Ferill 180. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


152. löggjafarþing 2021–2022.
Þingskjal 222  —  180. mál.
Svar


utanríkis- og þróunarsamvinnuráðherra við fyrirspurn frá Andrési Inga Jónssyni um bann við kjarnorkuvopnum.    Fyrirspurnin hljóðar svo:
     1.      Eru áform um það af hálfu ríkisstjórnarinnar að Ísland undirriti og fullgildi samning um bann við kjarnorkuvopnum?
     2.      Ef ekki, mun ríkisstjórnin eigi að síður senda áheyrnarfulltrúa á fund aðildarríkja samningsins 22.–24. mars 2022, líkt og ríkisstjórnir Noregs og Þýskalands hafa boðað að þær muni gera?

     1.      Nei, slík áform eru ekki til staðar hjá ríkisstjórn.
     2.      Ísland hefur ekki í hyggju að senda áheyrnarfulltrúa á fundinn. Þó er rétt að geta þess í þessu samhengi að afstaða íslenskra stjórnvalda til kjarnavopna er skýr. Stefnt skal að kjarnavopnalausri veröld og að slíkum vopnum verði eytt með markvissum og gagnkvæmum hætti, undir fyrirkomulagi sem traust ríkir á. Íslensk stjórnvöld telja að samningurinn um bann við kjarnavopnum sé þeim vandkvæðum bundinn að kjarnavopnaveldin sjálf eru ekki hluti af samningnum og hafa ekki tekið þátt í ferli í tengslum við samninginn.
             Ísland er aðili að samningnum (NPT) sem tók gildi árið 1970 og telur að þrátt fyrir meinbugi á samstarfi í tengslum við þann samning þá bjóði hann upp á bestu möguleikana á raunverulegum árangri sé litið til lengri tíma. Kemur þar einkum tvennt til: annars vegar sú staðreynd að kjarnavopnaveldin fimm sem eiga fast sæti í öryggisráði Sameinuðu þjóðanna eru aðilar að NPT-samningnum og hins vegar eftirlitskerfi með framfylgd samningsins.