Ferill 147. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


152. löggjafarþing 2021–2022.
Þingskjal 251  —  147. mál.
Svar


heilbrigðisráðherra við fyrirspurn frá Gísla Rafni Ólafssyni um skimun fyrir BRCA-genum og fyrirbyggjandi aðgerðir vegna þeirra.


     1.      Hefur ráðherra uppi einhver áform um skimanir á BRCA-genum meðal kvenna hér á landi?
    Ekki eru uppi áform um skimanir á BRCA-genum meðal kvenna hér á landi en hægt er að fá greiningu og ráðgjöf á erfðasjúkdómum hjá Erfðaráðgjöf Landspítalans, þar á meðal krabbameinserfðaráðgjöf.

     2.      Eru uppi einhver áform af hálfu ráðherra um aukinn stuðning við konur af landsbyggðinni sem velja fyrirbyggjandi aðgerðir og eftirlit vegna BRCA-gena?
    Breyting á reglugerð nr. 1140/2019, um ferðakostnað sjúkratryggðra og aðstandenda þeirra innanlands, mun taka gildi 1. janúar nk. Breytingin felur í sér að Sjúkratryggingar Íslands munu einnig taka þátt í ferðakostnaði vegna ítrekaðra ferða þegar um er að ræða fyrirbyggjandi meðferð sem er ætlað að koma í veg fyrir illkynja sjúkdóma, hjá einstaklingum sem hafa verulega auknar líkur á slíkum sjúkdómum vegna erfðaþátta.