Ferill 173. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


152. löggjafarþing 2021–2022.
Þingskjal 175  —  173. mál.




Tillaga til þingsályktunar


um hraðari málsmeðferð og bætta réttarstöðu þolenda heimilisofbeldis við hjúskaparslit.


Flm.: Hanna Katrín Friðriksson, Andrés Ingi Jónsson, Þorgerður K. Gunnarsdóttir, Sigmar Guðmundsson, Guðbrandur Einarsson, Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir, Halldóra Mogensen, Inga Sæland, Jakob Frímann Magnússon, Eyjólfur Ármannsson, Tómas A. Tómasson, Guðmundur Ingi Kristinsson, Ásthildur Lóa Þórsdóttir, Kristrún Frostadóttir, Þórunn Sveinbjarnardóttir, Helga Vala Helgadóttir, Jóhann Páll Jóhannsson.


    Alþingi ályktar að fela innanríkisráðherra og félagsmála- og vinnumarkaðsráðherra að taka til endurskoðunar hjúskaparlög, nr. 31/1993, ásamt reglugerð nr. 230/1992, um stjórnsýslumeðferð hjúskaparmála, og reglugerð um skilyrði gjafsóknar og starfshætti gjafsóknarnefndar, nr. 45/2008. Jafnframt verði tekin til endurskoðunar reglugerð nr. 231/1992, um stjórnsýslumeðferð mála samkvæmt barnalögum, og reglur ráðherra um ráðgjöf og sáttameðferð skv. 33. og 33. gr. a barnalaga sem settar voru til bráðabirgða 14. febrúar 2013. Markmið endurskoðunar og breytinga er að stuðla að hraðari málsmeðferð við hjónaskilnaði, ekki síst til að bæta stöðu þolenda heimilisofbeldis.
    Ákvæði reglugerðar um skilyrði gjafsóknar verði rýmkaðar þegar í stað svo að meðferð skilnaðarmála, fjárskipta eða forsjármála verði þolendum heimilisofbeldis ekki jafn íþyngjandi og hún er nú.
    Gerð verði greining á því hver er mannafla- og fjármagnsþörf sýslumannsembætta til að tryggja í senn vandaða og skilvirka málsmeðferð skilnaðarmála og því sem þeim tengist.
    Nauðsynlegum umbótum á lögum, reglugerðum og verklagsreglum verði hrint í framkvæmd eins fljótt og auðið er. Frumvarp með breytingum á lögum verði lagt fram eigi síðar en 1. október 2022, ásamt greinargerð um mannafla- og fjármagnsþörf.

Greinargerð.

    Þingsályktunartillaga þessi var áður lögð fram á 150. löggjafarþingi (384. mál). Markmiðið með tillögunni er að hefja vinnu við nauðsynlegar lagabreytingar, breytingar á reglugerðum sem og verklagsreglum sem nauðsynlegar eru til að bæta stöðu þolenda heimilisofbeldis í hjónaskilnaðarferli, enn fremur að leggja grunn að því að nægt fé sé lagt til málaflokksins. Er þessi tillaga lögð fram samhliða frumvarpi til laga um breytingar á hjúskaparlögum til fyllingar frumvarpinu. Er því einnig vísað til greinargerðar með því frumvarpi til frekari skýringa.
    Rétt er að ráðherra kanni löggjöf og reynslu nágrannalanda sem hafa tekið upp sambærilegar reglur og hafi til hliðsjónar.
    Tillagan felur í fyrsta lagi í sér að metið verði hvort fella eigi brott ákvæði um sáttaumleitanir um áframhald hjónabands og/eða færa þann þátt að fullu frá sýslumannsembættum til sérfræðinga á sviði sálfræði, félagsráðgjafar eða annarra sambærilegra greina ef hjón eru sammála um að leita sátta með aðstoð.
    Í öðru lagi verði tekin til endurskoðunar sáttameðferð skv. 33. gr. barnalaga í því augnamiði að hraða og auðvelda málsmeðferð, ekki síst með það fyrir augum að ekki sé unnt að tefja og draga ferlið úr hömlu, t.d. þegar hætta er á að það sé notað sem aðferð til kúgunar eða ofbeldis.
    Í þriðja lagi er lagt til að kannaðar verði ólíkar útfærslur sem annaðhvort fela í sér að lögskilnaður sé veittur án þess að fjárskipti eða samkomulag um forsjá barna liggi endanlega fyrir eða að fólki sé auðveldað að gera slík skipti og samkomulag án aðkomu dómstóla. Ætti með þessum breytingum að vera betur hlúð að hagsmunum þolenda ofbeldis í nánum samböndum þegar þeir leita skilnaðar frá geranda sínum.
    Í fjórða lagi er lagt til að ráðherra rýmki strax ákvæði reglugerðar um skilyrði gjafsóknar. Í b-lið 1. tölul. 5. gr. reglugerðarinnar er t.d. kveðið á um að gjafsókn skuli að jafnaði ekki veita ef ágreiningsefni er milli nákominna, nema sérstakar ástæður mæli með því. Er sú meginregla til þess fallin að gera málarekstur vegna lögskilnaðar þyngri en ella fyrir þolendur ofbeldis í nánum samböndum. Við undirbúning tillögu þessarar og frumvarpsins sem hún fylgir kom m.a. fram að gjafsóknarreglur gagnast ekki nema minni hluta þolenda heimilisofbeldis vegna þess hve tekjumörk reglnanna eru lág. Hefur þetta ekki síst þýðingu í ljósi þess að um 60% kvenna sem lenda í ofbeldissamböndum hverfa af vinnumarkaði á einhverjum tímapunkti.
    Jafnframt þarf að greina mannafla- og fjárþörf til málaflokksins. Fyrir liggur að fjöldi mála sem sýslumannsembættin þurfa að sinna í þessum málaflokki er svo mikill að ekki er unnt að afgreiða mál með þeim hraða sem nauðsynlegur er, ekki síst þegar hjónaskilnaður á sér rætur í ofbeldi og deilur eru um fjármuni og forsjá barna. Rök standa til þess að auknir fjármunir og mannafli sé nauðsynleg forsenda skilvirkni og málshraða. Þess vegna er nauðsynlegt að greina hvað þarf mikið til að ná ásættanlegum árangri.
    Lagt er til að breytingar verði gerðar strax á ákvæðum reglugerðar um skilyrði gjafsóknar en aðrar breytingar verði lagðar fram eigi síðar en 1. október 2022.