verið um það að ræða að ekki hafi verið gerð krafa um kyrrsetningu hjá ríkisskattstjóra en nýjar upplýsingar koma fram eftir að máli hefur verið vísað til lögreglu. Þá eru einnig lagðar til smávægilegar orðalagsbreytingar.
    Að lokum er að finna tillögu að viðbót við 9. gr. laga um fjársýsluskatt, nr. 165/2011, sem felur í sér vísun til kyrrsetningarákvæðis laga um innheimtu opinberra skatta og gjalda, nr. 150/2019.

3.11. Gjöld fyrir skráningu félaga til almannaheilla.
    Lög um skráningarskyldu félaga til almannaheilla með starfsemi yfir landamæri, nr. 119/2019, voru sérstaklega sett til að bregðast við og uppfylla tilmæli FATF, alþjóðlegs fjármálaaðgerðahóps ríkja um aðgerðir gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka, og var hluti af þeim aðgerðum sem stjórnvöld gripu til vegna athugasemda FATF um aðgerðir gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka. Eins og fram kemur í greinargerð með þeim lögum voru þessi félög talin í mestri hættu á að vera misnotuð og var skráningarskylda þeirra í almannaheillafélagaskrá lögfest.
    Samkvæmt 17. tölul. 13. gr. laga um aukatekjur ríkissjóðs, nr. 88/1991, er gjald til skráningar félaga til almannaheilla með starfsemi yfir landamæri 83.000 kr. Gjaldið telst nokkuð hátt og vegna þess er talin hætta á því að valin verði önnur félagaform og starfsemi félaga til almannaheilla með starfsemi yfir landamæri verði þannig falin, en það er staða sem lögum nr. 119/2019 var sérstaklega ætlað að taka á og koma í veg fyrir. Því er lagt til að skráningargjaldið verði lækkað í 25.000 kr. sem er jafnt skráningargjaldi annarra félaga eða aðila sem falla undir 4. og/eða 5. tölul 2. gr. laga um fyrirtækjaskrá, nr. 17/2003, sbr. 18. tölul. 13. gr. nr. laga 88/1991.
    Þá er jafnframt lagt til að félög til almannaheilla sem falla undir lög um félög til almannaheilla, nr. 110/2021, greiði sama gjald fyrir skráningu eða 25.000 kr.

4. Samræmi við stjórnarskrá og alþjóðlegar skuldbindingar.
    Efni frumvarpsins gefur ekki tilefni til að ætla að það stangist á við stjórnarskrá eða alþjóðlegar skuldbindingar. Í ljósi ákvæða 40. og 77. gr. stjórnarskrárinnar var þess sérstaklega gætt við undirbúning frumvarpsins að orðalag breytinganna væri skýrt og að öðru leyti í samræmi við kröfur sem leiða má af stjórnarskrárákvæðunum.

5. Samráð.
    Frumvarpið snertir fyrst og fremst skattskylda aðila, bæði einstaklinga og lögaðila. Við vinnslu þess var haft samráð við ríkisskattstjóra. Áform um samningu frumvarpsins voru í samráðsgátt stjórnvalda á vefnum Ísland.is 25.–29. október 2021 (mál nr. S-197/2021). Engar umsagnir bárust. Frumvarpsdrögin voru einnig kynnt almenningi í samráðsgátt stjórnvalda 3.–12. nóvember (mál nr. S-204/2021). Tvær umsagnir bárust frá KPMG ehf. og Logos. Í umsögn KPMG er að finna athugasemdir sem snúa að lögaðilum til almannaheilla og virðisaukaskatti við umboðssölu. Í umsögn Logos eru gerðar athugasemdir við ákvæði frumvarpsins um auknar heimildir til kyrrsetningar á eigum skattaðila. Brugðist hefur verið við mörgum athugasemdum sem fram koma í umsögn KPMG og hefur frumvarpið tekið breytingum í samræmi við það. Hins vegar þykir ekki tilefni til að bregðast við umsögn Logos með vísan til röksemda í kafla 3.10 í greinargerð.

6. Mat á áhrifum.
6.1. Mat á fjárhagsáhrifum.
    Tillögur frumvarpsins eru af margvíslegum toga og sama má segja um mat á áhrifum þeirra.
    Áhrif af tillögu um að framteljanda verði heimilt að óska eftir því við framtalsgerð að greiða eftirstöðvar þing- og sveitarsjóðsgjalda og útvarpsgjald á einum gjalddaga í stað þess að eftirstöðvarnar skiptist á sjö eða þrjá gjalddaga eru ekki talin veruleg en hagræði talsvert. Verði tillagan að lögum mun flækjustig við útgáfu reikninga og innheimtu verða minna fyrir Fjársýslu ríkisins og ríkissjóður mun jafnframt hafa hag af því að greiðslur skili sér fyrr í ríkissjóð. Sparnaður yrði einnig einhver þar sem mun færri kröfur yrðu stofnaðar í bankakerfinu.
    Ný sérregla sem heimilar að virðisaukaskattur sé einungis lagður á þóknun milligönguaðila þegar notað lausafé í eigu einstaklinga er selt í umboðssölu ætti að óbreyttu að lækka verð á notuðum fatnaði, húsbúnaði, leikföngum o.fl. sem selt er með slíku fyrirkomulagi. Aðilum sem bjóða slíka þjónustu hefur fjölgað talsvert á skömmum tíma en óvíst er hvort virðisaukaskatti hafi í öllum tilvikum verið skilað af fullu söluverði hingað til þar sem nokkur vafi hefur verið uppi um gildandi reglur um skattverð. Gera má ráð fyrir því að bein áhrif af þessari breytingu á tekjur ríkissjóðs verði óveruleg.
    Að því er skattfrádrátt vegna hlutabréfakaupa varðar er áætlað að úrræðið muni leiða til lækkunar á tekjum ríkissjóðs um 30 millj. kr. árið 2022 vegna tekjuársins 2021. Ef úrræðið yrði framlengt um þrjú ár má áætla að heildarlækkun á tekjum ríkissjóðs á því tímabili gæti numið um 90 millj. kr.
    Aðrar breytingar sem lagðar eru til í frumvarpinu munu samanlagt ekki hafa teljandi áhrif á afkomu ríkissjóðs, einstaklinga og lögaðila verði frumvarpið óbreytt að lögum. Um er að ræða nauðsynlegar breytingar sem munu leiða til þess að viðkomandi löggjöf á sviði skattamála verði skýrari.

6.2. Mat á jafnréttisáhrifum.
    Ekki hefur farið fram ítarleg greining á jafnréttisáhrifum frumvarpsins. Þó má leiða að því líkur að tillögur þess geti haft ólík áhrif á karla og konur enda eru konur að meðaltali með lægri tekjur en karlar.
    Hér má nefna ákvæði frumvarpsins um refsinæmi vegna vanframtalinna fjármagnstekna hjóna en telja verður eðlilegt að það hjóna sem tekjurnar hefur og skýrir rangt eða villandi frá einhverju um þær beri ábyrgð í þeim tilfellum er fjármagnstekjur viðkomandi skal telja til tekna hjá því hjóna sem hærri hefur hreinar tekjur, sbr. 1. tölul. 1. mgr. 62. gr. laga nr. 90/2003. Breytingin mun í flestum tilfellum hafa meiri áhrif á konur sem að öllu jöfnu eru tekjulægri aðilinn.
    Gjalddagaskipting þing- og sveitarsjóðsgjalda einstaklinga og útvarpsgjald getur einnig haft mismunandi jafnréttisáhrif í för með sér með tilliti til tekna skattaðila.
    Þá verður að hafa í huga, hvað breytingar á losunarviðmiðum ökutækja varðar, að mun fleiri karlar en konur eru skráðir eigendur fólksbíla og lítill munur er þar á eftir hjúskaparstöðu. Breytingarnar eru tæknilegs eðlis og þar af leiðandi er erfitt að greina jafnréttisáhrif þeirra.
    Að lokum má nefna að frá árinu 2016 til 2020 hefur úrræðið um skattfrádrátt vegna hlutabréfakaupa verið nýtt í rúmlega 60% tilfella af karlmönnum og ef úrræðið verður framlengt um þrjú ár má gera ráð fyrir svipuðu kynjahlutfalli. Karlar eiga almennt fleiri hluti í félögum og eru fleiri í stjórn fyrirtækja.

Um einstakar greinar frumvarpsins.

Um 1.–2., 13. og 22. gr.

    Í lögum um breytingu á ýmsum lögum um skatta og gjöld, nr. 32/2021, sem öðluðust gildi 1. nóvember sl., er gert ráð fyrir því að fyrirtækjaskrá Skattsins haldi sérstaka almannaheillaskrá og að viðkomandi lögaðili sem starfar til almannaheilla sé sannanlega skráður í skrána á því tímamarki sem einstaka gjöf eða framlag er afhent til lögaðila. Þar sem Skatturinn mun halda almannaheillaskrána ólíkt almannaheillafélagaskrá samkvæmt lögum um félög til almannaheilla, nr. 110/2021, sem fyrirtækjaskrá Skattsins heldur er lögð til sú breyting að tilvísun til fyrirtækjaskrár verði felld brott og að það verði Skatturinn sem haldi hina sérstöku almannaheillaskrá. Jafnframt er lagt til að í stað tilvísunar til laga um skráningarskyldu félaga til almannaheilla með starfsemi yfir landamæri, nr. 119/2019, verði vísað til laga um félög til almannaheilla, nr. 110/2021, vegna skráningar og hæfis lögaðila eftir því sem við á í almannaheillaskrá Skattsins. Síðari lögin tóku gildi á eftir lögum nr. 32/2021 en telja verður að ákvæði þeirra laga falli betur að skráningu lögaðila í almannaheillaskrá.
    Lagt er til að við 9. tölul. 4. gr. laga um tekjuskatt, nr. 90/2003, verði bætt tveimur málsgreinum sem annars vegar kveða á um það skilyrði fyrir skráningu lögaðila í almannaheillaskrá að staðin hafi verið skil á ársreikningi til ríkisskattstjóra og að ekki sé um að ræða vanskil eða áætlanir skatta, skattsekta, gjalda og skýrsluskila, þ.m.t. launamiða, og hins vegar að ákvörðun ríkisskattstjóra um höfnun á skráningu í almannaheillaskrá eða afskráningu verði kæranleg til yfirskattanefndar. Telja verður áðurnefnd skilyrði eðlileg í ljósi eftirlitshagsmuna og þar sem um undanþágu frá skattskyldu er að ræða. Með skilum á ársreikningi er ekki átt við þá lögaðila sem stofnaðir hafa verið á árinu því eðli málsins samkvæmt liggur ársreikningur ekki enn fyrir hjá þeim aðilum. Um er að ræða sjálfstæða skilaskyldu ársreiknings til ríkisskattstjóra þar sem skilaskylda skv. X. kafla laga um ársreikninga, nr. 3/2006, er ekki til staðar. Þá þykir jafnframt rétt að kveða á um kærufrest til yfirskattanefndar hafni ríkisskattstjóri lögaðila um skráningu í almannaheillaskrá eða úrskurði aðila af almannaheillaskrá. Kærufrestur skal vera 30 dagar og reiknast frá dagsetningu ákvörðunar ríkisskattstjóra. Vegna eftirlitshagsmuna þykir auk þess ástæða til þess að tilgreina sérstaklega í 92. gr. laga um tekjuskatt, upplýsingaskyldu þeirra sem skráðir eru í almannaheillaskrá.

Um 3. og 7. gr.

    Lagt er til að gildistími úrræðisins um skattfrádrátt vegna hlutabréfakaupa verði framlengdur um þrjú ár til viðbótar þannig að hann taki til fjárfestinga til og með árinu 2024. Yrði síðasta skattívilnunin því veitt við álagningu opinberra gjalda á árinu 2025. Þá er jafnframt lagt til að bráðabirgðaákvæði laganna frá árinu 2020 sem heimilar tímabundna hækkun skattfrádráttarins úr 50% í 75% af fjárhæð fjárfestingar ásamt hækkun á fjárhæðarmörkum heildarfjárfestinga einstaklings úr 10 millj. kr. í 15 millj. kr. verði framlengt til samræmis við gildistíma úrræðisins.

Um 4. gr.

    Samkvæmt ákvæði 6. mgr. 92. gr. laga um tekjuskatt, nr. 90/2003, er ríkisskattstjóra heimilt að kveða á um almenna skyldu til að honum sé afhent skýrsla ókeypis og í því formi sem hann ákveður um önnur atriði sem máli skipta varðandi álagningu skatta samkvæmt lögunum. Þrátt fyrir framangreinda heimild þykir ástæða til þess að upplýsingaskylda þeirra sem skráðir eru í almannaheillaskrá, sbr. 9. tölul. 4. gr. laganna sé tilgreind sérstaklega í 92. gr., m.a. vegna áritunar veittra gjafa og framlaga á skattframtöl með tilliti til gjafafrádráttar og almenns eftirlits samkvæmt þeim lögum sem ríkisskattstjóra er falin framkvæmd á.

Um 5. gr.

    Lagt er til að á eftir 1. málsl. 1. mgr. 109. gr. tekjuskattslaga verði bætt ákvæði þess efnis að í þeim tilvikum sem skattskyldur maður skýrir af ásetningi eða stórkostlegu hirðuleysi rangt eða villandi frá einhverju því sem máli skiptir um tekjuskatt sinn vegna tekna sem telja ber fram hjá því hjóna sem hærri hefur hreinar tekjur skv. C-lið 7. gr., sbr. 2. tölul. 1. mgr. 62. gr. laganna, skuli hann greiða fésekt allt að tífaldri skattfjárhæð af þeim skattstofni sem undan var dreginn og aldrei lægri fésekt en nemur tvöfaldri skattfjárhæðinni til samræmis við ákvæði 1. tölul. 1. mgr. 109. gr. tekjuskattslaga. Þá skuli stórfellt brot gegn ákvæðinu jafnframt varða við 1. mgr. 262. gr. almennra hegningarlaga.

Um 6. gr.

    Í ákvæðinu er lagt til að gjaldanda verði heimilt að óska eftir að greiða eftirstöðvar skv. 4. mgr. 112. gr. tekjuskattslaga í einu lagi í stað þess að greiðslunni sé skipt á sjö gjalddaga.

Um 8. gr.

    Í ákvæðinu er lagt til að gjaldanda verði heimilt að óska eftir að greiða eftirstöðvar útvarpsgjalds í einu lagi í stað þess að greiðslunni sé skipt á þrjá gjalddaga.

Um 9. gr.

    Lagt er til að fjárhæðarmörk þeirra sem undanþegnir eru skattskyldu skv. 2. mgr. 6. gr. laga um umhverfis- og auðlindaskatta, nr. 129/2009, við sölu á raforku eða heitu vatni til notenda, verði hækkuð úr 500.000 kr. í 2.000.000 kr. Þá er einnig lagt til að orðalagi ákvæðisins verði breytt í samræmi við orðalag 3. tölul. 4. gr. laga nr. 50/1988, þ.e. að miðað skuli við tekjur á hverju tólf mánaða tímabili, en ekki almanaksárið.

Um 10. gr.

    Í 2. mgr. 8. gr. laga um virðisaukaskatt. nr. 50/1988, er kveðið á um útreikning skattverðs vegna skipta á vörum eða þjónustu annars vegar og afhendingu vöru án endurgjalds hins vegar og tekið fram að miða skuli skattverð við almennt gangverð í sams konar viðskiptum. Lagt er til að þegar afhending á sér stað án endurgjalds gildi málsgreinin jafnt um vörur og þjónustu.

Um 11. gr.

    Lagt er til að nýrri grein verði bætt við lögin þar sem kveðið verði á um heimild skattaðila (miðlara), sem móttekur notað lausafé frá einstaklingi utan rekstrar til umboðssölu, til að miða skattverðið við söluþóknun sína að tilteknum skilyrðum uppfylltum. Af ákvæðinu leiðir að virðisaukaskattur reiknast ekki af söluverði hins notaða lausafjár. Um er að ræða undanþágu frá meginreglu 2. mgr. 11. gr. laganna sem mælir fyrir um að sala eða afhending á vöru sem seld er í umsýslu- eða umboðssölu teljist til skattskyldrar veltu umsýslu- eða umboðsmanns, sbr. almennar reglur um skattverð í 7. gr. laganna.
    Í fyrsta lagi er það gert að skilyrði að við móttöku notaðs lausafjár til umboðssölu geri einstaklingur og miðlari með sér skriflegan samning um umboðssöluna þar sem einstaklingurinn lýsir því yfir að um notað lausafé sé að ræða, að sala þess sé ekki liður í atvinnustarfsemi eða sjálfstæðri starfsemi hans og að lausafjárins hafi ekki verið aflað í þeim tilgangi að selja það aftur með hagnaði. Samningur aðila getur verið rafrænn. Ef miðlara má vera ljóst að einstaklingur uppfyllir ekki framangreind skilyrði ber honum að miða skattverð við almennar reglur þar um, sbr. III. kafla laganna.
    Í öðru lagi skal samningur aðila kveða á um söluþóknun miðlara sem getur numið tilteknu hlutfalli af söluverði lausafjár eða tiltekinni fastri fjárhæð. Söluþóknun getur samkvæmt ákvæðinu ekki verið ákvörðuð með þeim hætti að sala lausafjárins fari fram fyrir reikning og áhættu miðlara. Semji eigandi og miðlari t.d. um fast verð til eiganda og að verð þar umfram falli í hlut miðlara sem þóknun er salan fyrir reikning og áhættu miðlarans. Hann skal þá reikna virðisaukaskatt af heildarsöluverði. Nauðsynlegt er að skýrt sé kveðið á um hlutfall eða fjárhæð þóknunar í samningi milli aðila svo að skattyfirvöld geti með auðveldu móti greint hvort verð vegna viðskipta hafi verið rétt ákvarðað. Samningur getur verið rafrænn og undirritaður með rafrænni undirskrift.
    Í þriðja lagi er lögð sú skylda á miðlara að vista samninginn meðal annarra bókhaldsgagna sinna, m.a. vegna eftirlitshagsmuna ríkisskattstjóra.
    Í fjórða lagi er það gert að skilyrði að söluverð einstaks lausafjármunar eða samstæðu lausafjármuna nemi að hámarki 100.000 krónur. Þar sem um er að ræða undanþágu frá meginreglunni um skattskyldu skv. 2. mgr. 11. gr. laganna og ákvæðinu eingöngu ætlað að ná til sölu á verðlitlu lausafé er talið rétt að sett sé slíkt hámark á fjárhæð söluverðs hvers og eins lausafjármunar eða eftir atvikum samstæðu lausafjármuna. Með samstæðu lausafjármuna er átt við fleiri en einn lausafjármun sem seldir eru saman og hafa samþætt notagildi. Við mat á því hvenær um samstæðu lausafjármuna er að ræða skal hafa hliðsjón af hugtakinu eignasamstæðu skv. 39. gr. laga nr. 90/2003 um tekjuskatt.
    Í fimmta lagi er það gert að skilyrði að á sölureikningi eða öðrum söluskjölum miðlara til kaupanda komi skýrt fram að hann sé ekki eigandi hins selda lausafjár og ábyrgist ekki eiginleika söluhlutar gagnvart kaupanda. Þessi fyrirvari undirstrikar að miðlarinn kemur fram í nafni eiganda lausafjárins og fyrir hans reikning. Salan getur því ekki farið fram fyrir reikning miðlara þ.e. á fjárhagslega ábyrgð hans.
    Séu framangreind skilyrði ekki uppfyllt kemur til álita að fella viðskiptin undir sölumiðlun enda séu öll skilyrði hennar uppfyllt. Að öðrum kosti ber miðlara að innheimta virðisaukaskatt af söluverðinu, líkt og áður hefur verið rakið í kafla 3.6 hér að framan. Undanþágan sem ákvæðið mælir fyrir um gildir ekki um nýjar vörur sem seldar eru í umboðssölu. Þær eru skattskyldar samkvæmt meginreglu 2. mgr. 11. gr. laganna. Ákvæðið varðar heldur ekki aðrar tekjur sem miðlari kann að hafa af starfsemi sinni, svo sem leigu á básum. Þær eru eftir sem áður skattskyldar samkvæmt lögum um virðisaukaskatt.

Um 12. gr.

    Lagt er til að kveðið verði á um heimild ráðherra til þess að setja nánari reglur um afmörkun tímabils leiðréttingarkvaðar virðisaukaskatts, hvort heldur um er að ræða innskatt vegna öflunar varanlegra rekstrarfjármuna eða vegna framkvæmda við mannvirki. Skv. 3. mgr. 15. gr. og 1. mgr. 16. gr. laganna, sbr. ákvæði reglugerðar nr. 192/1993, um innskatt, er virðisaukaskattsskyldum aðilum heimilt að telja til innskatts virðisaukaskatt af þeim vörum og þeirri þjónustu sem keypt hefur verið til nota í virðisaukaskattsskyldri starfsemi þeirra. Með því að telja til innskatts virðisaukaskatt vegna kaupa á varanlegum rekstrarfjármunum, eða vegna framkvæmda við mannvirki, myndast kvöð til leiðréttingar á framtöldum innskatti og reiknuðum útskatti verði breyting á notkun eignanna sem hefur í för með sér minni eða engan frádráttarrétt vegna þeirra.
    Í 2. mgr. 16. gr. laganna kemur fram að ráðherra geti sett reglur um leiðréttingu á frádrætti vegna innskatts þegar breyting verður á notkun varanlegra rekstrarfjármuna. Ráðherra hefur nýtt sér þessa heimild með setningu fyrrnefndrar reglugerðar nr. 192/1993, en ákvæði um leiðréttingu innskatts af varanlegum rekstrarfjármunum er að finna í IV. kafla hennar. Þrátt fyrir þessa heimild er talið rétt að styrkari stoðum verði skotið undir heimildir ráðherra til afmörkunar á leiðréttingartímabili varanlegra rekstrarfjármuna, til að mynda í þeim tilfellum þegar rekstrarfjármunir eru ekki nýttir í virðisaukaskattsskyldri starfsemi í lengri eða skemmri tíma.

Um 14. og 16.–18. gr.

    Lagðar eru til breytingar á lögum um virðisaukaskatt, lögum um vörugjald af ökutækjum, eldsneyti o.fl. og lögum um bifreiðagjald. Í ákvæðunum eru lagðar til breytingar á losunarviðmiði koltvísýrings vegna notkunar ökutækja í þeim tilvikum þegar skráning losunar hefur átt sér stað samkvæmt bæði evrópsku aksturslotunni (e. New European Driving Cycle/NEDC) og samræmdu prófunaraðferðinni (e. Worldwide Harmonized Light Vehicles Test Procedure/WLTP). Lagt er til að þegar svo ber undir skuli eingöngu líta til skráningar samkvæmt samræmdu prófunaraðferðinni en ekki evrópsku aksturslotunni. Samhliða eru lagðar til breytingar á viðmiði gramma og hlutfallstölum í hverjum lagabálki fyrir sig, auk þess sem lögð er til verðlagsuppfærsla í lögum um bifreiðagjald, þannig að miðað sé við það losunargildi sem skráð er í hverjum og einum þessara lagabálka samkvæmt samræmdu prófunaraðferðinni.

Um 15. gr.

    Lagt er til að orðið ,,leigusali“ falli brott í b-lið 1. mgr. ákvæðis til bráðabirgða XXXIX í lögum um virðisaukaskatt, nr. 50/1988. Samkvæmt ákvæðinu er útleiga á skráningarskyldu ökutæki sem fallið hefur undir ívilnun á grundvelli ákvæðis til bráðabirgða XXIV í lögunum að fullu undanþegin skattskyldri veltu að uppfylltum nánar tilgreindum skilyrðum, þar á meðal að virðisaukaskattur hafi verið felldur niður eða talinn til undanþeginnar veltu við kaup eða innflutning leigusala á ökutækinu. Ákvæði til bráðabirgða XXXIX er því ætlað að ná til útleigu leigusala á þeim ökutækjum sem ívilnun hefur náð til samkvæmt ákvæði til bráðabirgða XXIV og leigusali hefur sjálfur keypt eða flutt inn.
    Undanþágan er samkvæmt orðanna hljóðan eingöngu bundin við leigusala sjálfan en ekki framleigutaka og útleigustarfsemi á hans vegum. Með lögum um breytingu á ýmsum lögum vegna fjárlaga fyrir árið 2021, nr. 133/2020, var gildissviði ákvæðis til bráðabirgða XXIV breytt og það meðal annars látið ná til endursölu á notuðum rafmagns-, vetnis- eða tengiltvinnbifreiðum.
    Í ljósi þeirra breytinga sem að framan greinir er lagt til að gildissvið ákvæðisins verði ekki bundið við innflutning eða kaup leigusala á ökutækinu heldur jafnframt látið ná til framleigu á ökutækjum sem ívilnun hefur náð til samkvæmt ákvæði til bráðabirgða XXIV, að þeim skilyrðum uppfylltum sem fram koma í ákvæði til bráðabirgða XXXIX.

Um 19. gr.

    Lagt er til að við 1. málsl. 4. mgr. 11. gr. laga um innheimtu skatta og gjalda, nr. 150/2019, verði bætt orðunum „ásamt skilagrein“ og þannig tekið af skarið með að launagreiðanda sé skylt að senda inn skilagrein með skilum á launaafdrætti.

Um 20. gr.

    Í 14. gr. laga um innheimtu opinberra skatta og gjalda, nr. 150/2019, er kveðið á um heimildir ríkisskattstjóra til kyrrsetningar til að koma í veg fyrir að aðilar sem sæta skattrannsókn komi eignum undan eða færi þær yfir í hendur annarra áður en rannsókn lýkur. Ákvæðið veitir heimild til kyrrsetningar til tryggingar væntanlegri skattkröfu, fésektar og sakarkostnaðar.
    Með lögum um breytingu á lögum er varða rannsókn og saksókn skattalagabrota, nr. 29/2021, voru lögfest skýr skil milli stjórnsýslumála sem eru afgreidd innan skattkerfisins og alvarlegri mála sem sæta refsimeðferð samkvæmt útgáfu fyrirmæla ríkissaksóknara. Vegna þessa þykir nauðsynlegt að gera breytingar á kyrrsetningarheimild 14. gr. laga nr. 150/2019 en heimildin tekur til meintrar refsiverðrar háttsemi eða varðar ákæru skv. 262. gr. almennra hegningarlaga, nr. 19/1940. Lagt er til að kyrrsetningarheimild ákvæðisins taki jafnframt til meintrar refsiverðrar háttsemi sem sætir sektarákvörðun skv. 109. gr. laga um tekjuskatt, nr. 90/2003, 40. gr. laga um virðisaukaskatt, nr. 50/1988, 30. gr. laga um staðgreiðslu opinberra gjalda, nr. 45/1987, og 19. gr. laga um staðgreiðslu skatts á fjármagnstekjur, nr. 94/1996. Með því er tryggt að ríkisskattstjóra sé heimilt að framkvæma kyrrsetningu hvort sem um er að ræða stjórnsýslumál sem afgreidd eru innan skattkerfisins eða alvarlegri mál sem sæta refsimeðferð samkvæmt útgáfu fyrirmæla ríkissaksóknara.
    Mikilvægt er að tryggt sé að þeir aðilar sem eru til rannsóknar geti ekki með skipulegum hætti komið eignum undan og er breytingartillögunni ætlað að koma í veg fyrir það. Þannig er greiðsla í ríkissjóð vegna yfirvofandi skattkrafna ríkisins og fésekta mun betur tryggð. Þá er jafnframt lögð til sú breyting að heimila kyrrsetningu á meðan mál er til meðferðar hjá lögreglu eins og í tilviki mála sem eru til skattrannsóknar og myndi ríkisskattstjóri þá annast rekstur kyrrsetningar vegna rannsóknarinnar. Hér gæti verið um það að ræða að ekki hafi verið gerð krafa um kyrrsetningu af hálfu ríkisskattstjóra og eftir að máli hefur verið vísað til lögreglu komi í ljós að ástæða sé til kyrrsetningar. Þá eru einnig lagðar til smávægilegar orðalagsbreytingar.

Um 21. gr.

    Með ákvæðinu er lagt til að bætt verði við tilvísun í 14. gr. laga um innheimtu opinberra skatta og gjalda, nr. 150/2019, sem hefur að geyma ákvæði um kyrrsetningu.

Um 23. gr.

    Lagt er til að gjald til skráningar félaga til almannaheilla með starfsemi yfir landamæri verði lækkað úr 83.000 kr. í 25.000 kr. sem er jafnt skráningargjaldi annarra félaga eða aðila sem falla undir 4. og/eða 5. tölul. 2. gr. laga um fyrirtækjaskrá, nr. 17/2003, sbr. 18. tölul. 13. gr. laga um aukatekjur ríkissjóðs, nr. 88/1991. Jafnframt er lagt til að félög til almannaheilla sem falla undir lög um félög til almannaheilla, nr. 110/2021, greiði sama gjald fyrir skráningu eða 25.000 kr.

Um 24. gr.

    Gert er ráð fyrir því að ákvæði frumvarpsins öðlist þegar gildi að undanskildum ákvæðum 3. gr. og 9.–18. gr. sem öðlast gildi 1. janúar 2022. Þá er jafnframt gert ráð fyrir því að ákvæði 20. gr., sem fjallar um heimildir ríkisskattstjóra til kyrrsetningar, taki jafnt til mála sem rannsókn er þegar hafin á og þeirra sem síðar eru tekin til skatt- eða lögreglurannsóknar.