Ferill 15. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


152. löggjafarþing 2021–2022.
Þingskjal 15  —  15. mál.




Frumvarp til laga


um breytingu á lögum um velferð dýra, nr. 55/2013 (bann við blóðmerahaldi).

Flm.: Inga Sæland, Ásthildur Lóa Þórsdóttir, Eyjólfur Ármannsson, Guðmundur Ingi Kristinsson, Jakob Frímann Magnússon, Tómas A. Tómasson, Jódís Skúladóttir, Orri Páll Jóhannsson.


1. gr.

    Á eftir 2. mgr. 20. gr. laganna kemur ný málsgrein, svohljóðandi:
    Bannað er að taka blóð úr fylfullum merum í þeim tilgangi að selja það eða vinna úr því hormónið PMSG (Pregnant Mare Serum Gonadotropin) eða nokkra aðra vöru til sölu.

2. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 45. gr. laganna:
     a.      Á eftir c-lið 1. mgr. kemur nýr stafliður, svohljóðandi: hann brýtur gegn bannákvæðum skv. 20. gr.
     b.      6. mgr. fellur brott.

3. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi

Greinargerð.

    Frumvarp þetta var lagt fram á 151. löggjafarþingi (543. mál) en náði ekki fram að ganga og er nú lagt fram að nýju lítið breytt.
    Lög um velferð dýra hafa það að markmiði að stuðla að velferð dýra, að þau séu laus við vanlíðan, hungur og þorsta, ótta og þjáningu, sársauka, meiðsli og sjúkdóma, í ljósi þess að dýr eru skyni gæddar verur. Enn fremur er það markmið laganna að dýr geti sýnt sitt eðlilega atferli eins og frekast er unnt.
    Á Íslandi er stunduð blóðtaka úr fylfullum merum í því skyni að vinna úr blóðinu hormónið Pregnant Mare Serum Gonadotropin (PMSG), sem selt er til líftæknifyrirtækja svo að framleiða megi frjósemislyf, aðallega fyrir svínarækt. Nú eru 119 bændur með 5.383 blóðmerar og hefur blóðmerahald aukist til muna hér á landi að undanförnu. Blóðmerar eru látnar ganga með folöld eins oft og mögulegt er til að hámarka afköst hverrar merar, þar til hormónið finnst ekki lengur í blóði hennar. Þegar svo er komið er merunum slátrað. Folöldunum er að jafnaði slátrað.
    Á Íslandi sæta fylfullar merar mismiklu og misgrófu ofbeldi við blóðtöku þegar verið er að ná úr þeim hormóninu PMSG. Það má glögglega sjá í heimildarmyndinni „Ísland – land 5.000 blóðmera“ sem var frumsýnd 22. nóvember 2021 og vakti sterk viðbrögð og mikla reiði um heim allan. Í myndinni er fjallað um blóðmerahald á Íslandi þar sem greinilega kemur í ljós sú illa meðferð, misþyrming og dýraníð sem hryssurnar þurfa að sæta við blóðtökuna. Í myndinni eru færð rök fyrir því að ætla megi að slíkt harðræði tíðkist almennt við blóðtökuna hér á landi.
    Evrópuþingið hefur skorað á bæði framkvæmdastjórn Evrópusambandsins og aðildarríki þess að hætta innflutningi og framleiðslu á PMSG. Áskorun þingsins til aðildarríkja ESB er í raun einnig beint til Íslands sem aðildarríkis EES-samningsins. Ef framkvæmdastjórnin grípur til aðgerða til að framfylgja ályktun Evrópuþingsins, sem felur í sér bann við blóðmerahaldi í Evrópu, liggur ljóst fyrir að slíkt bann mun ná til Íslands á grundvelli EES-samningsins.
    Ísland er líklega eini framleiðandi PMSG í Evrópu, þrátt fyrir að hrossabúskapur sé stundaður í öllum löndum álfunnar. Það vekur furðu að starfsemi sem þessi sé jafn umfangsmikil hér á landi og raun ber vitni.
    Íslandsstofa hefur á undanförnum sex árum verið í sérstöku markaðsátaki til að kynna íslenska hestinn á erlendri grundu. Átakið felst í því að íslenski hesturinn verði þekktur á heimsvísu sem reiðhesturinn með góða geðslagið, sá sem færir fólk nær náttúrunni. Markmiðið með átakinu er að auka verðmætasköpun sem byggist á íslenska hestinum, styrkja ímynd hans í vitund fólks um heim allan og markaðssetja vörumerkið Horses of Iceland.
    Ísland eyðir á ári hverju miklum fjármunum í að draga fram jákvæða ímynd landsins á erlendri grund. Blóðmerahald stórskaðar þessa ímynd og hefur verið fordæmt um heim allan. Ef ekki verður gripið til aðgerða gegn blóðmerahaldi tafarlaust verður orðspor og ímynd Íslands fyrir óafturkræfu tjóni.
    Ljóst er að gildandi réttur er langt frá því að vernda fylfullar merar gegn því ofbeldi og þeirri illu meðferð sem felst í blóðmerahaldi. Löggjafinn verður að grípa til aðgerða strax og banna með öllu blóðmerahald. Lagt er til að brot gegn því banni varði refsingu skv. 1. mgr. 45. gr. Þá er einnig lagt til að 6. mgr. 45. gr., sem kveður á um að brot gegn velferð dýra skuli aðeins sæta rannsókn lögreglu að undangenginni kæru Matvælastofnunar (MAST), verði felld brott.