Ferill 174. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


152. löggjafarþing 2021–2022.
Prentað upp.

Þingskjal 215  —  174. mál.
Texti, viðbót.

2. umræða.Nefndarálit


um frumvarp til fjáraukalaga fyrir árið 2021, sbr. lög nr. 78/2021.

Frá meiri hluta fjárlaganefndar.


Gestir nefndarinnar og lagagrundvöllur frumvarpsins.
    Nefndin hefur fjallað um málið og fengi á sinn fund fulltrúa fjármála- og efnahagsráðuneytisins til að kynna frumvarpið. Einnig komu fulltrúar heilbrigðisráðuneytisins og Landspítalans á fund nefndarinnar til að kynna þann hluta frumvarpsins sem snýr að þeim og svara spurningum nefndarmanna.
    Frumvarpið byggist á 26. gr. laga um opinber fjármál, nr. 123/2015. Þar kemur fram að ráðherra er heimilt, ef þess gerist þörf, að leita aukinna fjárheimilda í frumvarpi til fjáraukalaga til að bregðast við tímabundnum, ófyrirséðum og óhjákvæmilegum útgjöldum innan fjárlagaársins, enda hafi ekki verið unnt að bregðast við þeim með öðrum úrræðum sem tilgreind eru í lögunum.

Efni frumvarpsins.
    Að stærstum hluta má rekja útgjaldabreytingar frumvarpsins til heimsfaraldursins og koma þær að miklu leyti fram á málefnasviðum heilbrigðisráðuneytisins. Við gerð fyrri fjáraukalaga ársins var ákveðið að nýta ekki fjárheimildir almenns varasjóðs fjárlaga vegna COVID-19-útgjaldamála. Þannig var horft til þess að viðhalda getu varasjóðsins til að mæta óvæntum útgjöldum sem kynnu að koma upp síðar á árinu. Má þar nefna launa- og verðlagsbætur og viðbótarkostnað vegna faraldursins.
    Einnig er mikilvægt í ljósi markmiðs um gagnsæi að mótvægisráðstafanir vegna faraldursins fái umfjöllun og þinglega meðferð til jafns við umfjöllun fyrri aðgerða.
    Langstærstur hluti útgjaldanna snýr að verkefnum sem tengjast heilbrigðismálum og atvinnuleysi. Lagt er til að auka framlög til heilbrigðismála um 22 mia.kr. Innan þeirra vega þyngst 6,4 mia.kr. til Landspítalans sem fyrst og fremst skýrist af afleiðingum heimsfaraldursins. Útgjöld til heilbrigðismála fyrir utan sjúkrahúsin eru einkum vegna sóttvarnahótela 2,9 mia.kr. og vegna framkvæmda við bólusetningu og skimanir á landamærum 2,1 mia.kr. Að auki er útgjöld vegna tannlækninga og sjúkraþjálfunar endurmetin um 2,1 mia.kr. og 2,6 mia.kr. vegna endurmats á lyfjakostnaði.
    Lagt er til að útgjöld vegna vinnumarkaðar aukist um 7,8 mia.kr. og þar munar mest um 6,1 mia.kr. framlag vegna átaksins Hefjum störf. Einnig er 1 mia.kr. framlag vegna desemberuppbótar atvinnuleitenda.
    Í töflunni koma fram helstu útgjaldatilefnin.


Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.


    Þar kemur fram að helmingur fjárhæðar, eða 22,9 mia.kr. sem óskað er eftir, er vegna annarra ástæðna en skýrist af faraldrinum. Þar vega þyngst 8,6 mia.kr. vegna vaxtagjalda ríkissjóðs.
    Í greinargerð frumvarpsins eru einstök tilefni skýrð og vísast til hennar varðandi einstök atriði. Nefndin kallaði þó sérstaklega eftir ítarlegri sundurliðun frá Landspítalanum til að skýra í hverju aukinn rekstrarkostnaður vegna COVID-19 fælist. Sundurliðunin kemur fram í eftirfarandi töflu.

Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.
    Spítalinn sundurliðaði einnig enn frekar veigamestu fjárhæðina sem nam 5.158 m.kr. Þar vegur þyngst 2.900 m.kr. vegna kaupa á hvarfefnum o.fl., því næst 900 m.kr. launagjöld, 700 m.kr. kaup á hlífðarbúnaði, 650 m.kr. vegna ræstingar en aðrir liðir vega minna.
    Til viðbótar eru í frumvarpinu lagðar til breytingar á 5. gr. um lántökur. Þar er lagt til að lánsfjárheimild ríkissjóðs verði lækkuð úr 430 mia.kr. í 270 mia.kr. vegna minni lánsfjárþarfar ríkissjóðs heldur en áætlað var í fjárlögum ársins. Skýrist það einkum af betri greiðsluafkomu ríkissjóðs, hárri sjóðstöðu í upphafi árs og að þörf fyrir fjármögnun COVID-aðgerða reyndist minni en ætlað var. Einnig er lagt að lækka heimild til erlendrar lántöku úr 220 mia.kr. í 120 mia.kr. til fjármögnunar gjaldeyrisforða. Fjárþörf ársins 2021 hefur nú þegar verið mætt að fullu.
    Einnig eru lagðar til sex breytingar á 6. gr. fjárlaga sem varða ýmsar heimildir til kaupa og sölu fasteigna, lóða, jarða og hlutabréfa. Þar munar mest um annars vegar heimild til kaupa á Hótel Sögu og hins vegar jörðinni Mið-Fossum. Í þriðja lagi er heimild til að þiggja að gjöf listaverk í eigu Íslandsbanka sem verða varðveitt af Listasafni Íslands. Loks eru þrjár heimildir sem varða aukin framlög til þróunarsamvinnu á vegum Alþjóðabankans.
    Gerð er tillaga um 4 mia.kr. útgjöld vegna heimildarákvæða til kaupa á fasteignum, sbr. umfjöllun um 6. gr. fjárlaga hér á eftir.

Breytingartillögur.
    Meiri hlutinn gerir nokkrar breytingartillögur auk þess sem nefndin í heild sinni stendur að einni tillögu. Sú tillaga lýtur að einskiptisgreiðslu til örorku- og endurhæfingarlífeyrisþega með svipuðum hætti og gert var í fyrra.
    Í þessu sambandi bendir meiri hlutinn á að í millitíðinni hefur lögum um félagslega aðstoð verið breytt á þann veg að til tekna lífeyrisþega skuli telja 95% af fjárhæð tekjutryggingar skv. 22. gr. laga um almannatryggingar í stað 100% tekjutryggingar. Með þeirri lagabreytingu hækkuðu tekjur þeirra tekjulægstu í hópi öryrkja- og endurhæfingarlífeyrisþega hlutfallslega meira en annarra. Á ársgrundvelli nam kostnaðarmat þessara aðgerða tæplega 1,2 mia.kr. og með þessu var því að fullu nýtt 1 mia.kr. fjárheimild vegna málefnasviðsins.

Eftirfarandi er sameiginleg tillaga frá nefndinni allri:
Málaflokkur 27.40 Aðrar örorkugreiðslur.

Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.


    Gerð er tillaga um 1.200 m.kr. einskiptisframlag til örorku- og endurhæfingarlífeyrisþega. Greiðslan nemur 53.100 kr. á mann. Hafi lífeyrisþegi fengið greiddar bætur hluta úr ári skal eingreiðslan vera í hlutfalli við greiðsluréttindi hans á árinu. Gert er ráð fyrir að lögð verði til breyting á lögum um almannatryggingar til að tryggja að þessi viðbótargreiðsla verði skattfrjáls og hafi ekki áhrif á aðrar greiðslur til örorku- og endurhæfingarlífeyrisþega, svo sem húsnæðisbætur og sérstakan húsnæðisstuðning. Markmiðið er að aðrar greiðslur haldist óskertar þrátt fyrir þessa uppbót.

Að auki gerir meiri hlutinn eftirfarandi tillögur:
Málaflokkur 09.10 Löggæsla.
    Gerð er tillaga um 338 m.kr. framlag til málaflokksins vegna tímabundinna áhrifa kjarasamninga hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu og óvænts tilefnis hjá lögreglunni á Austurlandi.
    Vegna lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu er óskað eftir samtals 305 m.kr. af nokkrum tilefnum.
    Komið hefur í ljós að vegna aldursdreifingar lögreglumanna hjá embættinu hefur útfærsla á kjarasamningi í tengslum við bættan vinnutíma vaktavinnufólks reynst allt að 110 m.kr. kostnaðarsamari en hjá öðrum löggæsluembættum. Að öllu jöfnu er gert ráð fyrir að kostnaður vegna starfsaldurshækkana jafnist út á móti því að yngri lögreglumenn taki við af þeim sem eldri eru. Það hefur ekki gengið eftir á þessu ári og urðu kostnaðaráhrif starfsaldurshækkana um 50 m.kr. hærri en áætlað var. Þá féllu til kostnaðarsamir stórviðburðir á síðastliðnum tveimur árum sem samtals skýra um 25 m.kr. gjöld sem ekki var áætlað fyrir.
    Um 120 m.kr. skýrast af hækkun orlofsskuldbindingar sökum áhrifa kjarasamninga lögreglumanna. Einingarverð orlofsskuldbindingar hefur hækkað umfram annan launakostnað sökum áhrifa kjarasamninga. Einingarverðið á miðju þessu ári hefur hækkað um 22% frá árinu 2018. Það hefur hækkað gjaldfærða orlofsskuldbindingu embættisins um 120 m.kr. án þess að fjárveitingar hafi hækkað á móti og er því bæði óvæntur og ófyrirséður kostnaðarauki.
    Loks er gerð tillaga um 33 m.kr. til lögreglunnar á Austurlandi til að mæta kostnaði við eina stöðu lögreglumanns, bílakostnað og bráðabirgðahúsnæði auk tækjakaupa til að efla eftirlit með náttúruvá í kjölfar aurskriðna á Seyðisfirði.

Málaflokkur 18.30 Menningarsjóðir.
    Gerð er tillaga um að veita Leikfélagi Reykjavíkur 30 m.kr. framlag til að mæta því tekjutapi og þeim kostnaði sem félagið hefur orðið fyrir á árinu 2021 vegna heimsfaraldurs kórónuveiru.
    Einnig er gerð tillaga um að veita Menningarfélagi Akureyrarbæjar 20 m.kr. framlag af sama tilefni.

Málaflokkur 18.40 Íþrótta- og æskulýðsmál.
    Gerð er tillaga um 100 m.kr. framlag til íþrótta- og æskulýðsfélaga vegna tekjumissis. Samstarf verði haft við Íþrótta- og Ólympíusamband Íslands vegna úthlutunar styrkjanna. Ýmsa viðburði þurfti að fella niður með skömmum fyrirvara þegar samkomutakmarkanir tóku aftur gildi, viðburði sem eru mikilvægir fjáröflunarviðburðir sem ekki hefur reynst unnt að halda og því er lagt til að unnt verði að sækja um styrki vegna tekjumissis. Sem dæmi má nefna að þjóðhátíð í Vestmannaeyjum var felld niður annað árið í röð með skömmum fyrirvara.

    Að framangreindu virtu leggur meiri hlutinn til að málið verði samþykkt með breytingum sem hér hefur verið gerð grein fyrir og lagðar eru til í sérstöku þingskjali.

Alþingi, 20. desember 2021.

Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir,
form.
Haraldur Benediktsson,
frsm.
Vilhjálmur Árnason.
Stefán Vagn Stefánsson. Ingibjörg Isaksen. Bryndís Haraldsdóttir.